Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvaða hlutverki gegnir saga og sagnfræði?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Hér á Vísindavefnum má finna svar við spurningunni Hvað er saga? Þar er gerð grein fyrir afstöðunni milli hugtakanna saga og sagnfræði. Í þessu svari nægir því að segja að sagnfræði er iðja sagnfræðinga, og meðal þess sem þeir iðja er að skrifa sögu.

Sumir fræðimenn mundu svara spurningunni um hlutverk sagnfræði þannig að leit að sannleika um mannleg samfélög væri eina hlutverk hennar og að það væri skaðlegt fyrir fræðigreinina að ætla henni eitthvert annað hlutverk, tilgang eða markmið, utan við sig sjálfa. Þá sé hætta á að þessi ytri markmið rekist á við sannleiksleitina og séu tekin fram yfir hana, og þá tapi sagnfræðin hinum eina eiginlega tilgangi sínum. Hún gæti til dæmis breyst í áróður.

Þessi hætta er vissulega fyrir hendi. Sagnfræðingur sem setur söguritun sinni markmið á borð við að sýna fram á að ein þjóð hafi jafnan borið af öðrum þjóðum, eða að markaðskerfið sé bjargvættur mannkynsins, eða að verkalýðshreyfingin hafi skapað velferðarríkið, hann er augljóslega í nokkurri hættu að láta sér sjást yfir staðreyndir sem mæla gegn skoðun hans, eða gera sem minnst úr þeim í sögu sinni. Aftur á móti finnst mér það fremur innihaldsrýrt svar að segja að hlutverk sagnfræðinnar sé bara að leita sannleikans, því að það er það sama og að vera sagnfræði. Hlutverk sagnfræðinnar er þá bara að vera til, og ósvarað er spurningunni: til hvers á hún að vera til?

Kenningunni um eigingildi sagnfræðinnar má hugsanlega bjarga með því að segja að maðurinn hafi einfaldlega tilhneigingu til að leita að vitneskju um allt sem hægt sé að vita. -- Við reynum líka að afla þekkingar um gerð og aldur alheimsins, án þess að hafa endilega hugmynd um hvert sé hlutverk þeirrar þekkingar. -- Þess vegna má segja að það sé rétt og sjálfsagt að einhverjir einstaklingar fái það hlutverk að kanna hverju sé hægt að komast að um mannleg samfélög í fortíð, og það eins langt til baka og unnt sé.

Slík réttlæting dugir þó varla til þess að réttlæta það að hafa sögu að skyldunámsgrein í skólum, eins og flestar þjóðir gera. Ég er líka þeirrar skoðunar að saga, og þar með sagnfræðin sem aflar hennar, hafi samfélagslegt gildi og hlutverk. Þegar menn afneiti því af ótta við að sagan fari að þjóna ákveðnum málstað og verða hlutdræg, þá sé verið að fórna mikilvægu gildi fyrir lítilvægt, eða gera það sem enskumælandi fólk kallar að kasta barninu út með baðvatninu.

Gegn hættunni á hlutdrægni vinnum við á allt annan hátt, með frjálsum skoðanaskiptum. Sá sem beitir sögu á hlutdrægan hátt í samfélagi þar sem skoðanafrelsi ríkir á alltaf á hættu að fá ofanígjöf fyrir það frá starfsfélögum sínum. Því verður að setja stranga kröfu um það í sagnfræði að fólk leitist við að vera óhlutdrægt. En það er að mínu áliti einkum á tvennan hátt sem saga hefur hlutverk.

Annars vegar er samtímamenning okkar afleiðing af sögu og nýtur sín því að ýmsu leyti ekki nema í tengslum við sögulega þekkingu. Fólk vísar til sögulegra persóna eins og Platóns og Aristótelesar og ætlast til að viðmælendur þess hafi að minnsta kosti hugmynd um hvaða karlar þeir voru. Til dæmis er talað um platónska ást og leikrit á aristótelísku formi. Auðvitað er hægt að læra hvað þetta er án þess að vita nokkuð um Platón og Aristóteles sjálfa, en hitt er bara einfaldara og gefur meiri möguleika á nýjum tilvísunum til sögulegrar fortíðar, að fólk afli sér þekkingar á sögunni.

Mörg skáldverk eru líka reist á sögulegum persónum og atburðum. Þau hefðu aldrei orðið til ef höfundarnir hefðu ekki þekkt söguna að baki, og þau njóta sín ekki sem skyldi nema viðtakendur þeirra þekki eitthvað til hennar. Í mörgum tilfellum er söguþekking nauðsynleg til þess að ferðamenn njóti ferða sinna, og því þarf fólk að kunna sögu, bæði til þess að geta þjónað ferðamönnum og notið ferðalaga sjálft. Stofnanir okkar eru leiddar af sögulegum ferli og skiljast því oft best út frá honum. Þannig er þingræðiskerfið okkar og aðferðir við að mynda ríkisstjórnir óskiljanlegt nema við vitum að ráðherrar voru upphaflega ráðgjafar þjóðhöfðingja, valdir af honum sjálfum.

