Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver er guðfræðileg skilgreining á trú?

Hjalti Hugason

Guðfræðin er heil „fjölskylda” af fræðigreinum sem venja er að stunda saman í sérstökum deildum háskóla vegna þess að hver styður aðra í því sameiginlega hlutverki að túlka trúarhefð Vesturlanda. Sumar þessara greina geta flokkast undir málvísindi, aðrar bókmenntafræði, sagnfræði, heimspeki eða félagsvísindi, svo að dæmi séu tekin. Þess vegna er mögulegt að skilgreina hugtakið trú á margvíslegan hátt allt eftir því hvaða svið guðfræðinnar er lagt til grundvallar.

Áður en lengra er haldið er rétt að benda á að spurt er um hver sé „guðfræðileg” skilgreining á trú. Þess vegna liggur nærri að líta svo á að spurt sé um trú í kristnum skilningi. Verður gengið út frá því hér á eftir. Inntak trúarhugtaksins kann hins vegar að verða allt annað sé gengið út frá öðrum og óskyldum trúarbrögðum.

Hinn kristni, guðfræðilegi skilningur á trúarhugtakinu hefur verið breytilegur í tímans rás. Það að vera kristinn merkti til að mynda í eina tíð að vera skírður og taka reglulega þátt í guðsþjónustulífi kirkjunnar, það er að tilheyra hinum tilbiðjandi söfnuði. Þá var sterk félagsleg vídd í trúarhugtakinu. Í því fólst að maður tilheyrði ákveðnu samfélagi og lifði samkvæmt venjum þess.

Í annan tíma var mest áhersla lögð á guðfræðilegt inntak trúarinnar. Þá fólst það að vera kristinn í því að fólk aðhylltist eða að minnsta kosti samsinnti ákveðnum kenningum og væri sammála kirkjulegri útleggingu þeirra. Á þessum tíma var sterk vitsmunaleg eða kenningarleg slagsíða á trúarhugtakinu.

Þá má og geta þess að stundum hefur verið litið svo á að fólk þyrfti að eiga (trúar)reynslu af ákveðnu tagi til að geta talist kristið. Þá hefur verið áberandi sálfræðileg yfirvigt í trúarhugtakinu.

Hér skal gengið út frá því að sterkur þáttur sem ætíð hafi verið til staðar í kristnu trúarlífi felist í trausti til þess að tilvera mannsins sé ekki marklaus, vitlaus eða byggð á blekkingu heldur felist í henni ákveðin merking eða markmið. Þetta traust byggist meðal annars á þeirri heimssýn að í tilverunni en handan mannsins sjálfs sé til staðar persónulegt afl, Guð, sem mögulegt sé að eiga „ég-þú“ samfélag við. Í kristinni trú felst einnig sú játning að Jesús Kristur hafi öllum öðrum fremur opinberað mönnum þetta sjónarhorn á tilveruna og gert það samfélag sem það byggist á mögulegt.

Mynd: HB

Höfundur

Hjalti Hugason

prófessor emeritus í guðfræði við HÍ

Útgáfudagur

28.10.2002

Spyrjandi

Gunnsteinn Haraldsson

Efnisorð

Tilvísun

Hjalti Hugason. „Hver er guðfræðileg skilgreining á trú?“ Vísindavefurinn, 28. október 2002. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=2822.

Hjalti Hugason. (2002, 28. október). Hver er guðfræðileg skilgreining á trú? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=2822

Hjalti Hugason. „Hver er guðfræðileg skilgreining á trú?“ Vísindavefurinn. 28. okt. 2002. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=2822>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er guðfræðileg skilgreining á trú?
Guðfræðin er heil „fjölskylda” af fræðigreinum sem venja er að stunda saman í sérstökum deildum háskóla vegna þess að hver styður aðra í því sameiginlega hlutverki að túlka trúarhefð Vesturlanda. Sumar þessara greina geta flokkast undir málvísindi, aðrar bókmenntafræði, sagnfræði, heimspeki eða félagsvísindi, svo að dæmi séu tekin. Þess vegna er mögulegt að skilgreina hugtakið trú á margvíslegan hátt allt eftir því hvaða svið guðfræðinnar er lagt til grundvallar.

Áður en lengra er haldið er rétt að benda á að spurt er um hver sé „guðfræðileg” skilgreining á trú. Þess vegna liggur nærri að líta svo á að spurt sé um trú í kristnum skilningi. Verður gengið út frá því hér á eftir. Inntak trúarhugtaksins kann hins vegar að verða allt annað sé gengið út frá öðrum og óskyldum trúarbrögðum.

Hinn kristni, guðfræðilegi skilningur á trúarhugtakinu hefur verið breytilegur í tímans rás. Það að vera kristinn merkti til að mynda í eina tíð að vera skírður og taka reglulega þátt í guðsþjónustulífi kirkjunnar, það er að tilheyra hinum tilbiðjandi söfnuði. Þá var sterk félagsleg vídd í trúarhugtakinu. Í því fólst að maður tilheyrði ákveðnu samfélagi og lifði samkvæmt venjum þess.

Í annan tíma var mest áhersla lögð á guðfræðilegt inntak trúarinnar. Þá fólst það að vera kristinn í því að fólk aðhylltist eða að minnsta kosti samsinnti ákveðnum kenningum og væri sammála kirkjulegri útleggingu þeirra. Á þessum tíma var sterk vitsmunaleg eða kenningarleg slagsíða á trúarhugtakinu.

Þá má og geta þess að stundum hefur verið litið svo á að fólk þyrfti að eiga (trúar)reynslu af ákveðnu tagi til að geta talist kristið. Þá hefur verið áberandi sálfræðileg yfirvigt í trúarhugtakinu.

Hér skal gengið út frá því að sterkur þáttur sem ætíð hafi verið til staðar í kristnu trúarlífi felist í trausti til þess að tilvera mannsins sé ekki marklaus, vitlaus eða byggð á blekkingu heldur felist í henni ákveðin merking eða markmið. Þetta traust byggist meðal annars á þeirri heimssýn að í tilverunni en handan mannsins sjálfs sé til staðar persónulegt afl, Guð, sem mögulegt sé að eiga „ég-þú“ samfélag við. Í kristinni trú felst einnig sú játning að Jesús Kristur hafi öllum öðrum fremur opinberað mönnum þetta sjónarhorn á tilveruna og gert það samfélag sem það byggist á mögulegt.

Mynd: HB...