Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað er ritstífla og hvernig er hægt að losna við hana?

Rúnar Helgi Vignisson

Ritstörf eru þess eðlis að vel mætti halda því fram að ekkert sé til sem heitir ritstífla, svo fremi sem líkams- og heilastarfsemi ritarans sé innan eðlilegra marka. Það að segjast ekki geta skrifað sökum ritstíflu sé bara afsökun fyrir að takast ekki á við ritsmíðaverkefnið eða slá því á frest. Samt sem áður lenda flestir í því einhvern tíma að hvorki gengur né rekur með ritsmíð. Það er þó ekki af völdum sjúkdóms eða erfðagalla heldur er vandinn miklu frekar áskapaður. Fyrir því geta verið margar ástæður en tvær helstar.

Hér skrifa ég um aðra meginástæðuna…

Ef prjóna skal peysu þarf fyrst að ákveða hvernig hún á að vera. Hvað hún á að vera stór, hvaða mynstur á að vera í henni, hvers konar garni á að prjóna úr, sem aftur tekur mið af því hve hlý peysan á að vera, og útvega sér svo þá gerð prjóna og garns sem til þarf. Verkið kann jafnvel að krefjast þess að maður læri nýtt prjón, til dæmis kaðlaprjón. Svo getur vel verið að maður vilji breyta mynstrinu eða jafnvel búa til sitt eigið mynstur og þá er maður kominn út í fatahönnun sem krefst enn meiri undirbúningsvinnu.

Ritstörf krefjast líka undirbúningsvinnu. Það er erfitt að skrifa um eitthvað sem maður veit ekkert um eða hefur ekki leitt hugann mikið að. Þótt ég hafi starfað sem rithöfundur og ritlistarkennari í mörg ár þurfti ég að undirbúa þennan pistil. Ég þurfti að leggja niður fyrir mér hvaða áherslur ég vildi hafa í honum, hvaða efnisatriðum ég vildi koma á framfæri, rifja upp sumt og lesa mér betur til um annað. Í tvo daga velti ég vöngum yfir því meðfram öðrum störfum hvernig ég ætti að byrja. Og jafnvel eftir að ég hófst handa voru nýjar hugmyndir að kvikna og útfærslan að mótast. Það var ekki fyrr en ég kom í þessa efnisgrein sem mér datt í hug að ég gæti nýtt samningu pistilsins til þess að svara spurningu Vísindavefsins. Ritferlið sjálft felur nefnilega í sér sköpun, það að skrifa er leið til að hugsa og skapa. Svo leiðir eitt af öðru, ein hugmynd kveikir aðra. Þess vegna er svo mikið atriði að draga ekki of lengi að byrja. Hálfnað verk þá hafið er.

Auðvitað getur komið að því að mann reki í vörðurnar og að maður viti ekki almennilega hvað eigi að koma næst. Sumir kalla það ritstíflu. En mér finnst uppbyggilegra að líta á það sem skilaboð frá vitundinni um að nú þurfi maður aðeins að staldra við og hugsa sig um. Leita leiða, skoða vel það sem komið er, lesa sér kannski betur til eða tala við einhvern. Ef það dugir ekki getur verið gott að fá vin eða starfsmann ritvers til að lesa yfir og spjalla um textann. Spjall getur verið góð leið til þess að kalla fram lausnir og nýjar hugmyndir. Ef það dugir ekki til kann textinn að vera með fæðingargalla, þá gæti þurft að gjörbylta honum eða jafnvel byrja upp á nýtt. Aðalatriðið er að gefast ekki upp heldur líta á þetta ferli sem skemmtilega áskorun. Sjaldnast tekst eitthvað hjá manni í fyrstu atrennu og við margt þurfum við hjálp frá velviljuðum.

Það sem sumir kalla ritstíflu mætti líta á sem sem skilaboð frá vitundinni um að nú þurfi maður aðeins að staldra við og hugsa sig um.

… og hér skrifa ég um hina meginástæðuna

Hin ástæðan sem mig langar að nefna og getur stíflað ritæðar er fullkomnunarárátta. Sá eða sú sem finnur aldrei nógu góða upphafssetningu til að geta byrjað kann að vera haldinn slíkri áráttu.

