Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvað eru margar holur á golfkúlum?

Örn Helgason

Holufjöldinn á golfkúlum er breytilegur eftir tegundum en algengt er að hann sé um 400. Í sumum tilvikum er hans getið í tegundarheiti og stundum fylgir einnig orð eða skammstöfun sem segir til um hver lögunin á holunni er (hringlaga, fimmhyrningar, sexhyrningar og svo framvegis). Holurnar og einkenni þeirra hafa áhrif á flugeiginleika boltans.

Ef ekki þarf að taka tillit til loftmótstöðu er einfalt að sýna fram á að kasthlutur eins og golfkúla nær lengstu flugi fyrir tiltekinn upphafshraða ef henni er skotið undir 45o horni frá láréttu. Flugferill hennar verður alltaf fleygbogi (parabóla) og öll önnur skothorn bæði stærri og minni gefa styttra flug.

En málið verður öllu flóknara þegar taka þarf tillit til loftmótstöðu og loftstreymis umhverfis kúluna. Ef yfirborð kúlunnar er mjög slétt verður meginmótstaðan við flug hennar vegna sogs og iðukasta sem myndast í "kjölfar" hennar. Þessi mótstaða er þeim mun meiri sem hraði hennar er meiri, en hiti og loftþrýstingur hafa hér einnig nokkur áhrif. Nú verður sambandið flókið milli upphafshraða, skothorns og fluglengdar og reglan um einfaldan fleygboga gildir ekki lengur.


Mynd sem sýnir hvernig loft streymir um golfkúlu sem snýst. Golfkúlan á myndinni snýst réttsælis.

Ef snúningi er komið á kúluna um leið og henni er skotið af stað verður flugferill hennar enn flóknari og það er einkum hér sem fyrrgreindar holur fara að skipta máli. Snúningurinn veldur því að loftið streymir mishratt framhjá kúlunni, miðað við yfirborð hennar, svipað því sem gerist ofan og neðan við flugvélarvæng. Þetta leiðir til þess að þrýstikraftur verkar á kúluna auk þyngdarkraftsins. Stefna þessa krafts ræðst af því hvernig kúlan snýst miðað við hraðastefnu hennar.

Ef kúlan snýst þannig að neðsti punktur hennar hreyfist áfram miðað við miðpunktinn er talað um að hún hafi bakspuna. Efsti punkturinn hreyfist þá að sama skapi afturábak miðað við miðpunkt og hrjúft yfirborð kúlunnar stuðlar að því að hraði loftsins framhjá kúlunni fyrir ofan hana verður talsvert meiri en fyrir neðan hana. Þrýstikrafturinn niður á við frá loftinu fyrir ofan verður þá minni en krafturinn upp á við frá loftinu fyrir neðan og það kemur fram heildarkraftur sem lyftir kúlunni á fluginu og vinnur að hluta til gegn þyngdarkraftinum.

Flug kúlunnar verður þannig að hún rís meðan snúningshraðinn er mikill en þegar hann minnkar síðan dettur hún nánast niður. Þessi áhrif eru mismikil eftir því hvaða kylfa er notuð, það er að segja undir hvaða horni kúlunni er skotið. Hér ræður mestu að snúningshraðinn verður þeim mun meiri eftir því sem hærra járn er notað, eins og kylfingar kalla það. Við getum tekið sem dæmi að kúla sé slegin með 7-járni og fái þá snúningshraða sem er um 5000 snúninga á mínútu. Ef notað er 9-járn í staðinn, verður snúningshraðinn um 7000 snúninga á mínútu.

Laginn kylfingur getur einnig framkallað spunastefnu þannig að þrýstikrafturinn sveigi kúluna til hægri eða vinstri á fluginu. Þeir sem minna mega sín framkalla einnig slíkar hreyfingar, en sjaldnast eins og þeir ætla sér og boltinn sveigir út og suður þegar þeir vildu í raun fá hann til að fljúga beint.

Við sjáum af þessu að tilgangurinn með holunum er að gera flugeiginleika golfkúlunnar fjölbreyttari og auðvelda kylfingnum að stjórna flugi hennar þegar rétt er slegið. Holurnar ásamt spunanum hafa svipuð áhrif á flug boltans eins og breytileg vængbörð eða flapar á flug flugvéla. Skotlengdin ákvarðast síðan af skothorninu, það er að segja af valinu á kylfu.

Mynd:

Höfundur

prófessor emeritus í eðlisfræði við HÍ

Útgáfudagur

27.4.2000

Spyrjandi

Björgvin Ingi Ólafsson

Tilvísun

Örn Helgason. „Hvað eru margar holur á golfkúlum?“ Vísindavefurinn, 27. apríl 2000. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=382.

