Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Hvar bjuggu útilegumenn? Voru þeir yfirleitt í hellum?

Guðrún Ása Grímsdóttir

Gleggsta lýsing á útilegumannabyggð í íslenskum fornsögum er í Grettis sögu Ásmundarsonar, þar sem segir að eitt haust fór Grettir í Geitland í Borgarfirði, gekk upp á Geitlandsjökul
og stefndi á landsuður eftir jöklinum og hafði með sér ketil og eldsvirki. ... Grettir fór þar til er hann fann dal í jöklinum, langan og heldur mjóvan og lukt að jöklum öllum megin svo að þeir skúttu fram yfir dalinn. Hann komst ofan í einhverjum stað, hann sá þá fagrar hlíðir grasi vaxnar og smákjörr, þar voru hverar, og þótti honum sem jarðhitar myndi valda er eigi luktust saman jöklarnir yfir dalnum. Á lítil féll eftir dalnum og sléttar eyrar báðum megin. Lítill var þar sólargangur, en það þótti honum ótal hve margur sauður var þar í dalnum, það fé var miklu betra og feitara en hann hefði þvílíkt séð. (Grettis saga, 199-200.)

Grettir nefndi dalinn Þórisdal eftir þurs þeim er þar réði fyrir og hét Þórir. Af þessari lýsingu á verustað útilegumanns taka mið allar aðrar lýsingar í þjóðsögum; kjarninn er sá að bústaðurinn er í dal sem er hulinn af fjöllum eða jöklum, á liðast eftir dalnum, þar eru heitar lindir og mörvað fé í haga. Ekki getur Grettis saga um hvort hann hafi hafst við í helli í Þórisdal, en áður hafði hann verið á Arnarvatnsheiði og gert sér þar skála og veitt fiska sér til matar.

Ein frægasta útilegumannasaga íslensk, Hellismannasaga, á sér rætur í þeirri sögn Landnámabókar að drepnir voru átján Hellismenn á Hellisfitjum á Arnarvatnsheiði (Landnámabók, 75). Hellismannasaga var þekkt á 17. öld í þeirri gerð sem hún er prentuð (Íslenzkar þjóðsögur II, 290–293) og þar er hún tengd við Surtshelli við Kalmanstungu. Að Húsafelli í Hvítársíðu í nágrenni Kalmanstungu ólst upp séra Helgi Grímsson sem varð prestur á Húsafelli 1654 og gegndi þar prestsþjónustu til 1691. Helgi prestur skrifaði upp Hellismannasögu og kannaði Surtshelli og hann stóð fyrir rannsóknarför í Þórisdal sumarið 1664 og skrifaði ritgerð um ferðina sem hann fór ásamt mági sínum séra Birni Stefánssyni á Snæfoksstöðum í Grímsnesi.



Surtshellir við Kalmanstungu.

Í ritgerð séra Helga kemur glöggt fram að rannsóknarferðin var farin til þess að sanna eða afsanna fornar frásagnir um byggð í Þórisdal, en Helgi segir í ritgerðinni að samtímamenn sínar haldi margir, að hinar fornu frásagnir af byggð í dalnum séu lygar einar. Samtíðarmaður séra Helga var Jón Guðmundsson lærði sem skrifaði Íslandslýsingu og ýmislegt fleira öðrum til fróðleiks og skemmtunar. Hann orti Áradalsóð sem er útilegumannasaga í ljóðum og lýsir byggð Skegg-Ávalda, landnámsmanns er byggði í Áradal „svo forðast mætti fyrða hjal / frá sig sneiddi lýðum.“ Sá skilningur kemur fram í ritum Jóns að heiðnir fornmenn hafi inngengið „í fjöll og jökla til að lifa í sjálfræði og friði eftir sið sínum.“ Sjálfur var Jón ofsóttur af yfirvöldum og hefir á hugarflugi séð sjálfan sig í sporum spakra fjallbúa sem áttu skjól í fjöllum fyrir misvitrum yfirvöldum.

Prestarnir fyrrnefndu, Helgi Grímsson og Björn Stefánsson, þekktu gjörla fornsögur um útilegumenn og þursa í óbyggðum og einnig Áradalsóð Jóns lærða sem á að gerast í Þórisdal. Þeir leituðu og fundu graslausan dal í Geitlandsjökli, en ályktuðu að forðum tíð hefði getað verið þar meiri gróður og lindir, en náttúran hefði umbylt landslaginu með tímanum. Þeir fundu dálítinn helli í dalnum og ályktuðu að hefðu þar verið útilegumenn á liðinni tíð, muni „það ekki gersemamenn verið hafa, besta kosti eldsgagna og vopna.“

Í bók sinni Útilegumenn og auðar tóttir rekur Ólafur Briem alla þá staði sem heimildir eru um að útilegumenn hafi dvalist á. Þar fer vitaskuld mest fyrir Fjalla-Eyvindi og Höllu sem talin eru hafa hafst við á ýmsum stöðum eftir miðja átjándu öld, svo sem í Bjarnarfirði í Strandasýslu, undir Arnarfellsmúlum, í haganlega gerðum kofa við hver á Hveravöllum, einn bólstaður þeirra var í kofa á lækjarbakka í Eyvindarveri rétt vestan við Sprengisandsleið og munnmæli herma að Eyvindur hafi verið einn vetur í Herðubreiðarlindum, gert sér kofa við vatnslind, þann er enn stendur.

Víðar kannaði Ólafur Briem rústir útilegumannabyggða, svo sem hellisskúta undir Snjóöldufjallgarði við Veiðivötn á Landmannaafrétti, Þjófahelli svokallaðan austan við Þríhyrning í Rangárvallsýslu, Útilegumannahelli hjá Selsundi í sömu sýslu, helli við Hvalvatn ofan Hvalfjarðar sem um skeið var griðarstaður Arnesar þess er fylgdi stundum Fjalla-Eyvindi og Höllu og Ólafur kannaði útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallagarði svo sem hann gerir grein fyrir í sinni bók.

Af ofansögðu má ráða, að útilegumannabyggðir hafi orðið til af landslagi: hafi verið hellar fyrir hendi þar sem var jarðvarmi og því hægt að lifa af vetur, hafi menn leitað þar skjóls, en hafi ekki verið hellar hafi menn hróflað sér upp skála af torfi og grjóti og reft yfir með tiltækum kvistum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir:
  • Einar G. Pétursson. Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I. Rvk. 1998.
  • Grettis saga Ásmundarsonar. (Íslenzk fornrit VII). Guðni Jónsson gaf út. Rvk 1936.
  • Guðrún Ása Grímsdóttir. Leiðir Skálholtsbiskupa um Lyngdalsheiði. Rvk 2000.
  • Guðrún Ása Grímsdóttir. „Um útilegumannabyggðir á 17. öld.“ Ópr. fyrirlestur fluttur á Laugarvatni á aldarafmæli Ólafs Briem 2. maí 2009.
  • Helgi Grímsson. „Sagan af því hvorsu Þórisdalur er fundinn.“ Eftir handritum á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, AM 1010 4to og AM 253 II 8vo; sbr. Eysteinn Sigurðsson. Þórisdalur og ferð prestanna 1664. Rvk 1997.
  • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II. Safnað hefur Jón Árnason. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Rvk 1954.
  • Jón Guðmundsson. „Ein stutt undirrietting um Íslands adskiljanlegar náttúrur.“ Islandica. XV. Ithaca, New York. 1924.
  • Jón Guðmundsson. Áradalsóður. Huld II. Rvk. 1936.
  • Landnámabók (Íslenzk fornrit I). Jakob Benediktsson gaf út. Rvk 1968.
  • Ólafur Briem. Útilegumenn og auðar tóttir. Önnur útgáfa. Rvk. 1983.

Mynd:

Höfundur

rannsóknarprófessor á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

11.5.2009

Spyrjandi

Hlíf Ingibjörnsdóttir

Tilvísun

Guðrún Ása Grímsdóttir. „Hvar bjuggu útilegumenn? Voru þeir yfirleitt í hellum?“ Vísindavefurinn, 11. maí 2009. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=24689.

