Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvaða dýr búa í Brasilíu og hver þeirra eru í útrýmingarhættu?

Jón Már Halldórsson

Ómögulegt er að telja upp eða fjalla um öll þau dýr sem lifa í Brasilíu í einu svari þar sem það myndi sjálfsagt fylla mörg bindi af bókum, svo mikill er fjöldinn þar. Hér verður því aðeins gerð grein fyrir fjölda tegunda í hinum ýmsu flokkum, en athyglinni síðan beint að dýrum í mikilli útrýmingarhættu.

Hvergi í heiminum finnast eins margar villtar spendýrategundir og í Brasilíu. Af þeim 750 tegundum spendýra sem finnast villtar í Suður-Ameríku lifa yfir 500 tegundir í Brasilíu. Af stórum spendýrum má nefna jagúar og fjallaljón, tapíra, mauraætur, letidýr, pekkaríusvín, beltisdýr, fjölmargar tegundir hjartardýra og margar tegundir prímata.


Jagúarinn (Panthera onca) er eitt af kunnustu dýrum Amazon skóganna og eini meðlimur ættkvíslar stórkatta í Ameríku.

Brasilía er í þriðja sæti yfir lönd heims hvað varðar fjölda fuglategunda sem verpa í landinu, en alls verpa um 1500 tegundir fugla þar reglulega. Í fljótum og vötnum landsins finnast vel yfir 3000 tegundir ferskvatnsfiska, þar af um 1000 tegundir í Amazon fljótinu einu. Tegundaauðgi froskdýra er einstæð og getur ekkert land í heiminum státað af jafn mörgum froskdýrategundum innan landamæra sinna. Brasilía er einnig í fjórða sæti hvað varðar fjölda skriðdýrategunda, en fræðimenn hafa nú lýst meira en 580 tegundum í landinu.

Að öllum líkindum er Brasilía líka það land heims þar sem flestar tegundir skordýra og áttfætlna lifa. Erfitt er að áætla þann fjölda skordýrategunda sem þar er að finna, en sumir fræðimenn telja að þær séu yfir 70 þúsund. Nokkur þúsund áttfætlutegunda finnast einnig í landinu. Í heildina er áætlað að vel yfir 100 þúsund tegundir landhryggleysingja finnist í Brasilíu.

Af þessu má sjá að tegundaauðgin er mjög mikil. Hins vegar fækkar tegundum ár frá ári sökum mikillar skógareyðingar, auk þess sem veiðiþjófnaður er mjög umfangsmikill. Mengun er einnig vaxandi vandamál í strandhéruðum landsins. Fjöldi dýrategunda er því í útrýmingarhættu í þessu stóra og gjöfula landi.

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin International Union for the Conservation of Nature and Natural Resources (IUCN) hafa skipt dýrategundum í flokka eftir því í hversu mikilli útrýmingarhættu þær eru (nánar má lesa um skilgreiningu á mismunandi hættuflokkum í svari sama höfundar við spurningunni Hversu margar tegundir af dýrum eru í útrýmingarhættu í dag og af hverju?). Hér verður gerð nánari grein fyrir hluta þeirra spendýra- og fuglategunda sem teljast í alvarlegri útrýmingarhættu (e. critically endangered) í Brasilíu, en ekki verður fjallað um dýr sem eru í minni útrýmingarhættu sökum plássleysis. Það skal tekið fram að í mörgum tilfellum er höfundi ekki kunnugt um íslenskt heiti tegundanna og eru þá notuð latnesku eða ensku heitin.

Spendýr

Samkvæmt flokkun IUCN eru átta spendýrategundir í Brasilíu í mikilli útrýmingarhættu, þar af eru sjö innan ættbálks prímata (Primata) og ein innan ættbálks nagdýra (Rodentia).

Ein af þessum tegundum er prímatategundin Brachyteles hypoxanthus sem á ensku kallast "northern muriqui", en þeir eru stærstu apar í Suður-Ameríku. Tegundin finnst nú aðeins á fáum verndarsvæðum í skógum við Atlantshafsströnd Brasilíu. Veiðar og skógareyðing hafa valdið því að heildarstofnstærðin hefur minnkað verulega á undanförnum áratugum og telur tegundin nú aðeins um 300 einstaklinga.

Tvær tegundir af ættkvísl stökkvara (Callicebus spp.) eru í mikilli útrýmingarhættu. Annars vegar er það tegund sem á ensku nefnist "barbara browns titi" (Callicebus barbarabrownae), en aðeins er vitað um fimm staði syðst í landinu þar sem hana er að finna. Heildarstofnstærðin er ekki þekkt en er talin vera aðeins nokkur hundruð dýr. Hin tegundin kallast "coimbrai stökkvari" (Callicebus coimbrai) og finnst á sex skógarsvæðum í fylkinu Sergipe. Þar hefur 99% af skóglendinu verið eytt og er stofnstærð C. coimbrai sennilega aðeins um 200 dýr.

Cebus xanthosternos telst til svokallaðra hettuapa (Cebus spp.). Þessi tegund finnst á örfáum svæðum, þar á meðal Condurú þjóðgarðinum í Bahia, en utan verndarsvæða hafa þessir apar verið mikið veiddir. Umfangsmikil verndaráætlun er í gangi til að reyna að fjölga í stofninum að nýju, en talsvert af þessum öpum er í haldi manna.

Þrjár tegundir skeggapa (Saguinus spp.) eru í mikilli útrýmingarhættu í Brasilíu. Þetta eru grímuskeggapi (Leontopithecus caissara), sortuskeggapi (Leontopithecus chrysopygus) og tegund sem á ensku nefnist "bare-faced tamarin" (Saguinus bicolor). Þessar þrjár tegundir lifa allar á litlum og afmörkuðum svæðum. Aðeins fundust upplýsingar um heildarstofnstærð grímuskeggsapans en hún er talin vera um 180 einstaklingar.



Sortuskeggapi (Leontopithecus chrysopygus).

Eina spendýrstegund Brasilíu sem er í mikilli útrýmingarhættu en tilheyrir ekki ættbálki prímata, er lítið nagdýr sem nefnist á ensku "brazilian arboreal mouse" (Rhagomys rufescens). Þessi tegund er afar sjaldgæf og aðeins hafa fundist nokkrir einstaklingar í skóglendi í suðausturhluta landsins. Það er því mjög lítið vitað um þessa tegund og lengi vel voru einu upplýsingarnar byggðar á tveimur einstaklingum sem fundust snemma á síðustu öld.

Fuglar

Alls eru 23 fuglategundir sagðar í mikilli útrýmingarhættu í Brasilíu. Þar af eru 14 tegundir spörfugla (Passeriformes). Dæmi um spörfuglategund í mikilli útrýmingarhættu er Antilophia bokermanni sem á ensku nefnist "araripe manakin". Þessi tegund uppgötvaðist nýlega og raunar hefur aðeins fundist einn einstaklingur sem tilheyrir henni. Tegundin finnst aðeins á mjög takmörkuðu svæði, sem er nú undir miklu álagi vegna umsvifa manna.

Kóngaklukkari (Calyptura cristata) er önnur spörfuglategund sem lifir á afar takmörkuðu svæði sem hefur orðið fyrir miklum ágangi vegna skógarhöggs. Tegundin fannst nýverið aftur eftir að ekki hafði sést til hennar í yfir 100 ár.

Þá má einnig nefna tvær tegundir af rindlaættkvísl (Myrmotherula spp.) sem eru í verulegri útrýmingarhættu í Brasilíu. Annars vegar Rio de Janeiro rindill (Myrmotherula fluminensis) og hins vegar Alagoas rindill (Myrmotherula snowi). Þessar tegundir finnast á fáum stöðum og eru mjög aðþrengdar vegna skógarhöggs og annarrar búsvæðaröskunar. Að mati IUCN verða þessar tegundir aldauða innan 10 ára verði ekkert gert á næstu árum til að bjarga þeim.

Af andfuglum (Anseriformes) Brasilíu er fenjaöndin (Mergus octosetaceus) í mikilli útrýmingarhættu, aðallega vegna mengunar á þeim svæðum þar sem hún heldur til og vegna búsvæðaröskunar. Áætlað er að heildarstofnstærð fenjaandarinnar sé nú aðeins fáein hundruð fugla, en nýjustu talningar gefa þó tilefni til bjartsýni á að stofninn sé að braggast. Það er þó alfarið háð því hvernig búsvæðum hennar mun reiða af í nánustu framtíð.



Fenjaöndin (Mergus octosetaceus).