Til að átta okkur betur á vandanum er rétt að spyrja sig hvað fullkomnunarárátta sé. Í hinni þekktu bók sinni um ritun, Bird by Bird, segir rithöfundurinn Anne Lamott að fullkomnunarárátta sé rödd kúgarans, hún standi í vegi fyrir ritsmíðum manns, drepi niður hugmyndaauðgi og leik. Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri og sérfræðingur hjá Þekkingarmiðlun, skilgreinir fullkomnunaráráttu „sem hugsun og hegðun sem miðar að því að ná mjög háleitum og óraunhæfum markmiðum.“ Að baki býr mikil þörf fyrir að öðlast viðurkenningu frá öðrum fyrir það sem maður gerir. Það þýðir að maður leyfir öðrum að setja viðmiðin sem unnið er eftir, leggur áherslu á að fara eftir reglum sem aðrir hafa sett.

Afleiðingin er stöðugur ótti við að gera mistök og verða gagnrýnd/ur fyrir. Þar með hefur maður komið sér í andlega spennitreyju, heft sköpun sína og uppáfinningasemi. Um leið hefur þessi þörf fyrir fullkomnun orðið til þess að draga úr líkunum á að maður nái þeim árangri sem að var stefnt vegna þess að „álagið við að ná fullkomnun og forðast mistök dregur úr skilvirkni“, eins og Ingrid orðar það.

Enginn er fullkominn og þar af leiðandi er engin ritsmíð fullkomin. Á flestum verkum, sama hversu mikla viðurkenningu þau hafa öðlast, er hægt að finna einhvern galla. Ef fullkomnunarárátta heftir þig gæti gagnast að minna sig á það þegar sest er niður til að skrifa að um sé að ræða verk í vinnslu. Verk í vinnslu má lengi bæta. Það gerir því ekkert til þó að fyrsta málsgreinin sé ekki fullkomin. Það gerir meira að segja ekkert til þó að þú skrifir niðurlagið fyrst. Eða miðbikið. Það má alltaf bæta við og breyta, umrita og umraða. „Ferlið er einhvernveginn þannig að fyrst kemur frumhugmynd sem yfirleitt lítur svo auvirðulega út að hún er ekki einu sinni sýnandi sínum besta vini,“ sagði skáldið Sigfús Bjartmarsson einu sinni í viðtali. Stefndu að framförum fremur en fullkomnun.

Það er líka rétt að hafa í huga að ritun er leið til að hugsa og koma skipulagi á hugsanir sínar. Einu sinni sagði fræg skáldkona að hún vissi ekki hvað hún hugsaði fyrr en hún hefði skrifað það niður. Þess vegna er brýnt að hefja ritunina sem fyrst og nýta sér hugsunina og sköpunina sem ritunarferlið sjálft felur í sér. Með því að draga ekki að hefja verkið kemur maður líka í veg fyrir að lenda í tímaþröng með tilheyrandi kvíðaköstum og orkusóun. Tíminn vinnur með manni við ritsmíðar vegna þess að vitundin þarf sinn tíma til að skapa en maður þarf þá líka að halda henni við efnið.

Til að halda fullkomnunaráráttunni í skefjum og koma hugmyndaflæði af stað getur verið gott að gera æfingu sem þessa:

Skrifið í 5 mínútur um allt sem kemur upp í hugann. Ef ykkur finnst ekkert koma upp í hugann annað en: „Mér dettur ekkert í hug“, þá skrifið þið það. Hugsið ekkert um stafsetningu, greinarmerki eða þvíumlíkt heldur eingöngu um að koma frá ykkur þeim hugsunum sem bærast með ykkur. Rétt er að hafa í huga að textinn sem þið skrifið er eingöngu ætlaður ykkur sjálfum. Þegar 5 mínútur (eða lengri tími ef þið eruð í stuði) eru liðnar skuluð þið renna yfir það sem þið skrifuðuð og strika undir eða upplýsa það sem ykkur finnst mest varið í. Síðan má endurtaka tilraunina og reyna þá að einbeita ykkur betur að því atriði sem ykkur þótti merkilegast. Hægt er að gera þessa æfingu á pappír, í síma eða með því að nýta The Most Dangerous Writing App en þá má ekki stoppa mikið því við það eyðist textinn.

