Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hvernig var kosningakerfi Grikkja til forna?

Geir Þ. Þórarinsson

Til þess að útskýra kosningakerfi Forngrikkja verður að segja einnig lítið eitt um helstu stjórnmálastofnanir þeirra.

Í flestum grískum borgum var aðalstjórnmálasamkundan þing sem kallaðist ekklesia. Þangað gátu allir frjálsir borgarar komið og greitt atkvæði en þátttakan takmarkaðist þó við karlmenn sem náð höfðu tilskildum aldri. Í Aþenu var aldurinn átján ár, þótt menn sæktu yfirleitt ekki þingfundi fyrr en um tvítugt vegna herskyldu.

Enda þótt fjöldi borgara hafi verið milli 20 og 50 þúsund mættu yfirleitt ekki nema á milli fimm og sex þúsund manns á þingfundi; eflaust skýrir herþjónusta þá tölu að sumu leyti en fátækari borgarar og bændur hafa ef til vill ekki alltaf komist frá vinnu. Þeir sem ekki mættu á þingfundi en kusu að drolla frekar á torginu (agora) gátu raunar átt á hættu að lögreglulið borgarinnar sletti á þá rauðri málningu. Gríski heimspekingurinn Aristóteles segir í ritgerðinni Stjórnskipan Aþenu (seint á 4. öld f.Kr.) að þingið hafi komið saman fjórum sinnum í mánuði. Að minnsta kosti einu sinni í mánuði var borin upp í þinginu stuðningstillaga við embættismenn borgríkisins.



Af þessum ástæðum er stundum sagt að í Aþenu til forna hafi verið beint lýðræði af því að allir borgarar gátu mætt og tekið þátt í ákvörðunartöku og kosningum beint og milliliðalaust. Atkvæðin voru greidd annaðhvort með handauppréttingu eða með steinvölu sem látin var á viðeigandi stað eftir því hvort atkvæði var greitt með eða á móti tillögu, svo voru steinvölurnar taldar. Þingið fór með endanlegt ákvörðunarvald borgríkisins, samþykkti lög og lagabreytingar, markaði opinbera stefnu, lýsti yfir stríði eða samdi um frið og kaus tíu herforingja (strategoi) til eins árs í senn. Eftir árið 403 f.Kr. sáu svonefndir löggjafar (nomoþetæ) þó yfirleitt um löggjöfina en þeir voru um þúsund talsins.

Þótt hver sem er gæti tekið til máls á þinginu gat þingið samt ekki kosið um lög eða tilskipanir nema stjórnarráðið (búle) hefði undirbúið málið fyrst en það fór einnig með framkvæmdavaldið. Stjórnarráðið varð til snemma á 6. öld f.Kr. og var hugsanlega komið á fót af Sóloni. Því var ætlað að koma að verulegu leyti í stað öldungaráðsins á Aresarhæð (Areopagos), sem upphaflega hafði verið ráðgjafaþing konungs. Seint á 6. öld f.Kr. gerði aðalsmaðurinn Kleisþenes svo frekari breytingar á stjórnskipaninni og er fyrir vikið stundum nefndur faðir aþenska lýðræðisins.

Á klassískum tíma samanstóð stjórnarráðið af 500 karlmönnum (búlevtai) sem urðu að vera yfir þrítugt, fimmtíu manns frá hverjum hinna tíu ættbálka (fylæ), sem Kleisþenes hafði búið til. Upphaflega voru fulltrúarnir kjörnir til eins árs í senn en um miðja 5. öld f.Kr. voru þeir valdir með hlutkesti (klerosis), það er af handahófi. Þó mátti ekki sitja oftar en tvisvar í stjórnarráðinu. Því voru talsverðar líkur á að maður yrði einhvern tímann á ævinni stjórnarráðsmaður.

Í stjórnarráðinu skiptust svo ættbálkarnir tíu á að hafa forystu í ráðinu einn tíunda hluta ársins í senn en sá tími nefndist prytaneia og gat verið allt frá 34 til 39 daga langur. Á þeim tíma var á hverjum degi einn hinna 50 sem höfðu forystu í stjórnarráðinu valinn með hlutkesti til að vera í forsæti. Þess vegna voru dágóðar líkur á að hver og einn frjáls borgari gegndi embætti forseta stjórnarráðsins (epistates) einhvern tímann á ævinni. Forseti stjórnarráðsins var einnig fundarstjóri þingsins.

Öldungaráðið á Aresarhæð hafði áður verið meginþing Aþeninga en tapaði völdum sínum eftir umbætur Sólons og Kleisþenesar og síðar Efíaltesar rétt fyrir miðja 5. öld f.Kr. Það hafði þó áfram umsjón með morðmálum og helgistöðum. Í ráðinu sátu tvö til þrjú hundruð manns sem gegnt höfðu embætti arkons. Arkon var æðsta embætti ríkisins en þó valdalítið á klassískum tíma. Arkonar voru valdir með hlutkesti til eins árs í senn.

