Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?

Hrannar Baldursson

Ef Sókrates lifði í dag á sama hátt og hann lifði í Aþenu frá 470 til 399 fyrir Krists burð, væri svarið augljóst: Nei.

Hugsanlega kemur upp í huga margra þegar hugsað er um líf Sókratesar, mynd af hvítskeggjuðum öldungi sem situr á tröppum Aþenutorgs, umkringdur ungum mönnum sem þyrstir í visku. Hann ræðir við þá um heima og geima, það sem er í loftinu og undir jörðinni, í berki trjánna og bakvið augntóftir manna.

Sókrates var ekki jafn einfaldur maður og fyrsta ímyndin um hann ber vitni um. Hann var kvæntur og átti tvö eða þrjú börn, en heimildum ber ekki saman um fjöldann. Svo virðist sem að samband hans við eiginkonuna hafi verið frekar stormasamt, að eitthvað hafi henni ekki líkað alltof vel við tímann sem fór í umræddar samræður á torginu. Munum að Sókrates á torginu er eldri maður, sjálfsagt kominn yfir sextugt, og hann hefur lifað heila ævi og tvær blóðugar byltingar í borginni sem hann elskaði og bjó alltaf í, Aþenu.

Sem ungur maður ferðaðist hann vítt og breitt á meðan hann gengdi herþjónustu fyrir Aþenuborg. Hann á að hafa framið hetjudáðir á vígvellinum, verið nægjusamur á háttum og tággrannur í útliti. Eftir herþjónustuna starfaði hann sem steinsmiður þegar peninga vantaði, en hann virtist alltaf hafa þráð að taka þátt í heimspekilegum samræðum. Það virðist hafa verið meginmarkmið hans, að geta ástundað heimspekina.

Platon, lærlingur hans, segir að Sókrates hafi aldrei þegið greiðslu fyrir heimspekisamræður sínar þrátt fyrir að hafa verið allra manna vinsælastur til slíkra samræða. Fræðimenn, eða sófistarnir, á þessum tíma kenndu flestir mælskulist og rukkuðu drjúgt, en mælskulistin hefur það að meginmarkmiði að sannfæra viðmælanda um að ákveðin skoðun sé rétt eða röng, og sá sem gaf betri rök hafði rétt fyrir sér. Sókrates, hins vegar, leitaði í samræðum sínum eftir hinu sanna, en ekki eftir því sem þótti mest sannfærandi. Þessi greinarmunur er svo mikilvægur að færa má rök fyrir að Sókrates hafi frekar látið lífið en að svíkja málstað sannleikans og óheilinda. Ritin Málsvörn Sókratesar, Faídon og Kríton, má finna í íslenskri þýðingu Sigurðar Nordal undir heitinu Síðustu dagar Sókratesar, en Málsvörnin sýnir Sókrates þar sem hann stendur fyrir dómurum sínum, bæði fyrir og eftir dauðadóminn, Faídon sýnir Sókrates í samræðum við vini sína í fangaklefanum þar sem krufinn er leyndardómurinn um ódauðleika sálarinnar, og í Fædoni er loks síðustu samræðu og dauða Sókratesar lýst.

Dauði Sókratesar (1787) eftir Jacques-Louis David (1748-1825).

Sókrates var gagnrýninn á kenningarnar bakvið þjóðfélagsskipan og siðferði, en hann var löghlýðinn maður, úrvals bardagamaður þegar til þurfti, og fylgdi af fullum heilindum eigin sannfæringu um réttlæti og lög. Til að mynda á meðan lýðræðið ríkti í Aþenu, stóð hann einn gegn því að lög væru samþykkt sem voru í mótsögn við stjórnarskrána. Síðar, eftir að lýðræðið í Aþenu hafði fallið og harðstjórn tekið völdin, hlýddi hann ekki skipunum og neitaði að taka þátt í handtöku og dauða saklauss manns. Eftir að harðstjórnin féll síðar og lýðræðið var tekið upp á ný, var Sókratesi af sumum kennt um að hafa komið hugmyndum gegn lýðræði inn í höfuð ungdómsins. Hann var ákærður og dæmdur til að drekka úr eiturbikar, sem dró hann til dauða.