Önnur leið til að koma hugsanaflæði af stað er að búa til hugarkort. Þá skrifar maður á miðju blaðs eða töflu hugtakið sem maður vill fjalla um. Í mínu tilfelli yrði það „leiðir til að losa ritstíflu“. Út frá þessari miðju skrifar maður síðan allt sem manni dettur í hug um viðfangsefnið. Því fjær sem dregur miðjunni, því frumlegri og sértækari verða hugmyndirnar að öllu jöfnu. Síðan má nýta bestu hugmyndirnar í ritsmíð, gera jafnvel grófa beinagrind að ritsmíð upp úr hugarkortinu. Rétt er þó að hafa í huga að beinagrind má alltaf breyta ef maður fær enn betri hugmyndir við ritunina sjálfa.

Er þér þá nokkuð að vanbúnaði, lesandi góður?

Heimildir:
  • Ingrid Kuhlman. 2011. „Að sigrast á fullkomnunaráráttu og ná meiri árangri“. (Skoðað 09.04.2016).
  • Kelley, Tom og David. 2014. Sköpunarkjarkur. Þýðandi Bergsteinn Sigurðsson. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  • Kristján B. Jónasson. 1996. „Rætt við Sigfús Bjartmarsson“. Tímarit Máls og menningar 4: 6-25.
  • Lamott, Anne. 1994. Bird by Bird – Some Instructions on Writing and Life. New York: Doubleday.

Mynd:

Höfundur

Rúnar Helgi Vignisson

rithöfundur, þýðandi og prófessor í ritlist

Útgáfudagur

11.4.2016

Spyrjandi

Elín Guðmundsdóttir

Tilvísun

Rúnar Helgi Vignisson. „Hvað er ritstífla og hvernig er hægt að losna við hana?“ Vísindavefurinn, 11. apríl 2016. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=14718.

Rúnar Helgi Vignisson. (2016, 11. apríl). Hvað er ritstífla og hvernig er hægt að losna við hana? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=14718

Rúnar Helgi Vignisson. „Hvað er ritstífla og hvernig er hægt að losna við hana?“ Vísindavefurinn. 11. apr. 2016. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=14718>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er ritstífla og hvernig er hægt að losna við hana?
Ritstörf eru þess eðlis að vel mætti halda því fram að ekkert sé til sem heitir ritstífla, svo fremi sem líkams- og heilastarfsemi ritarans sé innan eðlilegra marka. Það að segjast ekki geta skrifað sökum ritstíflu sé bara afsökun fyrir að takast ekki á við ritsmíðaverkefnið eða slá því á frest. Samt sem áður lenda flestir í því einhvern tíma að hvorki gengur né rekur með ritsmíð. Það er þó ekki af völdum sjúkdóms eða erfðagalla heldur er vandinn miklu frekar áskapaður. Fyrir því geta verið margar ástæður en tvær helstar.

Hér skrifa ég um aðra meginástæðuna…

Ef prjóna skal peysu þarf fyrst að ákveða hvernig hún á að vera. Hvað hún á að vera stór, hvaða mynstur á að vera í henni, hvers konar garni á að prjóna úr, sem aftur tekur mið af því hve hlý peysan á að vera, og útvega sér svo þá gerð prjóna og garns sem til þarf. Verkið kann jafnvel að krefjast þess að maður læri nýtt prjón, til dæmis kaðlaprjón. Svo getur vel verið að maður vilji breyta mynstrinu eða jafnvel búa til sitt eigið mynstur og þá er maður kominn út í fatahönnun sem krefst enn meiri undirbúningsvinnu.

