Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hverjir voru guðir Egypta til forna?

Skúli Sæland

Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum:

  • Yfir hverju réði egypski konungurinn Ra? (Bogi)
  • Hver var Ísis? (Berglind)

Egypska ríkið á sér langa sögu. Á forsögulegum tímum var fjöldi ættbálka eða smáríkja við Nílarsvæðið sem smám saman sameinuðust í tvö stærri ríki meðfram Níl: Nyrðra og Syðra ríkið. Fram undir fjórða árþúsundið f.Kr. gætir fyrst og fremst afrískra áhrifa en eftir það fer að gæta áhrifa frá Mesópótamíu. Heimildir greina frá sameiginlegum konungi þessara ríkja Menesi að nafni sem ríkti um 3000 f.Kr. Venjan er að skoða sögu Egyptalands eftir ríkjandi konungsættum og yfirleitt eru tilgreind þrjú tímabil sem blómaskeið Egyptalands:

  • Fornríkið (3.-6. kongungsættin, um 2770-2270 f.Kr.)
  • Miðríkið (11.-12. konungsættin, um 2060-1788 f.Kr.)
  • Nýríkið (18.-20. konungsættin, 1580-1085 f.Kr.)

Goðsagnir eru flestar lítið þekktar. Sú þekktasta er lát Ósírisar og fæðing Hórusar sem berst okkur frá gríska sagnaritaranum Plútarkosi. Aðrar goðsagnir eru brotakenndar og oft er einungis vísað til þeirra í egypskum heimildum. Þær voru alkunnar og bárust munnlega á milli manna – sem skýrir að hluta til þær breytingar sem verða á eiginleikum og nöfnum guða.

Guðir Egypta eiga sér langa sögu og þróun og erfitt er að átta sig á elstu heimildunum. Við upphaf sögulegs tíma eru yfirleitt tvær tegundir guða. Annars vegar staðbundnir guðir sem yfirleitt eru táknaðir í dýralíki eða tótemísku formi, en orðið tótem er notað um dýr, plöntu eða hlut sem eru dýrkaðir sem goðmögn, og hins vegar kosmískir guðir sem yfirleitt hafa mannsmyndir. Þeir síðarnefndu virðast hafa komið úr eystri hluta Nílarsvæðisins og gætu tengst trúarhugmyndum að norðaustan. Þessi tvö meginform guða virðast svo hafa blandast. Myndræn framsetning sýnir guði með dýrahöfuð en mannslíkama, dýraguðirnir fá kosmíska eiginleika og þess háttar. Einnig verður vart við að staðbundnir guðir fái víðtækari viðurkenningu oft vegna aukins mikilvægis heimabyggðar þeirra, hér má nefna Amon guð borgarinnar Þebu, Ptah í Memfis verður guð handverksmanna og Thot í Hermópólis guð þekkingar. Ein skýring á breyttu hlutverki guða er sú að nýir valdhafar vildu mikla guði frá heimaslóðum sínum og eignuðu þeim þá hlutverk og kraft annarra áður voldugri guða. Önnur skýring er sú að þegar öflugt miðstýrt vald náði yfirráðum héldu valdhafar stíft fram sinni trú sem varð ríkistrú. Þegar hins vegar upplausnarástand ríkti við fráfall einstakra konunga þá barðist fjöldi smáríkja um völdin. Um leið bar meir á því að mörgum héraðsguðum væri hampað og öðluðust þeir þannig meira vægi en verið hafði.



Hórus, hefnandinn, er velþekktur úr kunnustu goðsögn Egypta sem barst okkur frá gríska sagnaritaranum Plútarkosi.


Í ríkistrú Fornríkisins er Atum frumguð sem steig uppúr frumhafinu Nun. Atum var tvíkynja og eignaðist Shu, guð loftsins, og Tefnut, gyðju rakans. Þau eignast himingyðjuna Nut og jarðguðinn Geb. Atum þekkist einnig sem sólguðinn Re (Ra) og var hluti af birtingarmynd hans. Hér má líka sjá Ósíris, Ísis, Set og Nephthys. Ríkisguðinum Hórusi bregður fyrir sem Horachte. Í Fornríkinu bar þó á Ptah sem frumguð og skapara í stað Atum í borginni Memfis. Hann var kallaður „sá stóri“ og var eitt með frumhafinu. Hann skapaði síðan allt með hugsun sinni og orðum og hélt því við. Hér virðast trúarbrögðin hafa tekist á og að lokum hafði sóltrúin sigur. Ptah varð síðar guð handverksmanna sem fyrr segir.

