Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvaða líffæri er hægt að gefa sem líffæragjafi?

Páll Ásmundsson

Þegar rætt er um líffæragjöf er einkum átt við hjarta, lungu, lifur, bris og nýru. Brottnám hornhimnu augans til ígræðslu má einnig telja til líffæragjafar. Þegar gefinn er blóðmergur eða blóð er um að ræða endurnýjanlega hluta af stærri heild og fellur það tæpast undir líffæragjöf.

Gera verður greinarmun á líffæragjafa sem lætur fjarlægja líffæri úr sér lifandi og hins vegar látnum líffæragjafa.

Sé líffæragjafinn lifandi getur aðeins verið um að ræða annað nýrað og í stöku tilfellum hluta af lifur eða jafnvel lunga. Hér voru samþykkt lög árið 1991 um brottnám líffæra til ígræðslu. Um lifandi líffæragjafa er þar kveðið svo á að gjafinn skuli vera orðinn 18 ára og er það gert til að koma í veg fyrir að börn eða unglingar séu þvinguð til líffæragjafar. Þá eru einnig ákvæði um að hinn verðandi gjafi skuli fá ítarlega fræðslu um brottnámsaðgerðina og þær hættur sem kunna að vera henni samfara. Kanna verður vandlega hvort gjöfin er gefin af heilum hug. Loks eru fyrirmæli um ítarlega læknisskoðun og rannsóknir á hinum verðandi gjafa til að ganga úr skugga um að ekki séu heilsufarslegir meinbugir á líffæristökunni.

Sem lifandi líffæragjafar koma fyrst og fremst til greina náskyldir ættingjar hins væntanlega þega líffærisins, til dæmis systkini, foreldrar, uppkomin börn, afar og ömmur. Sé um slíkan skyldleika að ræða eru líkur á að gjafi og þegi hafi nægilega líka vefjagerð til að litlar líkur séu á höfnun hins ígrædda líffæris.

Alloft kemur fyrir að fólk gefi maka sínum nýra að vel athuguðu máli. Það kemur stundum fyrir að fólk býðst til að gefa annað nýra sitt hverjum sem er af mannúðarástæðum. Slíkum tilboðum er nær aldrei tekið enda illmögulegt að meta hug þann sem að baki liggur auk þess sem erfitt getur reynst að finna hentugan þega.

Þegar um látinn gjafa er að ræða getur verið um öll hin nefndu líffæri að ræða og því hugsanlegt að einn gjafi veiti nokkrum meðbræðrum sínum lengra líf og heilsu. Samkvæmt áðurnefndum lögum er heimilt að fjarlægja úr nýlátnum líffæri til ígræðslu ef fyrir liggur leyfi hins látna eða nánustu aðstandenda hans. Ef vilji hins látna er ekki þekktur eða ekki næst til náins ættingja er gert ráð fyrir að hinn látni hafi verið andvígur líffæragjöf. Þessi vinnuregla kallast ætluð neitun (presumed non-consent).

Líffæratökur úr látnum eru ekki eins tíðar og ætla mætti. Ástæðan er sú að af þeim getur ekki orðið nema í fremur fágætum tilfellum þar sem viðkomandi hefur dáið svonefndum heiladauða á gjörgæsludeild. Samtímis lögunum um brottnám líffæra voru sett lög um ákvörðun dauða. Þar segir að maður sé látinn ef heili hans er endanlega hættur að starfa.

Langflestir deyja þegar hjarta þeirra hættir að slá því að þá hættir heilinn að starfa eftir nokkrar mínútur. Liggi manneskja í öndunarvél á gjörgæsludeild kemur fyrir að heilastarfsemin hætti þótt hjartað slái enn og dæli blóði um líkamann. Þetta er kallað heiladauði og má staðfesta hann óyggjandi með rannsóknum og lýsa manneskjuna látna. Þegar svo er komið er unnt að fjarlægja starfhæf líffæri til ígræðslu áður en slökkt er á öndunarvél.

Slík tilfelli eru sjaldgæf eins og áður greinir og eru hérlendis að jafnaði innan við tuginn á ári hverju. Ekki er heldur alltaf unnt að nýta líffæri hins látna af ýmsum orsökum. Líffæratökur úr látnum eru þó álíka margar og í nágrannalöndum miðað við íbúafjölda. Þau líffæri sem fjarlægð eru hér eru strax send utan til sjúkrahúss þess á Norðurlöndum sem einnig sér um ígræðslur í íslenska sjúklinga.

