Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið barn síns tíma?

Eiríkur Bergmann

Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) varð til stærsta samræmda markaðssvæði heims sem nú telur um 450 milljónir íbúa í 28 ríkjum. Frá gildistöku hans árið 1994 hafa þó orðið miklar hræringar í evrópsku samstarfi og rekstrarumhverfi EES-samningsins er gjörbreytt frá því sem áður var. Mestu munar að Evrópusambandið (ESB) hefur breyst mikið frá því EES-samningurinn var gerður og innganga tíu nýrra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu í ESB markar nýtt upphaf í evrópsku samstarfi.

Hvað felst í EES-samningnum?

Höfuðmarkmið EES-samningsins er að auka viðskipti og efnahagsleg tengsl ríkja og efnahagslega og félagslega velsæld íbúa þeirra. Samningurinn felur í sér frjáls þjónustuviðskipti, fjármagnsviðskipti og viðskipti með iðnvarning, og jafnframt frjálsan atvinnu- og búseturétt alls staðar á svæðinu. Er þetta stundum nefnt fjórfrelsi. Enn fremur eru í samningnum ákvæði um samvinnu í félagsmálum, neytendamálum, jafnréttismálum, rannsóknum og þróun, menntamálum og umhverfismálum. Þegar samningurinn tók gildi hér á landi samþykktu íslensk stjórnvöld um leið að taka upp í íslenskan rétt nær allar þær viðskiptareglur sem giltu á evrópskum mörkuðum. Í samningnum felast því ekki aðeins frjáls viðskipti og sameiginleg réttindi heldur einnig að vissu marki sameiginlegar reglur á ýmsum sviðum til að tryggja sanngjarna samkeppni í viðskiptum, neytendavernd, vernd umhverfisins, félagsleg réttindi og svo framvegis.


Það felst í EES-samningnum að Íslendingar eru aðilar að ýmsum evrópskum samstarfsverkefnum svo sem ERASMUS sem styrkir starfsemi á háskólastigi.

Segja má að með gildistöku EES-samningsins hafi íslenskt viðskiptaumhverfi loksins orðið sambærilegt við það sem þekktist á meginlandi Vestur-Evrópu. Ísland varð hluti af innri markaði Evrópusambandsins og þar með í raun aðili að innsta kjarna evrópskrar samvinnu. Eftir áratuga reynslu af EES-samningnum er það samdóma álit manna að undirritun hans hafi verið ótvírætt framfaraspor fyrir íslenskt þjóðarbú og verkað sem vítamínsprauta á efnahagslíf þjóðarinnar. Fullyrt er að samningurinn hafi stuðlað að auknum stöðugleika í efnahagslífinu og leitt bæði til aukins frjálsræðis og nútímalegri stjórnunarhátta. Hann hefur einnig verið ein helsta lífæð Íslands í alþjóðasamvinnu. Til að mynda hefur aðgangur að mörkuðum ESB stóraukist og þátttaka í samstarfsáætlunum ESB, svo sem á sviði vísinda, menntamála og menningarmála, hefur skilað umtalsverðu fjármagni og þekkingu inn í íslenskt þjóðfélag. Til að mynda fengu íslenskir athafnamenn að reyna sig í evrópsku atvinnulífi og vísindamenn hér á landi komust í mun betri tengsl við aðra evrópska fræðimenn svo eitthvað sé nefnt.

Gallar samningsins

EES-samningurinn nær til flestra sviða samfélagsins og mælir fyrir um nokkuð flókið net samskipta. Samningurinn er vissulega góður fyrir viðskiptalífið en í rekstri hans og þróun hafa komið fram ýmsir gallar. Sumir voru þekktir í upphafi en aðrir hafa komið í ljós síðar.

