Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvers konar lýðræði er í Evrópusambandinu?

Úlfar Hauksson

Flestir Vesturlandabúar líta líklega á lýðræði sem rótgróið, sjálfsagt fyrirbæri en því fer fjarri að svo sé ef grannt er skoðað. Með góðum rökum má halda því fram að einu Evrópuríkin sem búið hafa við stöðugt og ótruflað lýðræði síðustu 50 árin séu Bretland, Benelux-löndin og Norðurlönd, að Finnlandi undanskildu. Í Bandaríkjunum fengu blökkumenn ekki kosningarétt fyrr en 1964 og þess vegna má draga í efa að Bandaríkin hafi uppfyllt lágmarksskilyrði um lýðræði fyrir þann tíma. Lýðræði er þess vegna ekki eins sjálfsagt og rótgróið fyrirbæri og ætla mætti. Ekki nóg með það, heldur er hugtakið margslungið og flókið og hefur mörg birtingarform.

Þrátt fyrir það er orðið lýðræði hugsað sem heiti á tilteknu þjóðskipulagi eða aðferðum til að skipuleggja þjóðfélög og önnur samfélög manna. Í lýðræðisþjóðfélögum er almennt litið svo á að ákvarðanir sem snerta almenning á einn eða annan hátt eigi að endurspegla vilja og hagsmuni lýðsins – lýðurinn ræður. Margar kenningar hafa verið settar fram um lýðræði og það hefur verið gagnrýnt með ýmsum hætti. Meðal annars hafa oft verið sett spurningamerki við svokallað fulltrúalýðræði sem notað er hjá flestum þjóðum sem kenna sig við lýðræðislega stjórnarhætti.

Í raun er ekki til nein algild endanleg skilgreining á lýðræði enda er hugtakið mannanna verk en ekki sjálfsprottið eða náttúrulegt fyrirbæri. Þess vegna er við því að búast að almennar hugmyndir fólks um hugtakið breytist í tímans rás, og lýðræðishugmyndin hefur vissulega tekið miklum breytingum. Hún hefur þróast úr lýðræði frjálsborinna karla í borgríki Aþenu yfir í fulltrúalýðræði þjóðríkja þar sem allir hafa kosningarétt. Hugmyndin um lýðræði hefur hins vegar verið innmúruð í hið fullvalda þjóðríki og takmörkuð við það í hugum margra. Flestir fræðimenn hafa til þessa fyrst og fremst fylgt þessari hefð, það er einblínt á lýðræði innan þjóðríkisins.


Fáni Evrópusambandsins.

Í stjórnmálafræði er mikið fjallað núna um útvíkkun lýðræðisins og framsal á valdi út fyrir mörk þjóðríkisins. Margir kjósa að kalla þessa þróun lagskipt stjórnkerfi (e. multi-level governance). Eitt skýrasta dæmið um valdaframsal þjóðríkja er Evrópusambandið en einnig má líta á ýmis önnur bandalög þjóða og samstarfseiningar sem dæmi um þetta. Ríkjasambandinu, sem nú starfar undir merkjum Evrópusambandsins, var komið á fót eftir hildarleik seinni heimsstyrjaldar. Markmið þess er meðal annars að tryggja lýðræðislega stjórnarhætti innan vébanda sinna og er virkt lýðræði eitt af þeim skilyrðum sem ríki þurfa að uppfylla áður en þau geta gerst aðilar.

Á vettvangi sambandsins eru mikilvægar ákvarðanir teknar í stofnunum þess og ber þar fyrst að nefna ráðherraráðið. Ráðið hefur æðsta ákvörðunarvaldið í ESB eins og lýst verður nánar hér á eftir. Þar situr einn ráðherra frá hverju ríki og sinnir hver þeirra sínum tiltekna málaflokki. Mikilvægasta hlutverk ráðsins er að setja sambandinu lög í málum er rúmast innan sáttmála þess. Lagasetningin er þó ekki alfarið í höndum ráðsins. Í flestum málaflokkum innri markaðarins eru ákvarðanir teknar með sameiginlegri ákvörðun ráðherraráðs og Evrópuþings sem kosið er til í beinni kosningu. Þingið hefur þannig umfangsmikið neitunarvald um nýja löggjöf. Atkvæðagreiðsla er sjaldgæf í ráðherraráðinu en þegar hún á sér stað ræður meirihluti samkvæmt vegnum atkvæðum.

Í flestum þjóðþingum sambandsríkjanna eru starfandi Evrópunefndir sem hafa meðal annars það hlutverk að fylgjast með störfum ráðherra í ráðherraráðinu. Framkvæmdastjórnin er skipuð fulltrúum sem valdir eru af ríkisstjórnum ríkjanna að fengnu samþykki Evrópuþingsins sem jafnframt hefur eftirlit með störfum þess og er bæði framkvæmdastjórn og ráðherraráði skylt að gefa þinginu skýrslur og svara fyrirspurnum þess. Framkvæmdastjórnin tekur þátt í löggjafarstarfi ESB og leggur lagafrumvörp fyrir ráðherraráðið. Hún hefur mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna og fylgist með því að samþykktir séu framkvæmdar og eftir þeim farið. Evrópudómstóllinn dæmir í ágreiningsmálum sem til hans er vísað

Samkvæmt greiningu stjórnmálafræðingsins Arend Lijpharts á stjórnkerfi ESB þá er framkvæmdavaldið á hendi framkvæmdastjórnarinnar og framkvæmdastjórarnir gegna hlutverki ráðherra. Þeir eru tilnefndir af lýðræðislega kjörnum ríkisstjórnum og samþykktir af lýðræðislega kjörnu þingi líkt og til dæmis í Bandaríkjunum þar sem forsetinn skipar ráðherra í ríkisstjórn. Ráðið, skipað lýðræðislega kjörnum fulltrúum ríkjanna, gegnir hlutverki efri málstofu löggjafans og þingið, kosið beinni hlutfallskosningu í ríkjunum, neðri málstofu löggjafans. Í ríkjum sem hafa deildaskiptan löggjafa er neðri deildin valdameiri, en í ESB er þessu öfugt farið. Ráðið heldur reglulega opna fundi og löggjöf þess er birt opinberlega sem og hvernig ríkin greiddu atkvæði. Fundir þingsins eru opnir sem og fundir margra þingnefnda. Hjá framkvæmdastjórninni eru öll skjöl opinber nema annað hafi verið ákveðið.

Eins og áður hefur komið fram þá er hugmyndin að baki lýðræði sú að hið pólitíska vald sé í höndum hins almenna borgara. Lýðræðishugmyndin hefur hins vegar þróast með tímanum og lagað sig að þörfum samtímans. Evrópusambandið er skref í þá átt að þróa lýðræði út fyrir mörk þjóðríkisins og verður að skoða í því samhengi. Í Evrópusambandinu er lagskipt lýðræði þar sem stofnanir þess koma til viðbótar stofnunum þjóðríkja.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundur

doktorsnemi og stundakennari í stjórnmálafræði við HÍ

Útgáfudagur

29.1.2009

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Úlfar Hauksson. „Hvers konar lýðræði er í Evrópusambandinu?“ Vísindavefurinn, 29. janúar 2009. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=51328.

Úlfar Hauksson. (2009, 29. janúar). Hvers konar lýðræði er í Evrópusambandinu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=51328

Úlfar Hauksson. „Hvers konar lýðræði er í Evrópusambandinu?“ Vísindavefurinn. 29. jan. 2009. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=51328>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers konar lýðræði er í Evrópusambandinu?
Flestir Vesturlandabúar líta líklega á lýðræði sem rótgróið, sjálfsagt fyrirbæri en því fer fjarri að svo sé ef grannt er skoðað. Með góðum rökum má halda því fram að einu Evrópuríkin sem búið hafa við stöðugt og ótruflað lýðræði síðustu 50 árin séu Bretland, Benelux-löndin og Norðurlönd, að Finnlandi undanskildu. Í Bandaríkjunum fengu blökkumenn ekki kosningarétt fyrr en 1964 og þess vegna má draga í efa að Bandaríkin hafi uppfyllt lágmarksskilyrði um lýðræði fyrir þann tíma. Lýðræði er þess vegna ekki eins sjálfsagt og rótgróið fyrirbæri og ætla mætti. Ekki nóg með það, heldur er hugtakið margslungið og flókið og hefur mörg birtingarform.

Þrátt fyrir það er orðið lýðræði hugsað sem heiti á tilteknu þjóðskipulagi eða aðferðum til að skipuleggja þjóðfélög og önnur samfélög manna. Í lýðræðisþjóðfélögum er almennt litið svo á að ákvarðanir sem snerta almenning á einn eða annan hátt eigi að endurspegla vilja og hagsmuni lýðsins – lýðurinn ræður. Margar kenningar hafa verið settar fram um lýðræði og það hefur verið gagnrýnt með ýmsum hætti. Meðal annars hafa oft verið sett spurningamerki við svokallað fulltrúalýðræði sem notað er hjá flestum þjóðum sem kenna sig við lýðræðislega stjórnarhætti.

Í raun er ekki til nein algild endanleg skilgreining á lýðræði enda er hugtakið mannanna verk en ekki sjálfsprottið eða náttúrulegt fyrirbæri. Þess vegna er við því að búast að almennar hugmyndir fólks um hugtakið breytist í tímans rás, og lýðræðishugmyndin hefur vissulega tekið miklum breytingum. Hún hefur þróast úr lýðræði frjálsborinna karla í borgríki Aþenu yfir í fulltrúalýðræði þjóðríkja þar sem allir hafa kosningarétt. Hugmyndin um lýðræði hefur hins vegar verið innmúruð í hið fullvalda þjóðríki og takmörkuð við það í hugum margra. Flestir fræðimenn hafa til þessa fyrst og fremst fylgt þessari hefð, það er einblínt á lýðræði innan þjóðríkisins.


