Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Er rétt að morðið á austurríska ríkisarfanum í Sarajevó 28. júní 1914 hafi hleypt heimsstyrjöldinni fyrri af stað?

Gunnar Þór Bjarnason

Morðið á Franz Ferdinand (1863–1914) ríkiserfingja Austurríkis og Sófíu (1868-1914) eiginkonu hans í Sarajevó þann 28. júní 1914 hleypti heimsstyrjöldinni fyrri ekki af stað. En það hratt af stað afdrifaríkri atburðarás sem á endanum leiddi til þess að Evrópa logaði í ófriði. Orsakir stríðsins voru flóknar og margþættar. Þegar upp var staðið voru það þó ákvarðanir sem teknar voru á æðstu stöðum í Vínarborg, Berlín, Pétursborg, París og London vikurnar eftir ríkiserfingjamorðið sem hleyptu styrjöldinni af stað. Morðið í Sarajevó var neisti sem leiðtogar stórveldanna hefðu hæglega getað slökkt áður en hann varð að risastóru báli.

Franz Ferdinand ríkisarfi Austurríkis og eiginkona hans Sófía hertogaynja af Hohenberg að koma úr ráðhúsi Sarajveó. Aðeins nokkrum mínútum síðar voru þau skotin til bana í bíl sínum.

Pólitísk tilræði voru algeng í Evrópu á árunum fyrir heimsstyrjöldina. Árið 1894 var forseti Frakklands myrtur. Á næstu tveimur áratugum féllu á annan tug evrópskra stjórnmálaleiðtoga og þjóðhöfðingja fyrir morðingjahendi. Í þeim hópi voru forsætisráðherrar Spánar, Búlgaríu, Grikklands og Rússlands, landstjóri Rússa í Finnlandi, Karl fyrsti konungur í Portúgal ásamt portúgalska ríkiserfingjanum, Alexander konungur í Serbíu, Georg fyrsti Grikkjakonungur að ógleymdri austurrísku keisaraynjunni Elísabetu sem stungin var til bana af ítölskum stjórnleysingja skömmu fyrir aldamótin 1900. Ekkert þessara morða leiddi til styrjaldar.

En hvers vegna reyndist ríkiserfingjamorðið 28. júní 1914 svo afdrifaríkt sem raun bar vitni? Skýringa er að leita í aðstæðum á Balkanskaga og stórveldapólitík Evrópu.

Um aldamótin 1800 aldar réðu Tyrkir yfir nánast öllum Balkanskaga. En á 19. öld hnignaði Tyrkjaveldi stöðugt. Á sama tíma færðu Balkanþjóðirnar sig upp á skaftið. Fyrst fékk Grikkland sjálfstæði (1830). Síðar bættust við Serbía, Búlgaría, Rúmenía, Svartfjallaland og loks Albanía. Í fyrra Balkanstríðinu (1912–1913) lögðust Búlgarir, Grikkir, Serbar og Svartfellingar á eitt og hrifsuðu af Tyrkjum leifarnar af yfirráðasvæði þeirra í suðausturhluta Evrópu, allt nema Istanbúl og land þar í kring. Í seinna Balkanstríðinu (1913) börðust sigurvegarar innbyrðis um skiptingu á landvinningunum. Í öllu þessu umróti bættu Serbar heilmiklu landi við yfirráðasvæði sitt, lögðu meðal annars Kósóvó undir sig.

En Austurríkismenn réðu Bosníu og þeim löndum þar sem Króatía og Slóvenía eru nú. Margir Bosníu-Serbar, Króatar, Slóvenar og bosnískir múslimar lutu því stjórn Austurríkiskeisara. Um 40% íbúa Bosníu voru Serbar. Austurríska keisaradæmið var stórveldi og næststærsta ríki Evrópu á eftir Rússlandi. Það náði yfir víðfem lönd í Mið- og Suðaustur-Evrópu, allt frá Balkanskaga í suðri til Póllands í norðri og Úkraínu í austri. Á öndverðri 20. öld lifðu meira en 50 milljónir manna innan landamæra þessa fjölþjóðaríkis sem nefndist opinberlega Austurríki-Ungverjaland eftir að Ungverjar fengu hlutdeild í stjórn ríkisins á 7. áratug 19. aldar.

Evrópa 1914.

Í íslenskum blöðum var Balkanskagi stundum nefndur „ófriðarhornið“ í Evrópu. Þar fléttuðust hagsmunir stórveldanna saman við þjóðerniserjur og landamæradeilur. Í serbneskum stjórnmálum gáfu þjóðernissinnar tóninn. Þá dreymdi um að sameina alla Serba undir einni stjórn og stofna suður-slavneskt ríki. En forsenda þess að draumur Serba rættist var að grafa undan yfirráðum Austurríkismanna á Balkanskaga. Þess vegna var grunnt á því góða milli keisaradæmisins og smáríkisins Serbíu.

Ýmsir austurrískir ráðamenn höfðu lengi viljað setja Serbum stólinn fyrir dyrnar í eitt skipti fyrir öll. Oft hefur þessi saga verið sögð þannig að eftir morðið í Sarajevó 28. júní 1914 hafi Austurríkismenn, með réttu eða röngu, lagt allt kapp á að skella skuldinni á serbnesk stjórnvöld og fá þannig átyllu til að jafna sakir við Serbíu. En þeir þurftu í raun ekki að hagræða sannleikanum. Þjóðernishreyfing Serba var róttæk og geysilega öflug, kom meðal annars á fót samtökunum Unga Bosnía sem höfðu að meginmarkmiði að frelsa Bosníu undan austurrískum yfirráðum. Serbnesk stjórnvöld studdu þessa starfsemi leynt og ljóst. Og það sem meira var: Lagt var á ráðin um ríkiserfingjamorðið í serbnesku leynifélagi, þekkt undir nafninu Svarta höndin en hét raunverulega Sameining eða dauði (á serbnesku Ujedinjenje ili smrt). Af heitinu má ráða hvert markmiðið var. Í röðum þess mátti finna marga háttsetta menn innan stjórnkerfis Serbíu. Gavrilo Prinzip (1894-1918), sá sem banaði ríkiserfingjanum og konu hans, var 19 ára gamall Bosníu-Serbi og meðlimur Ungrar Bosníu. Hann og félagar hans sem tókust á hendur að myrða Franz Ferdinand, fengu þjálfun og vopn í Belgrad, höfuðborg Serbíu. Þaðan laumuðust þeir yfir landamærin til Bosníu vorið 1914, vopnaðir skammbyssum og handsprengjum. Flest af þessu kom fljótlega í ljós þegar farið var að yfirheyra tilræðismennina.

Vissu æðstu ráðamenn Serbíu af fyrirhuguðu tilræði við ríkiserfingjann? Líklega, þó ekki sé það vitað með vissu. Sagnfræðingar hafa fært sterk rök fyrir því að Nikola P. Pašić, serbneski forsætisráðherrann, hafi vitað hvað til stóð. (Sjá Christopher Clark, The Sleepwalkers, bls. 56–64).

Flestir þóttust vita að Austurríkismenn tækju morðinu ekki þegjandi og hljóðalaust. Það hefði varla nokkurt stórveldi gert í þessari stöðu. Byssuskotin í Sarajevó hæfðu keisaradæmið í hjartastað. Franz Jósef Austurríkiskeisari var háaldraður og þess væntanlega skammt að bíða að Franz Ferdinand tæki við keisaratigninni. Nú var ríkiserfinginn allur. Þótt ólíku sé saman að jafna má minna á hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Þá þóttust margir strax vita að Bandaríkjastjórn myndi fyrr en síðar grípa til hefndaraðgerða, hvort sem fólk taldi það réttmætt eða ekki. Spurningin var bara hvenær og hvernig. Sumarið 1914 voru þeir til sem áttu von á því að Austurríkismenn létu til skarar skríða gegn Serbum þegar í stað. Margir hefðu sjálfsagt sýnt því skilning. Hvað hefði gerst ef sú hefði orðið raunin? Hefði þá ef til vill ekkert allsherjarstríð brotist út í Evrópu? Aldrei fæst svar við þeirri spurningu. Málin þróuðust á annan veg. Austurrísk stjórnvöld vildu ekki flana að neinu enda voru skiptar skoðanir meðal æðstu manna um aðgerðir gegn Serbum.

