Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað lifa moskítóflugur lengi og af hverju klæjar mann af bitum þeirra?

Gunnar Þór Magnússon

Moskítóflugur eru skordýr sem tilheyra ættinni Culicidae. Um 2.700 mismunandi tegundir moskítóflugna eru þekktar og þær finnast um nær allan heim. Moskítóflugur lifa hins vegar ekki á Íslandi þrátt fyrir að þrífast bæði á Grænlandi og á Norðurlöndunum. Þær eru álitnar mikil meindýr þar sem þær finnast en þær bíta bæði menn og búfénað og sjúga úr þeim blóð, og geta þar að auki borið með sér sjúkdóma.

Eins og flest skordýr byrja moskítóflugur líf sitt sem egg og fara svo í gegnum nokkur myndbreytingar stig áður en þær verða fullþroska flugur. Þessu ferli má skipta í fjögur stig, þar sem fyrstu þrjú stigin eiga sér stað á eða rétt undir yfirborði vatns. Lífsferillinn hefst þegar fullorðin fluga verpir eggjum sínum í vatn. Þar þroskast þau og úr þeim klekjast lirfur sem breytast á endanum í púpur. Í púpunni á lokastig þroskaferilsins sér stað og úr henni skríður fullorðin moskítófluga.

Moskítófluga drekkur blóð.

Flugan byrjar á því að finna sér þurran stað þar sem vængir hennar og stoðgrind getur harnað. Þessu næst finnur hún sér maka og að því loknu nærist hún. Frá því að eggið klekst út og þar til að flugan er fullþroskuð líður allt frá nokkrum dögum og upp í einhverjar vikur eða jafnvel mánuði, en það fer eftir tegund flugunnar og umhverfisaðstæðum hverju sinni. Eggin geta yfirleitt lifað af veturinn og klekjast þá út á vorin þegar umhverfisaðstæður eru hagstæðar. Lífstími flugnanna sjálfra er einnig breytilegur eftir tegundum og kyni; karlflugurnar deyja eftir nokkra daga en kvenflugurnar lifa oft í einhverjar vikur. Kvendýr sumra tegunda geta jafnvel legið í dvala yfir veturinn.

Moskítóflugur nærast að mestu á safa úr blómum líkt og mörg önnur skordýr, en ekki blóði eins og margir halda. Það eru aðeins kvenkyns moskítóflugur sem sjúga blóð úr mönnum eða dýrum. Þær þurfa prótín sem finnst í blóði dýra til þess að geta þroskað eggin sín. Ef viðkomandi moskítótegund getur verpt eggjum oftar en einu sinni þarf kvendýrið að drekka blóð í hvert skipti áður en hún verpir. Oft er hægt að þekkja karl- og kvendýr í sundur á tvo vegu; annars vegar eru fálmarar karldýranna þaktir hárum sem gera þeim kleift að finna kvendýrin, en fálmarar kvendýranna eru hins vegar nokkuð berir. Kvendýrin hafa aftur á móti eins konar rana sem karldýring hafa ekki, en þær nota þá til að stinga í fórnarlömb sín og sjúga úr þeim blóð.



Moskítóflugur af tegundinni Culex pipiens. Vinstra megin er karldýr og hægra megin er kvendýr.

Til að finna fórnarlömb sín beita moskítóflugur nokkrum mismunandi aðferðum. Þær geta til dæmis skynjað styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu, en allar lífverur sem anda að sér súrefni skila frá sér koltvísýringi. Þannig geta moskítóflugur greint andardrátt manneskju í allt að 35 metra fjarlægð. Þegar nær dregur geta flugurnar skynjað líkamshita sem innrautt ljós, og þær geta einnig skynjað ýmsa líkamslykt, til dæmis svitalykt. Þar að auki geta þær skynjað hreyfingar gegnum venjulega sjón. Flugurnar eru virkastar í ljósaskiptunum á morgnana og kvöldin og því er mesta hættan á að verða bitinn á þeim tíma.

Líkt og hjá öðrum skordýrum sem sjúga blóð hafa þróast hjá moskítóflugum leiðir til að vinna á móti eðlilegri storknun blóðsins sem þær drekka. Þegar fluga bítur fórnarlamb sitt sprautar hún munnvatni inn í sárið áður en hún byrjar að drekka. Í munnvatninu eru fjölmörg efni, til dæmis prótín sem sporna gegn storknun blóðs. Ónæmiskerfi fórnarlambsins ræðst á þessi prótín og reynir að brjóta þau niður; í kjölfarið myndast bólgur í kringum bitið og þessu getur fylgt töluverður kláði. Undir venjulegum kringumstæðum er ekki ástæða til að leita læknis vegna moskítóbita. Bitin erta og geta verið sársaukafull en þau eru venjulega ekki hættuleg heilsu manna. Ef mjög sterk ofnæmisviðbrögð koma fram getur þó verið ráðlegt að leita til læknis. Svimi eða ógleði í kjölfar bitsins geta verið dæmi um alvarleg ofnæmisviðbrögð sem og mikil bjúgsöfnun.