Fáni Evrópusambandsins.

Í stjórnmálafræði er mikið fjallað núna um útvíkkun lýðræðisins og framsal á valdi út fyrir mörk þjóðríkisins. Margir kjósa að kalla þessa þróun lagskipt stjórnkerfi (e. multi-level governance). Eitt skýrasta dæmið um valdaframsal þjóðríkja er Evrópusambandið en einnig má líta á ýmis önnur bandalög þjóða og samstarfseiningar sem dæmi um þetta. Ríkjasambandinu, sem nú starfar undir merkjum Evrópusambandsins, var komið á fót eftir hildarleik seinni heimsstyrjaldar. Markmið þess er meðal annars að tryggja lýðræðislega stjórnarhætti innan vébanda sinna og er virkt lýðræði eitt af þeim skilyrðum sem ríki þurfa að uppfylla áður en þau geta gerst aðilar.

Á vettvangi sambandsins eru mikilvægar ákvarðanir teknar í stofnunum þess og ber þar fyrst að nefna ráðherraráðið. Ráðið hefur æðsta ákvörðunarvaldið í ESB eins og lýst verður nánar hér á eftir. Þar situr einn ráðherra frá hverju ríki og sinnir hver þeirra sínum tiltekna málaflokki. Mikilvægasta hlutverk ráðsins er að setja sambandinu lög í málum er rúmast innan sáttmála þess. Lagasetningin er þó ekki alfarið í höndum ráðsins. Í flestum málaflokkum innri markaðarins eru ákvarðanir teknar með sameiginlegri ákvörðun ráðherraráðs og Evrópuþings sem kosið er til í beinni kosningu. Þingið hefur þannig umfangsmikið neitunarvald um nýja löggjöf. Atkvæðagreiðsla er sjaldgæf í ráðherraráðinu en þegar hún á sér stað ræður meirihluti samkvæmt vegnum atkvæðum.

Í flestum þjóðþingum sambandsríkjanna eru starfandi Evrópunefndir sem hafa meðal annars það hlutverk að fylgjast með störfum ráðherra í ráðherraráðinu. Framkvæmdastjórnin er skipuð fulltrúum sem valdir eru af ríkisstjórnum ríkjanna að fengnu samþykki Evrópuþingsins sem jafnframt hefur eftirlit með störfum þess og er bæði framkvæmdastjórn og ráðherraráði skylt að gefa þinginu skýrslur og svara fyrirspurnum þess. Framkvæmdastjórnin tekur þátt í löggjafarstarfi ESB og leggur lagafrumvörp fyrir ráðherraráðið. Hún hefur mikilvægu eftirlitshlutverki að gegna og fylgist með því að samþykktir séu framkvæmdar og eftir þeim farið. Evrópudómstóllinn dæmir í ágreiningsmálum sem til hans er vísað

Samkvæmt greiningu stjórnmálafræðingsins Arend Lijpharts á stjórnkerfi ESB þá er framkvæmdavaldið á hendi framkvæmdastjórnarinnar og framkvæmdastjórarnir gegna hlutverki ráðherra. Þeir eru tilnefndir af lýðræðislega kjörnum ríkisstjórnum og samþykktir af lýðræðislega kjörnu þingi líkt og til dæmis í Bandaríkjunum þar sem forsetinn skipar ráðherra í ríkisstjórn. Ráðið, skipað lýðræðislega kjörnum fulltrúum ríkjanna, gegnir hlutverki efri málstofu löggjafans og þingið, kosið beinni hlutfallskosningu í ríkjunum, neðri málstofu löggjafans. Í ríkjum sem hafa deildaskiptan löggjafa er neðri deildin valdameiri, en í ESB er þessu öfugt farið. Ráðið heldur reglulega opna fundi og löggjöf þess er birt opinberlega sem og hvernig ríkin greiddu atkvæði. Fundir þingsins eru opnir sem og fundir margra þingnefnda. Hjá framkvæmdastjórninni eru öll skjöl opinber nema annað hafi verið ákveðið.

Eins og áður hefur komið fram þá er hugmyndin að baki lýðræði sú að hið pólitíska vald sé í höndum hins almenna borgara. Lýðræðishugmyndin hefur hins vegar þróast með tímanum og lagað sig að þörfum samtímans. Evrópusambandið er skref í þá átt að þróa lýðræði út fyrir mörk þjóðríkisins og verður að skoða í því samhengi. Í Evrópusambandinu er lagskipt lýðræði þar sem stofnanir þess koma til viðbótar stofnunum þjóðríkja.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd: