Sólin Sólin Rís 05:22 • sest 21:31 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 23:11 • Sest 05:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:38 • Síðdegis: 18:56 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:39 • Síðdegis: 12:46 í Reykjavík

Hvar eru helstu frumskógar Evrópu?

Jón Már Halldórsson

Á íslensku er hugtakið frumskógur notað um óræktaðan þéttvaxinn skóg. Helstu einkenni frumskóga eru meðal annars aldagömul og stórvaxin tré og á skógarbotninum liggja oft fallnir trjábolir (e. snags). Frumskógar finnast víða í hitabeltinu en einnig í öðrum loftslagsbeltum, til dæmis í Evrópu. Lítið er þó eftir af frumskógum Evrópu, sá stærsti er hinn magnaði Komi-skógur í Miðvestur-Rússlandi. Sennilega er Bialowieza-skógurinn í Póllandi og Hvíta-Rússlandi frægasti evrópski frumskógurinn. Evrópa var áður fyrr þakin skógum frá fjöru til fjalla. Það eina sem rauf hina miklu skógarþekju voru ár, vötn og fjöll. Líklega er búið að ryðja rúmlega 95% af upprunalegum skógum álfunnar á brott. Enn má þó sjá upprunalega skóga í álfunni og þá aðallega í Austur-Evrópu.

Hér fyrir neðan verður sagt frá fjórum frumskógum Evrópu.


Komi-skógurinn er víðáttumikill

Komi-skógurinn:

Komi-skógurinn er stærsti frumskógur Evrópu, 32.800 km2 að flatarmáli. Hann er í norðurhluta Úralfjalla í sjálfsstjórnarlýðveldinu Komi í Rússlandi. Komi-skógurinn tilheyrir hinum víðáttumiklu rússnesku barrskógum (e. taiga) og eru ríkjandi trjátegundir í honum síberíulerki (Larix sibirica), Siberian Spruce (Picea obovat) og síberíuþinur (Abies sibirica). Helstu spendýr svæðisins eru meðal annars minkur (Mustela lutreola), elgur (Alces alces), úlfur (Canis lupus), héri (Lepus europaeus) og skógarbjörn (Ursus arctos).

Komi-skóglendið liggur meðal annars innan Pechora-Ilych- og Yugyd Va-náttúruverndarsvæðanna sem hafa verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1995.

Bialowieza-skógurinn:

Bialowieza er sjálfsagt frægasti frumskógurinn sem enn er eftir í álfunni. Hann liggur syðst í Póllandi og teygir sig inn fyrir landamæri Hvíta-Rússlands. Í árdaga var gjörvöll Austur-Evrópa þakin skóglendi líkt og finnst í Bialowieza. Frá 14. öld hefur Bialowieza verið veiðisvæði konunga. Sigismund I (1467–1548) hélt verndarhendi yfir evrópska vísundinum (Bison bonasus) sem þar lifði og lét taka af lífi þá sem felldu dýrin í óleyfi. Bialowieza var skjól fyrir þúsundir manna þegar drepsótt gekk yfir Pólland á 15. öld. Stíf verndarlög voru sett á 16. öld til verndar vísundum.

Eftir að ríkjasamband Póllands og Litháens leystist upp féll Bialowieza í skaut rússneska keisaradæmisins og skógurinn komst í hendur rússneskra aðalsmanna. Áðurnefnd friðun var afnumin og veiðimenn streymdu inn í skóglendið og vísundum fækkaði úr 500 í 200 dýr. Að öllum líkindum varð Alexander I Rússakeisari evrópska vísundinum til bjargar með því að banna allar veiðar í skóginum. Tegundin tók hraustlega við sér og fjölgaði að nýju á fáeinum árum, upp í 700 dýr.


Bialowieza-skógurinn er fallegur á að líta

Á árunum 1830-1831 gerðu Pólverjar uppreisn gegn yfirráðum Rússa á pólskri grund og af 502 veiðivörðum sem Alexander I réði til starfa í Bialowieza tóku 500 þátt í uppreisninni. Skógurinn var óvarinn gegn veiðiþjófnaði næstu áratugina á eftir. Eftirmaður Alexanders, Alexander II, kom við á svæðinu 1860 og sá að það þurfti að taka upp öfluga vernd á skógarvísundunum að nýju og skipaði svo fyrir að öllum rándýrum í skóginum yrði útrýmt. Með þessum aðgerðum hurfu úlfar, birnir og gaupur úr skóginum og hann varð að veiðilendum Rússakeisara að nýju. Vísundar urðu keisaralegar gjafir og voru nokkur dýr flutt til konunga og aðalsmanna í Vestur-Evrópu. Til skógarins voru flutt heppileg veiðidýr, svo sem dádýr og elgir og fleiri dýr hvaðanæva af frá rússneska keisaradæminu. Síðasta keisaralega veiðiferðin í Bialowieza var 1912.