Á tíma Mið- og Nýríkjanna birtist ný trúarbragðamynd þegar Þeba varð höfðustaðurinn. Höfuðguðinn var Amon (Amun). Um átta frumguði var að ræða sem mynduðu fjögur pör. Nun og gyðjan Naunet sem táknuðu frumhafið, Huh og Hauhet sem voru táknmynd óendanlegs geimsins. Kuk og Kauket voru myrkrið og Niau og Niaut voru tómið. Þessi átta guðir mynduðu saman kaos eða ringulreið. Jörðin var sköpuð úr ringulreiðinni af Amon sem var guð lofts og vinds. Kvenmynd Amons var Amaunet og tóku þau tvö stöðu Niau og Niauts í áttundinni. Í Þebu rann Amon saman við bæði Ptah og Re og sem Amon-Re varð hann æðsti guð ríkisins. Jafnvel Min mátti taka pokann sinn fyrir Amon-Re. Mut varð maki Amons og sonur þeirra var tunglguðinn Chon.

Í tíð Amenhoteps IV, sem síðar kallaði sig Akhnaton („sá sem dýrkar Aton“) kom til stríðs milli konungdæmisins og prestastéttarinnar. Hann reyndi að koma á eingyðistrú á sólskífuna Aton. Sú trú lifði þó ekki dauða hans.




Myndin sýnir Akhnaton og fjölskyldu hans dýrka sólskífuna Aton. Þó einungis mætti dýrka einn guð í tíð Akhnatons þá var ekk beint um eingyðistrú að ræða því faraóinn var sjálfur guð sem fékk mátt sinn frá Aton.

Í tíð síðustu konungsættanna bar nokkuð á því að smáum staðbundnum guðum væru eignaðir eiginleikar stóru guðanna og sem dæmi má nefna að krókódílaguðinn Sobk var nú sagður hafa alla eiginleika sólguða.

Í upptalningu helstu guðanna og þessu stutta yfirliti yfir tímabil konunga í ríkinu má sjá að guðatrúin er æði mótsagnakennd og nánast ógerlegt er að setja þetta fram á skipulegan máta. Til þess er óreiðan of mikil. Stafar þetta af því að Egyptaland var æði sundurlaust ríki í upphafi þar sem ríkti fjölgyðistrú. Þetta blandast saman og verður einn allsherjarhrærigrautur á tugum alda. Þegar reynt er svo að rýna í fornar heimildir fást einungis brotakenndir textar sem erfitt er að raða saman þannig að heildstæð mynd fáist. Þess er líka vert að geta að mikill hluti heimilda kemur frá myndletri pýramídanna og grafskriftum. Þessar heimildir eru flestar frá efnaðari stéttum samfélagsins og því erfitt að segja til um hvort þessir guðir hafi verið jafnmikilvægir hjá lægri stéttunum.

Að ætla að telja upp allar guðlegar verur Egypta myndi æra óstöðugan. Hér eru þær allra helstu:

