Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var Rasmus Christian Rask?

Magnús Snædal

Danski málfræðingurinn Rasmus Kristian Rask fæddist 22. nóvember 1787 í bænum Brændekilde á Fjóni en lést 14. nóvember 1832 í Kaupmannahöfn. Hann gekk í latínuskóla í Óðinsvéum og hóf síðan guðfræðinám við háskólann í Kaupmannahöfn. Hann stundaði það samt lítt þar sem hann var með allan hugann við mál og málfræði. Hann lauk því ekki formlegu háskólaprófi en vann lengi fyrir sér sem stundakennari. Hann varð þó bókavörður við háskólabókasafnið og var loks skipaður prófessor í asíumálum við Kaupmannahafnarháskóla tæpu ári fyrir andlát sitt. Hér verður aðeins vikið að því helsta er varðar framlag hans til málfræði.

Rask og íslenskan

Tengsl Rasks við Ísland voru sérstök. Hann lærði íslensku af bókinni Heimskringlu á meðan hann var í latínuskólanum. Til þess notaði hann útgáfu með latneskri og danskri þýðingu sem hann fékk sem viðurkenningu fyrir ástundun. Hann hafði hvorki íslenska orðabók né bækur um málfræði en bjó hvorttveggja til jafnóðum með því að bera frumtextann saman við þýðingarnar. Þegar hann kom svo til Kaupmannahafnar kynntist hann íslenskum stúdentum og lærði samtímamál af þeim, ekki síst framburðinn.

Þetta varð síðar uppistaðan í kennslubók í íslenskri málfræði (Vejledning til det Islandske eller gamle Nordiske Sprog) sem hann lauk 1809, en var ekki prentuð fyrr en 1811. Rask fór að ýmsu leyti eigin leiðir í framsetningu efnisins og aðrar kennslubækur sem hann samdi urðu með sama sniði. Þær urðu einnig fyrirmynd íslenskra málfræðibóka fram á 20. öld.

Rask dvaldist á Íslandi 1813–1815 til þess að læra málið betur. Hann ferðaðist víða og náði mjög góðum tökum á íslensku. Á þessum grundvelli endurskoðaði hann svo kennslubókina og gaf hana út á sænsku 1818 (Anvisning til Isländskan eller Nordiska Fornspråket). Hann tók þátt í stofnun Hins íslenska bókmenntafélags 30. mars 1816 og var formaður þess þar til í október sama ár þegar hann lagði af stað í langa ferð til Austurlanda. Hann átti mikinn þátt í að móta íslenska málhreinsunarstefnu sem Fjölnismenn fylgdu svo fram af mestum krafti.

Rask og samanburðarmálfræðin

Rask varð einn af brautryðjendum samanburðarmálfræðinnar. Rit hans, Undersøgelse om det gamle Nordiske eller Islandske Sprogs Oprindelse, fjallar eins og nafnið bendir til um uppruna íslensku eða norrænu. Sagt hefur verið að það sé í raun indóevrópsk samanburðarmálfræði í reyfum. Ritið er samið sem svar við verðlaunatilboði danska vísindafélagsins um efnið, þar sem heitið var á fræðimenn ‘að rannsaka með sögulegri gagnrýni og sýna með raunhæfum dæmum’ hver væri öruggust uppspretta hins forna skandinavíska máls; að lýsa einkennum málsins og tengslum þess við norrænar og germanskar mállýskur að fornu og á miðöldum; enn fremur ‘að gera nákvæma grein fyrir þeim grundvelli sem afleiðsla og samanburður þessara tungumála verður að byggjast á’.

Í rannsókn sinni bar Rask íslensku saman við öll grannmálin hvert fyrir sig og ákvarðaði hvort um skyldleika væri að ræða eða ekki. Skyld taldi hann vera germönsku málin, slavnesku, baltnesku, grísku/latínu og armensku en efaðist um skyldleika við írönsk og indversk mál. Óskyld taldi hann vera keltnesku, basknesku, finnsk-úgrísku og semitísk mál. Rask varaði við þeirri skoðun að norræna sé komin af grísku heldur séu bæði málin komin af tungumáli sem nú er útdautt.

Rask lauk ritgerðinni 1814 og sendi hana heim frá Íslandi. Hún kom þó ekki út fyrr en 1818. Þá var Rask lagður af stað til Indlands og hafði komið auga á ýmsa vankanta; til dæmis séð að keltnesku málin voru skyld íslensku og einnig indversk og írönsk mál, svo sem sanskríts og persneska.

