Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað eru E-efni sem notuð eru í matvæli og hvers vegna heita þau þessu nafni?

Inga Þórsdóttir og Björn Sigurður Gunnarsson

E-efni, öðru nafni aukefni, eru fjölbreytilegur hópur efna sem eru notuð við framleiðslu matvæla til að hafa áhrif á ýmsa eiginleika þeirra, svo sem lit, lykt, bragð, útlit, geymsluþol og fleira. Mörg aukefni auka því gæði og stöðugleika vörunnar og minnka líkur á að matvæli skemmist.

Aukefni eru rannsökuð með tilliti til heilsufræðilegra þátta og fá svokölluð E-númer þegar vísindanefnd Evrópusambandsins um matvæli hefur viðurkennt efnin og ESB hefur sett samræmdar reglur um notkun þeirra. Í reglugerð um aukefni í matvælum er getið um hvaða efni megi nota í hin ýmsu matvæli og í hvaða magni. E-númer er því nokkurs konar trygging fyrir gæðum eða skaðleysi þeirra efna sem bera þessi númer, í því magni sem leyfilegt er að nota. E-númerin einfalda einnig innihaldslýsingar og auðvelda fólki að sneiða hjá tilteknum efnum vegna óþols.

Aukefnum er skipt upp í fjölmarga undirflokka og má þekkja suma þeirra af númerunum, svo sem litarefni (100-199), rotvarnarefni (200-299), þráavarnarefni (300-399), bindiefni, lyftiefni, bragðaukandi efni, sætuefni og fleiri. Rotvarnarefni eru notuð til að bæta geymsluþol matvæla. Þau eru almennt notuð í litlu magni og hafa ekki áhrif á útlit eða bragð matvælanna. Þráavarnarefni draga úr hættu á að fita og olíur þráni af völdum súrefnis.

Aukefni geta bæði verið gerviefni (það er að segja aðeins nýmynduð á rannsóknarstofu) eða náttúruleg. Til dæmis eru C- og E-vítamín notuð sem þráavarnarefni í matvæli og hafa þá E-númer; C-vítamín (askorbínsýra) og sölt þess bera númerin E300-302 og E-vítamín (tókóferólar) hafa númerin E306-309.

Óþol gegn aukefnum er vandamál sem hrjáir jafnt unga sem aldna, en þó er það aðeins lítill hluti fólks sem verður fyrir slíkum áhrifum. Einkenni af óþoli eru oft þau sömu og einkenni af ofnæmi, en þegar um óþol er að ræða er ekki hægt að mæla breytingar á ónæmiskerfi líkamans eða svörun á sama hátt og þegar um ofnæmi er annars vegar. Oft finnst engin mælanleg eða líffræðileg skýring á óþoli gegn aukefnum.

Þar sem E-efnin eða aukefnin eru fjölbreytilegur flokkur efnasambanda er alls ekki líklegt að sami einstaklingur hafi óþol fyrir þeim öllum og reyndar er óþol við sumum þeirra harla ólíklegt. Eina leiðin til að koma í veg fyrir óþol sem stafar af einhverju aukefni er að forðast vörur sem innihalda efnasambandið sem um ræðir. Stundum er óþol tímabundið sem þýðir að óhætt er að neyta þessara vara aftur síðar, til dæmis eftir hálft eða eitt ár.

Höfundar

prófessor í næringarfræði við HÍ

Björn Sigurður Gunnarsson

matvæla- og næringarfræðingur

Útgáfudagur

7.3.2000

Spyrjandi

Hlín Gylfadóttir

Efnisorð

Tilvísun

Inga Þórsdóttir og Björn Sigurður Gunnarsson. „Hvað eru E-efni sem notuð eru í matvæli og hvers vegna heita þau þessu nafni?“ Vísindavefurinn, 7. mars 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=197.

Inga Þórsdóttir og Björn Sigurður Gunnarsson. (2000, 7. mars). Hvað eru E-efni sem notuð eru í matvæli og hvers vegna heita þau þessu nafni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=197

Inga Þórsdóttir og Björn Sigurður Gunnarsson. „Hvað eru E-efni sem notuð eru í matvæli og hvers vegna heita þau þessu nafni?“ Vísindavefurinn. 7. mar. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=197>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru E-efni sem notuð eru í matvæli og hvers vegna heita þau þessu nafni?
E-efni, öðru nafni aukefni, eru fjölbreytilegur hópur efna sem eru notuð við framleiðslu matvæla til að hafa áhrif á ýmsa eiginleika þeirra, svo sem lit, lykt, bragð, útlit, geymsluþol og fleira. Mörg aukefni auka því gæði og stöðugleika vörunnar og minnka líkur á að matvæli skemmist.

Aukefni eru rannsökuð með tilliti til heilsufræðilegra þátta og fá svokölluð E-númer þegar vísindanefnd Evrópusambandsins um matvæli hefur viðurkennt efnin og ESB hefur sett samræmdar reglur um notkun þeirra. Í reglugerð um aukefni í matvælum er getið um hvaða efni megi nota í hin ýmsu matvæli og í hvaða magni. E-númer er því nokkurs konar trygging fyrir gæðum eða skaðleysi þeirra efna sem bera þessi númer, í því magni sem leyfilegt er að nota. E-númerin einfalda einnig innihaldslýsingar og auðvelda fólki að sneiða hjá tilteknum efnum vegna óþols.

Aukefnum er skipt upp í fjölmarga undirflokka og má þekkja suma þeirra af númerunum, svo sem litarefni (100-199), rotvarnarefni (200-299), þráavarnarefni (300-399), bindiefni, lyftiefni, bragðaukandi efni, sætuefni og fleiri. Rotvarnarefni eru notuð til að bæta geymsluþol matvæla. Þau eru almennt notuð í litlu magni og hafa ekki áhrif á útlit eða bragð matvælanna. Þráavarnarefni draga úr hættu á að fita og olíur þráni af völdum súrefnis.

Aukefni geta bæði verið gerviefni (það er að segja aðeins nýmynduð á rannsóknarstofu) eða náttúruleg. Til dæmis eru C- og E-vítamín notuð sem þráavarnarefni í matvæli og hafa þá E-númer; C-vítamín (askorbínsýra) og sölt þess bera númerin E300-302 og E-vítamín (tókóferólar) hafa númerin E306-309.

Óþol gegn aukefnum er vandamál sem hrjáir jafnt unga sem aldna, en þó er það aðeins lítill hluti fólks sem verður fyrir slíkum áhrifum. Einkenni af óþoli eru oft þau sömu og einkenni af ofnæmi, en þegar um óþol er að ræða er ekki hægt að mæla breytingar á ónæmiskerfi líkamans eða svörun á sama hátt og þegar um ofnæmi er annars vegar. Oft finnst engin mælanleg eða líffræðileg skýring á óþoli gegn aukefnum.

Þar sem E-efnin eða aukefnin eru fjölbreytilegur flokkur efnasambanda er alls ekki líklegt að sami einstaklingur hafi óþol fyrir þeim öllum og reyndar er óþol við sumum þeirra harla ólíklegt. Eina leiðin til að koma í veg fyrir óþol sem stafar af einhverju aukefni er að forðast vörur sem innihalda efnasambandið sem um ræðir. Stundum er óþol tímabundið sem þýðir að óhætt er að neyta þessara vara aftur síðar, til dæmis eftir hálft eða eitt ár....