Það sem gerðist í júlímánuði 1914 var í stuttu máli eftirfarandi: Þjóðverjar hétu bandamönnum sínum í Austurríki fullum stuðningi við að þjarma að Serbum. Rússar stóðu með Serbíu. Þeir þóttust eiga hagsmuna að gæta á Balkanskaga og vildu tryggja greiðar siglingar um sundin milli Svartahafs og Eyjahafs. Rússar voru í bandalagi með Frökkum og Bretum. Spennan í samskiptum stórveldanna magnaðist smátt og smátt þegar leið á júlímánuð. Eftir að Serbíustjórn neitaði að verða við öllum úrslitakostum austurrískra stjórnvalda sögðu Austurríkismenn Serbíu stríð á hendur þriðjudaginn 28. júlí 1914. Sá atburður er jafnan talinn marka upphaf heimsstyrjaldarinnar fyrri. Tveimur dögum seinna kvöddu Rússar herlið sitt til vopna. Því svöruðu Þjóðverjar með því að segja Rússum stríð á hendur 1. ágúst og Frökkum tveimur dögum síðar. Eftir að þýskar hersveitir réðust inn í Belgíu 4. ágúst og settu stefnuna á Frakkland ákváðu Bretar að skerast í leikinn. Síðar breiddust átökin út og fleiri þjóðir blönduðust í þau.

Atburðarásin sem fór af stað í kjölfar morðsins í Sarajevó 28. júní 1914 leiddi á endanum til þess að þessir þýsku hermenn, ásamt tugum milljóna annarra hermanna, tóku þátt í einu mannskæðasta stríði sem háð hefur verið.

Oft hefur því verið haldið fram að heimsstyrjöldin fyrri hafi verið óhjákvæmileg afleiðing af efnahagslegri samkeppni, valdatogstreitu, hernaðarhyggju, vopnakapphlaupi og útþenslustefnu stórveldanna – með öðrum orðum, að fyrr eða síðar hafi hlotið að sjóða upp úr.

Vissulega lágu dýpri ástæður en atburðir á Balkanskaga til þess að ófriður braust út milli allra evrópsku stórveldanna. En í áratugi hafði þeim tekist að leysa úr ágreiningi sín á milli með friðsamlegum hætti. Fáir sagnfræðingar telja að heimsstyrjöldin fyrri hafi verið óumflýjanleg. Mjög skiptar skoðanir eru aftur á móti um höfuðorsakir styrjaldarinnar og hver beri þyngstu ábyrgðina á því að svo fór sem fór. Ekkert Evrópuveldanna stefndi markvisst að allsherjarstríði árið 1914. Gagnkvæm tortryggni og óbilgirni einstakra valdamanna skiptu sköpum. Þeir brugðust á ögurstundu, tóku einfaldlega rangar ákvarðanir og færðu með því ómældar hörmungar yfir þjóðir Evrópu.

Heimildir, lesefni og myndir:


Upphaflega hljóðaði spurningin svona:
Hvers vegna byrjaði fyrri heimstyrjöldin? Er það satt að það hafi verið ráðist á Austuríki og Þjóðverjar hafi verið að hjálpa þeim?

Höfundur

Gunnar Þór Bjarnason

sagnfræðingur

Útgáfudagur

27.6.2014

Spyrjandi

Arngrímur Stefánsson

Tilvísun

Gunnar Þór Bjarnason. „Er rétt að morðið á austurríska ríkisarfanum í Sarajevó 28. júní 1914 hafi hleypt heimsstyrjöldinni fyrri af stað?“ Vísindavefurinn, 27. júní 2014. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=19111.

Gunnar Þór Bjarnason. (2014, 27. júní). Er rétt að morðið á austurríska ríkisarfanum í Sarajevó 28. júní 1914 hafi hleypt heimsstyrjöldinni fyrri af stað? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=19111

Gunnar Þór Bjarnason. „Er rétt að morðið á austurríska ríkisarfanum í Sarajevó 28. júní 1914 hafi hleypt heimsstyrjöldinni fyrri af stað?“ Vísindavefurinn. 27. jún. 2014. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=19111>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er rétt að morðið á austurríska ríkisarfanum í Sarajevó 28. júní 1914 hafi hleypt heimsstyrjöldinni fyrri af stað?
Morðið á Franz Ferdinand (1863–1914) ríkiserfingja Austurríkis og Sófíu (1868-1914) eiginkonu hans í Sarajevó þann 28. júní 1914 hleypti heimsstyrjöldinni fyrri ekki af stað. En það hratt af stað afdrifaríkri atburðarás sem á endanum leiddi til þess að Evrópa logaði í ófriði. Orsakir stríðsins voru flóknar og margþættar. Þegar upp var staðið voru það þó ákvarðanir sem teknar voru á æðstu stöðum í Vínarborg, Berlín, Pétursborg, París og London vikurnar eftir ríkiserfingjamorðið sem hleyptu styrjöldinni af stað. Morðið í Sarajevó var neisti sem leiðtogar stórveldanna hefðu hæglega getað slökkt áður en hann varð að risastóru báli.

Franz Ferdinand ríkisarfi Austurríkis og eiginkona hans Sófía hertogaynja af Hohenberg að koma úr ráðhúsi Sarajveó. Aðeins nokkrum mínútum síðar voru þau skotin til bana í bíl sínum.

Pólitísk tilræði voru algeng í Evrópu á árunum fyrir heimsstyrjöldina. Árið 1894 var forseti Frakklands myrtur. Á næstu tveimur áratugum féllu á annan tug evrópskra stjórnmálaleiðtoga og þjóðhöfðingja fyrir morðingjahendi. Í þeim hópi voru forsætisráðherrar Spánar, Búlgaríu, Grikklands og Rússlands, landstjóri Rússa í Finnlandi, Karl fyrsti konungur í Portúgal ásamt portúgalska ríkiserfingjanum, Alexander konungur í Serbíu, Georg fyrsti Grikkjakonungur að ógleymdri austurrísku keisaraynjunni Elísabetu sem stungin var til bana af ítölskum stjórnleysingja skömmu fyrir aldamótin 1900. Ekkert þessara morða leiddi til styrjaldar.

En hvers vegna reyndist ríkiserfingjamorðið 28. júní 1914 svo afdrifaríkt sem raun bar vitni? Skýringa er að leita í aðstæðum á Balkanskaga og stórveldapólitík Evrópu.

Um aldamótin 1800 aldar réðu Tyrkir yfir nánast öllum Balkanskaga. En á 19. öld hnignaði Tyrkjaveldi stöðugt. Á sama tíma færðu Balkanþjóðirnar sig upp á skaftið. Fyrst fékk Grikkland sjálfstæði (1830). Síðar bættust við Serbía, Búlgaría, Rúmenía, Svartfjallaland og loks Albanía. Í fyrra Balkanstríðinu (1912–1913) lögðust Búlgarir, Grikkir, Serbar og Svartfellingar á eitt og hrifsuðu af Tyrkjum leifarnar af yfirráðasvæði þeirra í suðausturhluta Evrópu, allt nema Istanbúl og land þar í kring. Í seinna Balkanstríðinu (1913) börðust sigurvegarar innbyrðis um skiptingu á landvinningunum. Í öllu þessu umróti bættu Serbar heilmiklu landi við yfirráðasvæði sitt, lögðu meðal annars Kósóvó undir sig.