Af vaðfuglum (Charadriiformes) er norðspói (Numenius borealis) í mikilli hættu, ef ekki horfinn. Ekki hefur orðið vart við þessa tegund síðan um miðjan 9. áratug síðustu aldar og ekki hefur sést til hans á vetrarstöðvum sínum í Brasilíu síðan árið 1939. Vísindamenn hafa ekki rannsakað allar mögulegar varpstöðvar hans og því er ekki hægt að segja með vissu að tegundin sé útdauð, en leiða má líkur að því að ef tegundin er ekki aldauða að þá er stofnstærðin afar lítil. Norðspóinn var áður fyrr mjög algengur, en á seinustu 100 árum hefur tegundinni hrakað gríðarlega hratt. Fræðimenn telja að helstu ástæður þessarar öru hnignun tegundarinnar séu umfangsmiklar veiðar í bland við skerðingu á búsvæði.

Í hópi ránfugla (Falconiformes) er tegund sem nefnist kragagleiða (Leptodon forbesi) í mikilli útrýmingarhættu. Útbreiðslusvæði hennar er afar lítið og á hún undir högg að sækja vegna rasks á heimkynnum hennar.

Meðal páfagauka (Psittaciformes) í mikilli útrýmingarhættu er hvít-ari (Anodorhynchus glaucus), sem síðast sást til svo staðfest sé á 7. áratug síðustu aldar. Fuglafræðingar hafa þó ekki gefið upp alla von um að tegundin sé enn til. Hvít-ari var mikið veiddur um miðja síðustu öld og er það sennilega ein helsta orsök þess að stofninn er nærri eða alveg útdauður í dag.

Blá-ari eða litli bláarnpáfi (Anodorhynchus hyacinthinus) finnst aðeins á einu svæði í Brasilíu. Tegundin hefur átt undir högg að sækja og árið 1994 var hún sett á lista yfir dýr í mikilli útrýmingarhættu. Illa hefur þó gengið að snúa við þessari þróun og hefur tegundinni hrakað enn meira á síðustu árum. Miklar líkur eru því á að blá-ari verði orðinn aldauða innan 10 ára.



Blá-ari eða litli bláarnpáfi (Anodorhynchus leari).

Ástand geisla-ara (Cyanopsitta spixii) er einnig litlu betra. Í dag er aðeins vitað um einstaklinga sem eru í haldi manna, en talið er að síðasti villti fuglinn hafi dáið út árið 2000. Fuglafræðingar vilja þó ekki útilokað að enn séu til villtir einstaklingar þessarar tegundar.

Tvær dúfnategundir (Columbiformes) eru í mikilli útrýmingarhættu í Brasilíu. Árið 1988 var blámadúfu (Columbina cyanopis) aðeins talið ógnað (e. threatened), en hún er nú talin í mikilli hættu. Undanfarna áratugi hefur mikið gengið á búsvæði hennar í austurhluta Brasilíu, en þar hafa stór svæði verið tekin undir nautgriparæktun. Samhliða þessum framkvæmdum hefur blámadúfum fækkað svo mikið að stofninn finnst nú aðeins á þremur litlum svæðum og telja fuglafræðingar að hann sé á bilinu 50-230 fuglar.

Önnur dúfnategund sem er í mikilli útrýmingarhættu er purpuradúfa (Claravis godefrida), en hún telur nú aðeins nokkur hundruð fugla. Búsvæðaeyðing er sennilega orsök hnignunar stofnsins, en purpuradúfan er mjög sérhæfð í búsvæðavali og því afar viðkvæm fyrir raski í umhverfinu.

Hér hafa aðeins verið tekin dæmi um spendýr og fugla í útrýmingarhættu. Þess má geta að einnig eru fjórar skriðdýrategundir og sex tegundir froskdýra taldar í mikilli útrýmingarhættu, ásamt sex fiskategundum. Helsta orsök hnignunar allra þessara tegunda er, eins og hjá þeim tegundum sem hefur verið sagt frá hér að ofan, röskun búsvæða og ágangur mannsins. Það er því augljóst að erfitt er að samræma hagsmuni manna og dýra í Brasilíu eins og annars staðar. Þar sem í Brasilíu er að finna svo stóran hluta af heildar tegundafjölda heimsins er þetta hins vegar mikið áhyggjuefni fyrir viðhald líffræðilegs fjölbreytileika á jörðinni.

Heimildir og myndir:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

9.11.2005

Spyrjandi

Jóna Björk Jónsdóttir, f. 1991

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr búa í Brasilíu og hver þeirra eru í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn, 9. nóvember 2005. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5393.