Guðrún Ása Grímsdóttir. (2009, 11. maí). Hvar bjuggu útilegumenn? Voru þeir yfirleitt í hellum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=24689

Guðrún Ása Grímsdóttir. „Hvar bjuggu útilegumenn? Voru þeir yfirleitt í hellum?“ Vísindavefurinn. 11. maí. 2009. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=24689>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar bjuggu útilegumenn? Voru þeir yfirleitt í hellum?
Gleggsta lýsing á útilegumannabyggð í íslenskum fornsögum er í Grettis sögu Ásmundarsonar, þar sem segir að eitt haust fór Grettir í Geitland í Borgarfirði, gekk upp á Geitlandsjökul

og stefndi á landsuður eftir jöklinum og hafði með sér ketil og eldsvirki. ... Grettir fór þar til er hann fann dal í jöklinum, langan og heldur mjóvan og lukt að jöklum öllum megin svo að þeir skúttu fram yfir dalinn. Hann komst ofan í einhverjum stað, hann sá þá fagrar hlíðir grasi vaxnar og smákjörr, þar voru hverar, og þótti honum sem jarðhitar myndi valda er eigi luktust saman jöklarnir yfir dalnum. Á lítil féll eftir dalnum og sléttar eyrar báðum megin. Lítill var þar sólargangur, en það þótti honum ótal hve margur sauður var þar í dalnum, það fé var miklu betra og feitara en hann hefði þvílíkt séð. (Grettis saga, 199-200.)

Grettir nefndi dalinn Þórisdal eftir þurs þeim er þar réði fyrir og hét Þórir. Af þessari lýsingu á verustað útilegumanns taka mið allar aðrar lýsingar í þjóðsögum; kjarninn er sá að bústaðurinn er í dal sem er hulinn af fjöllum eða jöklum, á liðast eftir dalnum, þar eru heitar lindir og mörvað fé í haga. Ekki getur Grettis saga um hvort hann hafi hafst við í helli í Þórisdal, en áður hafði hann verið á Arnarvatnsheiði og gert sér þar skála og veitt fiska sér til matar.

Ein frægasta útilegumannasaga íslensk, Hellismannasaga, á sér rætur í þeirri sögn Landnámabókar að drepnir voru átján Hellismenn á Hellisfitjum á Arnarvatnsheiði (Landnámabók, 75). Hellismannasaga var þekkt á 17. öld í þeirri gerð sem hún er prentuð (Íslenzkar þjóðsögur II, 290–293) og þar er hún tengd við Surtshelli við Kalmanstungu. Að Húsafelli í Hvítársíðu í nágrenni Kalmanstungu ólst upp séra Helgi Grímsson sem varð prestur á Húsafelli 1654 og gegndi þar prestsþjónustu til 1691. Helgi prestur skrifaði upp Hellismannasögu og kannaði Surtshelli og hann stóð fyrir rannsóknarför í Þórisdal sumarið 1664 og skrifaði ritgerð um ferðina sem hann fór ásamt mági sínum séra Birni Stefánssyni á Snæfoksstöðum í Grímsnesi.



Surtshellir við Kalmanstungu.

Í ritgerð séra Helga kemur glöggt fram að rannsóknarferðin var farin til þess að sanna eða afsanna fornar frásagnir um byggð í Þórisdal, en Helgi segir í ritgerðinni að samtímamenn sínar haldi margir, að hinar fornu frásagnir af byggð í dalnum séu lygar einar. Samtíðarmaður séra Helga var Jón Guðmundsson lærði sem skrifaði Íslandslýsingu og ýmislegt fleira öðrum til fróðleiks og skemmtunar. Hann orti Áradalsóð sem er útilegumannasaga í ljóðum og lýsir byggð Skegg-Ávalda, landnámsmanns er byggði í Áradal „svo forðast mætti fyrða hjal / frá sig sneiddi lýðum.“ Sá skilningur kemur fram í ritum Jóns að heiðnir fornmenn hafi inngengið „í fjöll og jökla til að lifa í sjálfræði og friði eftir sið sínum.“ Sjálfur var Jón ofsóttur af yfirvöldum og hefir á hugarflugi séð sjálfan sig í sporum spakra fjallbúa sem áttu skjól í fjöllum fyrir misvitrum yfirvöldum.

