Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvers vegna kemur reykurinn af eldinum?

Þorsteinn Vilhjálmsson

Í eldi eru efnin í eldsneytinu að brenna, það er að segja að taka upp súrefni eða ildi úr andrúmsloftinu. Við það losnar mikil orka sem veldur örri hreyfingu á sameindum efnisins og birtist okkur sem hiti og varmi eða varmaorka. Þessi hreyfing er yfirleitt svo mikil að efnin skipta um ham sem kallað er og verða að gasi sem rýkur burt.

Efnin sem myndast við bruna eru oftast einhvers konar oxíð þar sem súrefnið hefur gengið í samband við hin ýmsu efni í eldsneytinu. Í bruna sem við þekkjum úr daglegu lífi er helsta efnið yfirleitt frumefnið kolefni, C, sem myndar koltvíildi eða koltvíoxíð, CO2, ef bruninn er fullkominn sem kallað er, það er að segja að efnahvörfin ganga alla leið. Þetta efni er bæði ósýnilegt og lyktarlaust gas við venjulegan hita og raunar líka óskaðlegt lífverum að undanskildum gróðurhúsaáhrifum.




Ef bruninn er hins vegar ófullkominn, til dæmis vegna þess að hiti er ekki nógur, eldsneytið ekki nógu gott eða streymi súrefnis að brunanum ekki nægilegt, þá getur myndast koleinildi eða kolmónoxíð, CO, sem er að vísu ósýnilegt og lyktarlaust en hins vegar baneitrað. Um það má lesa í öðrum svörum hér á Vísindavefnum, sjá lista í lok svarsins.

Svipað gildir um bruna annarra frumefna þegar við notum venjulegt eldsneyti eins og eldivið, kol, olíu, gas eða kertavax. Þó að kolefnið sé mikilvægasta frumefnið í þessum efnum eru þar líka ýmis önnur frumefni sem taka þátt í brunanum og bruni þeirra getur líka orðið ófullkominn af sömu ástæðum og áður voru nefndar. Ýmis efni sem þá myndast eru sýnileg og birtast okkur sem reykur eins og hér er spurt um.

Annað merki um ófullkominn bruna er sót sem myndast og margir kannast við. Fróðlegt er til dæmis að fylgjast með sótmyndun í lokuðum ofni með glerglugga eins og nú er algengt. Fyrst í stað eftir að kveikt er upp er eldurinn tiltölulega kaldur og tregur og talsvert sót sest á glerið. Þegar ofninn hitnar verður eldurinn líka heitari og bruninn betri og sótmyndun hættir; sótið sem settist á glerið í byrjun brennur jafnvel líka. Jafnframt styrkist loftstreymið gegnum ofninn um leið og loftið hitnar, verður léttara í sér og stígur upp með enn meiri krafti en áður. Sýnilegur og lyktandi reykur sem stígur upp um strompinn verður um leið minni, að minnsta kosti ef eldsneytið er sæmilegt.

Margir kannast við að erfiðara er að ná upp eldi í eldstæði ef logn er úti. Það stafar af því að þá er loftstreymið miklu minna og þar með súrefnisstreymið. Þetta lagast hins vegar yfirleitt þegar hitunin á loftrásinni fyrir ofan eldinn segir til sín og örvar loftstreymið eins og áður var lýst. Einnig hefur vindur við skorsteinsopið þau áhrif að þrýstingur verður þar minni en í eldstæðinu og það verkar einnig til að efla gasstreymið upp á við.

Eldiviður eða annað eldsneyti sem við notum er misjafnt að gæðum. Stundum er í því raki og þá fer hluti af varmaorkunni frá brunanum í það að sjóða vatnið sem rýkur burt sem vatnsgufa. Hún er að vísu yfirleitt sjálf ósýnileg en þetta veldur því að eldurinn hitnar ekki eins og ella og stuðlar þannig að ófullkomnum bruna. Einnig geta verið í eldsneytinu önnur óæskileg efni sem mynda sýnilegan og ef til vill súran reyk, jafnvel þótt bruninn sé í sjálfu sér fullkominn.

En reykurinn af eldinum getur sem sagt í fyrsta lagi komið af því að eldurinn sé ekki nógu heitur, í öðru lagi af því að eldsneytið sé ekki nógu gott og í þriðja lagi af því að loftstreymi að eldinum sé ekki nægilegt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • Hún sýnir reyk af brennandi hlöðu og er hluti af mynd úr þessari myndasyrpu á vefsetrinu "Noahs-ark.org". Sótt 24.6.2003.

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

24.6.2003

Spyrjandi

Birgir Óli Snorrason, f. 1995

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna kemur reykurinn af eldinum?“ Vísindavefurinn, 24. júní 2003. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3525.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2003, 24. júní). Hvers vegna kemur reykurinn af eldinum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3525

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Hvers vegna kemur reykurinn af eldinum?“ Vísindavefurinn. 24. jún. 2003. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3525>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna kemur reykurinn af eldinum?
Í eldi eru efnin í eldsneytinu að brenna, það er að segja að taka upp súrefni eða ildi úr andrúmsloftinu. Við það losnar mikil orka sem veldur örri hreyfingu á sameindum efnisins og birtist okkur sem hiti og varmi eða varmaorka. Þessi hreyfing er yfirleitt svo mikil að efnin skipta um ham sem kallað er og verða að gasi sem rýkur burt.

Efnin sem myndast við bruna eru oftast einhvers konar oxíð þar sem súrefnið hefur gengið í samband við hin ýmsu efni í eldsneytinu. Í bruna sem við þekkjum úr daglegu lífi er helsta efnið yfirleitt frumefnið kolefni, C, sem myndar koltvíildi eða koltvíoxíð, CO2, ef bruninn er fullkominn sem kallað er, það er að segja að efnahvörfin ganga alla leið. Þetta efni er bæði ósýnilegt og lyktarlaust gas við venjulegan hita og raunar líka óskaðlegt lífverum að undanskildum gróðurhúsaáhrifum.




Ef bruninn er hins vegar ófullkominn, til dæmis vegna þess að hiti er ekki nógur, eldsneytið ekki nógu gott eða streymi súrefnis að brunanum ekki nægilegt, þá getur myndast koleinildi eða kolmónoxíð, CO, sem er að vísu ósýnilegt og lyktarlaust en hins vegar baneitrað. Um það má lesa í öðrum svörum hér á Vísindavefnum, sjá lista í lok svarsins.

Svipað gildir um bruna annarra frumefna þegar við notum venjulegt eldsneyti eins og eldivið, kol, olíu, gas eða kertavax. Þó að kolefnið sé mikilvægasta frumefnið í þessum efnum eru þar líka ýmis önnur frumefni sem taka þátt í brunanum og bruni þeirra getur líka orðið ófullkominn af sömu ástæðum og áður voru nefndar. Ýmis efni sem þá myndast eru sýnileg og birtast okkur sem reykur eins og hér er spurt um.

Annað merki um ófullkominn bruna er sót sem myndast og margir kannast við. Fróðlegt er til dæmis að fylgjast með sótmyndun í lokuðum ofni með glerglugga eins og nú er algengt. Fyrst í stað eftir að kveikt er upp er eldurinn tiltölulega kaldur og tregur og talsvert sót sest á glerið. Þegar ofninn hitnar verður eldurinn líka heitari og bruninn betri og sótmyndun hættir; sótið sem settist á glerið í byrjun brennur jafnvel líka. Jafnframt styrkist loftstreymið gegnum ofninn um leið og loftið hitnar, verður léttara í sér og stígur upp með enn meiri krafti en áður. Sýnilegur og lyktandi reykur sem stígur upp um strompinn verður um leið minni, að minnsta kosti ef eldsneytið er sæmilegt.

Margir kannast við að erfiðara er að ná upp eldi í eldstæði ef logn er úti. Það stafar af því að þá er loftstreymið miklu minna og þar með súrefnisstreymið. Þetta lagast hins vegar yfirleitt þegar hitunin á loftrásinni fyrir ofan eldinn segir til sín og örvar loftstreymið eins og áður var lýst. Einnig hefur vindur við skorsteinsopið þau áhrif að þrýstingur verður þar minni en í eldstæðinu og það verkar einnig til að efla gasstreymið upp á við.

Eldiviður eða annað eldsneyti sem við notum er misjafnt að gæðum. Stundum er í því raki og þá fer hluti af varmaorkunni frá brunanum í það að sjóða vatnið sem rýkur burt sem vatnsgufa. Hún er að vísu yfirleitt sjálf ósýnileg en þetta veldur því að eldurinn hitnar ekki eins og ella og stuðlar þannig að ófullkomnum bruna. Einnig geta verið í eldsneytinu önnur óæskileg efni sem mynda sýnilegan og ef til vill súran reyk, jafnvel þótt bruninn sé í sjálfu sér fullkominn.

En reykurinn af eldinum getur sem sagt í fyrsta lagi komið af því að eldurinn sé ekki nógu heitur, í öðru lagi af því að eldsneytið sé ekki nógu gott og í þriðja lagi af því að loftstreymi að eldinum sé ekki nægilegt.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:
  • Hún sýnir reyk af brennandi hlöðu og er hluti af mynd úr þessari myndasyrpu á vefsetrinu "Noahs-ark.org". Sótt 24.6.2003.
...