Rask átti mikinn þátt í að móta aðferðir samanburðarmálfræðinnar. Hann benti á að í orðaforðanum geti leynst fjöldi tökuorða sem rugli myndina og því sé ekki hægt að treysta því að mál séu skyld þótt í þeim séu ýmis lík orð sem merki það sama. Því verður að byggja á grundvallarorðraforðanum; fornöfnum, töluorðum, frændsemisorðum og fleiru sem mál taka sjaldan að láni.

Rask lagði mikla áherslu á málfræðilegar samsvaranir, því þótt mál taki orð að láni er sjaldgæft að þau taki beygingar að láni. Þetta orðaði hann á þá leið að þegar svo margar samsvaranir finnist í grunnorðaforða tveggja tungumála að hægt sé að finna reglu fyrir breytingu bókstafanna úr öðru í hitt þá sé um skyldleika að ræða. Rask gerði því ráð fyrir að hljóðbreytingar geti verið reglulegar. Þannig uppgötvaði hann það sem síðar var kallað germanska hljóðfærslan, þótt örlað hafi á þeirri hugmynd fyrr. Um er að ræða reglulegar samsvaranir samhljóða í grísku/latínu og íslensku, t.d. p – f, t – þ, k – h eins og í latínu pater, tres, cornu og íslensku faðir, þrír, horn.

Rask og önnur tungumál

Á ferðalögum sínum reyndi Rask alls staðar að komast eitthvað niður í máli heimamanna. Hann hafði alltaf í huga hvernig skyldleika málanna væri háttað og kynnti sér öll þau mál sem hann gat aflað sér upplýsinga um. Sagt er að hann hafi kunnað fimmtíu og fimm tungumál. Með því er ekki átt við að hann hafi talað þau öll reiprennandi, heldur að hann hafi kynnt sér þau til nokkurrar hlítar.

Sem dæmi má taka samísku. Árið 1832 gaf hann út samíska málfræði (Ræsonneret lappisk sproglære) en hafði þá, að eigin sögn ‘ekki nokkurn tíma hitt eða talað við nokkurn innfæddan eða nokkurn útlendan sem skildi málið eða hafði rannsakað það á nokkurn hátt’. Bókin var gefin út í örkum og voru 10 útkomnar þegar trúboði nokkur ásamt innfæddum Sama kom til Kaupmannahafnar. Svo heppilega vildi til að framburðarkaflinn var enn óprentaður og gat Rask því fengið nokkrar upplýsingar um það efni áður en það var um seinan.

Verk Rasks um samíska málfræði varð til þess að nú er litið er á hann sem upphafsmann vísindalegra athugana á samísku. Þetta er ágætt dæmi um innsæi Rasks og hæfileika til að gera sér mat úr takmörkuðum gögnum. Einnig má nefna að hann benti á að samsvaranir væru í grunnorðaforða og orðmyndun grænlensku og þess tungumáls sem talað er á Aleútaeyjum. Þetta hafa síðari rannsóknir staðfest og er nú talað um að bæði tungumálin tilheyri eskimó-aleút-málaættinni.

Rask fékkst ekki bara við rannsóknir á erlendum málum. Hann rannsakaði einnig sitt eigið móðurmál og skrifaði meðal annars um mállýsku Fjónbúa. Hann átti í áralöngum deilum um danska stafsetningu sem ekki verða raktar hér. Þess skal þó getið að hann aðhylltist það sjónarmið að stafsetningu bæri að miða sem mest við framburð.

Á legsteini Rasks, sem reistur var tíu árum eftir andlát hans, eru áletranir á sanskrít, arabísku, íslensku og dönsku. Íslenska áletrunin er með rúnaletri og mun sótt í Konungsskuggsjá. Hún hljóðar svo:

Ef þú vilt fullkominn vera í fróðleik þá nem þú allar tungur en týn þó eigi að heldur þinni tungu.

Helstu heimildir og mynd:

  • Guðrún Kvaran. Rasmus Kristján Rask. Skírnir 161:213–232, 1987.
  • Holger Pedersen. Sprogvidenskaben i det nittende aarhundrede. 1924.
  • Kirsten Rask. Rasmus Rask. Store tanker i et lille land. 2002.
  • Jørgen Rischel. Sproggranskeren Rarsmus Kristian Rask. 1987.
  • Myndin er af Wikipedia.com. Sótt 10.4.2011.

Höfundur

prófessor í málvísindum við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

20.6.2005

Spyrjandi

Snærós Sindradóttir, f. 1991

Tilvísun

Magnús Snædal. „Hver var Rasmus Christian Rask?“ Vísindavefurinn, 20. júní 2005. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5066.

Magnús Snædal. (2005, 20. júní). Hver var Rasmus Christian Rask? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5066

Magnús Snædal. „Hver var Rasmus Christian Rask?“ Vísindavefurinn. 20. jún. 2005. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5066>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Rasmus Christian Rask?
Danski málfræðingurinn Rasmus Kristian Rask fæddist 22. nóvember 1787 í bænum Brændekilde á Fjóni en lést 14. nóvember 1832 í Kaupmannahöfn. Hann gekk í latínuskóla í Óðinsvéum og hóf síðan guðfræðinám við háskólann í Kaupmannahöfn. Hann stundaði það samt lítt þar sem hann var með allan hugann við mál og málfræði. Hann lauk því ekki formlegu háskólaprófi en vann lengi fyrir sér sem stundakennari. Hann varð þó bókavörður við háskólabókasafnið og var loks skipaður prófessor í asíumálum við Kaupmannahafnarháskóla tæpu ári fyrir andlát sitt. Hér verður aðeins vikið að því helsta er varðar framlag hans til málfræði.

Rask og íslenskan

Tengsl Rasks við Ísland voru sérstök. Hann lærði íslensku af bókinni Heimskringlu á meðan hann var í latínuskólanum. Til þess notaði hann útgáfu með latneskri og danskri þýðingu sem hann fékk sem viðurkenningu fyrir ástundun. Hann hafði hvorki íslenska orðabók né bækur um málfræði en bjó hvorttveggja til jafnóðum með því að bera frumtextann saman við þýðingarnar. Þegar hann kom svo til Kaupmannahafnar kynntist hann íslenskum stúdentum og lærði samtímamál af þeim, ekki síst framburðinn.

Þetta varð síðar uppistaðan í kennslubók í íslenskri málfræði (Vejledning til det Islandske eller gamle Nordiske Sprog) sem hann lauk 1809, en var ekki prentuð fyrr en 1811. Rask fór að ýmsu leyti eigin leiðir í framsetningu efnisins og aðrar kennslubækur sem hann samdi urðu með sama sniði. Þær urðu einnig fyrirmynd íslenskra málfræðibóka fram á 20. öld.

Rask dvaldist á Íslandi 1813–1815 til þess að læra málið betur. Hann ferðaðist víða og náði mjög góðum tökum á íslensku. Á þessum grundvelli endurskoðaði hann svo kennslubókina og gaf hana út á sænsku 1818 (Anvisning til Isländskan eller Nordiska Fornspråket). Hann tók þátt í stofnun Hins íslenska bókmenntafélags 30. mars 1816 og var formaður þess þar til í október sama ár þegar hann lagði af stað í langa ferð til Austurlanda. Hann átti mikinn þátt í að móta íslenska málhreinsunarstefnu sem Fjölnismenn fylgdu svo fram af mestum krafti.

Rask og samanburðarmálfræðin

Rask varð einn af brautryðjendum samanburðarmálfræðinnar. Rit hans, Undersøgelse om det gamle Nordiske eller Islandske Sprogs Oprindelse, fjallar eins og nafnið bendir til um uppruna íslensku eða norrænu. Sagt hefur verið að það sé í raun indóevrópsk samanburðarmálfræði í reyfum. Ritið er samið sem svar við verðlaunatilboði danska vísindafélagsins um efnið, þar sem heitið var á fræðimenn ‘að rannsaka með sögulegri gagnrýni og sýna með raunhæfum dæmum’ hver væri öruggust uppspretta hins forna skandinavíska máls; að lýsa einkennum málsins og tengslum þess við norrænar og germanskar mállýskur að fornu og á miðöldum; enn fremur ‘að gera nákvæma grein fyrir þeim grundvelli sem afleiðsla og samanburður þessara tungumála verður að byggjast á’.

Í rannsókn sinni bar Rask íslensku saman við öll grannmálin hvert fyrir sig og ákvarðaði hvort um skyldleika væri að ræða eða ekki. Skyld taldi hann vera germönsku málin, slavnesku, baltnesku, grísku/latínu og armensku en efaðist um skyldleika við írönsk og indversk mál. Óskyld taldi hann vera keltnesku, basknesku, finnsk-úgrísku og semitísk mál. Rask varaði við þeirri skoðun að norræna sé komin af grísku heldur séu bæði málin komin af tungumáli sem nú er útdautt.

Rask lauk ritgerðinni 1814 og sendi hana heim frá Íslandi. Hún kom þó ekki út fyrr en 1818. Þá var Rask lagður af stað til Indlands og hafði komið auga á ýmsa vankanta; til dæmis séð að keltnesku málin voru skyld íslensku og einnig indversk og írönsk mál, svo sem sanskríts og persneska.

Rask átti mikinn þátt í að móta aðferðir samanburðarmálfræðinnar. Hann benti á að í orðaforðanum geti leynst fjöldi tökuorða sem rugli myndina og því sé ekki hægt að treysta því að mál séu skyld þótt í þeim séu ýmis lík orð sem merki það sama. Því verður að byggja á grundvallarorðraforðanum; fornöfnum, töluorðum, frændsemisorðum og fleiru sem mál taka sjaldan að láni.

Rask lagði mikla áherslu á málfræðilegar samsvaranir, því þótt mál taki orð að láni er sjaldgæft að þau taki beygingar að láni. Þetta orðaði hann á þá leið að þegar svo margar samsvaranir finnist í grunnorðaforða tveggja tungumála að hægt sé að finna reglu fyrir breytingu bókstafanna úr öðru í hitt þá sé um skyldleika að ræða. Rask gerði því ráð fyrir að hljóðbreytingar geti verið reglulegar. Þannig uppgötvaði hann það sem síðar var kallað germanska hljóðfærslan, þótt örlað hafi á þeirri hugmynd fyrr. Um er að ræða reglulegar samsvaranir samhljóða í grísku/latínu og íslensku, t.d. p – f, t – þ, k – h eins og í latínu pater, tres, cornu og íslensku faðir, þrír, horn.

Rask og önnur tungumál

Á ferðalögum sínum reyndi Rask alls staðar að komast eitthvað niður í máli heimamanna. Hann hafði alltaf í huga hvernig skyldleika málanna væri háttað og kynnti sér öll þau mál sem hann gat aflað sér upplýsinga um. Sagt er að hann hafi kunnað fimmtíu og fimm tungumál. Með því er ekki átt við að hann hafi talað þau öll reiprennandi, heldur að hann hafi kynnt sér þau til nokkurrar hlítar.

Sem dæmi má taka samísku. Árið 1832 gaf hann út samíska málfræði (Ræsonneret lappisk sproglære) en hafði þá, að eigin sögn ‘ekki nokkurn tíma hitt eða talað við nokkurn innfæddan eða nokkurn útlendan sem skildi málið eða hafði rannsakað það á nokkurn hátt’. Bókin var gefin út í örkum og voru 10 útkomnar þegar trúboði nokkur ásamt innfæddum Sama kom til Kaupmannahafnar. Svo heppilega vildi til að framburðarkaflinn var enn óprentaður og gat Rask því fengið nokkrar upplýsingar um það efni áður en það var um seinan.

Verk Rasks um samíska málfræði varð til þess að nú er litið er á hann sem upphafsmann vísindalegra athugana á samísku. Þetta er ágætt dæmi um innsæi Rasks og hæfileika til að gera sér mat úr takmörkuðum gögnum. Einnig má nefna að hann benti á að samsvaranir væru í grunnorðaforða og orðmyndun grænlensku og þess tungumáls sem talað er á Aleútaeyjum. Þetta hafa síðari rannsóknir staðfest og er nú talað um að bæði tungumálin tilheyri eskimó-aleút-málaættinni.

Rask fékkst ekki bara við rannsóknir á erlendum málum. Hann rannsakaði einnig sitt eigið móðurmál og skrifaði meðal annars um mállýsku Fjónbúa. Hann átti í áralöngum deilum um danska stafsetningu sem ekki verða raktar hér. Þess skal þó getið að hann aðhylltist það sjónarmið að stafsetningu bæri að miða sem mest við framburð.

Á legsteini Rasks, sem reistur var tíu árum eftir andlát hans, eru áletranir á sanskrít, arabísku, íslensku og dönsku. Íslenska áletrunin er með rúnaletri og mun sótt í Konungsskuggsjá. Hún hljóðar svo:

Ef þú vilt fullkominn vera í fróðleik þá nem þú allar tungur en týn þó eigi að heldur þinni tungu.

Helstu heimildir og mynd:

  • Guðrún Kvaran. Rasmus Kristján Rask. Skírnir 161:213–232, 1987.
  • Holger Pedersen. Sprogvidenskaben i det nittende aarhundrede. 1924.
  • Kirsten Rask. Rasmus Rask. Store tanker i et lille land. 2002.
  • Jørgen Rischel. Sproggranskeren Rarsmus Kristian Rask. 1987.
  • Myndin er af Wikipedia.com. Sótt 10.4.2011.
...