Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvað getur þú sagt mér um Georgíu?

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

Georgía er í vesturhluta Kákasus, liggur að Svartahafi og á landamæri að Rússlandi, Aserbaídsjan, Armeníu og Tyrklandi. Eins og Armenía og Aserbaídsjan var það eitt af lýðveldum Sovétríkjanna fyrrverandi en hlaut sjálfstæði þegar þau liðuðust í sundur árið 1991. Georgía er um 69.700 km2 að flatarmáli og er áætlað að íbúar landsins hafi verið tæplega 4,7 milljónir í júlí 2004, eða tæplega 70 íbúar á hvern ferkílómetra.



Í landinu er fjöldinn allur af þjóðarbrotum eða minnihlutahópum. Þrjú sjálfsstjórnarsvæði eru innan Georgíu, Abkhazía í norðvesturhluta landsins, Ajaría í suðvestur hlutanum og Suður-Ossetía í norðurhlutanum en stór hluti íbúa þessara svæða hefur sérstakan menningararf og tungumál. Um 70% íbúa Georgíu eru Georgíumenn að uppruna, um 8% eru Armenar, Rússar eru rúmlega 6% og Aserar tæplega 6%. Um 3% eru Ossetíumenn, tæp 2% eru Abkhazar og um 5% tilheyra öðrum þjóðarbrotum.

Georgíska er opinbert tungumál í Georgíu og móðurmál rúmlega 70% íbúanna. Málið tilheyrir suðurkákasískum málum eða kartvelískum málum. Uppruni georgísku er óljós en málið er ekki skylt neinum af helstu tungumálum heims. Georgíska hefur sitt eigið stafróf sem rekja má allt aftur til 5. aldar. Minnihlutahópar í Georgíu hafa margir sitt eigið tungumál og olli það miklum titringi þegar því var lýst yfir í kjölfar sjálfstæðis landsins árið 1991 að georgíska skildi vera opinbert mál í Georgíu. Um 9% landsmanna hafa rússnesku sem móðurmál, 7% tala armenísku og 6% hafa aserísku sem móðurmál. Abkazar líta á sitt eigið tungumál sem opinbert mál í Abkhazíu og í Suður-Ossetíu tala íbúarnir ossetísku.

Í Georgíu eru ekki opinber trúarbrögð en um eða yfir helmingur Georgíumanna aðhyllist kristna trú og tilheyrir georgísku-, rússnesku- eða armensku rétttrúnaðarkirkjunni. Tæpur fimmtungur íbúanna eru múslimar, þá fyrst og fremst Aserar, Ajaríumenn og Kúrdar. Um tveir fimmtu hlutar íbúanna tilheyra ekki neinum ákveðnum trúarsöfnuðum.

Rúmlega helmingur íbúa Georgíu býr í þéttbýli. Þéttust er byggðin við strendur Svartahafs og í árdölum inn til landsins, sérstaklega í Kura-árdalunum þar sem höfuðborgin Tíblisi stendur. Tíblisi er stærsta borg Georgíu með rétt um eina milljón íbúa. Aðrar helstu borgir eru Kutaisi í vesturhluta landsins með um 183.000 íbúa, Batumi höfuðborg Ajaríu, Rustavi sunnan Tíblisi og Sokhumi höfuðborg Abkahzíu. Þrjár síðasttöldu borgirnar eru allar með rétt um eða yfir 100.000 íbúa.



Landbúnaður og þjónusta ásamt iðnaði eru helstu atvinnuvegir í Georgíu. Meðal helstu landbúnaðarafurða eru te og ávextir, þar á meðal vínber. Georgía er auðug af jarðefnum og má þar nefna mangan, kol, járn og marmara. Helstu iðngreinar eru framleiðsla úr stáli og öðrum málmum, tóbaksframleiðsla og víngerð, en vín er meðal helstu útflutningsvara landsins.

Á Sovéttímanum var Svartahafsströnd Georgíu vinsælt ferðamannasvæði en ferðaþjónustan tók mikla dýfu snemma á 10. áratug síðustu aldar vegna ótryggs ástands í landinu. Í raun áttu allar greinar efnahagslífsins erfitt uppdráttar fyrst eftir að landið hlaut sjálfstæði, meðal annars vegna átaka á milli þjóðfélagshópa sem kröfðust meira sjálfstæðis. Pólitískur óstöðugleiki og nýtt landslags í viðskiptum sem blasti við eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur höfðu líka mikil áhrif á efnahag landsins. Með hjálp utanaðkomandi aðila, þar á meðal Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, hefur efnahagslífið þó verið að rétta úr kútnum á undanförnum árum.

