Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Hvað gerist ef ég tek smurða brauðsneið, festi hana við bakið á ketti og kasta honum upp í loft?

Ritstjórn Vísindavefsins

Lesendur Vísindavefsins hefur vafalaust rennt í grun að ritstjórnin sé skipuð fólki sem dreymdi einu sinni um að vinna Nóbelsverðlaun fyrir framlag sitt til vísindanna. Það er líka alveg rétt. Hitt er svo einnig augljóst að fyrst þau vinna á Vísindavefnum er lítil von til að þessi draumur rætist. Annar raunhæfari draumur hefur því tekið við í gegnum árin, en það er sú von ritstjórnarinnar að vera tilnefnd til svokallaðra Ig-Nóbelsverðlauna, sem verðlauna sérkennilegustu vísindatilraunir samtímans.

Margt hefur gengið á við að uppfylla þennan draum. Hvað eftir annað hefur það gerst að önnur teymi rannsakenda hafa náð að verða fyrri til að birta niðurstöður sínar. Fyrri hluta 2012 hafði allt starfsfólk ritstjórnarinnar til dæmis safnað hári í nokkra mánuði áður en þau komust að því að þegar væri búið að gera grein fyrir eðlisfræði hártagls og tíkarspena. Árið 2011 fengu allir taugaáfall þegar í ljós kom að búið væri að gefa út grein um hvers vegna kringlukastarar verða ringlaðir eftir köst. Fjölmörgum dögum á Laugardalsvellinum hafði því verið eytt þar til einskis. Árið þar á undan hafði hóp frá Ítalíu tekist að vera fyrri til að gefa út stærðfræðilega úttekt á því hvers vegna betra væri fyrir stofnanir og fyrirtæki að veita stöðuhækkanir á handahófskenndan hátt. Vísindavefurinn hefur reyndar haldið áfram þeirri mannauðsstefnu.

Ritstjórn Vísindavefsins reynir að smygla sér og Paul Krugman inn á afhendingu Ig-Nóbelsverðlaunanna.

Mesta áfallið kom þó árið 2009 þegar rannsóknir Vísindavefsins á naflaló fengu ekki að vera með í sérhefti Annals of Improbable Research vol. 15 no. 2 sem helgað var þeim mikilvægu rannsóknum. Allir þeir mánuðir sem höfðu farið í óforbetranlega naflaskoðun á ritstjórninni fóru í súginn. Og enginn virðist vita hvernig á að farga rannsóknargögnunum. Sorpa svarar ekki enn erindum þar að lútandi! Þetta áfall kom aðeins þremur árum eftir að Vísindavefurinn reyndi að sýna fram á aukaverkanir þess að gleypa sverð með þeim afleiðingum að vefurinn varð óstarfhæfur í töluverðan tíma. Breskir og bandarískir vísindamenn og sverðagleypar höfðu þá einnig orðið fyrri til að birta niðurstöður sínar.

Ritstjórnin sá því óvænt tækifæri í ofangreindri spurningu um hvort kötturinn eða smurða brauðið lendi á jörðinni og hefur fátt annað komist að á haustmánuðum. Sérstaklega þótti hentugt að ritstjórinn hefur verið í feðraorlofi og því mögulegt að panta ótakmarkað magn af pítsum þegar unnið var fram eftir og nota ljósritunarvélina á skapandi hátt. Vísindasiðanefnd hefur þó tafið verkið, fyrst með því að setja upplýst samþykki sem skilyrði fyrir tilraununum og svo með því að draga það von úr viti að skilgreina hvernig kattardýr veita upplýst samþykki sitt.

Nýlega barst svo fax um að upprétt rófa, blautt trýni og mal (eða að minnsta kosti tvö atriði af þremur) mætti túlka sem upplýst samþykki og var þá hafist handa. Til þess að gera aðstæður í tilrauninni þannig úr garði að auðvelt væri fyrir vísindamenn um allan heim að endurtaka hana var ákveðið að láta köttinn falla af heitu tinþaki þar sem flest þjóðleikhús eiga slíkt þak í geymslum. Sérstaklega var gætt að því að sporvagninn Girnd væri ekki fyrir neðan og að Kalli væri farinn af þakinu. Brauðsneiðarnar voru smurðar með Marmite til að kettirnir freistuðust ekki til að sleikja af þeim áður en þeir féllu fram af. Einnig áttu viðstaddir doktorsnemar það til að klára brauðsneiðarnar ef þær voru smurðar með marmelaði.