Hörmungar heimsstyrjaldanna bitnuðu ekki síður á Bialowieza og íbúum hans en mannfólki álfunnar. Þjóðverjar hernámu skóginn í ágúst 1915 og fjölmörg dýr í skóginum voru drepin. Auk þess átti að iðnvæða svæðið og samfara því voru járnbrautarteinar lagðir um skóglendið og þrjár timburmyllur voru reistar þar. Stjórnlaus slátrun á vísundunum leiddi til aldauða þeirra í Bialowieza og viðleitni valdhafa síðastliðinna 500 ára til að vernda hann varð því að engu í fyrra stríði. Síðasta dýrið var fellt snemma árs 1919. Eftir að herir Pólverja og Rússa slíðruðu sverðin í skammvinnu stríði þjóðanna 1921 var Bialowieza gerður að þjóðgarði 1923. Þökk sé Alexander II þá lifðu 46 vísundar í dýragörðum víða í Evrópu auk þess sem smár stofn lifði villtur í vesturhluta Kákasusfjalla. Menn hófu að endurreisa villta stofninn og 1939, við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar, voru 16 dýr í skóginum. Við skiptingu Póllands milli Þýskalands og Rússlands féll skógurinn í hendur Sovétríkjanna og fáeinum árum síðar í hendur Þýskalands við innrás þýskra herja í Sovétríkin.

Við lok styrjaldarinnar lenti austasti hluti Bialowitza innan landamæra Sovétríkjanna og síðar Hvíta-Rússlands. Dýralíf Bialowieza í dag er blómlegt. Stór og sterkur stofn evrópskra vísunda, um 300 dýr, evrópskir villihestar og úlfar eru meðal 44 spendýrategunda sem finnast þar. Auk 120 tegunda fugla sem verpa í skóginum árlega.


Perucica-skógurinn teygir sig upp um fjöll og firnindi

Perucica: Perucica-skógurinn tilheyrir Sutjeska-þjóðgarðinum sem staðsettur er í Bosníu og Hersegóvínu. Ýmsar sögulegar minjar eru í skóglendinu, svo sem minjar um sigur andspyrnuhreyfingarinnar í Júgóslavíu yfir þýskum herjum í seinni heimsstyrjöldinni.

Skóglendið er 175 km2 að flatarmáli og er þekkt fyrir gömul og hávaxin beykitré sem ná allt að 60 metra hæð og hina sjaldgæfu tegund svartfuru (Pinus nigra) sem vex í klettavöxnu landslagi þjóðgarðsins.

Stuzica:

Stuzica-skóglendið í hlíðum Karpatafjalla í Slóvakíu telst vera frumskógur og hefur verið friðaður síðan 1908. Í reynd teygist óslitið skóglendi svæðisins suður til Rúmeníu og austur til Úkraínu. Skóginum hefur þó víða verið raskað en er best varðveittur í Stuzica í Slóvakíu. Talsvert af hjartardýrum og úlfum er á þessu svæði og þar er einnig að finna stærstu stofna skógarbjarna í Evrópu utan landamæra Rússlands.

Aðra frumskóga mætti einnig nefna í þessari stuttu úttekt til að mynda Bothwood Copse, sem er í Englandi. Einnig má minnast á Retezat í Rúmeníu, Biogradska Gora í Svartfjallalandi, Pyha Hakki-þjóðgarðinn í Finnlandi og nokkur önnur skóglendi í Rússlandi, svo sem víðáttumikla skóga í vesturhluta Kákasusfjalla og barrskóga Karelíu.

Heimildir:
  • Jerzy M Gutowski and Bogdan Jaroszewicz. 2001. Catalogue of the fauna of Białowieża Primeval Forest. Forest Research Institute, Warsaw.
  • UNESCO

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Getið þið sagt mér frá helstu upprunalegu skógum Evrópu, hvernig er dýralíf þar og hver er stærð þeirra?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

20.9.2011

Spyrjandi

Guðmundur Gunnlaugsson

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvar eru helstu frumskógar Evrópu?“ Vísindavefurinn, 20. september 2011. Sótt 24. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=52081.

Jón Már Halldórsson. (2011, 20. september). Hvar eru helstu frumskógar Evrópu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=52081

Jón Már Halldórsson. „Hvar eru helstu frumskógar Evrópu?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2011. Vefsíða. 24. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=52081>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvar eru helstu frumskógar Evrópu?
Á íslensku er hugtakið frumskógur notað um óræktaðan þéttvaxinn skóg. Helstu einkenni frumskóga eru meðal annars aldagömul og stórvaxin tré og á skógarbotninum liggja oft fallnir trjábolir (e. snags). Frumskógar finnast víða í hitabeltinu en einnig í öðrum loftslagsbeltum, til dæmis í Evrópu. Lítið er þó eftir af frumskógum Evrópu, sá stærsti er hinn magnaði Komi-skógur í Miðvestur-Rússlandi. Sennilega er Bialowieza-skógurinn í Póllandi og Hvíta-Rússlandi frægasti evrópski frumskógurinn. Evrópa var áður fyrr þakin skógum frá fjöru til fjalla. Það eina sem rauf hina miklu skógarþekju voru ár, vötn og fjöll. Líklega er búið að ryðja rúmlega 95% af upprunalegum skógum álfunnar á brott. Enn má þó sjá upprunalega skóga í álfunni og þá aðallega í Austur-Evrópu.

Hér fyrir neðan verður sagt frá fjórum frumskógum Evrópu.


Komi-skógurinn er víðáttumikill

Komi-skógurinn:

Komi-skógurinn er stærsti frumskógur Evrópu, 32.800 km2 að flatarmáli. Hann er í norðurhluta Úralfjalla í sjálfsstjórnarlýðveldinu Komi í Rússlandi. Komi-skógurinn tilheyrir hinum víðáttumiklu rússnesku barrskógum (e. taiga) og eru ríkjandi trjátegundir í honum síberíulerki (Larix sibirica), Siberian Spruce (Picea obovat) og síberíuþinur (Abies sibirica). Helstu spendýr svæðisins eru meðal annars minkur (Mustela lutreola), elgur (Alces alces), úlfur (Canis lupus), héri (Lepus europaeus) og skógarbjörn (Ursus arctos).

Komi-skóglendið liggur meðal annars innan Pechora-Ilych- og Yugyd Va-náttúruverndarsvæðanna sem hafa verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1995.

Bialowieza-skógurinn:

Bialowieza er sjálfsagt frægasti frumskógurinn sem enn er eftir í álfunni. Hann liggur syðst í Póllandi og teygir sig inn fyrir landamæri Hvíta-Rússlands. Í árdaga var gjörvöll Austur-Evrópa þakin skóglendi líkt og finnst í Bialowieza. Frá 14. öld hefur Bialowieza verið veiðisvæði konunga. Sigismund I (1467–1548) hélt verndarhendi yfir evrópska vísundinum (Bison bonasus) sem þar lifði og lét taka af lífi þá sem felldu dýrin í óleyfi. Bialowieza var skjól fyrir þúsundir manna þegar drepsótt gekk yfir Pólland á 15. öld. Stíf verndarlög voru sett á 16. öld til verndar vísundum.

Eftir að ríkjasamband Póllands og Litháens leystist upp féll Bialowieza í skaut rússneska keisaradæmisins og skógurinn komst í hendur rússneskra aðalsmanna. Áðurnefnd friðun var afnumin og veiðimenn streymdu inn í skóglendið og vísundum fækkaði úr 500 í 200 dýr. Að öllum líkindum varð Alexander I Rússakeisari evrópska vísundinum til bjargar með því að banna allar veiðar í skóginum. Tegundin tók hraustlega við sér og fjölgaði að nýju á fáeinum árum, upp í 700 dýr.


Bialowieza-skógurinn er fallegur á að líta

Á árunum 1830-1831 gerðu Pólverjar uppreisn gegn yfirráðum Rússa á pólskri grund og af 502 veiðivörðum sem Alexander I réði til starfa í Bialowieza tóku 500 þátt í uppreisninni. Skógurinn var óvarinn gegn veiðiþjófnaði næstu áratugina á eftir. Eftirmaður Alexanders, Alexander II, kom við á svæðinu 1860 og sá að það þurfti að taka upp öfluga vernd á skógarvísundunum að nýju og skipaði svo fyrir að öllum rándýrum í skóginum yrði útrýmt. Með þessum aðgerðum hurfu úlfar, birnir og gaupur úr skóginum og hann varð að veiðilendum Rússakeisara að nýju. Vísundar urðu keisaralegar gjafir og voru nokkur dýr flutt til konunga og aðalsmanna í Vestur-Evrópu. Til skógarins voru flutt heppileg veiðidýr, svo sem dádýr og elgir og fleiri dýr hvaðanæva af frá rússneska keisaradæminu. Síðasta keisaralega veiðiferðin í Bialowieza var 1912.