Í Spörtu, líkt og í mörgum öðrum dórískum borgum, kallaðist þingið apella og kom það saman mánaðarlega en embættismenn sem nefndust efórar og voru fimm talsins stjórnuðu fundunum. Þátttaka í spartverska þinginu var mun takmarkaðri en í aþenska þinginu og ekki höfðu allir spartverskir borgarar rétt til þingsetu. Rétt eins og aþenska þingið gat ekki kosið um mál nema stjórnarráðið hefði fjallað um þau fyrst gat þingið í Spörtu ekki heldur kosið um önnur mál en þau sem öldungaráð Spörtu (gerúsía) lagði fyrir þingið. Í öldungaráðinu voru 28 öldungar (gerontes) yfir sextugt auk konunganna tveggja. Auk þess sem þingið samþykkti lög voru þar einnig kjörnir efórar og meðlimir öldungaráðsins. Spartverjar greiddu oftast atkvæði með hrópum fremur en með handauppréttingum eins og tíðkaðist í Aþenu.

Á klassískum tíma byggðust því stjórnmál í Grikklandi hinu forna að verulegu marki á beinni þátttöku borgaranna (eða að minnsta kosti þeirra borgara sem höfðu þátttökurétt), með einum eða öðrum hætti: Þeir kusu embættismenn beint og milliliðalaust á þingum sínum, til dæmis herforingja í Aþenu eða efóra og öldungaráðsmenn í Spörtu. Á hinn bóginn var oft valið í embætti með hlutkesti, svo sem stjórnarráðsmenn eða arkonar í Aþenu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og frekara lesefni:
  • Adkins, L. og R.A. Adkins, Handbook to Life in Ancient Greece (New York: Facts On File, Inc., 1997).
  • Flaceliere, R., Daily Life in Greece at the Time of Pericles. P. Green (þýð.) (London: Phoenix, 2002).
  • Joint Association of Classical Teachers, The World of Athens: An introduction to classical Athenian culture (Cambridge: Cambridge University Press, 1984).
  • Ober, J., Democracy and Knowledge: Innovation and Learning in Classical Athens (Princeton: Princeton University Press, 2008).
  • Ober, J., Mass and Elite in Democratic Athens: Rhetoric, Ideology, and the Power of the People (Princeton: Princeton University Press, 1989).
  • Powell, A., Athens and Sparta: Constructing Greek Political and Social History from 478 BC 2. útg. (London: Routledge, 2001).

Mynd:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

21.12.2009

Spyrjandi

Sólveig Rán Stefánsdóttir, f. 1996

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig var kosningakerfi Grikkja til forna?“ Vísindavefurinn, 21. desember 2009. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=51981.

Geir Þ. Þórarinsson. (2009, 21. desember). Hvernig var kosningakerfi Grikkja til forna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=51981

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvernig var kosningakerfi Grikkja til forna?“ Vísindavefurinn. 21. des. 2009. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=51981>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvernig var kosningakerfi Grikkja til forna?
Til þess að útskýra kosningakerfi Forngrikkja verður að segja einnig lítið eitt um helstu stjórnmálastofnanir þeirra.

Í flestum grískum borgum var aðalstjórnmálasamkundan þing sem kallaðist ekklesia. Þangað gátu allir frjálsir borgarar komið og greitt atkvæði en þátttakan takmarkaðist þó við karlmenn sem náð höfðu tilskildum aldri. Í Aþenu var aldurinn átján ár, þótt menn sæktu yfirleitt ekki þingfundi fyrr en um tvítugt vegna herskyldu.

Enda þótt fjöldi borgara hafi verið milli 20 og 50 þúsund mættu yfirleitt ekki nema á milli fimm og sex þúsund manns á þingfundi; eflaust skýrir herþjónusta þá tölu að sumu leyti en fátækari borgarar og bændur hafa ef til vill ekki alltaf komist frá vinnu. Þeir sem ekki mættu á þingfundi en kusu að drolla frekar á torginu (agora) gátu raunar átt á hættu að lögreglulið borgarinnar sletti á þá rauðri málningu. Gríski heimspekingurinn Aristóteles segir í ritgerðinni Stjórnskipan Aþenu (seint á 4. öld f.Kr.) að þingið hafi komið saman fjórum sinnum í mánuði. Að minnsta kosti einu sinni í mánuði var borin upp í þinginu stuðningstillaga við embættismenn borgríkisins.



Af þessum ástæðum er stundum sagt að í Aþenu til forna hafi verið beint lýðræði af því að allir borgarar gátu mætt og tekið þátt í ákvörðunartöku og kosningum beint og milliliðalaust. Atkvæðin voru greidd annaðhvort með handauppréttingu eða með steinvölu sem látin var á viðeigandi stað eftir því hvort atkvæði var greitt með eða á móti tillögu, svo voru steinvölurnar taldar. Þingið fór með endanlegt ákvörðunarvald borgríkisins, samþykkti lög og lagabreytingar, markaði opinbera stefnu, lýsti yfir stríði eða samdi um frið og kaus tíu herforingja (strategoi) til eins árs í senn. Eftir árið 403 f.Kr. sáu svonefndir löggjafar (nomoþetæ) þó yfirleitt um löggjöfina en þeir voru um þúsund talsins.