Moskítóflugur geta borið með sér ýmsa sjúkdóma, en í Ástralíu, Bandaríkjunum, Evrópu, Japan og á Nýja-Sjálandi er hættan á að smitast gegnum bit þó hverfandi. Mælt er með því að þvo bitin með mildri sápu og forðast að klóra svæðið. Það getur dregið úr óþægindunum tímabundið að annaðhvort kæla eða hita svæðið í kringum bitið. Í apótekum má einnig finna krem með ofnæmislyfjum (e. antihistamine) sem létta kláðann í lengri tíma. Viðbrögð fólks við moskítóbitum og hversu lengi þau vara eru afar einstaklingsbundin og þar skiptir tegund moskítóflugnanna einnig máli. Óþægindin geta varað í allt frá einum degi og upp í rúma viku.

Í Afríku, Asíu, Mið- og Suður-Ameríku geta moskítóflugur borið með sér hitabeltissjúkdóma á borð við gulu, malaríu og vesturnílarveikina. Árlega má rekja dauða milljóna manna á þessum svæðum til moskítóbita. Á ferðalögum á þessum landssvæðum er því mikilvægt að vera meðvitaður um þær sýkingar sem einkennt geta svæðin. Það er vert að taka það fram að ekki er hægt að smitast af HIV veirunni gegnum moskítóbit. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim möguleika að moskítóflugur geti borið HIV veiruna á milli manna og allar niðurstöður hafa sýnt að HIV veiran getur hvorki lifað í rana né meltingarvegi moskítóflugna nógu lengi til að hætta sé á smiti milli manna.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Upphaflega var spurt þriggja spurninga sem hljóðuðu svona:

  • Af hverju klæjar manni af moskítóflugu biti?
  • Hvað lifa moskítóflugur lengi?
  • Hvernig finnur moskítófluga manneskju til að sjúga blóð?

Höfundur

Gunnar Þór Magnússon

stærðfræðingur

Útgáfudagur

30.7.2008

Spyrjandi

Björn Þórsson
Þórður Aðalsteinsson

Tilvísun

Gunnar Þór Magnússon. „Hvað lifa moskítóflugur lengi og af hverju klæjar mann af bitum þeirra?“ Vísindavefurinn, 30. júlí 2008. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=48291.

Gunnar Þór Magnússon. (2008, 30. júlí). Hvað lifa moskítóflugur lengi og af hverju klæjar mann af bitum þeirra? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=48291

Gunnar Þór Magnússon. „Hvað lifa moskítóflugur lengi og af hverju klæjar mann af bitum þeirra?“ Vísindavefurinn. 30. júl. 2008. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=48291>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað lifa moskítóflugur lengi og af hverju klæjar mann af bitum þeirra?
Moskítóflugur eru skordýr sem tilheyra ættinni Culicidae. Um 2.700 mismunandi tegundir moskítóflugna eru þekktar og þær finnast um nær allan heim. Moskítóflugur lifa hins vegar ekki á Íslandi þrátt fyrir að þrífast bæði á Grænlandi og á Norðurlöndunum. Þær eru álitnar mikil meindýr þar sem þær finnast en þær bíta bæði menn og búfénað og sjúga úr þeim blóð, og geta þar að auki borið með sér sjúkdóma.

Eins og flest skordýr byrja moskítóflugur líf sitt sem egg og fara svo í gegnum nokkur myndbreytingar stig áður en þær verða fullþroska flugur. Þessu ferli má skipta í fjögur stig, þar sem fyrstu þrjú stigin eiga sér stað á eða rétt undir yfirborði vatns. Lífsferillinn hefst þegar fullorðin fluga verpir eggjum sínum í vatn. Þar þroskast þau og úr þeim klekjast lirfur sem breytast á endanum í púpur. Í púpunni á lokastig þroskaferilsins sér stað og úr henni skríður fullorðin moskítófluga.

Moskítófluga drekkur blóð.

Flugan byrjar á því að finna sér þurran stað þar sem vængir hennar og stoðgrind getur harnað. Þessu næst finnur hún sér maka og að því loknu nærist hún. Frá því að eggið klekst út og þar til að flugan er fullþroskuð líður allt frá nokkrum dögum og upp í einhverjar vikur eða jafnvel mánuði, en það fer eftir tegund flugunnar og umhverfisaðstæðum hverju sinni. Eggin geta yfirleitt lifað af veturinn og klekjast þá út á vorin þegar umhverfisaðstæður eru hagstæðar. Lífstími flugnanna sjálfra er einnig breytilegur eftir tegundum og kyni; karlflugurnar deyja eftir nokkra daga en kvenflugurnar lifa oft í einhverjar vikur. Kvendýr sumra tegunda geta jafnvel legið í dvala yfir veturinn.

Moskítóflugur nærast að mestu á safa úr blómum líkt og mörg önnur skordýr, en ekki blóði eins og margir halda. Það eru aðeins kvenkyns moskítóflugur sem sjúga blóð úr mönnum eða dýrum. Þær þurfa prótín sem finnst í blóði dýra til þess að geta þroskað eggin sín. Ef viðkomandi moskítótegund getur verpt eggjum oftar en einu sinni þarf kvendýrið að drekka blóð í hvert skipti áður en hún verpir. Oft er hægt að þekkja karl- og kvendýr í sundur á tvo vegu; annars vegar eru fálmarar karldýranna þaktir hárum sem gera þeim kleift að finna kvendýrin, en fálmarar kvendýranna eru hins vegar nokkuð berir. Kvendýrin hafa aftur á móti eins konar rana sem karldýring hafa ekki, en þær nota þá til að stinga í fórnarlömb sín og sjúga úr þeim blóð.



Moskítóflugur af tegundinni Culex pipiens. Vinstra megin er karldýr og hægra megin er kvendýr.

Til að finna fórnarlömb sín beita moskítóflugur nokkrum mismunandi aðferðum. Þær geta til dæmis skynjað styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu, en allar lífverur sem anda að sér súrefni skila frá sér koltvísýringi. Þannig geta moskítóflugur greint andardrátt manneskju í allt að 35 metra fjarlægð. Þegar nær dregur geta flugurnar skynjað líkamshita sem innrautt ljós, og þær geta einnig skynjað ýmsa líkamslykt, til dæmis svitalykt. Þar að auki geta þær skynjað hreyfingar gegnum venjulega sjón. Flugurnar eru virkastar í ljósaskiptunum á morgnana og kvöldin og því er mesta hættan á að verða bitinn á þeim tíma.

Líkt og hjá öðrum skordýrum sem sjúga blóð hafa þróast hjá moskítóflugum leiðir til að vinna á móti eðlilegri storknun blóðsins sem þær drekka. Þegar fluga bítur fórnarlamb sitt sprautar hún munnvatni inn í sárið áður en hún byrjar að drekka. Í munnvatninu eru fjölmörg efni, til dæmis prótín sem sporna gegn storknun blóðs. Ónæmiskerfi fórnarlambsins ræðst á þessi prótín og reynir að brjóta þau niður; í kjölfarið myndast bólgur í kringum bitið og þessu getur fylgt töluverður kláði. Undir venjulegum kringumstæðum er ekki ástæða til að leita læknis vegna moskítóbita. Bitin erta og geta verið sársaukafull en þau eru venjulega ekki hættuleg heilsu manna. Ef mjög sterk ofnæmisviðbrögð koma fram getur þó verið ráðlegt að leita til læknis. Svimi eða ógleði í kjölfar bitsins geta verið dæmi um alvarleg ofnæmisviðbrögð sem og mikil bjúgsöfnun.

Moskítóflugur geta borið með sér ýmsa sjúkdóma, en í Ástralíu, Bandaríkjunum, Evrópu, Japan og á Nýja-Sjálandi er hættan á að smitast gegnum bit þó hverfandi. Mælt er með því að þvo bitin með mildri sápu og forðast að klóra svæðið. Það getur dregið úr óþægindunum tímabundið að annaðhvort kæla eða hita svæðið í kringum bitið. Í apótekum má einnig finna krem með ofnæmislyfjum (e. antihistamine) sem létta kláðann í lengri tíma. Viðbrögð fólks við moskítóbitum og hversu lengi þau vara eru afar einstaklingsbundin og þar skiptir tegund moskítóflugnanna einnig máli. Óþægindin geta varað í allt frá einum degi og upp í rúma viku.

Í Afríku, Asíu, Mið- og Suður-Ameríku geta moskítóflugur borið með sér hitabeltissjúkdóma á borð við gulu, malaríu og vesturnílarveikina. Árlega má rekja dauða milljóna manna á þessum svæðum til moskítóbita. Á ferðalögum á þessum landssvæðum er því mikilvægt að vera meðvitaður um þær sýkingar sem einkennt geta svæðin. Það er vert að taka það fram að ekki er hægt að smitast af HIV veirunni gegnum moskítóbit. Margar rannsóknir hafa verið gerðar á þeim möguleika að moskítóflugur geti borið HIV veiruna á milli manna og allar niðurstöður hafa sýnt að HIV veiran getur hvorki lifað í rana né meltingarvegi moskítóflugna nógu lengi til að hætta sé á smiti milli manna.

Tengt efni á Vísindavefnum:

Heimildir og myndir:

Upphaflega var spurt þriggja spurninga sem hljóðuðu svona:

  • Af hverju klæjar manni af moskítóflugu biti?
  • Hvað lifa moskítóflugur lengi?
  • Hvernig finnur moskítófluga manneskju til að sjúga blóð?
...