Hörmungar heimsstyrjaldanna bitnuðu ekki síður á Bialowieza og íbúum hans en mannfólki álfunnar. Þjóðverjar hernámu skóginn í ágúst 1915 og fjölmörg dýr í skóginum voru drepin. Auk þess átti að iðnvæða svæðið og samfara því voru járnbrautarteinar lagðir um skóglendið og þrjár timburmyllur voru reistar þar. Stjórnlaus slátrun á vísundunum leiddi til aldauða þeirra í Bialowieza og viðleitni valdhafa síðastliðinna 500 ára til að vernda hann varð því að engu í fyrra stríði. Síðasta dýrið var fellt snemma árs 1919. Eftir að herir Pólverja og Rússa slíðruðu sverðin í skammvinnu stríði þjóðanna 1921 var Bialowieza gerður að þjóðgarði 1923. Þökk sé Alexander II þá lifðu 46 vísundar í dýragörðum víða í Evrópu auk þess sem smár stofn lifði villtur í vesturhluta Kákasusfjalla. Menn hófu að endurreisa villta stofninn og 1939, við upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar, voru 16 dýr í skóginum. Við skiptingu Póllands milli Þýskalands og Rússlands féll skógurinn í hendur Sovétríkjanna og fáeinum árum síðar í hendur Þýskalands við innrás þýskra herja í Sovétríkin.

Við lok styrjaldarinnar lenti austasti hluti Bialowitza innan landamæra Sovétríkjanna og síðar Hvíta-Rússlands. Dýralíf Bialowieza í dag er blómlegt. Stór og sterkur stofn evrópskra vísunda, um 300 dýr, evrópskir villihestar og úlfar eru meðal 44 spendýrategunda sem finnast þar. Auk 120 tegunda fugla sem verpa í skóginum árlega.


Perucica-skógurinn teygir sig upp um fjöll og firnindi

Perucica: Perucica-skógurinn tilheyrir Sutjeska-þjóðgarðinum sem staðsettur er í Bosníu og Hersegóvínu. Ýmsar sögulegar minjar eru í skóglendinu, svo sem minjar um sigur andspyrnuhreyfingarinnar í Júgóslavíu yfir þýskum herjum í seinni heimsstyrjöldinni.

Skóglendið er 175 km2 að flatarmáli og er þekkt fyrir gömul og hávaxin beykitré sem ná allt að 60 metra hæð og hina sjaldgæfu tegund svartfuru (Pinus nigra) sem vex í klettavöxnu landslagi þjóðgarðsins.

Stuzica:

Stuzica-skóglendið í hlíðum Karpatafjalla í Slóvakíu telst vera frumskógur og hefur verið friðaður síðan 1908. Í reynd teygist óslitið skóglendi svæðisins suður til Rúmeníu og austur til Úkraínu. Skóginum hefur þó víða verið raskað en er best varðveittur í Stuzica í Slóvakíu. Talsvert af hjartardýrum og úlfum er á þessu svæði og þar er einnig að finna stærstu stofna skógarbjarna í Evrópu utan landamæra Rússlands.

Aðra frumskóga mætti einnig nefna í þessari stuttu úttekt til að mynda Bothwood Copse, sem er í Englandi. Einnig má minnast á Retezat í Rúmeníu, Biogradska Gora í Svartfjallalandi, Pyha Hakki-þjóðgarðinn í Finnlandi og nokkur önnur skóglendi í Rússlandi, svo sem víðáttumikla skóga í vesturhluta Kákasusfjalla og barrskóga Karelíu.

Heimildir:
  • Jerzy M Gutowski and Bogdan Jaroszewicz. 2001. Catalogue of the fauna of Białowieża Primeval Forest. Forest Research Institute, Warsaw.
  • UNESCO

Myndir:

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Getið þið sagt mér frá helstu upprunalegu skógum Evrópu, hvernig er dýralíf þar og hver er stærð þeirra?
...