Georgía hefur ekki frekar en önnur Kákasuslönd sloppið við átök á milli ólíkra hópa eins og vikið var að hér að ofan. Í lok 9. áratugar síðustu aldar, þegar losna fór um stjórnartaumana í Moskvu, varð krafa frá minnihlutahópum í Georgíu um sjálfstæði eða breytta stöðu sífellt háværari. Íbúar í Suður-Ossetía kröfðust þess að fá að sameinast Norður-Ossetíu í Rússlandi og var sú krafa ein ástæða þess að átök brutust út á milli Georgíu og Suður-Ossetíu í lok árs 1991. Í kjölfarið flúðu margir íbúar Suður-Ossetíu norður yfir landamærin og nú er svo komið að aðeins um 15% Ossetíumanna búa í suðurhlutanum. Georgía og Suður-Ossetía sömdu um vopnahlé árið 1992 og hélst friður nokkurn veginn á milli þjóðanna. Um mitt ár 2004 fór spenna á milli þeirra hins vegar aftur vaxandi og virtist stefna í stríð. Í ágúst 2004 náðist samkomulag um vopnahlé en enn á eftir að koma í ljós hversu vel það mun halda.

Einnig hafa verið átök á milli Georgíu og sjálfsstjórnarsvæðisins Abkhazíu og má meðal annars rekja þau til þess að þjóðernissinnaðir Georgíumenn kröfðust þess að Abkhazía yrði algjörlega undir stjórn Georgíu þegar landið hlyti sjálfstæði. Margir í Abkhazíu voru á öndverðum meiði og kröfðust aukins sjálfstæðis fyrir svæðið. Þetta leiddi til átaka sem enn hafa ekki verið til lykta leidd þrátt fyrir íhlutun Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðlegra samtaka. Nokkrum sinnum hafa deiluaðilar samið um vopnahlé en þau hafa ekki haldið til lengdar.

Þessu svari er fyrst og fremst ætlað að gefa mynd af Georgíu eins og hún er í dag og því er athyglinni lítið beint að sögu landsins eða náttúrufari. Áhugasömum er bent á að í mörgum þeirra heimilda sem getið er hér að neðan er að finna mun ítarlegri umfjöllun um þessa Georgíu, þar með talið sögu og náttúru landsins.

Heimildir og myndir:

Önnur svör um Kákasus á Vísindavefnum eftir sama höfund:Einnig má benda á svör Guðmundar Ólafssonar við spurningunum:

Höfundur

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir

landfræðingur og starfsmaður Vísindavefsins

Útgáfudagur

7.10.2004

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um Georgíu?“ Vísindavefurinn, 7. október 2004. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4547.

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. (2004, 7. október). Hvað getur þú sagt mér um Georgíu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4547

Emilía Dagný Sveinbjörnsdóttir. „Hvað getur þú sagt mér um Georgíu?“ Vísindavefurinn. 7. okt. 2004. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4547>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getur þú sagt mér um Georgíu?
Georgía er í vesturhluta Kákasus, liggur að Svartahafi og á landamæri að Rússlandi, Aserbaídsjan, Armeníu og Tyrklandi. Eins og Armenía og Aserbaídsjan var það eitt af lýðveldum Sovétríkjanna fyrrverandi en hlaut sjálfstæði þegar þau liðuðust í sundur árið 1991. Georgía er um 69.700 km2 að flatarmáli og er áætlað að íbúar landsins hafi verið tæplega 4,7 milljónir í júlí 2004, eða tæplega 70 íbúar á hvern ferkílómetra.



Í landinu er fjöldinn allur af þjóðarbrotum eða minnihlutahópum. Þrjú sjálfsstjórnarsvæði eru innan Georgíu, Abkhazía í norðvesturhluta landsins, Ajaría í suðvestur hlutanum og Suður-Ossetía í norðurhlutanum en stór hluti íbúa þessara svæða hefur sérstakan menningararf og tungumál. Um 70% íbúa Georgíu eru Georgíumenn að uppruna, um 8% eru Armenar, Rússar eru rúmlega 6% og Aserar tæplega 6%. Um 3% eru Ossetíumenn, tæp 2% eru Abkhazar og um 5% tilheyra öðrum þjóðarbrotum.

Georgíska er opinbert tungumál í Georgíu og móðurmál rúmlega 70% íbúanna. Málið tilheyrir suðurkákasískum málum eða kartvelískum málum. Uppruni georgísku er óljós en málið er ekki skylt neinum af helstu tungumálum heims. Georgíska hefur sitt eigið stafróf sem rekja má allt aftur til 5. aldar. Minnihlutahópar í Georgíu hafa margir sitt eigið tungumál og olli það miklum titringi þegar því var lýst yfir í kjölfar sjálfstæðis landsins árið 1991 að georgíska skildi vera opinbert mál í Georgíu. Um 9% landsmanna hafa rússnesku sem móðurmál, 7% tala armenísku og 6% hafa aserísku sem móðurmál. Abkazar líta á sitt eigið tungumál sem opinbert mál í Abkhazíu og í Suður-Ossetíu tala íbúarnir ossetísku.