Prestarnir fyrrnefndu, Helgi Grímsson og Björn Stefánsson, þekktu gjörla fornsögur um útilegumenn og þursa í óbyggðum og einnig Áradalsóð Jóns lærða sem á að gerast í Þórisdal. Þeir leituðu og fundu graslausan dal í Geitlandsjökli, en ályktuðu að forðum tíð hefði getað verið þar meiri gróður og lindir, en náttúran hefði umbylt landslaginu með tímanum. Þeir fundu dálítinn helli í dalnum og ályktuðu að hefðu þar verið útilegumenn á liðinni tíð, muni „það ekki gersemamenn verið hafa, besta kosti eldsgagna og vopna.“

Í bók sinni Útilegumenn og auðar tóttir rekur Ólafur Briem alla þá staði sem heimildir eru um að útilegumenn hafi dvalist á. Þar fer vitaskuld mest fyrir Fjalla-Eyvindi og Höllu sem talin eru hafa hafst við á ýmsum stöðum eftir miðja átjándu öld, svo sem í Bjarnarfirði í Strandasýslu, undir Arnarfellsmúlum, í haganlega gerðum kofa við hver á Hveravöllum, einn bólstaður þeirra var í kofa á lækjarbakka í Eyvindarveri rétt vestan við Sprengisandsleið og munnmæli herma að Eyvindur hafi verið einn vetur í Herðubreiðarlindum, gert sér kofa við vatnslind, þann er enn stendur.

Víðar kannaði Ólafur Briem rústir útilegumannabyggða, svo sem hellisskúta undir Snjóöldufjallgarði við Veiðivötn á Landmannaafrétti, Þjófahelli svokallaðan austan við Þríhyrning í Rangárvallsýslu, Útilegumannahelli hjá Selsundi í sömu sýslu, helli við Hvalvatn ofan Hvalfjarðar sem um skeið var griðarstaður Arnesar þess er fylgdi stundum Fjalla-Eyvindi og Höllu og Ólafur kannaði útilegumannaslóðir á Reykjanesfjallagarði svo sem hann gerir grein fyrir í sinni bók.

Af ofansögðu má ráða, að útilegumannabyggðir hafi orðið til af landslagi: hafi verið hellar fyrir hendi þar sem var jarðvarmi og því hægt að lifa af vetur, hafi menn leitað þar skjóls, en hafi ekki verið hellar hafi menn hróflað sér upp skála af torfi og grjóti og reft yfir með tiltækum kvistum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Helstu heimildir:
  • Einar G. Pétursson. Eddurit Jóns Guðmundssonar lærða I. Rvk. 1998.
  • Grettis saga Ásmundarsonar. (Íslenzk fornrit VII). Guðni Jónsson gaf út. Rvk 1936.
  • Guðrún Ása Grímsdóttir. Leiðir Skálholtsbiskupa um Lyngdalsheiði. Rvk 2000.
  • Guðrún Ása Grímsdóttir. „Um útilegumannabyggðir á 17. öld.“ Ópr. fyrirlestur fluttur á Laugarvatni á aldarafmæli Ólafs Briem 2. maí 2009.
  • Helgi Grímsson. „Sagan af því hvorsu Þórisdalur er fundinn.“ Eftir handritum á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, AM 1010 4to og AM 253 II 8vo; sbr. Eysteinn Sigurðsson. Þórisdalur og ferð prestanna 1664. Rvk 1997.
  • Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II. Safnað hefur Jón Árnason. Ný útgáfa. Árni Böðvarsson og Bjarni Vilhjálmsson önnuðust útgáfuna. Rvk 1954.
  • Jón Guðmundsson. „Ein stutt undirrietting um Íslands adskiljanlegar náttúrur.“ Islandica. XV. Ithaca, New York. 1924.
  • Jón Guðmundsson. Áradalsóður. Huld II. Rvk. 1936.
  • Landnámabók (Íslenzk fornrit I). Jakob Benediktsson gaf út. Rvk 1968.
  • Ólafur Briem. Útilegumenn og auðar tóttir. Önnur útgáfa. Rvk. 1983.

Mynd: