Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur?

Henry Alexander Henrysson

Spurningin tengist augljóslega uppeldismálum, samanber spurninguna hvort það sé siðferðilega rétt að segja börnum sínum að jólasveinar séu til. Þorsteinn Gylfason skilgreindi sannleika einu sinni í fyrirlestri þannig að „sannleikurinn sé sá sem við kennum börnum okkar að segja“1. Sannleikurinn er líklega ætíð sagna bestur. Okkur er að minnsta kosti flestum meinilla við að hann komi ekki fram í fjölmiðlum.

Við getum verið sammála um að það er rangt að ljúga sér til skemmtunar. Nema það sé einungis til skemmtunar; kunnar skröksögur geta skemmt fólki á öllum allri ef það veit fyrirfram að ekki beri að taka þeim of alvarlega. Má sem dæmi nefna sögur Münchausen baróns (1720–1797) sem vann sér það til frægðar að segja ýkjusögur af ferðalögum sínum.

Dýpri umræða liggur þó þarna undir niðri og hefur hún vafist fyrir heimspekingum um aldir. Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724–1804) er aldrei langt undan þegar flóknar spurningar eru ræddar. Í verki sínu Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni skrifar hann:

[V]issulega get ég viljað ljúga, en ég get með engu móti viljað að lygi verði að almennu lögmáli vegna þess að slíkt lögmál gerði ókleift að gefa eiginleg loforð, því það væri tilgangslaust að þykjast lýsa vilja til framtíðarverknaðar við aðra sem tryðu ekki þessu yfirvarpi, eða ef þeir gerðu það í gáleysi myndu þeir gjalda mér aftur í sömu mynt. Um leið og lífsregla mín yrði að almennu lögmáli hlyti hún að tortíma mér.2

Kant vísar þarna til hins skilyrðislausa skylduboðs sem var hornsteinn siðfræði hans en samkvæmt því eigum við aldrei að breyta á annan hátt en þann að við getum hugsað okkur að sú breytni verði að almennu lögmáli.

En sumir samtímamenn Kants voru ekki alveg sannfærðir. Þeir sáu ekki hvernig skynsemin gæti boðið okkur annað eins og töldu að mannlegt samfélag virki því aðeins að annað spakmæli sé haft í heiðri: Oft má satt kyrrt liggja. Það virðist einmitt margt benda til þess að þeir sem segja aðeins sannleikann og aldrei annað verði í besta falli að grátbroslegum karakterum sem aðeins er hægt að lýsa í skáldverkum.

Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724–1804) taldi að okkur bæri ávallt að segja sannleikann.

Kant lenti í kunnri ritdeilu vegna skoðana sinna á siðferðilegri stöðu lygi og er spurningin oft rædd í tengslum við dæmi úr þeirri deilu. Dæmið er á þessa leið (nokkuð stílfært):

Vinur þinn ber að dyrum móður og másandi og biður um að fá dvelja hjá þér um tíma. Stuttu seinna er bankað og fyrir utan stendur kunnur ofbeldismaður sem spyr hvort vinurinn sé staddur hjá þér. Er rétt að skrökva til að halda hlífiskildi yfir vini sínum?

Margir myndu segja að það væri beinlínis ómennskt að svara ofbeldismanninum játandi. Kant er á öðru máli. Hann segir það vera skyldu þess sem fer til dyra til að segja sannleikann. Rök hans byggja annars vegar á ofangreindu lögmáli um að maður skuli aldrei breyta á annan hátt en þann sem maður gæti hugsað sér að verði að almennu lögmáli. Hins vegar byggir Kant skoðun sína á því að maður gæti að ábyrgð sinni í málinu. Hann er þeirrar skoðunar að sá sem fer eftir almennu lögmáli og segir sannleikann beri enga ábyrgð á því sem gerist í framhaldinu. Það sé siðferðilega óverjanlegt að fara niður þann hála stíg að reyna að gera undantekningar frá reglum í ljósi mögulegra afleiðinga. Við höfum enga stjórn á því hvað gerist en höfum bein orsakatengsl við framvinduna.

En þessi röksemdafærsla byggir á því að við sættum okkur við tvennt. Í fyrsta lagi að það að segja satt sé ekki að vera gerandi í atburðarásinni. Í öðru lagi að skylduhugtakið eigi við í dæminu. Það kann að vera að hin almenna regla sé sú að það sé skylda að segja þeim sannleikann sem á rétt á að heyra hann. Skyldur og réttindi haldast í hendur og eru að sumu leyti eins og tvær hliðar á sama peningi. Réttindi eins aðila kalla á að annar aðili beri annaðhvort skyldu til að framkvæma eitthvað (verknaðarskyldu) eða láta viðkomandi í friði (taumhaldsskyldu). Og í dæminu að ofan má vera að ofbeldismaðurinn hafi engan rétt á því að heyra sannleikann.

Skoðun Kants virðist því eiga best við þegar við svörum þeim sem hafa augljóslega þann rétt að þeim sé sagt satt og rétt frá. Sem dæmi má nefna einstaklinga sem eru veikir fyrir og þurfa að fá réttar upplýsingar. Öflugasti þátturinn í rökfærslu Kants, hvað svo sem manni getur þótt um hana að öðru leyti, er sá að hún hvetur okkur til að til þess að fara ekki auðveldu leiðina. Það getur virst einfaldara í vissum tilvikum að spara við sig sannleikann og láta satt kyrrt liggja en sú leið getur um leið aukið ábyrgð okkar.

Tilvísun:

  • 1 Þorsteinn Gylfason, „Sannleikur“, í Er vit í vísindum? (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1996), bls. 154.
  • 2 Immanuel Kant, Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni, íslensk þýðing Guðmundur Heiðar Frímannsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003), bls. 112.

Mynd:

Höfundur

Henry Alexander Henrysson

doktor í heimspeki

Útgáfudagur

31.10.2012

Spyrjandi

Elín Jónsdóttir

Tilvísun

Henry Alexander Henrysson. „Er sannleikurinn alltaf sagna bestur?“ Vísindavefurinn, 31. október 2012. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=21878.

Henry Alexander Henrysson. (2012, 31. október). Er sannleikurinn alltaf sagna bestur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=21878

Henry Alexander Henrysson. „Er sannleikurinn alltaf sagna bestur?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2012. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=21878>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er sannleikurinn alltaf sagna bestur?
Spurningin tengist augljóslega uppeldismálum, samanber spurninguna hvort það sé siðferðilega rétt að segja börnum sínum að jólasveinar séu til. Þorsteinn Gylfason skilgreindi sannleika einu sinni í fyrirlestri þannig að „sannleikurinn sé sá sem við kennum börnum okkar að segja“1. Sannleikurinn er líklega ætíð sagna bestur. Okkur er að minnsta kosti flestum meinilla við að hann komi ekki fram í fjölmiðlum.

Við getum verið sammála um að það er rangt að ljúga sér til skemmtunar. Nema það sé einungis til skemmtunar; kunnar skröksögur geta skemmt fólki á öllum allri ef það veit fyrirfram að ekki beri að taka þeim of alvarlega. Má sem dæmi nefna sögur Münchausen baróns (1720–1797) sem vann sér það til frægðar að segja ýkjusögur af ferðalögum sínum.

Dýpri umræða liggur þó þarna undir niðri og hefur hún vafist fyrir heimspekingum um aldir. Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724–1804) er aldrei langt undan þegar flóknar spurningar eru ræddar. Í verki sínu Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni skrifar hann:

[V]issulega get ég viljað ljúga, en ég get með engu móti viljað að lygi verði að almennu lögmáli vegna þess að slíkt lögmál gerði ókleift að gefa eiginleg loforð, því það væri tilgangslaust að þykjast lýsa vilja til framtíðarverknaðar við aðra sem tryðu ekki þessu yfirvarpi, eða ef þeir gerðu það í gáleysi myndu þeir gjalda mér aftur í sömu mynt. Um leið og lífsregla mín yrði að almennu lögmáli hlyti hún að tortíma mér.2

Kant vísar þarna til hins skilyrðislausa skylduboðs sem var hornsteinn siðfræði hans en samkvæmt því eigum við aldrei að breyta á annan hátt en þann að við getum hugsað okkur að sú breytni verði að almennu lögmáli.

En sumir samtímamenn Kants voru ekki alveg sannfærðir. Þeir sáu ekki hvernig skynsemin gæti boðið okkur annað eins og töldu að mannlegt samfélag virki því aðeins að annað spakmæli sé haft í heiðri: Oft má satt kyrrt liggja. Það virðist einmitt margt benda til þess að þeir sem segja aðeins sannleikann og aldrei annað verði í besta falli að grátbroslegum karakterum sem aðeins er hægt að lýsa í skáldverkum.

Þýski heimspekingurinn Immanuel Kant (1724–1804) taldi að okkur bæri ávallt að segja sannleikann.

Kant lenti í kunnri ritdeilu vegna skoðana sinna á siðferðilegri stöðu lygi og er spurningin oft rædd í tengslum við dæmi úr þeirri deilu. Dæmið er á þessa leið (nokkuð stílfært):

Vinur þinn ber að dyrum móður og másandi og biður um að fá dvelja hjá þér um tíma. Stuttu seinna er bankað og fyrir utan stendur kunnur ofbeldismaður sem spyr hvort vinurinn sé staddur hjá þér. Er rétt að skrökva til að halda hlífiskildi yfir vini sínum?

Margir myndu segja að það væri beinlínis ómennskt að svara ofbeldismanninum játandi. Kant er á öðru máli. Hann segir það vera skyldu þess sem fer til dyra til að segja sannleikann. Rök hans byggja annars vegar á ofangreindu lögmáli um að maður skuli aldrei breyta á annan hátt en þann sem maður gæti hugsað sér að verði að almennu lögmáli. Hins vegar byggir Kant skoðun sína á því að maður gæti að ábyrgð sinni í málinu. Hann er þeirrar skoðunar að sá sem fer eftir almennu lögmáli og segir sannleikann beri enga ábyrgð á því sem gerist í framhaldinu. Það sé siðferðilega óverjanlegt að fara niður þann hála stíg að reyna að gera undantekningar frá reglum í ljósi mögulegra afleiðinga. Við höfum enga stjórn á því hvað gerist en höfum bein orsakatengsl við framvinduna.

En þessi röksemdafærsla byggir á því að við sættum okkur við tvennt. Í fyrsta lagi að það að segja satt sé ekki að vera gerandi í atburðarásinni. Í öðru lagi að skylduhugtakið eigi við í dæminu. Það kann að vera að hin almenna regla sé sú að það sé skylda að segja þeim sannleikann sem á rétt á að heyra hann. Skyldur og réttindi haldast í hendur og eru að sumu leyti eins og tvær hliðar á sama peningi. Réttindi eins aðila kalla á að annar aðili beri annaðhvort skyldu til að framkvæma eitthvað (verknaðarskyldu) eða láta viðkomandi í friði (taumhaldsskyldu). Og í dæminu að ofan má vera að ofbeldismaðurinn hafi engan rétt á því að heyra sannleikann.

Skoðun Kants virðist því eiga best við þegar við svörum þeim sem hafa augljóslega þann rétt að þeim sé sagt satt og rétt frá. Sem dæmi má nefna einstaklinga sem eru veikir fyrir og þurfa að fá réttar upplýsingar. Öflugasti þátturinn í rökfærslu Kants, hvað svo sem manni getur þótt um hana að öðru leyti, er sá að hún hvetur okkur til að til þess að fara ekki auðveldu leiðina. Það getur virst einfaldara í vissum tilvikum að spara við sig sannleikann og láta satt kyrrt liggja en sú leið getur um leið aukið ábyrgð okkar.

Tilvísun:

  • 1 Þorsteinn Gylfason, „Sannleikur“, í Er vit í vísindum? (Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1996), bls. 154.
  • 2 Immanuel Kant, Grundvöllur að frumspeki siðlegrar breytni, íslensk þýðing Guðmundur Heiðar Frímannsson (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2003), bls. 112.

Mynd:

...