  • Amon var sýndur mennskur með rauða kórónu eða í hrútslíki. Var á sínum tíma æðsti guð og tengdur borginni Þebu
  • Anubis var í sjakalformi og verndari grafa og líksmurninga. Upprunnin frá borginni Kynopolis.
  • Bastet var gyðja með kattarhöfuð. Hún veitti lífsgleði og sólaryl og kom frá borginni Bubastis.
  • Edjo var sýndur sem kóbraslanga, verndaði konung og var frá borginni Buto.
  • Gyðjan Hator var sýnd sem kýr eða kona með horn. Táknar himininn, listir, þekkingu, ást og dans. Móðir sólguðsins sem gleypti sólina að kveldi og fæddi hana að nýju að morgni. Stundum var hún sögð vera dóttir Res og kona Hórusar. Verndari drottninga og vakti yfir störfum kvenna. Tengist borginni Dendera.
  • Hórus. Sýndur sem fálki eða maður með fálkahöfuð. Útbreiddir vængir hans tákna himininn og augun eru máni og sól. Var einnig sem Horachte (Hórus við sjóndeildarhringinn) og tengdist þá sólguðinum Re. Hann var oft líka táknmynd sólguðs. Hórus var guð konungdæmisins og faraóinn var gjarnan túlkaður sem Hórus. Upprunninn frá Hierakonpolis.
  • Ísis var sýnd sem kona og táknaði móðurgyðjuna.
  • Khumvar sýndur með hrútshöfuð, ríkti yfir efstu flúðum og uppsprettum Nílar og tengist borginni Elefantine. Hann var guð leirkeramiða.
  • Maat var kona með strútsfjaðurskraut á höfði. Hún var gyðja sannleika, réttar og jafnvægis.
  • Min í Koptos var frjósemisguð. Sýndur mannlegur með stóran getnaðarlim.
  • Ósíris var ætíð sýndur sem konungur. Sú arfsögn sem jafnan er stuðst við er að eftir að bróðir hans Set myrti hann fann Ísis, kona hans, hann ásamt gyðjunni Nephthys. Eftir andlátið gat Ósíris soninn Hórus við Ísisi. Hórus hefndi föður síns og tók við konungdómi en Ósíris reis upp frá dauðum og ríkti yfir dauðum. Ósíris var guð jarðargróðurs, frjósemis og endurkomu. Hann var líka guð látinna faraóa sem lifðu áfram í arftaka sínum sem var þá táknaður sem Hórus.
  • Ptah var sýndur í mannslíkama eða múmíulíki. Mest dýrkaður í Memfis. Hann var fyrst og fremst frumguð og skapari. Síðar meir verður hann verndari handverksmanna.
  • Re var yfirleitt sýndur sem maður. Síðar rann hann saman við Hórus og fékk þá fálkahöfuð. Hefðbundinn sólguð sem veitir líf og kemur á röð og reglu. Var sérstaklega dýrkaður í borginni Heliopolis. Reri yfir himininn á bát og lýsti þannig upp jörðina. Að næturlagi réri hann til baka um undirheima. Upphaflega réð hann einnig yfir ríki dauðra.



Hér má sjá mynd af Set höfuðandstæðingi Hórusar sem þó varði hann á leið hans um undirheima að næturlagi.

  • Set var höfuðandstæðingur Hórusar. Hann var sýndur sem villigaltarrakki og kom frá borginni Nub. Það hefur oft verið álitið stafa af deilum milli tveggja ríkja sem höfðu sitt hvorn guðinn en skýringin kann líka að vera sú að Set er andstæða Hórusar. Hann ríkir yfir eyðimörkinni og storminum. Hann var oft sýndur hjálpa Hórusi í stríði gegn óvinum þeirra þó síðar meir yrði hann táknmynd hins illa.
  • Sekmet hafði ljónshöfuð og kom frá Memfis. Þrátt fyrir að vera guð læknislistar var hann einnig guð tortímingar.
  • Sobek. Krókódílaguðinn er vatns- og Nílarguð en einnig frjósemisguð.
  • Thekhbet var táknaður sem gammur og kom frá borginni El Kab. Hann verndaði konunga.
  • Þót eða Thot var oft sýndur sem ibisfugl eða sem api. Kom frá Hermópólis. Hann var ritari guðanna og guð þekkingar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Ringgren, Helmer: „Egyptierna“. Religionerna I historia och nutid. Ringgren, Helmer og Ström, Åke V. 9. upplag, 2. prentun. (Svíþjóð 1986). S. 38-49.
  • Saga mannkyns. Ritröð AB. 1. bindi. Í upphafi var…Frá frummanni til fyrstu siðmenningar. Randi og Gunnar Håland. Ritstjórar Knut Helle, Jarle Simensen, Sven Tägil og Kåre Tönnesson. (Rvk 1988).
  • Viaud, J.: „Egyptian Mythology“. New Larousse Encyclopedia of Mythology. Fyrsta útg. 1959. 21. prentun. (Júgóslavía 1986), s. 9-48.
  • Vefsetrið Wikipedia, myndir sóttar 21. febrúar 2005.

Höfundur

Skúli Sæland

sagnfræðingur

Útgáfudagur

24.2.2005

Spyrjandi

Erlingur Einarsson, f. 1988
Bogi Benediktsson f. 1988
Berglind Þorbergsdóttir
Álfur Birkir Bjarnason, f. 1993

Tilvísun

Skúli Sæland. „Hverjir voru guðir Egypta til forna?“ Vísindavefurinn, 24. febrúar 2005. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=4772.

Skúli Sæland. (2005, 24. febrúar). Hverjir voru guðir Egypta til forna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=4772

Skúli Sæland. „Hverjir voru guðir Egypta til forna?“ Vísindavefurinn. 24. feb. 2005. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=4772>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hverjir voru guðir Egypta til forna?

Hér er einnig svarað eftirfarandi spurningum:

  • Yfir hverju réði egypski konungurinn Ra? (Bogi)
  • Hver var Ísis? (Berglind)

Egypska ríkið á sér langa sögu. Á forsögulegum tímum var fjöldi ættbálka eða smáríkja við Nílarsvæðið sem smám saman sameinuðust í tvö stærri ríki meðfram Níl: Nyrðra og Syðra ríkið. Fram undir fjórða árþúsundið f.Kr. gætir fyrst og fremst afrískra áhrifa en eftir það fer að gæta áhrifa frá Mesópótamíu. Heimildir greina frá sameiginlegum konungi þessara ríkja Menesi að nafni sem ríkti um 3000 f.Kr. Venjan er að skoða sögu Egyptalands eftir ríkjandi konungsættum og yfirleitt eru tilgreind þrjú tímabil sem blómaskeið Egyptalands:

  • Fornríkið (3.-6. kongungsættin, um 2770-2270 f.Kr.)
  • Miðríkið (11.-12. konungsættin, um 2060-1788 f.Kr.)
  • Nýríkið (18.-20. konungsættin, 1580-1085 f.Kr.)

Goðsagnir eru flestar lítið þekktar. Sú þekktasta er lát Ósírisar og fæðing Hórusar sem berst okkur frá gríska sagnaritaranum Plútarkosi. Aðrar goðsagnir eru brotakenndar og oft er einungis vísað til þeirra í egypskum heimildum. Þær voru alkunnar og bárust munnlega á milli manna – sem skýrir að hluta til þær breytingar sem verða á eiginleikum og nöfnum guða.

Guðir Egypta eiga sér langa sögu og þróun og erfitt er að átta sig á elstu heimildunum. Við upphaf sögulegs tíma eru yfirleitt tvær tegundir guða. Annars vegar staðbundnir guðir sem yfirleitt eru táknaðir í dýralíki eða tótemísku formi, en orðið tótem er notað um dýr, plöntu eða hlut sem eru dýrkaðir sem goðmögn, og hins vegar kosmískir guðir sem yfirleitt hafa mannsmyndir. Þeir síðarnefndu virðast hafa komið úr eystri hluta Nílarsvæðisins og gætu tengst trúarhugmyndum að norðaustan. Þessi tvö meginform guða virðast svo hafa blandast. Myndræn framsetning sýnir guði með dýrahöfuð en mannslíkama, dýraguðirnir fá kosmíska eiginleika og þess háttar. Einnig verður vart við að staðbundnir guðir fái víðtækari viðurkenningu oft vegna aukins mikilvægis heimabyggðar þeirra, hér má nefna Amon guð borgarinnar Þebu, Ptah í Memfis verður guð handverksmanna og Thot í Hermópólis guð þekkingar. Ein skýring á breyttu hlutverki guða er sú að nýir valdhafar vildu mikla guði frá heimaslóðum sínum og eignuðu þeim þá hlutverk og kraft annarra áður voldugri guða. Önnur skýring er sú að þegar öflugt miðstýrt vald náði yfirráðum héldu valdhafar stíft fram sinni trú sem varð ríkistrú. Þegar hins vegar upplausnarástand ríkti við fráfall einstakra konunga þá barðist fjöldi smáríkja um völdin. Um leið bar meir á því að mörgum héraðsguðum væri hampað og öðluðust þeir þannig meira vægi en verið hafði.



Hórus, hefnandinn, er velþekktur úr kunnustu goðsögn Egypta sem barst okkur frá gríska sagnaritaranum Plútarkosi.


