Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvað er riðuveiki í sauðfé?

Sigurður Sigurðarson

Riðuveiki eða riða (e. scrapie) í sauðfé er smitandi sjúkdómur í heila og mænu, kvalafullur og langvinnur. Algengast er að kindur veikist 1½ til 4 ára en þó eru dæmi um riðu hér á landi í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. Riða leggst misþungt á ólíkar arfgerðir sauðfjár. Skemmdir sem verða í heilanum leiða til einkenna frá taugakerfi svo sem ótta, öryggisleysis og fælni. Oft sést og finnst hárfínn titringur eða skjálfti og tannagnístur heyrist nær alltaf í riðuveikum kindum. Fyrir kemur að riðukindur sjái illa, þær gangi á og beri framfætur hátt. Oft ber á slettingi í gangi, lömun eða þróttleysi. Kindurnar geta snarast um koll ef tekið er í horn. Oftast ber á vanþrifum þegar líður á sjúkdóminn.

Þrálátur kláði, sem er algengt einkenni erlendis, sást ekki eða varla í riðukindum á Íslandi áður fyrr, en hefur orðið ríkjandi sem fyrsta einkenni á seinni árum. Sumir sjúklingarnir klóra sér í sífellu, oft með hornenda, eða nudda sér við, þar til sár koma á höfuð og á tortu við afturenda og víðar um skrokkinn, til dæmis á síðunum. Kindurnar fleygja sér niður og naga fætur frá legg og upp í hnésbót og hækilbót og velta sér stundum eins og hross eða draga sig áfram á kviðnum líkt og hundar eftir sund. Stundum lagar blóð úr nuddsárunum.

Stundum sést ekkert annað í fyrstu en vanþrif. Hvorki er kláði til staðar né heldur taugaveiklun eða lömun, en oftast svara riðukindur þó nuddi eða klóri í malir og bak eða haus með velþóknun, líka þær sem ekki sýna kláðamerki að fyrra bragði. Þær halla sér á móti þeim sem klórar, kjamsa eða sleikja út um.

Riðuveiki í sauðfé er smitandi sjúkdómur í heila og mænu, kvalafullur og langvinnur. Algengast er að kindur veikist 1½ til 4 ára.

Það torveldar oft og tefur greiningu veikinnar að fyrstu einkenni geta verið mjög breytileg og misjafnlega auðsæ. Stundum sést aðeins eitt eða fá einkenni lengi framan af. Oft er þá talað um kláðariðu, lömunarriðu, hræðsluriðu eða taugaveiklunarriðu eftir því einkenni sem er mest áberandi. Það getur hjálpað við sjúkdómsgreiningu að spörð úr riðukindum eru stundum, en ekki alltaf, sérstök að útliti: dökk, smá, jöfn að stærð og perulaga með holu í annan enda en totu úr hinum.

Á stöku stað erlendis er talið að kindur geti drepist snögglega úr riðuveiki en yfirleitt ágerist veikin hægt í margar vikur og mánuði, sjaldan þó lengur en eitt ár. Engin lækning er þekkt, ekkert bóluefni og engin nothæf próf sem nota má til að leita uppi smitbera í lifandi fé. Smitefnið berst með eitilfrumum um allan líkamann. Það finnst í blóði, en virðist óstöðugt þar og nýtist því ekki til blóðprófs enn sem komið er. Smitefnið hleðst upp í hálskirtlum, í mjógörn, einkum aftast, og í eitlavef víðar um líkamann. Svo berst það til heila og mænu og safnast þar fyrir. Í heila og mænu sjást vefjaskemmdir en varla annars staðar. Ekki er vitað hvers vegna það er.

Enn vantar á þekkingu um riðuveiki og vísindalega staðfestingu á ýmsu, sem reynslan hefur kennt. Sjúkdómsvaldurinn eða smitefnið er ekki að fullu þekkt. Ekki er hægt að rækta það, það er ótrúlega lífseigt, þolir langa suðu, útfjólublátt ljós, öll helstu sótthreinsiefni og virðist geta lifað árum saman í umhverfinu.

Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótín, svokallað príon-prótín, sem hefur aflagast eða krumpast en haldið að mestu sömu efnasamsetningu og heilbrigt príon-prótín. Príon-prótín er eðlilegur hluti af heilbrigðri skepnu en við það að krumpast breytast eiginleikar þess. Það verður torleyst, hættir að taka þátt í efnaskiptum líkamans, safnast að mestu saman í og við frumuhimnur, einkum í heilanum og eitlavef og skemmir út frá sér og þær skemmdir leiða til sjúkdómseinkenna.

Þegar smitefnið kemst inn í heilbrigðan líkama, oftast um munn, og nær að búa um sig, fer það að breyta þeim heilbrigðu og ókrumpuðu príon-prótínum sem það mætir í sína eigin mynd. Þau umbreyttu breyta síðan öðrum heilbrigðum príon-prótínum og svo koll af kolli. Þannig fjölgar smitefninu, fyrst hægt en svo með vaxandi hraða og þá koma riðueinkenni í ljós.

Kraftar þeir sem umbreyta eðlilegu príon-prótíni og gera það að smitefni eru að mestu óþekktir. Mismunandi erfðaeiginleikar kinda og misjafnar arfgerðir príon-prótíns í ólíkum kindum hafa áhrif á gang sjúkdómsins. Þessir þættir stjórna því hvort meðfædd mótstaða gegn veikinni er mikil eða lítil og hve fljótt veikin kemur í ljós eftir smitun.

Sumir telja að snefilefni í gróðri, fóðri, vatni, jarðvegi og í skepnunum sjálfum kunni að hafa áhrif á það hvort riðuveiki kemur fram, hve lengi hún lifir í umhverfinu og hvort hún kemur aftur og aftur. Einkum hefur verið rætt um koparskort og ofgnótt mangans. Selen er einnig til athugunar. Rannsóknir á þessu eru í gangi hér á landi. Að svo komnu bendir ekkert til þess að koparskortur hafi áhrif á riðuveiki.

Mynd:

Höfundur

Útgáfudagur

1.8.2003

Spyrjandi

Gauti Fannar Gestsson, f. 1987

Tilvísun

Sigurður Sigurðarson. „Hvað er riðuveiki í sauðfé?“ Vísindavefurinn, 1. ágúst 2003. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=3628.

Sigurður Sigurðarson. (2003, 1. ágúst). Hvað er riðuveiki í sauðfé? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=3628

Sigurður Sigurðarson. „Hvað er riðuveiki í sauðfé?“ Vísindavefurinn. 1. ágú. 2003. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=3628>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað er riðuveiki í sauðfé?
Riðuveiki eða riða (e. scrapie) í sauðfé er smitandi sjúkdómur í heila og mænu, kvalafullur og langvinnur. Algengast er að kindur veikist 1½ til 4 ára en þó eru dæmi um riðu hér á landi í 7 mánaða gömlu lambi og 14 vetra á. Riða leggst misþungt á ólíkar arfgerðir sauðfjár. Skemmdir sem verða í heilanum leiða til einkenna frá taugakerfi svo sem ótta, öryggisleysis og fælni. Oft sést og finnst hárfínn titringur eða skjálfti og tannagnístur heyrist nær alltaf í riðuveikum kindum. Fyrir kemur að riðukindur sjái illa, þær gangi á og beri framfætur hátt. Oft ber á slettingi í gangi, lömun eða þróttleysi. Kindurnar geta snarast um koll ef tekið er í horn. Oftast ber á vanþrifum þegar líður á sjúkdóminn.

Þrálátur kláði, sem er algengt einkenni erlendis, sást ekki eða varla í riðukindum á Íslandi áður fyrr, en hefur orðið ríkjandi sem fyrsta einkenni á seinni árum. Sumir sjúklingarnir klóra sér í sífellu, oft með hornenda, eða nudda sér við, þar til sár koma á höfuð og á tortu við afturenda og víðar um skrokkinn, til dæmis á síðunum. Kindurnar fleygja sér niður og naga fætur frá legg og upp í hnésbót og hækilbót og velta sér stundum eins og hross eða draga sig áfram á kviðnum líkt og hundar eftir sund. Stundum lagar blóð úr nuddsárunum.

Stundum sést ekkert annað í fyrstu en vanþrif. Hvorki er kláði til staðar né heldur taugaveiklun eða lömun, en oftast svara riðukindur þó nuddi eða klóri í malir og bak eða haus með velþóknun, líka þær sem ekki sýna kláðamerki að fyrra bragði. Þær halla sér á móti þeim sem klórar, kjamsa eða sleikja út um.

Riðuveiki í sauðfé er smitandi sjúkdómur í heila og mænu, kvalafullur og langvinnur. Algengast er að kindur veikist 1½ til 4 ára.

Það torveldar oft og tefur greiningu veikinnar að fyrstu einkenni geta verið mjög breytileg og misjafnlega auðsæ. Stundum sést aðeins eitt eða fá einkenni lengi framan af. Oft er þá talað um kláðariðu, lömunarriðu, hræðsluriðu eða taugaveiklunarriðu eftir því einkenni sem er mest áberandi. Það getur hjálpað við sjúkdómsgreiningu að spörð úr riðukindum eru stundum, en ekki alltaf, sérstök að útliti: dökk, smá, jöfn að stærð og perulaga með holu í annan enda en totu úr hinum.

Á stöku stað erlendis er talið að kindur geti drepist snögglega úr riðuveiki en yfirleitt ágerist veikin hægt í margar vikur og mánuði, sjaldan þó lengur en eitt ár. Engin lækning er þekkt, ekkert bóluefni og engin nothæf próf sem nota má til að leita uppi smitbera í lifandi fé. Smitefnið berst með eitilfrumum um allan líkamann. Það finnst í blóði, en virðist óstöðugt þar og nýtist því ekki til blóðprófs enn sem komið er. Smitefnið hleðst upp í hálskirtlum, í mjógörn, einkum aftast, og í eitlavef víðar um líkamann. Svo berst það til heila og mænu og safnast þar fyrir. Í heila og mænu sjást vefjaskemmdir en varla annars staðar. Ekki er vitað hvers vegna það er.

Enn vantar á þekkingu um riðuveiki og vísindalega staðfestingu á ýmsu, sem reynslan hefur kennt. Sjúkdómsvaldurinn eða smitefnið er ekki að fullu þekkt. Ekki er hægt að rækta það, það er ótrúlega lífseigt, þolir langa suðu, útfjólublátt ljós, öll helstu sótthreinsiefni og virðist geta lifað árum saman í umhverfinu.

Smitefnið er hvorki baktería né veira heldur prótín, svokallað príon-prótín, sem hefur aflagast eða krumpast en haldið að mestu sömu efnasamsetningu og heilbrigt príon-prótín. Príon-prótín er eðlilegur hluti af heilbrigðri skepnu en við það að krumpast breytast eiginleikar þess. Það verður torleyst, hættir að taka þátt í efnaskiptum líkamans, safnast að mestu saman í og við frumuhimnur, einkum í heilanum og eitlavef og skemmir út frá sér og þær skemmdir leiða til sjúkdómseinkenna.

Þegar smitefnið kemst inn í heilbrigðan líkama, oftast um munn, og nær að búa um sig, fer það að breyta þeim heilbrigðu og ókrumpuðu príon-prótínum sem það mætir í sína eigin mynd. Þau umbreyttu breyta síðan öðrum heilbrigðum príon-prótínum og svo koll af kolli. Þannig fjölgar smitefninu, fyrst hægt en svo með vaxandi hraða og þá koma riðueinkenni í ljós.

Kraftar þeir sem umbreyta eðlilegu príon-prótíni og gera það að smitefni eru að mestu óþekktir. Mismunandi erfðaeiginleikar kinda og misjafnar arfgerðir príon-prótíns í ólíkum kindum hafa áhrif á gang sjúkdómsins. Þessir þættir stjórna því hvort meðfædd mótstaða gegn veikinni er mikil eða lítil og hve fljótt veikin kemur í ljós eftir smitun.

Sumir telja að snefilefni í gróðri, fóðri, vatni, jarðvegi og í skepnunum sjálfum kunni að hafa áhrif á það hvort riðuveiki kemur fram, hve lengi hún lifir í umhverfinu og hvort hún kemur aftur og aftur. Einkum hefur verið rætt um koparskort og ofgnótt mangans. Selen er einnig til athugunar. Rannsóknir á þessu eru í gangi hér á landi. Að svo komnu bendir ekkert til þess að koparskortur hafi áhrif á riðuveiki.

Mynd:...