Því miður sést brauðsneiðin ekki á þessari mynd.

Fjölmargir kettir úr Vesturbænum hafa sýnt vísindalegt hugrekki undanfarið og tekið þátt í tilrauninni. Einungis Flosi köttur á Fornhaganum þvertók fyrir að vera með, enda landsþekkt letidýr. Niðurstöðurnar eru enn sem komið er óspennandi, og ályktanir sem hægt er að draga varla upp í nös á ketti. Kettir virðast alltaf lenda á fótunum ef fallið er meira en 30 cm og má allt eins fara í kringum þá niðurstöðu eins og köttur í kringum heitan graut. Að sumu leyti má segja að ritstjórnin hafi keypt köttinn í sekknum þegar hún valdi þessa tilraun. Allt þetta skiptir samt litlu; Ig-Nóbelsverðlaunin eru ekki veitt fyrir niðurstöðurnar sjálfar. Það er leiðin að markmiðinu sem helst er horft til (og hver er fyrstur að birta ferðasöguna). Mikilvægast fyrir íslenskt vísindasamfélag er þó að tilraunin komst á vinnuskýrslur starfsmanna Vísindavefsins fyrir árið 2012.

Myndir:


Upprunalega spurningin var sem hér segir:
Við vitum öll að smurð brauðsneið lendir alltaf á smjörinu og sömuleiðis lendir köttur alltaf á fótunum.

Svo ég spyr: Hvað gerist ef ég tek smurða brauðsneið og festi hana við bakið á kött (smjörhliðin upp) og kasta kettinum upp í loft?


Við bendum þeim sem ekki hafa áttað sig á því að þetta svar er föstudagssvar. Enginn köttur meiddist við skrif þessi.

Útgáfudagur

28.12.2012

Spyrjandi

Torfi Sigurðarson

Tilvísun

Ritstjórn Vísindavefsins. „Hvað gerist ef ég tek smurða brauðsneið, festi hana við bakið á ketti og kasta honum upp í loft? “ Vísindavefurinn, 28. desember 2012. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=53358.

Ritstjórn Vísindavefsins. (2012, 28. desember). Hvað gerist ef ég tek smurða brauðsneið, festi hana við bakið á ketti og kasta honum upp í loft? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=53358

Ritstjórn Vísindavefsins. „Hvað gerist ef ég tek smurða brauðsneið, festi hana við bakið á ketti og kasta honum upp í loft? “ Vísindavefurinn. 28. des. 2012. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=53358>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað gerist ef ég tek smurða brauðsneið, festi hana við bakið á ketti og kasta honum upp í loft?
Lesendur Vísindavefsins hefur vafalaust rennt í grun að ritstjórnin sé skipuð fólki sem dreymdi einu sinni um að vinna Nóbelsverðlaun fyrir framlag sitt til vísindanna. Það er líka alveg rétt. Hitt er svo einnig augljóst að fyrst þau vinna á Vísindavefnum er lítil von til að þessi draumur rætist. Annar raunhæfari draumur hefur því tekið við í gegnum árin, en það er sú von ritstjórnarinnar að vera tilnefnd til svokallaðra Ig-Nóbelsverðlauna, sem verðlauna sérkennilegustu vísindatilraunir samtímans.

Margt hefur gengið á við að uppfylla þennan draum. Hvað eftir annað hefur það gerst að önnur teymi rannsakenda hafa náð að verða fyrri til að birta niðurstöður sínar. Fyrri hluta 2012 hafði allt starfsfólk ritstjórnarinnar til dæmis safnað hári í nokkra mánuði áður en þau komust að því að þegar væri búið að gera grein fyrir eðlisfræði hártagls og tíkarspena. Árið 2011 fengu allir taugaáfall þegar í ljós kom að búið væri að gefa út grein um hvers vegna kringlukastarar verða ringlaðir eftir köst. Fjölmörgum dögum á Laugardalsvellinum hafði því verið eytt þar til einskis. Árið þar á undan hafði hóp frá Ítalíu tekist að vera fyrri til að gefa út stærðfræðilega úttekt á því hvers vegna betra væri fyrir stofnanir og fyrirtæki að veita stöðuhækkanir á handahófskenndan hátt. Vísindavefurinn hefur reyndar haldið áfram þeirri mannauðsstefnu.