Í ríkistrú Fornríkisins er Atum frumguð sem steig uppúr frumhafinu Nun. Atum var tvíkynja og eignaðist Shu, guð loftsins, og Tefnut, gyðju rakans. Þau eignast himingyðjuna Nut og jarðguðinn Geb. Atum þekkist einnig sem sólguðinn Re (Ra) og var hluti af birtingarmynd hans. Hér má líka sjá Ósíris, Ísis, Set og Nephthys. Ríkisguðinum Hórusi bregður fyrir sem Horachte. Í Fornríkinu bar þó á Ptah sem frumguð og skapara í stað Atum í borginni Memfis. Hann var kallaður „sá stóri“ og var eitt með frumhafinu. Hann skapaði síðan allt með hugsun sinni og orðum og hélt því við. Hér virðast trúarbrögðin hafa tekist á og að lokum hafði sóltrúin sigur. Ptah varð síðar guð handverksmanna sem fyrr segir.

Á tíma Mið- og Nýríkjanna birtist ný trúarbragðamynd þegar Þeba varð höfðustaðurinn. Höfuðguðinn var Amon (Amun). Um átta frumguði var að ræða sem mynduðu fjögur pör. Nun og gyðjan Naunet sem táknuðu frumhafið, Huh og Hauhet sem voru táknmynd óendanlegs geimsins. Kuk og Kauket voru myrkrið og Niau og Niaut voru tómið. Þessi átta guðir mynduðu saman kaos eða ringulreið. Jörðin var sköpuð úr ringulreiðinni af Amon sem var guð lofts og vinds. Kvenmynd Amons var Amaunet og tóku þau tvö stöðu Niau og Niauts í áttundinni. Í Þebu rann Amon saman við bæði Ptah og Re og sem Amon-Re varð hann æðsti guð ríkisins. Jafnvel Min mátti taka pokann sinn fyrir Amon-Re. Mut varð maki Amons og sonur þeirra var tunglguðinn Chon.

Í tíð Amenhoteps IV, sem síðar kallaði sig Akhnaton („sá sem dýrkar Aton“) kom til stríðs milli konungdæmisins og prestastéttarinnar. Hann reyndi að koma á eingyðistrú á sólskífuna Aton. Sú trú lifði þó ekki dauða hans.




Myndin sýnir Akhnaton og fjölskyldu hans dýrka sólskífuna Aton. Þó einungis mætti dýrka einn guð í tíð Akhnatons þá var ekk beint um eingyðistrú að ræða því faraóinn var sjálfur guð sem fékk mátt sinn frá Aton.

Í tíð síðustu konungsættanna bar nokkuð á því að smáum staðbundnum guðum væru eignaðir eiginleikar stóru guðanna og sem dæmi má nefna að krókódílaguðinn Sobk var nú sagður hafa alla eiginleika sólguða.

Í upptalningu helstu guðanna og þessu stutta yfirliti yfir tímabil konunga í ríkinu má sjá að guðatrúin er æði mótsagnakennd og nánast ógerlegt er að setja þetta fram á skipulegan máta. Til þess er óreiðan of mikil. Stafar þetta af því að Egyptaland var æði sundurlaust ríki í upphafi þar sem ríkti fjölgyðistrú. Þetta blandast saman og verður einn allsherjarhrærigrautur á tugum alda. Þegar reynt er svo að rýna í fornar heimildir fást einungis brotakenndir textar sem erfitt er að raða saman þannig að heildstæð mynd fáist. Þess er líka vert að geta að mikill hluti heimilda kemur frá myndletri pýramídanna og grafskriftum. Þessar heimildir eru flestar frá efnaðari stéttum samfélagsins og því erfitt að segja til um hvort þessir guðir hafi verið jafnmikilvægir hjá lægri stéttunum.

Að ætla að telja upp allar guðlegar verur Egypta myndi æra óstöðugan. Hér eru þær allra helstu:

