Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig var fjallað um Araba í íslenskum miðaldaritum?

Sverrir Jakobsson

Töluvert er fjallað um Arabíu og Araba í norrænum miðaldaheimildum en flest af því sem þar kemur fram er ættað úr latneskum fornaldarheimildum. Í ítarlegri heimslýsingu Stjórnar, biblíurits sem er frá dögum Hákons V. (1299-1319), er Arabía sögð „hafandi í sér meira reykelsilegan og jurtarlegan ilm og sætleik en flest lönd önnur“. Í Clari sögu, riddarasögu frá 14. öld, er Arabía sögð „gullauðgast allra jarða undir heimssólinni“. Í þessu landi fæðist fuglinn Fenix og „hin ríka drottning […] er kom að finna konunginn Salomonem“ var þaðan.

Fleiri dæmi má nefna um jákvæð viðhorf í garð Araba, til dæmis segir í Clari sögu „af einum mektugum meistara út í Arabía sem Perus hét að nafni, frábærrar speki og visku yfir fram alla menn í veröldinni, af hverjum víða er lesið í bókum — og mörg ævintýr við snertur af sínum listum og klókskap“. Arabar voru sem sagt bæði vitrir og auðugir, ef marka má þessar heimildir.

Síða úr arabísku handriti frá 13. öld. Handritið er þýðing á latnesku riti sem kallast De Materia Medica.

Þjóðir Austurlanda nær voru þó oftast nær kallaðar Serkir, hvort sem um var að ræða Persa til forna eða múslíma í samtímanum. Arabar voru sjaldan tengdir við Serki og neikvæðar hugmyndir um þá. Í Karlamagnús sögu, safni sagnaþátta frá 13. og 14. öld um Karl mikla Frakkakeisara, kemur þó fram að „Rabitar“ (það er Arabar) trúa á Múhameð og aðra heiðna guði og fylgja Serkjakonungi í stríðum hans við kristna konunga.

Í yngri þáttum Karlamagnús sögu er samskiptum kristinna riddara við heiðna andstæðinga lýst eins og að þau hafi verið afar kurteisleg. Í Oddgeirs þætti danska berst söguhetjan svo frækilega við heiðingjana að kurteis höfðingi í þeirra röðum býður honum hólmgöngu á móti Karvel sem er kallaður konungur Rabíta (Araba): „Hann hefir fjölda liðs mikinn, alls konar þjóðir, og hann er virkta góður riddari.“ Reynist Karvel kurteis með afbrigðum og hvergi banginn við að gefa sig á vald kristnum mönnum því að „Karlamagnús kóngur er svo góður höfðingi að eigi vill hann vita á sig að mér sé misboðið heldur en einhverjum lim sínum“. Hér er gert ráð fyrir því að í liði heiðingja séu göfugir riddarar, engu síður en í herliði kristinna manna.

Mynd frá miðöldum sem sýnir kristinn mann og múslíma tefla skák. Myndin er frá seinni hluta 13. aldar.

Karvel Rabítakonungur er dæmi um göfugan heiðingja sem berst eftir kurteisisreglum riddaramennskunnar. Í Oddgeirs þætti danska segir frá því að bæði Karlamagnús konungur og páfinn reyna að telja Karvel á að taka kristni en hann er staðfastur í heiðinni trú sinni og segir: „En þó vil ég eigi að svo litlu leggja drengskap minn að ganga af hendi Ammiral kóngi og neita Maumet guði mínum, sem bæði hefir faðir minn og allir frændur mínir trúað á.“ Karvel er drengur góður, eins og íslenskir fornkappar, meira að segja þegar kemur að fastheldni við hinn heiðna sið.

Frásagnir um Arabíu og Araba í norrænum miðaldaritum eru því litaðar af jákvæðum staðalmyndum sem ríktu af landinu og auði þess í fornum heimildum. Í samtímanum voru Arabar þó hluti af her Serkja sem barðist í krossferðum gegn kristnum mönnum en eftir sem áður virðist áfram gert ráð fyrir að Arabar séu klókir, kurteisir og göfugir.

Sjá nánar:
  • Sverrir Jakobsson, „Islam og andstæður í íslensku miðaldasamfélagi“, Saga 50:2 (2012), 11-33.

Myndir:

Höfundur

Sverrir Jakobsson

prófessor í miðaldasögu við HÍ

Útgáfudagur

26.5.2016

Spyrjandi

Hugrún

Tilvísun

Sverrir Jakobsson. „Hvernig var fjallað um Araba í íslenskum miðaldaritum?“ Vísindavefurinn, 26. maí 2016. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=21999.