EES-samningurinn er í stöðugri mótun þar sem hann breytist samhliða þróun reglna á innri markaði ESB. Þannig felur samningurinn í sér stöðuga endurskoðun og uppfærslu á íslenskum lögum. Þetta hefur víðtæk áhrif á íslenska stjórnsýslu. Frumkvæði og lokaákvörðun um innleiðingar lagasetninga er í auknum mæli komið á Evrópuvettvanginn og fá svið samfélagsins eru undanskilin. Á sumum þeirra eins og í umhverfismálum og matvælaeftirliti er nær öll lagasetning sem tekur gildi á Íslandi í höndum embættismanna og fulltrúa annarra ríkja í Brüssel en ekki í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Íslandi. Borgarar ESB hafa jafnframt margvíslegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem íslenskir borgarar hafa ekki en ákvarðanir í stofnunum ESB byggja á fjölþættu samráði við sérfræðinga, stjórnmálamenn og hagsmunaaðila í aðildarríkjunum.

Við rekstur EES-samningsins hefur komið í ljós að neitunarvaldið sem EFTA-ríkin hafa í orði kveðnu er óvirkt; nær ómögulegt er að hafna lagasmíð frá ESB án þess að setja allan samninginn um leið í uppnám. Við þær aðstæður er það hlutverk ESB að meta hvort slík neitun hafi áhrif á það samræmi sem stefnt er að með samningnum. Ef svo reynist vera er ekki fráleitt að EES-samningurinn falli niður á því sviði sem viðkomandi reglugerð nær til. Þar með væri grafið undan meginforsendu samningsins um einsleitni á öllu svæðinu; að sömu reglur eigi að gilda alls staðar á innri markaðinum.

Enn fremur hefur slík höfnun ekki aðeins gildi fyrir viðkomandi ríki heldur einnig fyrir hin EES-ríkin. Þeim væri þar með settur stóllinn fyrir dyrnar og gætu, að öllum líkindum, ekki heldur tekið upp viðkomandi lagasmíð einhliða. Á gildistíma samningsins hefur þessi staða ekki enn komið upp, enda myndi slíkt leiða til mikillar óvissu í samstarfinu. Neitunarvaldinu hefur því aldrei verið beitt og innan EES hefur því verið líkt við kjarnorkusprengju; það sé gott að eiga hana en afar óskynsamlegt að nota hana. Keðjuverkun færi í gang og ómögulegt að sjá fyrirfram fyrir endann á þess háttar uppákomu.

Breytingar frá undirritun samningsins

EES-samningurinn var upphaflega gerður milli tveggja jafnrétthárra ríkjablokka og byggðist á gagnkvæmum viðskiptahagsmunum beggja aðila. Um var að ræða tólf ríki ESB og sex EFTA-ríki, með 30 milljónir íbúa sem voru að auki langmikilvægasti markaður Evrópusambandsríkjanna. Eftir að bróðurpartur EFTA, Austurríki, Finnland og Svíþjóð, söðluðu um yfir í ESB aðeins ári eftir gildistöku EES-samningsins hefur vægi EFTA-ríkjanna minnkað töluvert og sífellt hefur orðið erfiðara fyrir okkur Íslendinga að ná fram hagsmunamálum okkar. Nú eru aðeins þrjú ríki með 4,8 milljónir íbúa eftir EFTA-megin hryggjar á meðan aðildarríki ESB eru orðin 25 talsins með 480 milljónir íbúa. Formleg staða samningsins er óbreytt en pólitískt vægi EFTA-stoðarinnar hefur minnkað mikið.


EES-samningurinn var gerður milli EFTA-ríkjanna og ESB-ríkjanna. Mörg fyrrum EFTA-ríki eru nú aðilar að ESB. Ísland, Noregur og Liechtenstein eru ein eftir.

Í upphafi var daglegt samstarf á grundvelli EES gjarnan byggt á anda samningsins en ekki endilega orðanna hljóðan. Þannig fengu EES-ríkin mun meiri aðgang að ákvarðanatöku innan ESB í þeim málum sem heyra undir innri markaðinn heldur en kveðið er á um í samningnum með beinum hætti. Til að mynda hafði Ísland í upphafi aðgang að fjölda nefnda sem undirbúa lagasmíð ESB sem síðan gilda fyrir allan innri markaðinn. Á undanförnum misserum virðist ESB hafa tekið þá stefnubreytingu, meðvitað eða ómeðvitað, að túlka samninginn þröngt. EES-ríkjunum hefur í kjölfarið verið meinaður aðgangur að undirbúningsvinnu lagasmíðar sem hefur leitt til þess að Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa nú miklu minni möguleika á að koma hagsmunamálum sínum á framfæri heldur en á fyrsta skeiði samningsins.