Mikill skortur er á líffærum til ígræðslu hvarvetna í heiminum. Víða hefur verið hrundið af stað átaki til að tryggja betri aðgang að þeim líffærum sem henta. Miklu skiptir að fræða almenning um líffæragjöf og sums staðar hefur þess nánast verið krafist að fólk geri upp hug sinn varðandi líffæragjöf. Allvíða tíðkast að fólk beri á sér kort sem á stendur hvort viðkomandi vill eða vill ekki gefa líffæri. Reynslan hefur þó verið sú að slíkar fræðsluherferðir skila oftast litlum árangri, jafnvel fækkar stundum vilyrðum fyrir líffæragjöf.

Hérlendis hefur fólk í flestum tilfellum reynst fúst til að veita leyfi til líffæratöku úr ástvini og því hefur ekki verið viðhafður mikill áróður fyrir líffæragjöf. Nokkur fræðsla hefur þó verið veitt. Landlæknisembættið hefur gefið út bækling um þetta efni og fylgja honum kort sem menn geta útfyllt og borið á sér. Enda þótt kort þessi séu ekki löggild skjöl geta þau þó verið aðstandendum ljós vísbending um vilja nýlátinnar manneskju varðandi líffæragjöf. Bæklingnum er ekki síður ætlað að vekja umræðu í fjölskyldum þar sem viðhorf fólks til líffæragjafar koma fram. Slíkt getur hjálpað fólki að taka ákvörðun á ögurstundu ef líffæragjöf kemur til greina við andlát náins ættingja.

Ný útgáfa er nú komin af áðurnefndum fræðslubæklingi og mun landlæknisembættið sjá um dreifingu hans á aðgengilega staði svo sem apótek og læknastofur.

Höfundur

yfirlæknir nýrnadeildar Landspítala háskólasjúkrahúss

Útgáfudagur

30.5.2001

Spyrjandi

Gunnhildur Björgvinsdóttir

Tilvísun

Páll Ásmundsson. „Hvaða líffæri er hægt að gefa sem líffæragjafi?“ Vísindavefurinn, 30. maí 2001. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1663.

Páll Ásmundsson. (2001, 30. maí). Hvaða líffæri er hægt að gefa sem líffæragjafi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1663

Páll Ásmundsson. „Hvaða líffæri er hægt að gefa sem líffæragjafi?“ Vísindavefurinn. 30. maí. 2001. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1663>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða líffæri er hægt að gefa sem líffæragjafi?
Þegar rætt er um líffæragjöf er einkum átt við hjarta, lungu, lifur, bris og nýru. Brottnám hornhimnu augans til ígræðslu má einnig telja til líffæragjafar. Þegar gefinn er blóðmergur eða blóð er um að ræða endurnýjanlega hluta af stærri heild og fellur það tæpast undir líffæragjöf.

Gera verður greinarmun á líffæragjafa sem lætur fjarlægja líffæri úr sér lifandi og hins vegar látnum líffæragjafa.

Sé líffæragjafinn lifandi getur aðeins verið um að ræða annað nýrað og í stöku tilfellum hluta af lifur eða jafnvel lunga. Hér voru samþykkt lög árið 1991 um brottnám líffæra til ígræðslu. Um lifandi líffæragjafa er þar kveðið svo á að gjafinn skuli vera orðinn 18 ára og er það gert til að koma í veg fyrir að börn eða unglingar séu þvinguð til líffæragjafar. Þá eru einnig ákvæði um að hinn verðandi gjafi skuli fá ítarlega fræðslu um brottnámsaðgerðina og þær hættur sem kunna að vera henni samfara. Kanna verður vandlega hvort gjöfin er gefin af heilum hug. Loks eru fyrirmæli um ítarlega læknisskoðun og rannsóknir á hinum verðandi gjafa til að ganga úr skugga um að ekki séu heilsufarslegir meinbugir á líffæristökunni.

Sem lifandi líffæragjafar koma fyrst og fremst til greina náskyldir ættingjar hins væntanlega þega líffærisins, til dæmis systkini, foreldrar, uppkomin börn, afar og ömmur. Sé um slíkan skyldleika að ræða eru líkur á að gjafi og þegi hafi nægilega líka vefjagerð til að litlar líkur séu á höfnun hins ígrædda líffæris.

Alloft kemur fyrir að fólk gefi maka sínum nýra að vel athuguðu máli. Það kemur stundum fyrir að fólk býðst til að gefa annað nýra sitt hverjum sem er af mannúðarástæðum. Slíkum tilboðum er nær aldrei tekið enda illmögulegt að meta hug þann sem að baki liggur auk þess sem erfitt getur reynst að finna hentugan þega.

Þegar um látinn gjafa er að ræða getur verið um öll hin nefndu líffæri að ræða og því hugsanlegt að einn gjafi veiti nokkrum meðbræðrum sínum lengra líf og heilsu. Samkvæmt áðurnefndum lögum er heimilt að fjarlægja úr nýlátnum líffæri til ígræðslu ef fyrir liggur leyfi hins látna eða nánustu aðstandenda hans. Ef vilji hins látna er ekki þekktur eða ekki næst til náins ættingja er gert ráð fyrir að hinn látni hafi verið andvígur líffæragjöf. Þessi vinnuregla kallast ætluð neitun (presumed non-consent).

Líffæratökur úr látnum eru ekki eins tíðar og ætla mætti. Ástæðan er sú að af þeim getur ekki orðið nema í fremur fágætum tilfellum þar sem viðkomandi hefur dáið svonefndum heiladauða á gjörgæsludeild. Samtímis lögunum um brottnám líffæra voru sett lög um ákvörðun dauða. Þar segir að maður sé látinn ef heili hans er endanlega hættur að starfa.

Langflestir deyja þegar hjarta þeirra hættir að slá því að þá hættir heilinn að starfa eftir nokkrar mínútur. Liggi manneskja í öndunarvél á gjörgæsludeild kemur fyrir að heilastarfsemin hætti þótt hjartað slái enn og dæli blóði um líkamann. Þetta er kallað heiladauði og má staðfesta hann óyggjandi með rannsóknum og lýsa manneskjuna látna. Þegar svo er komið er unnt að fjarlægja starfhæf líffæri til ígræðslu áður en slökkt er á öndunarvél.

Slík tilfelli eru sjaldgæf eins og áður greinir og eru hérlendis að jafnaði innan við tuginn á ári hverju. Ekki er heldur alltaf unnt að nýta líffæri hins látna af ýmsum orsökum. Líffæratökur úr látnum eru þó álíka margar og í nágrannalöndum miðað við íbúafjölda. Þau líffæri sem fjarlægð eru hér eru strax send utan til sjúkrahúss þess á Norðurlöndum sem einnig sér um ígræðslur í íslenska sjúklinga.

Mikill skortur er á líffærum til ígræðslu hvarvetna í heiminum. Víða hefur verið hrundið af stað átaki til að tryggja betri aðgang að þeim líffærum sem henta. Miklu skiptir að fræða almenning um líffæragjöf og sums staðar hefur þess nánast verið krafist að fólk geri upp hug sinn varðandi líffæragjöf. Allvíða tíðkast að fólk beri á sér kort sem á stendur hvort viðkomandi vill eða vill ekki gefa líffæri. Reynslan hefur þó verið sú að slíkar fræðsluherferðir skila oftast litlum árangri, jafnvel fækkar stundum vilyrðum fyrir líffæragjöf.

Hérlendis hefur fólk í flestum tilfellum reynst fúst til að veita leyfi til líffæratöku úr ástvini og því hefur ekki verið viðhafður mikill áróður fyrir líffæragjöf. Nokkur fræðsla hefur þó verið veitt. Landlæknisembættið hefur gefið út bækling um þetta efni og fylgja honum kort sem menn geta útfyllt og borið á sér. Enda þótt kort þessi séu ekki löggild skjöl geta þau þó verið aðstandendum ljós vísbending um vilja nýlátinnar manneskju varðandi líffæragjöf. Bæklingnum er ekki síður ætlað að vekja umræðu í fjölskyldum þar sem viðhorf fólks til líffæragjafar koma fram. Slíkt getur hjálpað fólki að taka ákvörðun á ögurstundu ef líffæragjöf kemur til greina við andlát náins ættingja.

Ný útgáfa er nú komin af áðurnefndum fræðslubæklingi og mun landlæknisembættið sjá um dreifingu hans á aðgengilega staði svo sem apótek og læknastofur.

...