Þótt hver sem er gæti tekið til máls á þinginu gat þingið samt ekki kosið um lög eða tilskipanir nema stjórnarráðið (búle) hefði undirbúið málið fyrst en það fór einnig með framkvæmdavaldið. Stjórnarráðið varð til snemma á 6. öld f.Kr. og var hugsanlega komið á fót af Sóloni. Því var ætlað að koma að verulegu leyti í stað öldungaráðsins á Aresarhæð (Areopagos), sem upphaflega hafði verið ráðgjafaþing konungs. Seint á 6. öld f.Kr. gerði aðalsmaðurinn Kleisþenes svo frekari breytingar á stjórnskipaninni og er fyrir vikið stundum nefndur faðir aþenska lýðræðisins.

Á klassískum tíma samanstóð stjórnarráðið af 500 karlmönnum (búlevtai) sem urðu að vera yfir þrítugt, fimmtíu manns frá hverjum hinna tíu ættbálka (fylæ), sem Kleisþenes hafði búið til. Upphaflega voru fulltrúarnir kjörnir til eins árs í senn en um miðja 5. öld f.Kr. voru þeir valdir með hlutkesti (klerosis), það er af handahófi. Þó mátti ekki sitja oftar en tvisvar í stjórnarráðinu. Því voru talsverðar líkur á að maður yrði einhvern tímann á ævinni stjórnarráðsmaður.

Í stjórnarráðinu skiptust svo ættbálkarnir tíu á að hafa forystu í ráðinu einn tíunda hluta ársins í senn en sá tími nefndist prytaneia og gat verið allt frá 34 til 39 daga langur. Á þeim tíma var á hverjum degi einn hinna 50 sem höfðu forystu í stjórnarráðinu valinn með hlutkesti til að vera í forsæti. Þess vegna voru dágóðar líkur á að hver og einn frjáls borgari gegndi embætti forseta stjórnarráðsins (epistates) einhvern tímann á ævinni. Forseti stjórnarráðsins var einnig fundarstjóri þingsins.

Öldungaráðið á Aresarhæð hafði áður verið meginþing Aþeninga en tapaði völdum sínum eftir umbætur Sólons og Kleisþenesar og síðar Efíaltesar rétt fyrir miðja 5. öld f.Kr. Það hafði þó áfram umsjón með morðmálum og helgistöðum. Í ráðinu sátu tvö til þrjú hundruð manns sem gegnt höfðu embætti arkons. Arkon var æðsta embætti ríkisins en þó valdalítið á klassískum tíma. Arkonar voru valdir með hlutkesti til eins árs í senn.

Í Spörtu, líkt og í mörgum öðrum dórískum borgum, kallaðist þingið apella og kom það saman mánaðarlega en embættismenn sem nefndust efórar og voru fimm talsins stjórnuðu fundunum. Þátttaka í spartverska þinginu var mun takmarkaðri en í aþenska þinginu og ekki höfðu allir spartverskir borgarar rétt til þingsetu. Rétt eins og aþenska þingið gat ekki kosið um mál nema stjórnarráðið hefði fjallað um þau fyrst gat þingið í Spörtu ekki heldur kosið um önnur mál en þau sem öldungaráð Spörtu (gerúsía) lagði fyrir þingið. Í öldungaráðinu voru 28 öldungar (gerontes) yfir sextugt auk konunganna tveggja. Auk þess sem þingið samþykkti lög voru þar einnig kjörnir efórar og meðlimir öldungaráðsins. Spartverjar greiddu oftast atkvæði með hrópum fremur en með handauppréttingum eins og tíðkaðist í Aþenu.

Á klassískum tíma byggðust því stjórnmál í Grikklandi hinu forna að verulegu marki á beinni þátttöku borgaranna (eða að minnsta kosti þeirra borgara sem höfðu þátttökurétt), með einum eða öðrum hætti: Þeir kusu embættismenn beint og milliliðalaust á þingum sínum, til dæmis herforingja í Aþenu eða efóra og öldungaráðsmenn í Spörtu. Á hinn bóginn var oft valið í embætti með hlutkesti, svo sem stjórnarráðsmenn eða arkonar í Aþenu.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir og frekara lesefni:
  • Adkins, L. og R.A. Adkins, Handbook to Life in Ancient Greece (New York: Facts On File, Inc., 1997).
  • Flaceliere, R., Daily Life in Greece at the Time of Pericles. P. Green (þýð.) (London: Phoenix, 2002).
  • Joint Association of Classical Teachers, The World of Athens: An introduction to classical Athenian culture (Cambridge: Cambridge University Press, 1984).
  • Ober, J., Democracy and Knowledge: Innovation and Learning in Classical Athens (Princeton: Princeton University Press, 2008).
  • Ober, J., Mass and Elite in Democratic Athens: Rhetoric, Ideology, and the Power of the People (Princeton: Princeton University Press, 1989).
  • Powell, A., Athens and Sparta: Constructing Greek Political and Social History from 478 BC 2. útg. (London: Routledge, 2001).

Mynd:...