Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um Grímsvötn?

Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson

Grímsvötn liggja vestan til í miðjum Vatnajökli, nálægt norðurenda samnefnds eldstöðvakerfis sem er yfir 100 kílómetra langt og nær suður fyrir Lakagíga. Stór hluti þess liggur undir Vatnajökli. Þau eru virkasta eldstöð Íslands, og þekkt eru meira en 60 gos í og við Grímsvötn frá því um 1200. Jafnframt eru þau eitt öflugasta jarðhitasvæði landsins.

Í öskju Grímsvatna er stöðuvatn undir jöklinum sem sífellt endurnýjast vegna jarðhita og eldgosa. Bræðsluvatnið safnast fyrir þar til það nær framrás í jökulhlaupum kenndum við Grímsvötn eða Skeiðará. Stærstu Grímsvatnahlaup eru miklar hamfarir þegar vatn flæðir um allan Skeiðarársand. Síðustu stóratburðir af þessu tagi urðu 1996, 1938 og 1934.

Fyrsta flugferð yfir Grímsvötn var farin 28. maí 1938. Í henni tók Steinþór Sigurðsson jarðfræðingur þessa mynd, þar sem horft er úr suðri yfir vesturhluta Grímsvatna og til Gjálpar. Ferðin var farin til að leita skýringa á óvæntu stórhlaupi á Skeiðarársandi. Greinilegar sprungur marka útmörk vatnanna, en fjær er sigdældin yfir gosstöðinni í Gjálp. Verulegur hluti hlaupavatnsins varð til í gosinu, en það náði ekki upp úr jökli.

Önnur megineldstöð, Þórðarhyrna, liggur suðvestan við Grímsvötn og er einnig hluti af Grímsvatnakerfinu. Í samanburði við Grímsvötn hefur virkni hennar verið lítil á nútíma. Sunnan Síðujökuls er gosrein kerfisins sýnileg. Ekki eru margar sprungur eða misgengi samanborið við ýmsar aðrar gosreinar. Þarna mynda Lakagígar, upptök Skaftárelda 1783-1784, 27 kílómetra langa gígaröð. Nokkrar forsögulegar gígaraðir heyra einnig til Grímsvatnakerfinu.

Grímsvötn
Fjöldi gosa á sögulegum tíma 70
Gosefni á sögulegum tíma, ígildi fasts bergs um það bil 21 km3
Stærsta gos á sögulegum tíma, 1783-1784 15 km3
Lengd eldstöðvakerfið 100 km
Mesta breidd eldstöðvakerfis 25 km
Þvermál megineldstöðvar 25 km
Þrjár öskjur, lengsta þvermál 4, 5 og 6 km

Á sögulegum tíma er eldstöðvakerfi Grímsvatna talið hafa gosið nálægt 20 rúmkílómetrum af kviku. Þar er eitt gos, Skaftáreldar, langdrýgst með um tvo þriðju hluta gosefna. Flest Grímsvatnagos eru hins vegar tiltölulega lítil eða minni en 0,1 rúmkílómetri. Gosefni í Grímsvatnakerfi hafa svo til eingöngu verið basísk á sögulegum tíma. Í Gjálpargosinu og gosi sem varð 1885 kom þó upp basaltískt andesít. Jökulhlaupin eru helsta vá af eldgosum í Grímsvötnum. Að öðru leyti hefur tjón af völdum eldvirkni í Grímsvötnum verið lítið, enda flest gosin tiltölulega smá, og gosefnin hafa að mestu sest til sem gjóska á Vatnajökli og í Grímsvötnum sjálfum. Á hinn bóginn eru gos eins og Skaftáreldar með mestu hamförum sem orðið geta á Íslandi og hafa áhrif á veðurfar um allt norðurhvel jarðar. Nokkur hundruð ár virðast líða milli slíkra gosa hér á landi.


Þetta er stytt útgáfa af texta um Grímsvötn í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar. Myndin er fengin úr sama riti, bls. 235. Svarið er birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra bókarinnar.

Höfundar

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Útgáfudagur

26.2.2014

Spyrjandi

Gabriel Häsler

Tilvísun

Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. „Hvað getur þú sagt mér um Grímsvötn?“ Vísindavefurinn, 26. febrúar 2014. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=21980.

Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. (2014, 26. febrúar). Hvað getur þú sagt mér um Grímsvötn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=21980

Magnús Tumi Guðmundsson, Guðrún Larsen og Þorvaldur Þórðarson. „Hvað getur þú sagt mér um Grímsvötn?“ Vísindavefurinn. 26. feb. 2014. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=21980>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um Grímsvötn?
Grímsvötn liggja vestan til í miðjum Vatnajökli, nálægt norðurenda samnefnds eldstöðvakerfis sem er yfir 100 kílómetra langt og nær suður fyrir Lakagíga. Stór hluti þess liggur undir Vatnajökli. Þau eru virkasta eldstöð Íslands, og þekkt eru meira en 60 gos í og við Grímsvötn frá því um 1200. Jafnframt eru þau eitt öflugasta jarðhitasvæði landsins.

Í öskju Grímsvatna er stöðuvatn undir jöklinum sem sífellt endurnýjast vegna jarðhita og eldgosa. Bræðsluvatnið safnast fyrir þar til það nær framrás í jökulhlaupum kenndum við Grímsvötn eða Skeiðará. Stærstu Grímsvatnahlaup eru miklar hamfarir þegar vatn flæðir um allan Skeiðarársand. Síðustu stóratburðir af þessu tagi urðu 1996, 1938 og 1934.

Fyrsta flugferð yfir Grímsvötn var farin 28. maí 1938. Í henni tók Steinþór Sigurðsson jarðfræðingur þessa mynd, þar sem horft er úr suðri yfir vesturhluta Grímsvatna og til Gjálpar. Ferðin var farin til að leita skýringa á óvæntu stórhlaupi á Skeiðarársandi. Greinilegar sprungur marka útmörk vatnanna, en fjær er sigdældin yfir gosstöðinni í Gjálp. Verulegur hluti hlaupavatnsins varð til í gosinu, en það náði ekki upp úr jökli.

Önnur megineldstöð, Þórðarhyrna, liggur suðvestan við Grímsvötn og er einnig hluti af Grímsvatnakerfinu. Í samanburði við Grímsvötn hefur virkni hennar verið lítil á nútíma. Sunnan Síðujökuls er gosrein kerfisins sýnileg. Ekki eru margar sprungur eða misgengi samanborið við ýmsar aðrar gosreinar. Þarna mynda Lakagígar, upptök Skaftárelda 1783-1784, 27 kílómetra langa gígaröð. Nokkrar forsögulegar gígaraðir heyra einnig til Grímsvatnakerfinu.

Grímsvötn
Fjöldi gosa á sögulegum tíma 70
Gosefni á sögulegum tíma, ígildi fasts bergs um það bil 21 km3
Stærsta gos á sögulegum tíma, 1783-1784 15 km3
Lengd eldstöðvakerfið 100 km
Mesta breidd eldstöðvakerfis 25 km
Þvermál megineldstöðvar 25 km
Þrjár öskjur, lengsta þvermál 4, 5 og 6 km

Á sögulegum tíma er eldstöðvakerfi Grímsvatna talið hafa gosið nálægt 20 rúmkílómetrum af kviku. Þar er eitt gos, Skaftáreldar, langdrýgst með um tvo þriðju hluta gosefna. Flest Grímsvatnagos eru hins vegar tiltölulega lítil eða minni en 0,1 rúmkílómetri. Gosefni í Grímsvatnakerfi hafa svo til eingöngu verið basísk á sögulegum tíma. Í Gjálpargosinu og gosi sem varð 1885 kom þó upp basaltískt andesít. Jökulhlaupin eru helsta vá af eldgosum í Grímsvötnum. Að öðru leyti hefur tjón af völdum eldvirkni í Grímsvötnum verið lítið, enda flest gosin tiltölulega smá, og gosefnin hafa að mestu sest til sem gjóska á Vatnajökli og í Grímsvötnum sjálfum. Á hinn bóginn eru gos eins og Skaftáreldar með mestu hamförum sem orðið geta á Íslandi og hafa áhrif á veðurfar um allt norðurhvel jarðar. Nokkur hundruð ár virðast líða milli slíkra gosa hér á landi.


Þetta er stytt útgáfa af texta um Grímsvötn í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar. Myndin er fengin úr sama riti, bls. 235. Svarið er birt með góðfúslegu leyfi ritstjóra bókarinnar.

...