Væri Sókrates á lífi í dag og byggi í Reykjavík, gætum við hugsað okkur að sem ungur maður hefði hann verið iðnaðarmaður og ef til vill lögreglu- eða slökkviliðsmaður í þjónustu borgar eða ríkis, í stað steinsmíði og hermennsku, og síðan á efri árum gerst alþingismaður, prestur eða kennari, alþingismaður þar sem hann gagnrýnir stöðugt stjórnvöld, prestur þar sem hann ræðir um lífið eftir dauðann og mannlegan verðleika og kennari þar sem hann var umkringdur ungum og áhugasömum nemendum.

Nú mættir þú svara, lesandi góður, hefði Sókrates verið iðjuleysingi og ónytjungur væri hann uppi á okkar tímum?

Lesendum er bent á svar Hauks Más Helgasonar við sömu spurningu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Rit til hliðsjónar:
  • Ted Honderich (ritstj.). The Oxford Companion to Philosophy. New York: Oxford University Press, 1995.
  • Platón, Menón, þýð. Sveinbjörn Egilsson. Hið íslenska bókmenntafélag. 2. útg. 1993.
  • Platón, Þeætetus, þýð. Arnór Hannibalsson. (Bóksala stúdenta selur).
  • Platón, Síðustu dagar Sókratesar, þýð. Sigurður Nordal. Hið íslenska bókmenntafélag. 4. útg. 1996.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfanda hveli I. Mál og menning, 1986.

Myndir:

Höfundur

uppeldisfræðingur og heimspekingur

Útgáfudagur

5.6.2000

Spyrjandi

Andri Pálsson

Tilvísun

Hrannar Baldursson. „Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?“ Vísindavefurinn, 5. júní 2000. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=487.

Hrannar Baldursson. (2000, 5. júní). Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=487

Hrannar Baldursson. „Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?“ Vísindavefurinn. 5. jún. 2000. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=487>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Ef Sókrates væri uppi á okkar tímum, væri hann þá ekki bara iðjuleysingi og ónytjungur?
Ef Sókrates lifði í dag á sama hátt og hann lifði í Aþenu frá 470 til 399 fyrir Krists burð, væri svarið augljóst: Nei.

Hugsanlega kemur upp í huga margra þegar hugsað er um líf Sókratesar, mynd af hvítskeggjuðum öldungi sem situr á tröppum Aþenutorgs, umkringdur ungum mönnum sem þyrstir í visku. Hann ræðir við þá um heima og geima, það sem er í loftinu og undir jörðinni, í berki trjánna og bakvið augntóftir manna.

Sókrates var ekki jafn einfaldur maður og fyrsta ímyndin um hann ber vitni um. Hann var kvæntur og átti tvö eða þrjú börn, en heimildum ber ekki saman um fjöldann. Svo virðist sem að samband hans við eiginkonuna hafi verið frekar stormasamt, að eitthvað hafi henni ekki líkað alltof vel við tímann sem fór í umræddar samræður á torginu. Munum að Sókrates á torginu er eldri maður, sjálfsagt kominn yfir sextugt, og hann hefur lifað heila ævi og tvær blóðugar byltingar í borginni sem hann elskaði og bjó alltaf í, Aþenu.

Sem ungur maður ferðaðist hann vítt og breitt á meðan hann gengdi herþjónustu fyrir Aþenuborg. Hann á að hafa framið hetjudáðir á vígvellinum, verið nægjusamur á háttum og tággrannur í útliti. Eftir herþjónustuna starfaði hann sem steinsmiður þegar peninga vantaði, en hann virtist alltaf hafa þráð að taka þátt í heimspekilegum samræðum. Það virðist hafa verið meginmarkmið hans, að geta ástundað heimspekina.

Platon, lærlingur hans, segir að Sókrates hafi aldrei þegið greiðslu fyrir heimspekisamræður sínar þrátt fyrir að hafa verið allra manna vinsælastur til slíkra samræða. Fræðimenn, eða sófistarnir, á þessum tíma kenndu flestir mælskulist og rukkuðu drjúgt, en mælskulistin hefur það að meginmarkmiði að sannfæra viðmælanda um að ákveðin skoðun sé rétt eða röng, og sá sem gaf betri rök hafði rétt fyrir sér. Sókrates, hins vegar, leitaði í samræðum sínum eftir hinu sanna, en ekki eftir því sem þótti mest sannfærandi. Þessi greinarmunur er svo mikilvægur að færa má rök fyrir að Sókrates hafi frekar látið lífið en að svíkja málstað sannleikans og óheilinda. Ritin Málsvörn Sókratesar, Faídon og Kríton, má finna í íslenskri þýðingu Sigurðar Nordal undir heitinu Síðustu dagar Sókratesar, en Málsvörnin sýnir Sókrates þar sem hann stendur fyrir dómurum sínum, bæði fyrir og eftir dauðadóminn, Faídon sýnir Sókrates í samræðum við vini sína í fangaklefanum þar sem krufinn er leyndardómurinn um ódauðleika sálarinnar, og í Fædoni er loks síðustu samræðu og dauða Sókratesar lýst.

Dauði Sókratesar (1787) eftir Jacques-Louis David (1748-1825).

Sókrates var gagnrýninn á kenningarnar bakvið þjóðfélagsskipan og siðferði, en hann var löghlýðinn maður, úrvals bardagamaður þegar til þurfti, og fylgdi af fullum heilindum eigin sannfæringu um réttlæti og lög. Til að mynda á meðan lýðræðið ríkti í Aþenu, stóð hann einn gegn því að lög væru samþykkt sem voru í mótsögn við stjórnarskrána. Síðar, eftir að lýðræðið í Aþenu hafði fallið og harðstjórn tekið völdin, hlýddi hann ekki skipunum og neitaði að taka þátt í handtöku og dauða saklauss manns. Eftir að harðstjórnin féll síðar og lýðræðið var tekið upp á ný, var Sókratesi af sumum kennt um að hafa komið hugmyndum gegn lýðræði inn í höfuð ungdómsins. Hann var ákærður og dæmdur til að drekka úr eiturbikar, sem dró hann til dauða.

Væri Sókrates á lífi í dag og byggi í Reykjavík, gætum við hugsað okkur að sem ungur maður hefði hann verið iðnaðarmaður og ef til vill lögreglu- eða slökkviliðsmaður í þjónustu borgar eða ríkis, í stað steinsmíði og hermennsku, og síðan á efri árum gerst alþingismaður, prestur eða kennari, alþingismaður þar sem hann gagnrýnir stöðugt stjórnvöld, prestur þar sem hann ræðir um lífið eftir dauðann og mannlegan verðleika og kennari þar sem hann var umkringdur ungum og áhugasömum nemendum.

Nú mættir þú svara, lesandi góður, hefði Sókrates verið iðjuleysingi og ónytjungur væri hann uppi á okkar tímum?

Lesendum er bent á svar Hauks Más Helgasonar við sömu spurningu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Rit til hliðsjónar:
  • Ted Honderich (ritstj.). The Oxford Companion to Philosophy. New York: Oxford University Press, 1995.
  • Platón, Menón, þýð. Sveinbjörn Egilsson. Hið íslenska bókmenntafélag. 2. útg. 1993.
  • Platón, Þeætetus, þýð. Arnór Hannibalsson. (Bóksala stúdenta selur).
  • Platón, Síðustu dagar Sókratesar, þýð. Sigurður Nordal. Hið íslenska bókmenntafélag. 4. útg. 1996.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson. Heimsmynd á hverfanda hveli I. Mál og menning, 1986.

Myndir:...