Sverrir Jakobsson. (2016, 26. maí). Hvernig var fjallað um Araba í íslenskum miðaldaritum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=21999

Sverrir Jakobsson. „Hvernig var fjallað um Araba í íslenskum miðaldaritum?“ Vísindavefurinn. 26. maí. 2016. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=21999>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var fjallað um Araba í íslenskum miðaldaritum?
Töluvert er fjallað um Arabíu og Araba í norrænum miðaldaheimildum en flest af því sem þar kemur fram er ættað úr latneskum fornaldarheimildum. Í ítarlegri heimslýsingu Stjórnar, biblíurits sem er frá dögum Hákons V. (1299-1319), er Arabía sögð „hafandi í sér meira reykelsilegan og jurtarlegan ilm og sætleik en flest lönd önnur“. Í Clari sögu, riddarasögu frá 14. öld, er Arabía sögð „gullauðgast allra jarða undir heimssólinni“. Í þessu landi fæðist fuglinn Fenix og „hin ríka drottning […] er kom að finna konunginn Salomonem“ var þaðan.

Fleiri dæmi má nefna um jákvæð viðhorf í garð Araba, til dæmis segir í Clari sögu „af einum mektugum meistara út í Arabía sem Perus hét að nafni, frábærrar speki og visku yfir fram alla menn í veröldinni, af hverjum víða er lesið í bókum — og mörg ævintýr við snertur af sínum listum og klókskap“. Arabar voru sem sagt bæði vitrir og auðugir, ef marka má þessar heimildir.

Síða úr arabísku handriti frá 13. öld. Handritið er þýðing á latnesku riti sem kallast De Materia Medica.

Þjóðir Austurlanda nær voru þó oftast nær kallaðar Serkir, hvort sem um var að ræða Persa til forna eða múslíma í samtímanum. Arabar voru sjaldan tengdir við Serki og neikvæðar hugmyndir um þá. Í Karlamagnús sögu, safni sagnaþátta frá 13. og 14. öld um Karl mikla Frakkakeisara, kemur þó fram að „Rabitar“ (það er Arabar) trúa á Múhameð og aðra heiðna guði og fylgja Serkjakonungi í stríðum hans við kristna konunga.

Í yngri þáttum Karlamagnús sögu er samskiptum kristinna riddara við heiðna andstæðinga lýst eins og að þau hafi verið afar kurteisleg. Í Oddgeirs þætti danska berst söguhetjan svo frækilega við heiðingjana að kurteis höfðingi í þeirra röðum býður honum hólmgöngu á móti Karvel sem er kallaður konungur Rabíta (Araba): „Hann hefir fjölda liðs mikinn, alls konar þjóðir, og hann er virkta góður riddari.“ Reynist Karvel kurteis með afbrigðum og hvergi banginn við að gefa sig á vald kristnum mönnum því að „Karlamagnús kóngur er svo góður höfðingi að eigi vill hann vita á sig að mér sé misboðið heldur en einhverjum lim sínum“. Hér er gert ráð fyrir því að í liði heiðingja séu göfugir riddarar, engu síður en í herliði kristinna manna.

Mynd frá miðöldum sem sýnir kristinn mann og múslíma tefla skák. Myndin er frá seinni hluta 13. aldar.

Karvel Rabítakonungur er dæmi um göfugan heiðingja sem berst eftir kurteisisreglum riddaramennskunnar. Í Oddgeirs þætti danska segir frá því að bæði Karlamagnús konungur og páfinn reyna að telja Karvel á að taka kristni en hann er staðfastur í heiðinni trú sinni og segir: „En þó vil ég eigi að svo litlu leggja drengskap minn að ganga af hendi Ammiral kóngi og neita Maumet guði mínum, sem bæði hefir faðir minn og allir frændur mínir trúað á.“ Karvel er drengur góður, eins og íslenskir fornkappar, meira að segja þegar kemur að fastheldni við hinn heiðna sið.

Frásagnir um Arabíu og Araba í norrænum miðaldaritum eru því litaðar af jákvæðum staðalmyndum sem ríktu af landinu og auði þess í fornum heimildum. Í samtímanum voru Arabar þó hluti af her Serkja sem barðist í krossferðum gegn kristnum mönnum en eftir sem áður virðist áfram gert ráð fyrir að Arabar séu klókir, kurteisir og göfugir.

Sjá nánar:
  • Sverrir Jakobsson, „Islam og andstæður í íslensku miðaldasamfélagi“, Saga 50:2 (2012), 11-33.

Myndir:

...