Ritstjórn Vísindavefsins reynir að smygla sér og Paul Krugman inn á afhendingu Ig-Nóbelsverðlaunanna.

Mesta áfallið kom þó árið 2009 þegar rannsóknir Vísindavefsins á naflaló fengu ekki að vera með í sérhefti Annals of Improbable Research vol. 15 no. 2 sem helgað var þeim mikilvægu rannsóknum. Allir þeir mánuðir sem höfðu farið í óforbetranlega naflaskoðun á ritstjórninni fóru í súginn. Og enginn virðist vita hvernig á að farga rannsóknargögnunum. Sorpa svarar ekki enn erindum þar að lútandi! Þetta áfall kom aðeins þremur árum eftir að Vísindavefurinn reyndi að sýna fram á aukaverkanir þess að gleypa sverð með þeim afleiðingum að vefurinn varð óstarfhæfur í töluverðan tíma. Breskir og bandarískir vísindamenn og sverðagleypar höfðu þá einnig orðið fyrri til að birta niðurstöður sínar.

Ritstjórnin sá því óvænt tækifæri í ofangreindri spurningu um hvort kötturinn eða smurða brauðið lendi á jörðinni og hefur fátt annað komist að á haustmánuðum. Sérstaklega þótti hentugt að ritstjórinn hefur verið í feðraorlofi og því mögulegt að panta ótakmarkað magn af pítsum þegar unnið var fram eftir og nota ljósritunarvélina á skapandi hátt. Vísindasiðanefnd hefur þó tafið verkið, fyrst með því að setja upplýst samþykki sem skilyrði fyrir tilraununum og svo með því að draga það von úr viti að skilgreina hvernig kattardýr veita upplýst samþykki sitt.

Nýlega barst svo fax um að upprétt rófa, blautt trýni og mal (eða að minnsta kosti tvö atriði af þremur) mætti túlka sem upplýst samþykki og var þá hafist handa. Til þess að gera aðstæður í tilrauninni þannig úr garði að auðvelt væri fyrir vísindamenn um allan heim að endurtaka hana var ákveðið að láta köttinn falla af heitu tinþaki þar sem flest þjóðleikhús eiga slíkt þak í geymslum. Sérstaklega var gætt að því að sporvagninn Girnd væri ekki fyrir neðan og að Kalli væri farinn af þakinu. Brauðsneiðarnar voru smurðar með Marmite til að kettirnir freistuðust ekki til að sleikja af þeim áður en þeir féllu fram af. Einnig áttu viðstaddir doktorsnemar það til að klára brauðsneiðarnar ef þær voru smurðar með marmelaði.

Því miður sést brauðsneiðin ekki á þessari mynd.

Fjölmargir kettir úr Vesturbænum hafa sýnt vísindalegt hugrekki undanfarið og tekið þátt í tilrauninni. Einungis Flosi köttur á Fornhaganum þvertók fyrir að vera með, enda landsþekkt letidýr. Niðurstöðurnar eru enn sem komið er óspennandi, og ályktanir sem hægt er að draga varla upp í nös á ketti. Kettir virðast alltaf lenda á fótunum ef fallið er meira en 30 cm og má allt eins fara í kringum þá niðurstöðu eins og köttur í kringum heitan graut. Að sumu leyti má segja að ritstjórnin hafi keypt köttinn í sekknum þegar hún valdi þessa tilraun. Allt þetta skiptir samt litlu; Ig-Nóbelsverðlaunin eru ekki veitt fyrir niðurstöðurnar sjálfar. Það er leiðin að markmiðinu sem helst er horft til (og hver er fyrstur að birta ferðasöguna). Mikilvægast fyrir íslenskt vísindasamfélag er þó að tilraunin komst á vinnuskýrslur starfsmanna Vísindavefsins fyrir árið 2012.

Myndir:


Upprunalega spurningin var sem hér segir:
Við vitum öll að smurð brauðsneið lendir alltaf á smjörinu og sömuleiðis lendir köttur alltaf á fótunum.

Svo ég spyr: Hvað gerist ef ég tek smurða brauðsneið og festi hana við bakið á kött (smjörhliðin upp) og kasta kettinum upp í loft?


Við bendum þeim sem ekki hafa áttað sig á því að þetta svar er föstudagssvar. Enginn köttur meiddist við skrif þessi. ...