Jón Már Halldórsson. (2005, 9. nóvember). Hvaða dýr búa í Brasilíu og hver þeirra eru í útrýmingarhættu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5393

Jón Már Halldórsson. „Hvaða dýr búa í Brasilíu og hver þeirra eru í útrýmingarhættu?“ Vísindavefurinn. 9. nóv. 2005. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5393>.

Chicago | APA | MLA

Tengd svör

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvaða dýr búa í Brasilíu og hver þeirra eru í útrýmingarhættu?
Ómögulegt er að telja upp eða fjalla um öll þau dýr sem lifa í Brasilíu í einu svari þar sem það myndi sjálfsagt fylla mörg bindi af bókum, svo mikill er fjöldinn þar. Hér verður því aðeins gerð grein fyrir fjölda tegunda í hinum ýmsu flokkum, en athyglinni síðan beint að dýrum í mikilli útrýmingarhættu.

Hvergi í heiminum finnast eins margar villtar spendýrategundir og í Brasilíu. Af þeim 750 tegundum spendýra sem finnast villtar í Suður-Ameríku lifa yfir 500 tegundir í Brasilíu. Af stórum spendýrum má nefna jagúar og fjallaljón, tapíra, mauraætur, letidýr, pekkaríusvín, beltisdýr, fjölmargar tegundir hjartardýra og margar tegundir prímata.


Jagúarinn (Panthera onca) er eitt af kunnustu dýrum Amazon skóganna og eini meðlimur ættkvíslar stórkatta í Ameríku.

Brasilía er í þriðja sæti yfir lönd heims hvað varðar fjölda fuglategunda sem verpa í landinu, en alls verpa um 1500 tegundir fugla þar reglulega. Í fljótum og vötnum landsins finnast vel yfir 3000 tegundir ferskvatnsfiska, þar af um 1000 tegundir í Amazon fljótinu einu. Tegundaauðgi froskdýra er einstæð og getur ekkert land í heiminum státað af jafn mörgum froskdýrategundum innan landamæra sinna. Brasilía er einnig í fjórða sæti hvað varðar fjölda skriðdýrategunda, en fræðimenn hafa nú lýst meira en 580 tegundum í landinu.

Að öllum líkindum er Brasilía líka það land heims þar sem flestar tegundir skordýra og áttfætlna lifa. Erfitt er að áætla þann fjölda skordýrategunda sem þar er að finna, en sumir fræðimenn telja að þær séu yfir 70 þúsund. Nokkur þúsund áttfætlutegunda finnast einnig í landinu. Í heildina er áætlað að vel yfir 100 þúsund tegundir landhryggleysingja finnist í Brasilíu.

Af þessu má sjá að tegundaauðgin er mjög mikil. Hins vegar fækkar tegundum ár frá ári sökum mikillar skógareyðingar, auk þess sem veiðiþjófnaður er mjög umfangsmikill. Mengun er einnig vaxandi vandamál í strandhéruðum landsins. Fjöldi dýrategunda er því í útrýmingarhættu í þessu stóra og gjöfula landi.

Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin International Union for the Conservation of Nature and Natural Resources (IUCN) hafa skipt dýrategundum í flokka eftir því í hversu mikilli útrýmingarhættu þær eru (nánar má lesa um skilgreiningu á mismunandi hættuflokkum í svari sama höfundar við spurningunni Hversu margar tegundir af dýrum eru í útrýmingarhættu í dag og af hverju?). Hér verður gerð nánari grein fyrir hluta þeirra spendýra- og fuglategunda sem teljast í alvarlegri útrýmingarhættu (e. critically endangered) í Brasilíu, en ekki verður fjallað um dýr sem eru í minni útrýmingarhættu sökum plássleysis. Það skal tekið fram að í mörgum tilfellum er höfundi ekki kunnugt um íslenskt heiti tegundanna og eru þá notuð latnesku eða ensku heitin.

Spendýr

Samkvæmt flokkun IUCN eru átta spendýrategundir í Brasilíu í mikilli útrýmingarhættu, þar af eru sjö innan ættbálks prímata (Primata) og ein innan ættbálks nagdýra (Rodentia).

Ein af þessum tegundum er prímatategundin Brachyteles hypoxanthus sem á ensku kallast "northern muriqui", en þeir eru stærstu apar í Suður-Ameríku. Tegundin finnst nú aðeins á fáum verndarsvæðum í skógum við Atlantshafsströnd Brasilíu. Veiðar og skógareyðing hafa valdið því að heildarstofnstærðin hefur minnkað verulega á undanförnum áratugum og telur tegundin nú aðeins um 300 einstaklinga.