Örn Helgason. (2000, 27. apríl). Hvað eru margar holur á golfkúlum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=382

Örn Helgason. „Hvað eru margar holur á golfkúlum?“ Vísindavefurinn. 27. apr. 2000. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=382>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað eru margar holur á golfkúlum?
Holufjöldinn á golfkúlum er breytilegur eftir tegundum en algengt er að hann sé um 400. Í sumum tilvikum er hans getið í tegundarheiti og stundum fylgir einnig orð eða skammstöfun sem segir til um hver lögunin á holunni er (hringlaga, fimmhyrningar, sexhyrningar og svo framvegis). Holurnar og einkenni þeirra hafa áhrif á flugeiginleika boltans.

Ef ekki þarf að taka tillit til loftmótstöðu er einfalt að sýna fram á að kasthlutur eins og golfkúla nær lengstu flugi fyrir tiltekinn upphafshraða ef henni er skotið undir 45o horni frá láréttu. Flugferill hennar verður alltaf fleygbogi (parabóla) og öll önnur skothorn bæði stærri og minni gefa styttra flug.

En málið verður öllu flóknara þegar taka þarf tillit til loftmótstöðu og loftstreymis umhverfis kúluna. Ef yfirborð kúlunnar er mjög slétt verður meginmótstaðan við flug hennar vegna sogs og iðukasta sem myndast í "kjölfar" hennar. Þessi mótstaða er þeim mun meiri sem hraði hennar er meiri, en hiti og loftþrýstingur hafa hér einnig nokkur áhrif. Nú verður sambandið flókið milli upphafshraða, skothorns og fluglengdar og reglan um einfaldan fleygboga gildir ekki lengur.


Mynd sem sýnir hvernig loft streymir um golfkúlu sem snýst. Golfkúlan á myndinni snýst réttsælis.

Ef snúningi er komið á kúluna um leið og henni er skotið af stað verður flugferill hennar enn flóknari og það er einkum hér sem fyrrgreindar holur fara að skipta máli. Snúningurinn veldur því að loftið streymir mishratt framhjá kúlunni, miðað við yfirborð hennar, svipað því sem gerist ofan og neðan við flugvélarvæng. Þetta leiðir til þess að þrýstikraftur verkar á kúluna auk þyngdarkraftsins. Stefna þessa krafts ræðst af því hvernig kúlan snýst miðað við hraðastefnu hennar.

Ef kúlan snýst þannig að neðsti punktur hennar hreyfist áfram miðað við miðpunktinn er talað um að hún hafi bakspuna. Efsti punkturinn hreyfist þá að sama skapi afturábak miðað við miðpunkt og hrjúft yfirborð kúlunnar stuðlar að því að hraði loftsins framhjá kúlunni fyrir ofan hana verður talsvert meiri en fyrir neðan hana. Þrýstikrafturinn niður á við frá loftinu fyrir ofan verður þá minni en krafturinn upp á við frá loftinu fyrir neðan og það kemur fram heildarkraftur sem lyftir kúlunni á fluginu og vinnur að hluta til gegn þyngdarkraftinum.

Flug kúlunnar verður þannig að hún rís meðan snúningshraðinn er mikill en þegar hann minnkar síðan dettur hún nánast niður. Þessi áhrif eru mismikil eftir því hvaða kylfa er notuð, það er að segja undir hvaða horni kúlunni er skotið. Hér ræður mestu að snúningshraðinn verður þeim mun meiri eftir því sem hærra járn er notað, eins og kylfingar kalla það. Við getum tekið sem dæmi að kúla sé slegin með 7-járni og fái þá snúningshraða sem er um 5000 snúninga á mínútu. Ef notað er 9-járn í staðinn, verður snúningshraðinn um 7000 snúninga á mínútu.

Laginn kylfingur getur einnig framkallað spunastefnu þannig að þrýstikrafturinn sveigi kúluna til hægri eða vinstri á fluginu. Þeir sem minna mega sín framkalla einnig slíkar hreyfingar, en sjaldnast eins og þeir ætla sér og boltinn sveigir út og suður þegar þeir vildu í raun fá hann til að fljúga beint.

Við sjáum af þessu að tilgangurinn með holunum er að gera flugeiginleika golfkúlunnar fjölbreyttari og auðvelda kylfingnum að stjórna flugi hennar þegar rétt er slegið. Holurnar ásamt spunanum hafa svipuð áhrif á flug boltans eins og breytileg vængbörð eða flapar á flug flugvéla. Skotlengdin ákvarðast síðan af skothorninu, það er að segja af valinu á kylfu.

Mynd: