Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvað er táknmál? Er til alþjóðlegt mál fyrir heyrnarlausa?

Svandís Svavarsdóttir

Flestir sem eru heyrnarlausir tala táknmál og líta á það sem sitt móðurmál. Táknmál er myndað með hreyfingum handa, höfuðs og líkama, með svipbrigðum, munn- og augnhreyfingum. Í táknmáli fær augnsambandið aukið mikilvægi því að í samskiptum á táknmáli verður alltaf að halda augnsambandi við viðmælandann. Svipbrigði fá aukna og ákveðna merkingu eða málfræðilegt hlutverk og staða líkamans hefur áhrif á blæbrigði og merkingu. Munnhreyfingarnar og svipbrigðin eru í mörgum tilvikum framandi meðal þeirra sem ekki þekkja til. Þessir hlutar táknmálsins eru þó jafnmikilvægir og hreyfingar handanna og órjúfanlegur hluti málsins.

Táknmál eru sjálfsprottin mál sem hafa þróast í samfélagi heyrnarlausra manna alls staðar í heiminum. Táknmál er ekki alþjóðlegt heldur sérstakt fyrir hvert land. Í sumum löndum er jafnvel mállýskumunur á táknmáli milli landsvæða. Skyldleiki táknmálanna er oft ólíkur skyldleika raddmálanna í viðkomandi löndum. Til dæmis er bandaríska táknmálið talið töluvert skylt því franska en nánast ekkert skylt því enska. Heyrnarlaus Bandaríkjamaður á auðveldara með að tala við heyrnarlausan Frakka en heyrnarlausan Breta! Á þessu eru sögulegar skýringar sem ekki verður fjallað nánar um hér.

Táknmál eru byggð upp af táknum og ákveðnar málfræðireglur gilda um það hvernig táknin raðast saman. Röð tákna í setningu er ólík þeirri orðaröð sem við eigum að venjast í íslensku. Ef við röðum táknunum upp eins og um íslenska setningu væri að ræða verður hún málfræðilega röng og leiðir iðulega til misskilnings. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem nota táknmál en eiga íslensku að móðurmáli fylgi lögmálum táknmálsins en myndi setningarnar ekki á íslensku og snari þeim jafnharðan. Táknmál er annað mál sem lýtur öðrum málfræðilegum lögmálum en íslenskan.

Málfræði táknmálsins er flókin og spennandi og orðaforðinn litskrúðugur og frjór. Táknmál er nú um stundir afar spennandi rannsóknarvettvangur málfræðinga. Þarna er hægt að rannsaka mál sem hafa annan miðil en raddmál og niðurstöður þeirra rannsókna hafa áhrif á hefðbundnar hugmyndir manna um málfræði.

Eins og áður segir er einn hluti af málfræði táknmálsins fólginn í svipbrigðum, munnhreyfingum og líkamsstöðu. Skapast hefur sú hefð að kalla þessa þætti alla saman látbrigði (e. non-manual features). Lítum aðeins nánar á þessa þætti. Meðan táknmál er talað er andlitið á stöðugri hreyfingu. Munnurinn er á ferð og flugi og líkaminn færist til hægri og vinstri. Allt hefur þetta málfræðilega þýðingu. Hægt er að skipta málfræðilegu hlutverki látbrigða í þrjá flokka; látbrigði sem eru skyldubundinn hluti tákns, látbrigði sem eru notuð til áhersluauka og loks látbrigði sem gegna setningalegu hlutverki (varða setninguna í heild).

Til dæmis um látbrigði af fyrsta flokki má nefna munnhreyfinguna sem fylgir tákninu sem merkir langur eða hávaxinn. Þetta tákn telst ekki rétt myndað ef munnhreyfingin sl fylgir ekki með. Sama gildir um munnhreyfinguna í tákninu sem merkir afbrýðissamur.

Stundum eru látbrigði notuð til að auka við merkingu, til að mynda til að herða á merkingu lýsingarorða. Þannig er munur á svipbrigðunum eftir því hvort merkingin er feitur eða mjög feitur. Munurinn á þessu tvennu felst sem sé aðeins í svipbrigðunum. Svipurinn felur þá í sér viðbótarmerkingu og er notaður eins og atviksorð.

Loks geta látbrigðin gegnt setningalegu hlutverki, varðað stöðu og merkingu setningarinnar í heild. Munurinn á spurningu og fullyrðingu liggur þá jafnvel í svipbrigðunum einum saman. Þessi svipbrigði eiga ekki við eitt tiltekið tákn heldur setninguna alla.