Tvær tegundir af ættkvísl stökkvara (Callicebus spp.) eru í mikilli útrýmingarhættu. Annars vegar er það tegund sem á ensku nefnist "barbara browns titi" (Callicebus barbarabrownae), en aðeins er vitað um fimm staði syðst í landinu þar sem hana er að finna. Heildarstofnstærðin er ekki þekkt en er talin vera aðeins nokkur hundruð dýr. Hin tegundin kallast "coimbrai stökkvari" (Callicebus coimbrai) og finnst á sex skógarsvæðum í fylkinu Sergipe. Þar hefur 99% af skóglendinu verið eytt og er stofnstærð C. coimbrai sennilega aðeins um 200 dýr.

Cebus xanthosternos telst til svokallaðra hettuapa (Cebus spp.). Þessi tegund finnst á örfáum svæðum, þar á meðal Condurú þjóðgarðinum í Bahia, en utan verndarsvæða hafa þessir apar verið mikið veiddir. Umfangsmikil verndaráætlun er í gangi til að reyna að fjölga í stofninum að nýju, en talsvert af þessum öpum er í haldi manna.

Þrjár tegundir skeggapa (Saguinus spp.) eru í mikilli útrýmingarhættu í Brasilíu. Þetta eru grímuskeggapi (Leontopithecus caissara), sortuskeggapi (Leontopithecus chrysopygus) og tegund sem á ensku nefnist "bare-faced tamarin" (Saguinus bicolor). Þessar þrjár tegundir lifa allar á litlum og afmörkuðum svæðum. Aðeins fundust upplýsingar um heildarstofnstærð grímuskeggsapans en hún er talin vera um 180 einstaklingar.



Sortuskeggapi (Leontopithecus chrysopygus).

Eina spendýrstegund Brasilíu sem er í mikilli útrýmingarhættu en tilheyrir ekki ættbálki prímata, er lítið nagdýr sem nefnist á ensku "brazilian arboreal mouse" (Rhagomys rufescens). Þessi tegund er afar sjaldgæf og aðeins hafa fundist nokkrir einstaklingar í skóglendi í suðausturhluta landsins. Það er því mjög lítið vitað um þessa tegund og lengi vel voru einu upplýsingarnar byggðar á tveimur einstaklingum sem fundust snemma á síðustu öld.

Fuglar

Alls eru 23 fuglategundir sagðar í mikilli útrýmingarhættu í Brasilíu. Þar af eru 14 tegundir spörfugla (Passeriformes). Dæmi um spörfuglategund í mikilli útrýmingarhættu er Antilophia bokermanni sem á ensku nefnist "araripe manakin". Þessi tegund uppgötvaðist nýlega og raunar hefur aðeins fundist einn einstaklingur sem tilheyrir henni. Tegundin finnst aðeins á mjög takmörkuðu svæði, sem er nú undir miklu álagi vegna umsvifa manna.

Kóngaklukkari (Calyptura cristata) er önnur spörfuglategund sem lifir á afar takmörkuðu svæði sem hefur orðið fyrir miklum ágangi vegna skógarhöggs. Tegundin fannst nýverið aftur eftir að ekki hafði sést til hennar í yfir 100 ár.

Þá má einnig nefna tvær tegundir af rindlaættkvísl (Myrmotherula spp.) sem eru í verulegri útrýmingarhættu í Brasilíu. Annars vegar Rio de Janeiro rindill (Myrmotherula fluminensis) og hins vegar Alagoas rindill (Myrmotherula snowi). Þessar tegundir finnast á fáum stöðum og eru mjög aðþrengdar vegna skógarhöggs og annarrar búsvæðaröskunar. Að mati IUCN verða þessar tegundir aldauða innan 10 ára verði ekkert gert á næstu árum til að bjarga þeim.

Af andfuglum (Anseriformes) Brasilíu er fenjaöndin (Mergus octosetaceus) í mikilli útrýmingarhættu, aðallega vegna mengunar á þeim svæðum þar sem hún heldur til og vegna búsvæðaröskunar. Áætlað er að heildarstofnstærð fenjaandarinnar sé nú aðeins fáein hundruð fugla, en nýjustu talningar gefa þó tilefni til bjartsýni á að stofninn sé að braggast. Það er þó alfarið háð því hvernig búsvæðum hennar mun reiða af í nánustu framtíð.



Fenjaöndin (Mergus octosetaceus).

Af vaðfuglum (Charadriiformes) er norðspói (Numenius borealis) í mikilli hættu, ef ekki horfinn. Ekki hefur orðið vart við þessa tegund síðan um miðjan 9. áratug síðustu aldar og ekki hefur sést til hans á vetrarstöðvum sínum í Brasilíu síðan árið 1939. Vísindamenn hafa ekki rannsakað allar mögulegar varpstöðvar hans og því er ekki hægt að segja með vissu að tegundin sé útdauð, en leiða má líkur að því að ef tegundin er ekki aldauða að þá er stofnstærðin afar lítil. Norðspóinn var áður fyrr mjög algengur, en á seinustu 100 árum hefur tegundinni hrakað gríðarlega hratt. Fræðimenn telja að helstu ástæður þessarar öru hnignun tegundarinnar séu umfangsmiklar veiðar í bland við skerðingu á búsvæði.

Í hópi ránfugla (Falconiformes) er tegund sem nefnist kragagleiða (Leptodon forbesi) í mikilli útrýmingarhættu. Útbreiðslusvæði hennar er afar lítið og á hún undir högg að sækja vegna rasks á heimkynnum hennar.

Meðal páfagauka (Psittaciformes) í mikilli útrýmingarhættu er hvít-ari (Anodorhynchus glaucus), sem síðast sást til svo staðfest sé á 7. áratug síðustu aldar. Fuglafræðingar hafa þó ekki gefið upp alla von um að tegundin sé enn til. Hvít-ari var mikið veiddur um miðja síðustu öld og er það sennilega ein helsta orsök þess að stofninn er nærri eða alveg útdauður í dag.

Blá-ari eða litli bláarnpáfi (Anodorhynchus hyacinthinus) finnst aðeins á einu svæði í Brasilíu. Tegundin hefur átt undir högg að sækja og árið 1994 var hún sett á lista yfir dýr í mikilli útrýmingarhættu. Illa hefur þó gengið að snúa við þessari þróun og hefur tegundinni hrakað enn meira á síðustu árum. Miklar líkur eru því á að blá-ari verði orðinn aldauða innan 10 ára.



Blá-ari eða litli bláarnpáfi (Anodorhynchus leari).

Ástand geisla-ara (Cyanopsitta spixii) er einnig litlu betra. Í dag er aðeins vitað um einstaklinga sem eru í haldi manna, en talið er að síðasti villti fuglinn hafi dáið út árið 2000. Fuglafræðingar vilja þó ekki útilokað að enn séu til villtir einstaklingar þessarar tegundar.

Tvær dúfnategundir (Columbiformes) eru í mikilli útrýmingarhættu í Brasilíu. Árið 1988 var blámadúfu (Columbina cyanopis) aðeins talið ógnað (e. threatened), en hún er nú talin í mikilli hættu. Undanfarna áratugi hefur mikið gengið á búsvæði hennar í austurhluta Brasilíu, en þar hafa stór svæði verið tekin undir nautgriparæktun. Samhliða þessum framkvæmdum hefur blámadúfum fækkað svo mikið að stofninn finnst nú aðeins á þremur litlum svæðum og telja fuglafræðingar að hann sé á bilinu 50-230 fuglar.

Önnur dúfnategund sem er í mikilli útrýmingarhættu er purpuradúfa (Claravis godefrida), en hún telur nú aðeins nokkur hundruð fugla. Búsvæðaeyðing er sennilega orsök hnignunar stofnsins, en purpuradúfan er mjög sérhæfð í búsvæðavali og því afar viðkvæm fyrir raski í umhverfinu.

Hér hafa aðeins verið tekin dæmi um spendýr og fugla í útrýmingarhættu. Þess má geta að einnig eru fjórar skriðdýrategundir og sex tegundir froskdýra taldar í mikilli útrýmingarhættu, ásamt sex fiskategundum. Helsta orsök hnignunar allra þessara tegunda er, eins og hjá þeim tegundum sem hefur verið sagt frá hér að ofan, röskun búsvæða og ágangur mannsins. Það er því augljóst að erfitt er að samræma hagsmuni manna og dýra í Brasilíu eins og annars staðar. Þar sem í Brasilíu er að finna svo stóran hluta af heildar tegundafjölda heimsins er þetta hins vegar mikið áhyggjuefni fyrir viðhald líffræðilegs fjölbreytileika á jörðinni.

Heimildir og myndir: