Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver er staða kvenna innan Kwermin-ættflokksins í Papúa Nýju-Gíneu?

Sveinn Eggertsson

Fyrst verð ég að leiðrétta þann misskilning að Kwermin-fólkið sé einn ættflokkur. Svo er ekki heldur vísar nafnið Kwermin til fólks af ólíkum ættflokkum sem býr á tilteknu landsvæði í fjallendi Papúa Nýju-Gíneu.

Staða Kwermin-kvenna hefur breyst mjög mikið á undanförnum áratugum, eða frá því að fulltrúar áströlsku nýlendustjórnarinnar komu fyrst til byggða Kwermin 1965. Fyrir komu Ástralanna var aðgreining kynjanna mun meiri en hún er í dag.

Í samræmi við þá frjósemisdýrkun sem var hjá Kwermin var mikil áhersla lögð á að auka eftir föngum mun á körlum og konum. Það var meðal annars gert með manndómsvígslum og öðru uppeldi sem miðaði að því að skapa karlmenn sem gátu, með aðstoð anda forvera, stuðlað að aukinni frjósemi lífheimsins en jafnframt verið hatrammir vígamenn ef á þurfti að halda. Þessi geta sem karlarnir þróuðu með sér var um margt tilraun þeirra til að tileinka sér sköpunarmátt kvenna og mynda um leið mótvægi við hann. Þessi máttur var talinn mikill en um leið villtur kraftur og um margt hættulegur körlum.

Ólík geta karla og kvenna var talin vega hvor aðra upp í viðleitni þeirra til að auka vöxt og viðgang mannlífs. Um leið var það afl sem annað kynið bjó yfir talið geta verið skaðlegt hinu og því fylgdi oft tortryggni og fjandsemi sem oft á tíðum leiddi til ofbeldis gagnvart konum og dauða þeirra. Samkvæmt okkar vestræna mati yrði að telja stöðu kvenna í Kwermin-samfélagi fyrri tíma nokkuð erfiða.

Þó verður að huga að því að í svo smáum samfélögum sem Kwermin-byggðirnar eru – en alls eru Kwermin-menn rúmlega fjögur hundruð – fer staða konunnar mikið eftir því af hvaða ættflokki hún er og hverjum hún giftist. Kwermin-menn rekja ættir sínar í karllegg og þegar karl og kona ganga í hjónaband taka þau sér yfirleitt búsetu á landi föður brúðgumans og eiginmaður greiðir ættmönnum konunnar brúðargjald. Konan er áfram kennd við ættflokk föður síns, en dvelst og starfar með ættflokki eiginmannsins. Ef eiginkonan á föður á lífi og marga bræður og frændur og giftist ekki út fyrir byggðarlagið má telja líklegt að staða hennar gagnvart eiginmanni og ætt hans sé mun sterkari en staða utanaðkomandi konu sem á einungis eiginmanninn að.

Í dag hafa áhrif kristniboða og stjórnvalda orðið til þess að draga úr þeirri aðgreiningu sem gerð var á kynjunum. Hún er þó alls ekki horfin, enda á flest fullorðið fólk rætur í hugmyndafræði frjósemisdýrkunar, og eldri menn tala enn um hættuna sem geti stafað af því að kynin verði mjög lík. Eldri mennirnir hafa líka áhyggjur af sumu í háttalagi unga fólksins og þá helst lauslæti í kynferðismálum.

Ungir menn sem hafa dvalið í fjarlægum byggðum þar sem þeir hafa bæði kynnst fólki frá öðrum menningarsvæðum á Nýju-Gíneu og vestrænu fólki koma aftur með sögur af því sem þeir hafa séð og upplifað. Í kjölfarið hefur hugtakið ást til að mynda farið að hafa áhrif á pörun í samkeppni við hugmyndir öldunga um vænleg pólitísk tengsl. Konur hafa þannig meira persónulegt frelsi og val en áður, og lítil ástæða er til annars en ætla að það muni enn aukast og staða þeirra gagnvart körlunum styrkjast.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Höfundur

lektor í mannfræði við HÍ

Útgáfudagur

23.5.2001

Spyrjandi

Lára Sigríður Haraldsdóttir

Tilvísun

Sveinn Eggertsson. „Hver er staða kvenna innan Kwermin-ættflokksins í Papúa Nýju-Gíneu?“ Vísindavefurinn, 23. maí 2001. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1636.

Sveinn Eggertsson. (2001, 23. maí). Hver er staða kvenna innan Kwermin-ættflokksins í Papúa Nýju-Gíneu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1636

Sveinn Eggertsson. „Hver er staða kvenna innan Kwermin-ættflokksins í Papúa Nýju-Gíneu?“ Vísindavefurinn. 23. maí. 2001. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1636>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er staða kvenna innan Kwermin-ættflokksins í Papúa Nýju-Gíneu?
Fyrst verð ég að leiðrétta þann misskilning að Kwermin-fólkið sé einn ættflokkur. Svo er ekki heldur vísar nafnið Kwermin til fólks af ólíkum ættflokkum sem býr á tilteknu landsvæði í fjallendi Papúa Nýju-Gíneu.

Staða Kwermin-kvenna hefur breyst mjög mikið á undanförnum áratugum, eða frá því að fulltrúar áströlsku nýlendustjórnarinnar komu fyrst til byggða Kwermin 1965. Fyrir komu Ástralanna var aðgreining kynjanna mun meiri en hún er í dag.

Í samræmi við þá frjósemisdýrkun sem var hjá Kwermin var mikil áhersla lögð á að auka eftir föngum mun á körlum og konum. Það var meðal annars gert með manndómsvígslum og öðru uppeldi sem miðaði að því að skapa karlmenn sem gátu, með aðstoð anda forvera, stuðlað að aukinni frjósemi lífheimsins en jafnframt verið hatrammir vígamenn ef á þurfti að halda. Þessi geta sem karlarnir þróuðu með sér var um margt tilraun þeirra til að tileinka sér sköpunarmátt kvenna og mynda um leið mótvægi við hann. Þessi máttur var talinn mikill en um leið villtur kraftur og um margt hættulegur körlum.

Ólík geta karla og kvenna var talin vega hvor aðra upp í viðleitni þeirra til að auka vöxt og viðgang mannlífs. Um leið var það afl sem annað kynið bjó yfir talið geta verið skaðlegt hinu og því fylgdi oft tortryggni og fjandsemi sem oft á tíðum leiddi til ofbeldis gagnvart konum og dauða þeirra. Samkvæmt okkar vestræna mati yrði að telja stöðu kvenna í Kwermin-samfélagi fyrri tíma nokkuð erfiða.

Þó verður að huga að því að í svo smáum samfélögum sem Kwermin-byggðirnar eru – en alls eru Kwermin-menn rúmlega fjögur hundruð – fer staða konunnar mikið eftir því af hvaða ættflokki hún er og hverjum hún giftist. Kwermin-menn rekja ættir sínar í karllegg og þegar karl og kona ganga í hjónaband taka þau sér yfirleitt búsetu á landi föður brúðgumans og eiginmaður greiðir ættmönnum konunnar brúðargjald. Konan er áfram kennd við ættflokk föður síns, en dvelst og starfar með ættflokki eiginmannsins. Ef eiginkonan á föður á lífi og marga bræður og frændur og giftist ekki út fyrir byggðarlagið má telja líklegt að staða hennar gagnvart eiginmanni og ætt hans sé mun sterkari en staða utanaðkomandi konu sem á einungis eiginmanninn að.

Í dag hafa áhrif kristniboða og stjórnvalda orðið til þess að draga úr þeirri aðgreiningu sem gerð var á kynjunum. Hún er þó alls ekki horfin, enda á flest fullorðið fólk rætur í hugmyndafræði frjósemisdýrkunar, og eldri menn tala enn um hættuna sem geti stafað af því að kynin verði mjög lík. Eldri mennirnir hafa líka áhyggjur af sumu í háttalagi unga fólksins og þá helst lauslæti í kynferðismálum.

Ungir menn sem hafa dvalið í fjarlægum byggðum þar sem þeir hafa bæði kynnst fólki frá öðrum menningarsvæðum á Nýju-Gíneu og vestrænu fólki koma aftur með sögur af því sem þeir hafa séð og upplifað. Í kjölfarið hefur hugtakið ást til að mynda farið að hafa áhrif á pörun í samkeppni við hugmyndir öldunga um vænleg pólitísk tengsl. Konur hafa þannig meira persónulegt frelsi og val en áður, og lítil ástæða er til annars en ætla að það muni enn aukast og staða þeirra gagnvart körlunum styrkjast.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:...