Í Georgíu eru ekki opinber trúarbrögð en um eða yfir helmingur Georgíumanna aðhyllist kristna trú og tilheyrir georgísku-, rússnesku- eða armensku rétttrúnaðarkirkjunni. Tæpur fimmtungur íbúanna eru múslimar, þá fyrst og fremst Aserar, Ajaríumenn og Kúrdar. Um tveir fimmtu hlutar íbúanna tilheyra ekki neinum ákveðnum trúarsöfnuðum.

Rúmlega helmingur íbúa Georgíu býr í þéttbýli. Þéttust er byggðin við strendur Svartahafs og í árdölum inn til landsins, sérstaklega í Kura-árdalunum þar sem höfuðborgin Tíblisi stendur. Tíblisi er stærsta borg Georgíu með rétt um eina milljón íbúa. Aðrar helstu borgir eru Kutaisi í vesturhluta landsins með um 183.000 íbúa, Batumi höfuðborg Ajaríu, Rustavi sunnan Tíblisi og Sokhumi höfuðborg Abkahzíu. Þrjár síðasttöldu borgirnar eru allar með rétt um eða yfir 100.000 íbúa.



Landbúnaður og þjónusta ásamt iðnaði eru helstu atvinnuvegir í Georgíu. Meðal helstu landbúnaðarafurða eru te og ávextir, þar á meðal vínber. Georgía er auðug af jarðefnum og má þar nefna mangan, kol, járn og marmara. Helstu iðngreinar eru framleiðsla úr stáli og öðrum málmum, tóbaksframleiðsla og víngerð, en vín er meðal helstu útflutningsvara landsins.

Á Sovéttímanum var Svartahafsströnd Georgíu vinsælt ferðamannasvæði en ferðaþjónustan tók mikla dýfu snemma á 10. áratug síðustu aldar vegna ótryggs ástands í landinu. Í raun áttu allar greinar efnahagslífsins erfitt uppdráttar fyrst eftir að landið hlaut sjálfstæði, meðal annars vegna átaka á milli þjóðfélagshópa sem kröfðust meira sjálfstæðis. Pólitískur óstöðugleiki og nýtt landslags í viðskiptum sem blasti við eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur höfðu líka mikil áhrif á efnahag landsins. Með hjálp utanaðkomandi aðila, þar á meðal Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans, hefur efnahagslífið þó verið að rétta úr kútnum á undanförnum árum.

Georgía hefur ekki frekar en önnur Kákasuslönd sloppið við átök á milli ólíkra hópa eins og vikið var að hér að ofan. Í lok 9. áratugar síðustu aldar, þegar losna fór um stjórnartaumana í Moskvu, varð krafa frá minnihlutahópum í Georgíu um sjálfstæði eða breytta stöðu sífellt háværari. Íbúar í Suður-Ossetía kröfðust þess að fá að sameinast Norður-Ossetíu í Rússlandi og var sú krafa ein ástæða þess að átök brutust út á milli Georgíu og Suður-Ossetíu í lok árs 1991. Í kjölfarið flúðu margir íbúar Suður-Ossetíu norður yfir landamærin og nú er svo komið að aðeins um 15% Ossetíumanna búa í suðurhlutanum. Georgía og Suður-Ossetía sömdu um vopnahlé árið 1992 og hélst friður nokkurn veginn á milli þjóðanna. Um mitt ár 2004 fór spenna á milli þeirra hins vegar aftur vaxandi og virtist stefna í stríð. Í ágúst 2004 náðist samkomulag um vopnahlé en enn á eftir að koma í ljós hversu vel það mun halda.

Einnig hafa verið átök á milli Georgíu og sjálfsstjórnarsvæðisins Abkhazíu og má meðal annars rekja þau til þess að þjóðernissinnaðir Georgíumenn kröfðust þess að Abkhazía yrði algjörlega undir stjórn Georgíu þegar landið hlyti sjálfstæði. Margir í Abkhazíu voru á öndverðum meiði og kröfðust aukins sjálfstæðis fyrir svæðið. Þetta leiddi til átaka sem enn hafa ekki verið til lykta leidd þrátt fyrir íhlutun Sameinuðu þjóðanna og fleiri alþjóðlegra samtaka. Nokkrum sinnum hafa deiluaðilar samið um vopnahlé en þau hafa ekki haldið til lengdar.

Þessu svari er fyrst og fremst ætlað að gefa mynd af Georgíu eins og hún er í dag og því er athyglinni lítið beint að sögu landsins eða náttúrufari. Áhugasömum er bent á að í mörgum þeirra heimilda sem getið er hér að neðan er að finna mun ítarlegri umfjöllun um þessa Georgíu, þar með talið sögu og náttúru landsins.

Heimildir og myndir:

Önnur svör um Kákasus á Vísindavefnum eftir sama höfund:Einnig má benda á svör Guðmundar Ólafssonar við spurningunum: ...