Undanfarin misseri hafa reglulega komið upp ýmsir árekstrar í samstarfinu milli EFTA-ríkjanna og ESB og vandkvæði í rekstri samningsins virðast aukast eftir því sem árin líða. Til að mynda gekk ansi brösuglega að tryggja stækkun EES samhliða stækkun ESB. Það eykur enn á vandræðin að EES-samningurinn er nú rekinn á lægra stigi en áður innan stjórnsýslu ESB og svo virðist sem embættismenn sambandsins hafi misst áhugann á samstarfinu þótt þeir verði augljóslega að virða samningsskuldbindingar sínar.

Embættismenn Íslands sem vinna á vettvangi samningsins hafa orðið þess varir í síauknum mæli að fulltrúar ESB taka nú minna tillit til hagsmuna EES-ríkjanna. Áhugaleysi ESB á samningnum hefur til að mynda birst í því að í nýrri löggjöf ESB hefur brunnið við að EES-ríkin hreinlega gleymist. Mörg dæmi eru um að EES-ríkjunum hafi ekki verið boðið upp á samráð um nýja löggjöf sem ætti þó að vera samkvæmt 99. grein samningsins sem kveður á um að leita skuli ráða hjá sérfræðingum EFTA á sama hátt og leitað er ráða hjá sérfræðingum ESB.

Evrópusambandið sjálft hefur breyst mikið frá því EES-samningurinn var gerður en hann hefur ekki þróast í takt við þær breytingar. EES-samningurinn byggist á Rómarsáttmálanum og ákvæði hans eru samhljóða texta sáttmálans eins og hann var þegar viðræðum lauk. Frá þeim tíma hafa þrír nýir sáttmálar ESB litið dagsins ljós: Maastricht 1993, Amsterdam 1997 og Nice 2000. Með þeim hafa orðið töluverðar breytingar á starfsemi og samstarfsgrunni Evrópusambandsríkjanna sem hefur bæði orðið nánara og samstarfssviðum verið fjölgað.

Framkvæmdastjórn ESB á samkvæmt EES-samningnum að tala máli EFTA-ríkjanna innan stofnana ESB en síðan samningurinn var gerður hefur verulega dregið úr völdum hennar. Aukið vægi Evrópuþingsins og Ráðherraráðsins hefur orðið til þess að erfiðara reynist að fá framkvæmdastjórnina til að tala máli EES-ríkjanna gagnvart ráðinu og aðildarríkjunum þar sem hún þarf að hafa meira fyrir því en áður að halda til streitu eigin sjónarmiðum og áhersluatriðum. Hefur það þrengt verulega að möguleikum EES-ríkjanna til að hafa áhrif á Evrópulöggjöfina sem þó gildir á öllu EES-svæðinu eftir sem áður.

Er EES-samningurinn úreltur?

Færa má rök fyrir því að EES-samningurinn falli orðið illa að breyttum stofnanaramma ESB. Aukin krafa um lýðræði, gegnsæi og einsleitni gerir það að verkum að embættismannasamningur eins og EES fær minna vægi en áður. Af ofangreindu má fullyrða að vægi samningsins hafi minnkað og að hann nái ekki lengur með fullnægjandi hætti yfir samstarf EES-ríkjanna og ESB. Þróunin hefur um leið fært EES-ríkin meira út á hliðarlínuna í evrópsku samstarfi.

Svarið er byggt á bók höfundar Evrópusamruninn og Ísland, leiðavísir um samrunaþróun Evrópu og stöðu Íslands í evrópsku samstarfi sem kom út hjá Háskólaútgáfunni haustið 2003.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:

Höfundur

dósent og forstöðumaður Evrópufræðaseturs Háskólans á Bifröst

Útgáfudagur

29.12.2005

Spyrjandi

Ragnar Sigurðsson

Tilvísun

Eiríkur Bergmann. „Er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið barn síns tíma?“ Vísindavefurinn, 29. desember 2005. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=5523.

Eiríkur Bergmann. (2005, 29. desember). Er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið barn síns tíma? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=5523

Eiríkur Bergmann. „Er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið barn síns tíma?“ Vísindavefurinn. 29. des. 2005. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=5523>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið barn síns tíma?
Með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) varð til stærsta samræmda markaðssvæði heims sem nú telur um 450 milljónir íbúa í 28 ríkjum. Frá gildistöku hans árið 1994 hafa þó orðið miklar hræringar í evrópsku samstarfi og rekstrarumhverfi EES-samningsins er gjörbreytt frá því sem áður var. Mestu munar að Evrópusambandið (ESB) hefur breyst mikið frá því EES-samningurinn var gerður og innganga tíu nýrra ríkja í Mið- og Austur-Evrópu í ESB markar nýtt upphaf í evrópsku samstarfi.

Hvað felst í EES-samningnum?

Höfuðmarkmið EES-samningsins er að auka viðskipti og efnahagsleg tengsl ríkja og efnahagslega og félagslega velsæld íbúa þeirra. Samningurinn felur í sér frjáls þjónustuviðskipti, fjármagnsviðskipti og viðskipti með iðnvarning, og jafnframt frjálsan atvinnu- og búseturétt alls staðar á svæðinu. Er þetta stundum nefnt fjórfrelsi. Enn fremur eru í samningnum ákvæði um samvinnu í félagsmálum, neytendamálum, jafnréttismálum, rannsóknum og þróun, menntamálum og umhverfismálum. Þegar samningurinn tók gildi hér á landi samþykktu íslensk stjórnvöld um leið að taka upp í íslenskan rétt nær allar þær viðskiptareglur sem giltu á evrópskum mörkuðum. Í samningnum felast því ekki aðeins frjáls viðskipti og sameiginleg réttindi heldur einnig að vissu marki sameiginlegar reglur á ýmsum sviðum til að tryggja sanngjarna samkeppni í viðskiptum, neytendavernd, vernd umhverfisins, félagsleg réttindi og svo framvegis.


Það felst í EES-samningnum að Íslendingar eru aðilar að ýmsum evrópskum samstarfsverkefnum svo sem ERASMUS sem styrkir starfsemi á háskólastigi.

Segja má að með gildistöku EES-samningsins hafi íslenskt viðskiptaumhverfi loksins orðið sambærilegt við það sem þekktist á meginlandi Vestur-Evrópu. Ísland varð hluti af innri markaði Evrópusambandsins og þar með í raun aðili að innsta kjarna evrópskrar samvinnu. Eftir áratuga reynslu af EES-samningnum er það samdóma álit manna að undirritun hans hafi verið ótvírætt framfaraspor fyrir íslenskt þjóðarbú og verkað sem vítamínsprauta á efnahagslíf þjóðarinnar. Fullyrt er að samningurinn hafi stuðlað að auknum stöðugleika í efnahagslífinu og leitt bæði til aukins frjálsræðis og nútímalegri stjórnunarhátta. Hann hefur einnig verið ein helsta lífæð Íslands í alþjóðasamvinnu. Til að mynda hefur aðgangur að mörkuðum ESB stóraukist og þátttaka í samstarfsáætlunum ESB, svo sem á sviði vísinda, menntamála og menningarmála, hefur skilað umtalsverðu fjármagni og þekkingu inn í íslenskt þjóðfélag. Til að mynda fengu íslenskir athafnamenn að reyna sig í evrópsku atvinnulífi og vísindamenn hér á landi komust í mun betri tengsl við aðra evrópska fræðimenn svo eitthvað sé nefnt.

Gallar samningsins

EES-samningurinn nær til flestra sviða samfélagsins og mælir fyrir um nokkuð flókið net samskipta. Samningurinn er vissulega góður fyrir viðskiptalífið en í rekstri hans og þróun hafa komið fram ýmsir gallar. Sumir voru þekktir í upphafi en aðrir hafa komið í ljós síðar.

EES-samningurinn er í stöðugri mótun þar sem hann breytist samhliða þróun reglna á innri markaði ESB. Þannig felur samningurinn í sér stöðuga endurskoðun og uppfærslu á íslenskum lögum. Þetta hefur víðtæk áhrif á íslenska stjórnsýslu. Frumkvæði og lokaákvörðun um innleiðingar lagasetninga er í auknum mæli komið á Evrópuvettvanginn og fá svið samfélagsins eru undanskilin. Á sumum þeirra eins og í umhverfismálum og matvælaeftirliti er nær öll lagasetning sem tekur gildi á Íslandi í höndum embættismanna og fulltrúa annarra ríkja í Brüssel en ekki í höndum lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Íslandi. Borgarar ESB hafa jafnframt margvíslegar leiðir til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri sem íslenskir borgarar hafa ekki en ákvarðanir í stofnunum ESB byggja á fjölþættu samráði við sérfræðinga, stjórnmálamenn og hagsmunaaðila í aðildarríkjunum.

Við rekstur EES-samningsins hefur komið í ljós að neitunarvaldið sem EFTA-ríkin hafa í orði kveðnu er óvirkt; nær ómögulegt er að hafna lagasmíð frá ESB án þess að setja allan samninginn um leið í uppnám. Við þær aðstæður er það hlutverk ESB að meta hvort slík neitun hafi áhrif á það samræmi sem stefnt er að með samningnum. Ef svo reynist vera er ekki fráleitt að EES-samningurinn falli niður á því sviði sem viðkomandi reglugerð nær til. Þar með væri grafið undan meginforsendu samningsins um einsleitni á öllu svæðinu; að sömu reglur eigi að gilda alls staðar á innri markaðinum.

Enn fremur hefur slík höfnun ekki aðeins gildi fyrir viðkomandi ríki heldur einnig fyrir hin EES-ríkin. Þeim væri þar með settur stóllinn fyrir dyrnar og gætu, að öllum líkindum, ekki heldur tekið upp viðkomandi lagasmíð einhliða. Á gildistíma samningsins hefur þessi staða ekki enn komið upp, enda myndi slíkt leiða til mikillar óvissu í samstarfinu. Neitunarvaldinu hefur því aldrei verið beitt og innan EES hefur því verið líkt við kjarnorkusprengju; það sé gott að eiga hana en afar óskynsamlegt að nota hana. Keðjuverkun færi í gang og ómögulegt að sjá fyrirfram fyrir endann á þess háttar uppákomu.

Breytingar frá undirritun samningsins

EES-samningurinn var upphaflega gerður milli tveggja jafnrétthárra ríkjablokka og byggðist á gagnkvæmum viðskiptahagsmunum beggja aðila. Um var að ræða tólf ríki ESB og sex EFTA-ríki, með 30 milljónir íbúa sem voru að auki langmikilvægasti markaður Evrópusambandsríkjanna. Eftir að bróðurpartur EFTA, Austurríki, Finnland og Svíþjóð, söðluðu um yfir í ESB aðeins ári eftir gildistöku EES-samningsins hefur vægi EFTA-ríkjanna minnkað töluvert og sífellt hefur orðið erfiðara fyrir okkur Íslendinga að ná fram hagsmunamálum okkar. Nú eru aðeins þrjú ríki með 4,8 milljónir íbúa eftir EFTA-megin hryggjar á meðan aðildarríki ESB eru orðin 25 talsins með 480 milljónir íbúa. Formleg staða samningsins er óbreytt en pólitískt vægi EFTA-stoðarinnar hefur minnkað mikið.


EES-samningurinn var gerður milli EFTA-ríkjanna og ESB-ríkjanna. Mörg fyrrum EFTA-ríki eru nú aðilar að ESB. Ísland, Noregur og Liechtenstein eru ein eftir.

Í upphafi var daglegt samstarf á grundvelli EES gjarnan byggt á anda samningsins en ekki endilega orðanna hljóðan. Þannig fengu EES-ríkin mun meiri aðgang að ákvarðanatöku innan ESB í þeim málum sem heyra undir innri markaðinn heldur en kveðið er á um í samningnum með beinum hætti. Til að mynda hafði Ísland í upphafi aðgang að fjölda nefnda sem undirbúa lagasmíð ESB sem síðan gilda fyrir allan innri markaðinn. Á undanförnum misserum virðist ESB hafa tekið þá stefnubreytingu, meðvitað eða ómeðvitað, að túlka samninginn þröngt. EES-ríkjunum hefur í kjölfarið verið meinaður aðgangur að undirbúningsvinnu lagasmíðar sem hefur leitt til þess að Ísland, Noregur og Liechtenstein hafa nú miklu minni möguleika á að koma hagsmunamálum sínum á framfæri heldur en á fyrsta skeiði samningsins.

Undanfarin misseri hafa reglulega komið upp ýmsir árekstrar í samstarfinu milli EFTA-ríkjanna og ESB og vandkvæði í rekstri samningsins virðast aukast eftir því sem árin líða. Til að mynda gekk ansi brösuglega að tryggja stækkun EES samhliða stækkun ESB. Það eykur enn á vandræðin að EES-samningurinn er nú rekinn á lægra stigi en áður innan stjórnsýslu ESB og svo virðist sem embættismenn sambandsins hafi misst áhugann á samstarfinu þótt þeir verði augljóslega að virða samningsskuldbindingar sínar.

Embættismenn Íslands sem vinna á vettvangi samningsins hafa orðið þess varir í síauknum mæli að fulltrúar ESB taka nú minna tillit til hagsmuna EES-ríkjanna. Áhugaleysi ESB á samningnum hefur til að mynda birst í því að í nýrri löggjöf ESB hefur brunnið við að EES-ríkin hreinlega gleymist. Mörg dæmi eru um að EES-ríkjunum hafi ekki verið boðið upp á samráð um nýja löggjöf sem ætti þó að vera samkvæmt 99. grein samningsins sem kveður á um að leita skuli ráða hjá sérfræðingum EFTA á sama hátt og leitað er ráða hjá sérfræðingum ESB.

Evrópusambandið sjálft hefur breyst mikið frá því EES-samningurinn var gerður en hann hefur ekki þróast í takt við þær breytingar. EES-samningurinn byggist á Rómarsáttmálanum og ákvæði hans eru samhljóða texta sáttmálans eins og hann var þegar viðræðum lauk. Frá þeim tíma hafa þrír nýir sáttmálar ESB litið dagsins ljós: Maastricht 1993, Amsterdam 1997 og Nice 2000. Með þeim hafa orðið töluverðar breytingar á starfsemi og samstarfsgrunni Evrópusambandsríkjanna sem hefur bæði orðið nánara og samstarfssviðum verið fjölgað.

Framkvæmdastjórn ESB á samkvæmt EES-samningnum að tala máli EFTA-ríkjanna innan stofnana ESB en síðan samningurinn var gerður hefur verulega dregið úr völdum hennar. Aukið vægi Evrópuþingsins og Ráðherraráðsins hefur orðið til þess að erfiðara reynist að fá framkvæmdastjórnina til að tala máli EES-ríkjanna gagnvart ráðinu og aðildarríkjunum þar sem hún þarf að hafa meira fyrir því en áður að halda til streitu eigin sjónarmiðum og áhersluatriðum. Hefur það þrengt verulega að möguleikum EES-ríkjanna til að hafa áhrif á Evrópulöggjöfina sem þó gildir á öllu EES-svæðinu eftir sem áður.

Er EES-samningurinn úreltur?

Færa má rök fyrir því að EES-samningurinn falli orðið illa að breyttum stofnanaramma ESB. Aukin krafa um lýðræði, gegnsæi og einsleitni gerir það að verkum að embættismannasamningur eins og EES fær minna vægi en áður. Af ofangreindu má fullyrða að vægi samningsins hafi minnkað og að hann nái ekki lengur með fullnægjandi hætti yfir samstarf EES-ríkjanna og ESB. Þróunin hefur um leið fært EES-ríkin meira út á hliðarlínuna í evrópsku samstarfi.

Svarið er byggt á bók höfundar Evrópusamruninn og Ísland, leiðavísir um samrunaþróun Evrópu og stöðu Íslands í evrópsku samstarfi sem kom út hjá Háskólaútgáfunni haustið 2003.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Myndir:

...