  • Amon var sýndur mennskur með rauða kórónu eða í hrútslíki. Var á sínum tíma æðsti guð og tengdur borginni Þebu
  • Anubis var í sjakalformi og verndari grafa og líksmurninga. Upprunnin frá borginni Kynopolis.
  • Bastet var gyðja með kattarhöfuð. Hún veitti lífsgleði og sólaryl og kom frá borginni Bubastis.
  • Edjo var sýndur sem kóbraslanga, verndaði konung og var frá borginni Buto.
  • Gyðjan Hator var sýnd sem kýr eða kona með horn. Táknar himininn, listir, þekkingu, ást og dans. Móðir sólguðsins sem gleypti sólina að kveldi og fæddi hana að nýju að morgni. Stundum var hún sögð vera dóttir Res og kona Hórusar. Verndari drottninga og vakti yfir störfum kvenna. Tengist borginni Dendera.
  • Hórus. Sýndur sem fálki eða maður með fálkahöfuð. Útbreiddir vængir hans tákna himininn og augun eru máni og sól. Var einnig sem Horachte (Hórus við sjóndeildarhringinn) og tengdist þá sólguðinum Re. Hann var oft líka táknmynd sólguðs. Hórus var guð konungdæmisins og faraóinn var gjarnan túlkaður sem Hórus. Upprunninn frá Hierakonpolis.
  • Ísis var sýnd sem kona og táknaði móðurgyðjuna.
  • Khumvar sýndur með hrútshöfuð, ríkti yfir efstu flúðum og uppsprettum Nílar og tengist borginni Elefantine. Hann var guð leirkeramiða.
  • Maat var kona með strútsfjaðurskraut á höfði. Hún var gyðja sannleika, réttar og jafnvægis.
  • Min í Koptos var frjósemisguð. Sýndur mannlegur með stóran getnaðarlim.
  • Ósíris var ætíð sýndur sem konungur. Sú arfsögn sem jafnan er stuðst við er að eftir að bróðir hans Set myrti hann fann Ísis, kona hans, hann ásamt gyðjunni Nephthys. Eftir andlátið gat Ósíris soninn Hórus við Ísisi. Hórus hefndi föður síns og tók við konungdómi en Ósíris reis upp frá dauðum og ríkti yfir dauðum. Ósíris var guð jarðargróðurs, frjósemis og endurkomu. Hann var líka guð látinna faraóa sem lifðu áfram í arftaka sínum sem var þá táknaður sem Hórus.
  • Ptah var sýndur í mannslíkama eða múmíulíki. Mest dýrkaður í Memfis. Hann var fyrst og fremst frumguð og skapari. Síðar meir verður hann verndari handverksmanna.
  • Re var yfirleitt sýndur sem maður. Síðar rann hann saman við Hórus og fékk þá fálkahöfuð. Hefðbundinn sólguð sem veitir líf og kemur á röð og reglu. Var sérstaklega dýrkaður í borginni Heliopolis. Reri yfir himininn á bát og lýsti þannig upp jörðina. Að næturlagi réri hann til baka um undirheima. Upphaflega réð hann einnig yfir ríki dauðra.



Hér má sjá mynd af Set höfuðandstæðingi Hórusar sem þó varði hann á leið hans um undirheima að næturlagi.

  • Set var höfuðandstæðingur Hórusar. Hann var sýndur sem villigaltarrakki og kom frá borginni Nub. Það hefur oft verið álitið stafa af deilum milli tveggja ríkja sem höfðu sitt hvorn guðinn en skýringin kann líka að vera sú að Set er andstæða Hórusar. Hann ríkir yfir eyðimörkinni og storminum. Hann var oft sýndur hjálpa Hórusi í stríði gegn óvinum þeirra þó síðar meir yrði hann táknmynd hins illa.
  • Sekmet hafði ljónshöfuð og kom frá Memfis. Þrátt fyrir að vera guð læknislistar var hann einnig guð tortímingar.
  • Sobek. Krókódílaguðinn er vatns- og Nílarguð en einnig frjósemisguð.
  • Thekhbet var táknaður sem gammur og kom frá borginni El Kab. Hann verndaði konunga.
  • Þót eða Thot var oft sýndur sem ibisfugl eða sem api. Kom frá Hermópólis. Hann var ritari guðanna og guð þekkingar.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:

  • Ringgren, Helmer: „Egyptierna“. Religionerna I historia och nutid. Ringgren, Helmer og Ström, Åke V. 9. upplag, 2. prentun. (Svíþjóð 1986). S. 38-49.
  • Saga mannkyns. Ritröð AB. 1. bindi. Í upphafi var…Frá frummanni til fyrstu siðmenningar. Randi og Gunnar Håland. Ritstjórar Knut Helle, Jarle Simensen, Sven Tägil og Kåre Tönnesson. (Rvk 1988).
  • Viaud, J.: „Egyptian Mythology“. New Larousse Encyclopedia of Mythology. Fyrsta útg. 1959. 21. prentun. (Júgóslavía 1986), s. 9-48.
  • Vefsetrið Wikipedia, myndir sóttar 21. febrúar 2005.
...