Ritstörf krefjast líka undirbúningsvinnu. Það er erfitt að skrifa um eitthvað sem maður veit ekkert um eða hefur ekki leitt hugann mikið að. Þótt ég hafi starfað sem rithöfundur og ritlistarkennari í mörg ár þurfti ég að undirbúa þennan pistil. Ég þurfti að leggja niður fyrir mér hvaða áherslur ég vildi hafa í honum, hvaða efnisatriðum ég vildi koma á framfæri, rifja upp sumt og lesa mér betur til um annað. Í tvo daga velti ég vöngum yfir því meðfram öðrum störfum hvernig ég ætti að byrja. Og jafnvel eftir að ég hófst handa voru nýjar hugmyndir að kvikna og útfærslan að mótast. Það var ekki fyrr en ég kom í þessa efnisgrein sem mér datt í hug að ég gæti nýtt samningu pistilsins til þess að svara spurningu Vísindavefsins. Ritferlið sjálft felur nefnilega í sér sköpun, það að skrifa er leið til að hugsa og skapa. Svo leiðir eitt af öðru, ein hugmynd kveikir aðra. Þess vegna er svo mikið atriði að draga ekki of lengi að byrja. Hálfnað verk þá hafið er.

Auðvitað getur komið að því að mann reki í vörðurnar og að maður viti ekki almennilega hvað eigi að koma næst. Sumir kalla það ritstíflu. En mér finnst uppbyggilegra að líta á það sem skilaboð frá vitundinni um að nú þurfi maður aðeins að staldra við og hugsa sig um. Leita leiða, skoða vel það sem komið er, lesa sér kannski betur til eða tala við einhvern. Ef það dugir ekki getur verið gott að fá vin eða starfsmann ritvers til að lesa yfir og spjalla um textann. Spjall getur verið góð leið til þess að kalla fram lausnir og nýjar hugmyndir. Ef það dugir ekki til kann textinn að vera með fæðingargalla, þá gæti þurft að gjörbylta honum eða jafnvel byrja upp á nýtt. Aðalatriðið er að gefast ekki upp heldur líta á þetta ferli sem skemmtilega áskorun. Sjaldnast tekst eitthvað hjá manni í fyrstu atrennu og við margt þurfum við hjálp frá velviljuðum.

Það sem sumir kalla ritstíflu mætti líta á sem sem skilaboð frá vitundinni um að nú þurfi maður aðeins að staldra við og hugsa sig um.

… og hér skrifa ég um hina meginástæðuna

Hin ástæðan sem mig langar að nefna og getur stíflað ritæðar er fullkomnunarárátta. Sá eða sú sem finnur aldrei nógu góða upphafssetningu til að geta byrjað kann að vera haldinn slíkri áráttu.

Til að átta okkur betur á vandanum er rétt að spyrja sig hvað fullkomnunarárátta sé. Í hinni þekktu bók sinni um ritun, Bird by Bird, segir rithöfundurinn Anne Lamott að fullkomnunarárátta sé rödd kúgarans, hún standi í vegi fyrir ritsmíðum manns, drepi niður hugmyndaauðgi og leik. Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri og sérfræðingur hjá Þekkingarmiðlun, skilgreinir fullkomnunaráráttu „sem hugsun og hegðun sem miðar að því að ná mjög háleitum og óraunhæfum markmiðum.“ Að baki býr mikil þörf fyrir að öðlast viðurkenningu frá öðrum fyrir það sem maður gerir. Það þýðir að maður leyfir öðrum að setja viðmiðin sem unnið er eftir, leggur áherslu á að fara eftir reglum sem aðrir hafa sett.

Afleiðingin er stöðugur ótti við að gera mistök og verða gagnrýnd/ur fyrir. Þar með hefur maður komið sér í andlega spennitreyju, heft sköpun sína og uppáfinningasemi. Um leið hefur þessi þörf fyrir fullkomnun orðið til þess að draga úr líkunum á að maður nái þeim árangri sem að var stefnt vegna þess að „álagið við að ná fullkomnun og forðast mistök dregur úr skilvirkni“, eins og Ingrid orðar það.

Enginn er fullkominn og þar af leiðandi er engin ritsmíð fullkomin. Á flestum verkum, sama hversu mikla viðurkenningu þau hafa öðlast, er hægt að finna einhvern galla. Ef fullkomnunarárátta heftir þig gæti gagnast að minna sig á það þegar sest er niður til að skrifa að um sé að ræða verk í vinnslu. Verk í vinnslu má lengi bæta. Það gerir því ekkert til þó að fyrsta málsgreinin sé ekki fullkomin. Það gerir meira að segja ekkert til þó að þú skrifir niðurlagið fyrst. Eða miðbikið. Það má alltaf bæta við og breyta, umrita og umraða. „Ferlið er einhvernveginn þannig að fyrst kemur frumhugmynd sem yfirleitt lítur svo auvirðulega út að hún er ekki einu sinni sýnandi sínum besta vini,“ sagði skáldið Sigfús Bjartmarsson einu sinni í viðtali. Stefndu að framförum fremur en fullkomnun.

Það er líka rétt að hafa í huga að ritun er leið til að hugsa og koma skipulagi á hugsanir sínar. Einu sinni sagði fræg skáldkona að hún vissi ekki hvað hún hugsaði fyrr en hún hefði skrifað það niður. Þess vegna er brýnt að hefja ritunina sem fyrst og nýta sér hugsunina og sköpunina sem ritunarferlið sjálft felur í sér. Með því að draga ekki að hefja verkið kemur maður líka í veg fyrir að lenda í tímaþröng með tilheyrandi kvíðaköstum og orkusóun. Tíminn vinnur með manni við ritsmíðar vegna þess að vitundin þarf sinn tíma til að skapa en maður þarf þá líka að halda henni við efnið.

Til að halda fullkomnunaráráttunni í skefjum og koma hugmyndaflæði af stað getur verið gott að gera æfingu sem þessa:

Skrifið í 5 mínútur um allt sem kemur upp í hugann. Ef ykkur finnst ekkert koma upp í hugann annað en: „Mér dettur ekkert í hug“, þá skrifið þið það. Hugsið ekkert um stafsetningu, greinarmerki eða þvíumlíkt heldur eingöngu um að koma frá ykkur þeim hugsunum sem bærast með ykkur. Rétt er að hafa í huga að textinn sem þið skrifið er eingöngu ætlaður ykkur sjálfum. Þegar 5 mínútur (eða lengri tími ef þið eruð í stuði) eru liðnar skuluð þið renna yfir það sem þið skrifuðuð og strika undir eða upplýsa það sem ykkur finnst mest varið í. Síðan má endurtaka tilraunina og reyna þá að einbeita ykkur betur að því atriði sem ykkur þótti merkilegast. Hægt er að gera þessa æfingu á pappír, í síma eða með því að nýta The Most Dangerous Writing App en þá má ekki stoppa mikið því við það eyðist textinn.

Önnur leið til að koma hugsanaflæði af stað er að búa til hugarkort. Þá skrifar maður á miðju blaðs eða töflu hugtakið sem maður vill fjalla um. Í mínu tilfelli yrði það „leiðir til að losa ritstíflu“. Út frá þessari miðju skrifar maður síðan allt sem manni dettur í hug um viðfangsefnið. Því fjær sem dregur miðjunni, því frumlegri og sértækari verða hugmyndirnar að öllu jöfnu. Síðan má nýta bestu hugmyndirnar í ritsmíð, gera jafnvel grófa beinagrind að ritsmíð upp úr hugarkortinu. Rétt er þó að hafa í huga að beinagrind má alltaf breyta ef maður fær enn betri hugmyndir við ritunina sjálfa.

Er þér þá nokkuð að vanbúnaði, lesandi góður?

Heimildir:
  • Ingrid Kuhlman. 2011. „Að sigrast á fullkomnunaráráttu og ná meiri árangri“. (Skoðað 09.04.2016).
  • Kelley, Tom og David. 2014. Sköpunarkjarkur. Þýðandi Bergsteinn Sigurðsson. Reykjavík: Vaka-Helgafell.
  • Kristján B. Jónasson. 1996. „Rætt við Sigfús Bjartmarsson“. Tímarit Máls og menningar 4: 6-25.
  • Lamott, Anne. 1994. Bird by Bird – Some Instructions on Writing and Life. New York: Doubleday.

Mynd:

...