Hins vegar er saga besta leiðin til þess að sjá samtímaumhverfi okkar ferskum augum, að fá hugmynd um að aðferðir okkar við að lifa lífinu eru ekki þær einu mögulegu, að mannlífið getur verið svo afskaplega margvíslegt. Af þeirri vitneskju getur svo vaxið hugmyndin um að okkar lífshættir séu ekki endilega betri en annars fólks á öðrum tímum og í öðrum heimshlutum. Saga á þannig að geta aukið víðsýni og umburðarlyndi, og það eru eiginleikar sem mikil þörf er fyrir í heiminum og verður sýnilega enn meiri þörf fyrir í framtíðinni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir

  • Bragi Guðmundsson: „Ungmenni og saga í íslenskum grunnskólum.“ Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson: Æska og saga. Söguvitund íslenskra unglinga í evrópskum samanburði (Reykjavík, Sagnfræðistofnun og Háskólaútgáfan, 1999. Sagnfræðirannsóknir XV), 30-91.
  • Gunnar Karlsson: Að læra af sögu. Greinasafn um sögunám. Reykjavík, Sagnfræðistofnun, 1992. Ritsafn Sagnfræðistofnunar XXX.
  • - - „Sagnfræðin, sannleikurinn og lífið.“ Skírnir CLXVII:1 (Vor 1993), 194-204.
  • - - „Enn um sagnfræði og sannleika.“ Skírnir CLXVIII:1 (Vor 1994), 202-05.
  • Helgi Skúli Kjartansson: „Sagnfræði, af hverju og til hvers.“ Sagnir I (1980), 3-6.
  • Már Jónsson: „Sannleikar sagnfræðinnar.“ Skírnir CLXVI:2 (Haust 1992), 440-50.
  • Rüsen, Jörn: Lifandi saga. Framsetning og hlutverk sögulegrar þekkingar. Gunnar Karlsson þýddi. Reykjavík, Sagnfræðistofnun, 1994. Ritsafn Sagnfræðistofnunar XXXIV.
  • Þorsteinn Siglaugsson: „Á sagnfræðin að þjóna þjóðfélaginu? Síðbúin athugasemd við málsgrein.“ Skírnir CLXVI:1 (Vor 1992), 188-93.
  • - - „Mannleg fræði og fáein hugtök.“ Skírnir CLXVII:2 (Haust 1993), 500-03.

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

23.4.2002

Spyrjandi

Jónína Sigmundsdóttir
Eyþór Friðriksson, f. 1984

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða hlutverki gegnir saga og sagnfræði?“ Vísindavefurinn, 23. apríl 2002. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2329.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2002, 23. apríl). Hvaða hlutverki gegnir saga og sagnfræði? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2329

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvaða hlutverki gegnir saga og sagnfræði?“ Vísindavefurinn. 23. apr. 2002. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2329>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða hlutverki gegnir saga og sagnfræði?
Hér á Vísindavefnum má finna svar við spurningunni Hvað er saga? Þar er gerð grein fyrir afstöðunni milli hugtakanna saga og sagnfræði. Í þessu svari nægir því að segja að sagnfræði er iðja sagnfræðinga, og meðal þess sem þeir iðja er að skrifa sögu.

Sumir fræðimenn mundu svara spurningunni um hlutverk sagnfræði þannig að leit að sannleika um mannleg samfélög væri eina hlutverk hennar og að það væri skaðlegt fyrir fræðigreinina að ætla henni eitthvert annað hlutverk, tilgang eða markmið, utan við sig sjálfa. Þá sé hætta á að þessi ytri markmið rekist á við sannleiksleitina og séu tekin fram yfir hana, og þá tapi sagnfræðin hinum eina eiginlega tilgangi sínum. Hún gæti til dæmis breyst í áróður.

Þessi hætta er vissulega fyrir hendi. Sagnfræðingur sem setur söguritun sinni markmið á borð við að sýna fram á að ein þjóð hafi jafnan borið af öðrum þjóðum, eða að markaðskerfið sé bjargvættur mannkynsins, eða að verkalýðshreyfingin hafi skapað velferðarríkið, hann er augljóslega í nokkurri hættu að láta sér sjást yfir staðreyndir sem mæla gegn skoðun hans, eða gera sem minnst úr þeim í sögu sinni. Aftur á móti finnst mér það fremur innihaldsrýrt svar að segja að hlutverk sagnfræðinnar sé bara að leita sannleikans, því að það er það sama og að vera sagnfræði. Hlutverk sagnfræðinnar er þá bara að vera til, og ósvarað er spurningunni: til hvers á hún að vera til?

Kenningunni um eigingildi sagnfræðinnar má hugsanlega bjarga með því að segja að maðurinn hafi einfaldlega tilhneigingu til að leita að vitneskju um allt sem hægt sé að vita. -- Við reynum líka að afla þekkingar um gerð og aldur alheimsins, án þess að hafa endilega hugmynd um hvert sé hlutverk þeirrar þekkingar. -- Þess vegna má segja að það sé rétt og sjálfsagt að einhverjir einstaklingar fái það hlutverk að kanna hverju sé hægt að komast að um mannleg samfélög í fortíð, og það eins langt til baka og unnt sé.

Slík réttlæting dugir þó varla til þess að réttlæta það að hafa sögu að skyldunámsgrein í skólum, eins og flestar þjóðir gera. Ég er líka þeirrar skoðunar að saga, og þar með sagnfræðin sem aflar hennar, hafi samfélagslegt gildi og hlutverk. Þegar menn afneiti því af ótta við að sagan fari að þjóna ákveðnum málstað og verða hlutdræg, þá sé verið að fórna mikilvægu gildi fyrir lítilvægt, eða gera það sem enskumælandi fólk kallar að kasta barninu út með baðvatninu.

Gegn hættunni á hlutdrægni vinnum við á allt annan hátt, með frjálsum skoðanaskiptum. Sá sem beitir sögu á hlutdrægan hátt í samfélagi þar sem skoðanafrelsi ríkir á alltaf á hættu að fá ofanígjöf fyrir það frá starfsfélögum sínum. Því verður að setja stranga kröfu um það í sagnfræði að fólk leitist við að vera óhlutdrægt. En það er að mínu áliti einkum á tvennan hátt sem saga hefur hlutverk.

Annars vegar er samtímamenning okkar afleiðing af sögu og nýtur sín því að ýmsu leyti ekki nema í tengslum við sögulega þekkingu. Fólk vísar til sögulegra persóna eins og Platóns og Aristótelesar og ætlast til að viðmælendur þess hafi að minnsta kosti hugmynd um hvaða karlar þeir voru. Til dæmis er talað um platónska ást og leikrit á aristótelísku formi. Auðvitað er hægt að læra hvað þetta er án þess að vita nokkuð um Platón og Aristóteles sjálfa, en hitt er bara einfaldara og gefur meiri möguleika á nýjum tilvísunum til sögulegrar fortíðar, að fólk afli sér þekkingar á sögunni.

Mörg skáldverk eru líka reist á sögulegum persónum og atburðum. Þau hefðu aldrei orðið til ef höfundarnir hefðu ekki þekkt söguna að baki, og þau njóta sín ekki sem skyldi nema viðtakendur þeirra þekki eitthvað til hennar. Í mörgum tilfellum er söguþekking nauðsynleg til þess að ferðamenn njóti ferða sinna, og því þarf fólk að kunna sögu, bæði til þess að geta þjónað ferðamönnum og notið ferðalaga sjálft. Stofnanir okkar eru leiddar af sögulegum ferli og skiljast því oft best út frá honum. Þannig er þingræðiskerfið okkar og aðferðir við að mynda ríkisstjórnir óskiljanlegt nema við vitum að ráðherrar voru upphaflega ráðgjafar þjóðhöfðingja, valdir af honum sjálfum.

Hins vegar er saga besta leiðin til þess að sjá samtímaumhverfi okkar ferskum augum, að fá hugmynd um að aðferðir okkar við að lifa lífinu eru ekki þær einu mögulegu, að mannlífið getur verið svo afskaplega margvíslegt. Af þeirri vitneskju getur svo vaxið hugmyndin um að okkar lífshættir séu ekki endilega betri en annars fólks á öðrum tímum og í öðrum heimshlutum. Saga á þannig að geta aukið víðsýni og umburðarlyndi, og það eru eiginleikar sem mikil þörf er fyrir í heiminum og verður sýnilega enn meiri þörf fyrir í framtíðinni.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir

  • Bragi Guðmundsson: „Ungmenni og saga í íslenskum grunnskólum.“ Bragi Guðmundsson og Gunnar Karlsson: Æska og saga. Söguvitund íslenskra unglinga í evrópskum samanburði (Reykjavík, Sagnfræðistofnun og Háskólaútgáfan, 1999. Sagnfræðirannsóknir XV), 30-91.
  • Gunnar Karlsson: Að læra af sögu. Greinasafn um sögunám. Reykjavík, Sagnfræðistofnun, 1992. Ritsafn Sagnfræðistofnunar XXX.
  • - - „Sagnfræðin, sannleikurinn og lífið.“ Skírnir CLXVII:1 (Vor 1993), 194-204.
  • - - „Enn um sagnfræði og sannleika.“ Skírnir CLXVIII:1 (Vor 1994), 202-05.
  • Helgi Skúli Kjartansson: „Sagnfræði, af hverju og til hvers.“ Sagnir I (1980), 3-6.
  • Már Jónsson: „Sannleikar sagnfræðinnar.“ Skírnir CLXVI:2 (Haust 1992), 440-50.
  • Rüsen, Jörn: Lifandi saga. Framsetning og hlutverk sögulegrar þekkingar. Gunnar Karlsson þýddi. Reykjavík, Sagnfræðistofnun, 1994. Ritsafn Sagnfræðistofnunar XXXIV.
  • Þorsteinn Siglaugsson: „Á sagnfræðin að þjóna þjóðfélaginu? Síðbúin athugasemd við málsgrein.“ Skírnir CLXVI:1 (Vor 1992), 188-93.
  • - - „Mannleg fræði og fáein hugtök.“ Skírnir CLXVII:2 (Haust 1993), 500-03.
...