Algengur misskilningur er að táknmál sé alþjóðlegt. Eins og margir segja þá væri það "miklu sniðugra". En staðreyndin er sú að þar sem táknmál eru sjálfsprottin og náttúrleg er ekki hægt að stýra þróun þeirra og venslum frekar en annarra mála. Þrátt fyrir þetta er staðreyndin þó sú að heyrnarlausir eiga léttara með samskipti við heyrnarlausa útlendinga en gerist og gengur um heyrandi fólk. Þegar samtal af þessu tagi hefst og meðan á samtalinu stendur fer oft nokkur tími í að koma sér saman um tákn fyrir hitt og þetta. Þegar slíkt samkomulag liggur fyrir getur samtalið haldið áfram.

Frá miðri síðustu öld hefur þróast nokkuð sem kallað er alþjóðlegt táknmál (International Sign Language, ISL). Um er að ræða blöndu margra táknmála sem notuð eru til að eiga samskipti á alþjóðlegum fundum heyrnarlausra. Þetta tilbúna mál hefur orðið til smátt og smátt á fundum Alheimssamtaka heyrnarlausra og á heimsleikum heyrnarlausra sem haldnir eru á fjögurra ára fresti. Oftast ræður tilviljun því hvaða tákn eru valin en þó má segja að frekar séu valin tákn sem hafa einhverja myndræna skírskotun, eru raunlíkingar (iconic). Þetta mál er hvorki staðlað né stöðugt heldur breytist í sífellu og lýtur í raun lögmálum aðstæðnanna hverju sinni.

Svo virðist sem nokkur munur sé á ISL og því sem kallað er European Sign Language (ESL, Evróputáknmál). Þegar hið fyrrnefnda er talað ber töluvert á enskum munnhreyfingum. Hins vegar eru munnhreyfingarnar í ESL að mestu leyti ættaðar frá táknmálunum sem í hlut eiga og látbragð og svipbrigði skipa háan sess í samtalinu.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra



Mynd: HB

Höfundur

táknmálskennari

Útgáfudagur

6.9.2001

Spyrjandi

Arnþór Hreinsson

Tilvísun

Svandís Svavarsdóttir. „Hvað er táknmál? Er til alþjóðlegt mál fyrir heyrnarlausa?“ Vísindavefurinn, 6. september 2001. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=1862.

Svandís Svavarsdóttir. (2001, 6. september). Hvað er táknmál? Er til alþjóðlegt mál fyrir heyrnarlausa? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=1862

Svandís Svavarsdóttir. „Hvað er táknmál? Er til alþjóðlegt mál fyrir heyrnarlausa?“ Vísindavefurinn. 6. sep. 2001. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=1862>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er táknmál? Er til alþjóðlegt mál fyrir heyrnarlausa?
Flestir sem eru heyrnarlausir tala táknmál og líta á það sem sitt móðurmál. Táknmál er myndað með hreyfingum handa, höfuðs og líkama, með svipbrigðum, munn- og augnhreyfingum. Í táknmáli fær augnsambandið aukið mikilvægi því að í samskiptum á táknmáli verður alltaf að halda augnsambandi við viðmælandann. Svipbrigði fá aukna og ákveðna merkingu eða málfræðilegt hlutverk og staða líkamans hefur áhrif á blæbrigði og merkingu. Munnhreyfingarnar og svipbrigðin eru í mörgum tilvikum framandi meðal þeirra sem ekki þekkja til. Þessir hlutar táknmálsins eru þó jafnmikilvægir og hreyfingar handanna og órjúfanlegur hluti málsins.

Táknmál eru sjálfsprottin mál sem hafa þróast í samfélagi heyrnarlausra manna alls staðar í heiminum. Táknmál er ekki alþjóðlegt heldur sérstakt fyrir hvert land. Í sumum löndum er jafnvel mállýskumunur á táknmáli milli landsvæða. Skyldleiki táknmálanna er oft ólíkur skyldleika raddmálanna í viðkomandi löndum. Til dæmis er bandaríska táknmálið talið töluvert skylt því franska en nánast ekkert skylt því enska. Heyrnarlaus Bandaríkjamaður á auðveldara með að tala við heyrnarlausan Frakka en heyrnarlausan Breta! Á þessu eru sögulegar skýringar sem ekki verður fjallað nánar um hér.

Táknmál eru byggð upp af táknum og ákveðnar málfræðireglur gilda um það hvernig táknin raðast saman. Röð tákna í setningu er ólík þeirri orðaröð sem við eigum að venjast í íslensku. Ef við röðum táknunum upp eins og um íslenska setningu væri að ræða verður hún málfræðilega röng og leiðir iðulega til misskilnings. Þess vegna er mikilvægt að þeir sem nota táknmál en eiga íslensku að móðurmáli fylgi lögmálum táknmálsins en myndi setningarnar ekki á íslensku og snari þeim jafnharðan. Táknmál er annað mál sem lýtur öðrum málfræðilegum lögmálum en íslenskan.

Málfræði táknmálsins er flókin og spennandi og orðaforðinn litskrúðugur og frjór. Táknmál er nú um stundir afar spennandi rannsóknarvettvangur málfræðinga. Þarna er hægt að rannsaka mál sem hafa annan miðil en raddmál og niðurstöður þeirra rannsókna hafa áhrif á hefðbundnar hugmyndir manna um málfræði.

Eins og áður segir er einn hluti af málfræði táknmálsins fólginn í svipbrigðum, munnhreyfingum og líkamsstöðu. Skapast hefur sú hefð að kalla þessa þætti alla saman látbrigði (e. non-manual features). Lítum aðeins nánar á þessa þætti. Meðan táknmál er talað er andlitið á stöðugri hreyfingu. Munnurinn er á ferð og flugi og líkaminn færist til hægri og vinstri. Allt hefur þetta málfræðilega þýðingu. Hægt er að skipta málfræðilegu hlutverki látbrigða í þrjá flokka; látbrigði sem eru skyldubundinn hluti tákns, látbrigði sem eru notuð til áhersluauka og loks látbrigði sem gegna setningalegu hlutverki (varða setninguna í heild).

Til dæmis um látbrigði af fyrsta flokki má nefna munnhreyfinguna sem fylgir tákninu sem merkir langur eða hávaxinn. Þetta tákn telst ekki rétt myndað ef munnhreyfingin sl fylgir ekki með. Sama gildir um munnhreyfinguna í tákninu sem merkir afbrýðissamur.

Stundum eru látbrigði notuð til að auka við merkingu, til að mynda til að herða á merkingu lýsingarorða. Þannig er munur á svipbrigðunum eftir því hvort merkingin er feitur eða mjög feitur. Munurinn á þessu tvennu felst sem sé aðeins í svipbrigðunum. Svipurinn felur þá í sér viðbótarmerkingu og er notaður eins og atviksorð.

Loks geta látbrigðin gegnt setningalegu hlutverki, varðað stöðu og merkingu setningarinnar í heild. Munurinn á spurningu og fullyrðingu liggur þá jafnvel í svipbrigðunum einum saman. Þessi svipbrigði eiga ekki við eitt tiltekið tákn heldur setninguna alla.

Algengur misskilningur er að táknmál sé alþjóðlegt. Eins og margir segja þá væri það "miklu sniðugra". En staðreyndin er sú að þar sem táknmál eru sjálfsprottin og náttúrleg er ekki hægt að stýra þróun þeirra og venslum frekar en annarra mála. Þrátt fyrir þetta er staðreyndin þó sú að heyrnarlausir eiga léttara með samskipti við heyrnarlausa útlendinga en gerist og gengur um heyrandi fólk. Þegar samtal af þessu tagi hefst og meðan á samtalinu stendur fer oft nokkur tími í að koma sér saman um tákn fyrir hitt og þetta. Þegar slíkt samkomulag liggur fyrir getur samtalið haldið áfram.

Frá miðri síðustu öld hefur þróast nokkuð sem kallað er alþjóðlegt táknmál (International Sign Language, ISL). Um er að ræða blöndu margra táknmála sem notuð eru til að eiga samskipti á alþjóðlegum fundum heyrnarlausra. Þetta tilbúna mál hefur orðið til smátt og smátt á fundum Alheimssamtaka heyrnarlausra og á heimsleikum heyrnarlausra sem haldnir eru á fjögurra ára fresti. Oftast ræður tilviljun því hvaða tákn eru valin en þó má segja að frekar séu valin tákn sem hafa einhverja myndræna skírskotun, eru raunlíkingar (iconic). Þetta mál er hvorki staðlað né stöðugt heldur breytist í sífellu og lýtur í raun lögmálum aðstæðnanna hverju sinni.

Svo virðist sem nokkur munur sé á ISL og því sem kallað er European Sign Language (ESL, Evróputáknmál). Þegar hið fyrrnefnda er talað ber töluvert á enskum munnhreyfingum. Hins vegar eru munnhreyfingarnar í ESL að mestu leyti ættaðar frá táknmálunum sem í hlut eiga og látbragð og svipbrigði skipa háan sess í samtalinu.

Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra

Foreldra- og styrktarfélag heyrnardaufra



Mynd: HB

...