En Austurríkismenn réðu Bosníu og þeim löndum þar sem Króatía og Slóvenía eru nú. Margir Bosníu-Serbar, Króatar, Slóvenar og bosnískir múslimar lutu því stjórn Austurríkiskeisara. Um 40% íbúa Bosníu voru Serbar. Austurríska keisaradæmið var stórveldi og næststærsta ríki Evrópu á eftir Rússlandi. Það náði yfir víðfem lönd í Mið- og Suðaustur-Evrópu, allt frá Balkanskaga í suðri til Póllands í norðri og Úkraínu í austri. Á öndverðri 20. öld lifðu meira en 50 milljónir manna innan landamæra þessa fjölþjóðaríkis sem nefndist opinberlega Austurríki-Ungverjaland eftir að Ungverjar fengu hlutdeild í stjórn ríkisins á 7. áratug 19. aldar.

Evrópa 1914.

Í íslenskum blöðum var Balkanskagi stundum nefndur „ófriðarhornið“ í Evrópu. Þar fléttuðust hagsmunir stórveldanna saman við þjóðerniserjur og landamæradeilur. Í serbneskum stjórnmálum gáfu þjóðernissinnar tóninn. Þá dreymdi um að sameina alla Serba undir einni stjórn og stofna suður-slavneskt ríki. En forsenda þess að draumur Serba rættist var að grafa undan yfirráðum Austurríkismanna á Balkanskaga. Þess vegna var grunnt á því góða milli keisaradæmisins og smáríkisins Serbíu.

Ýmsir austurrískir ráðamenn höfðu lengi viljað setja Serbum stólinn fyrir dyrnar í eitt skipti fyrir öll. Oft hefur þessi saga verið sögð þannig að eftir morðið í Sarajevó 28. júní 1914 hafi Austurríkismenn, með réttu eða röngu, lagt allt kapp á að skella skuldinni á serbnesk stjórnvöld og fá þannig átyllu til að jafna sakir við Serbíu. En þeir þurftu í raun ekki að hagræða sannleikanum. Þjóðernishreyfing Serba var róttæk og geysilega öflug, kom meðal annars á fót samtökunum Unga Bosnía sem höfðu að meginmarkmiði að frelsa Bosníu undan austurrískum yfirráðum. Serbnesk stjórnvöld studdu þessa starfsemi leynt og ljóst. Og það sem meira var: Lagt var á ráðin um ríkiserfingjamorðið í serbnesku leynifélagi, þekkt undir nafninu Svarta höndin en hét raunverulega Sameining eða dauði (á serbnesku Ujedinjenje ili smrt). Af heitinu má ráða hvert markmiðið var. Í röðum þess mátti finna marga háttsetta menn innan stjórnkerfis Serbíu. Gavrilo Prinzip (1894-1918), sá sem banaði ríkiserfingjanum og konu hans, var 19 ára gamall Bosníu-Serbi og meðlimur Ungrar Bosníu. Hann og félagar hans sem tókust á hendur að myrða Franz Ferdinand, fengu þjálfun og vopn í Belgrad, höfuðborg Serbíu. Þaðan laumuðust þeir yfir landamærin til Bosníu vorið 1914, vopnaðir skammbyssum og handsprengjum. Flest af þessu kom fljótlega í ljós þegar farið var að yfirheyra tilræðismennina.

Vissu æðstu ráðamenn Serbíu af fyrirhuguðu tilræði við ríkiserfingjann? Líklega, þó ekki sé það vitað með vissu. Sagnfræðingar hafa fært sterk rök fyrir því að Nikola P. Pašić, serbneski forsætisráðherrann, hafi vitað hvað til stóð. (Sjá Christopher Clark, The Sleepwalkers, bls. 56–64).

Flestir þóttust vita að Austurríkismenn tækju morðinu ekki þegjandi og hljóðalaust. Það hefði varla nokkurt stórveldi gert í þessari stöðu. Byssuskotin í Sarajevó hæfðu keisaradæmið í hjartastað. Franz Jósef Austurríkiskeisari var háaldraður og þess væntanlega skammt að bíða að Franz Ferdinand tæki við keisaratigninni. Nú var ríkiserfinginn allur. Þótt ólíku sé saman að jafna má minna á hryðjuverkaárásirnar á Bandaríkin 11. september 2001. Þá þóttust margir strax vita að Bandaríkjastjórn myndi fyrr en síðar grípa til hefndaraðgerða, hvort sem fólk taldi það réttmætt eða ekki. Spurningin var bara hvenær og hvernig. Sumarið 1914 voru þeir til sem áttu von á því að Austurríkismenn létu til skarar skríða gegn Serbum þegar í stað. Margir hefðu sjálfsagt sýnt því skilning. Hvað hefði gerst ef sú hefði orðið raunin? Hefði þá ef til vill ekkert allsherjarstríð brotist út í Evrópu? Aldrei fæst svar við þeirri spurningu. Málin þróuðust á annan veg. Austurrísk stjórnvöld vildu ekki flana að neinu enda voru skiptar skoðanir meðal æðstu manna um aðgerðir gegn Serbum.

Það sem gerðist í júlímánuði 1914 var í stuttu máli eftirfarandi: Þjóðverjar hétu bandamönnum sínum í Austurríki fullum stuðningi við að þjarma að Serbum. Rússar stóðu með Serbíu. Þeir þóttust eiga hagsmuna að gæta á Balkanskaga og vildu tryggja greiðar siglingar um sundin milli Svartahafs og Eyjahafs. Rússar voru í bandalagi með Frökkum og Bretum. Spennan í samskiptum stórveldanna magnaðist smátt og smátt þegar leið á júlímánuð. Eftir að Serbíustjórn neitaði að verða við öllum úrslitakostum austurrískra stjórnvalda sögðu Austurríkismenn Serbíu stríð á hendur þriðjudaginn 28. júlí 1914. Sá atburður er jafnan talinn marka upphaf heimsstyrjaldarinnar fyrri. Tveimur dögum seinna kvöddu Rússar herlið sitt til vopna. Því svöruðu Þjóðverjar með því að segja Rússum stríð á hendur 1. ágúst og Frökkum tveimur dögum síðar. Eftir að þýskar hersveitir réðust inn í Belgíu 4. ágúst og settu stefnuna á Frakkland ákváðu Bretar að skerast í leikinn. Síðar breiddust átökin út og fleiri þjóðir blönduðust í þau.

Atburðarásin sem fór af stað í kjölfar morðsins í Sarajevó 28. júní 1914 leiddi á endanum til þess að þessir þýsku hermenn, ásamt tugum milljóna annarra hermanna, tóku þátt í einu mannskæðasta stríði sem háð hefur verið.

Oft hefur því verið haldið fram að heimsstyrjöldin fyrri hafi verið óhjákvæmileg afleiðing af efnahagslegri samkeppni, valdatogstreitu, hernaðarhyggju, vopnakapphlaupi og útþenslustefnu stórveldanna – með öðrum orðum, að fyrr eða síðar hafi hlotið að sjóða upp úr.

Vissulega lágu dýpri ástæður en atburðir á Balkanskaga til þess að ófriður braust út milli allra evrópsku stórveldanna. En í áratugi hafði þeim tekist að leysa úr ágreiningi sín á milli með friðsamlegum hætti. Fáir sagnfræðingar telja að heimsstyrjöldin fyrri hafi verið óumflýjanleg. Mjög skiptar skoðanir eru aftur á móti um höfuðorsakir styrjaldarinnar og hver beri þyngstu ábyrgðina á því að svo fór sem fór. Ekkert Evrópuveldanna stefndi markvisst að allsherjarstríði árið 1914. Gagnkvæm tortryggni og óbilgirni einstakra valdamanna skiptu sköpum. Þeir brugðust á ögurstundu, tóku einfaldlega rangar ákvarðanir og færðu með því ómældar hörmungar yfir þjóðir Evrópu.

Heimildir, lesefni og myndir:


Upphaflega hljóðaði spurningin svona:
Hvers vegna byrjaði fyrri heimstyrjöldin? Er það satt að það hafi verið ráðist á Austuríki og Þjóðverjar hafi verið að hjálpa þeim?
...