Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað pissar meðalmaðurinn mikið á dag?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Meðalþvaglát eru um það bil einn og hálfur lítri á dag. Endanlegt þvag myndast við þrjú ferli sem fara fram í svokölluðum nýrungum (e. nephrons) sem eru starfseiningar nýrnanna. Í hvoru nýra eru um það bil ein milljón nýrunga. Í grófum dráttum eru helstu hlutar nýrunga:

  1. nýrnahnoðri (e. renal corpuscle) sem samanstendur af a) æðhnoðra og b) hnoðrahylki sem umlykur hann,
  2. nýrnapípla (e. renal tubule) sem liggur frá hnoðrahylkinu og
  3. safnrás (e. collecting duct).

Fyrsta ferli þvagmyndunar, síun, fer fram í nýrnahnoðranum. Við síun berast efni úr blóðinu í æðhnoðranum í gegnum vegg hans í hnoðrahylkið. Efnin sem hér er um að ræða eru vatn, glúkósi, sölt, og uppleyst úrgangsefni, sem sagt bæði nothæf efni og ónothæf. Efni sem komast í gegnum himnuna þrýstast í gegn en blóðkorn og stórar prótínsameindir verða eftir í blóðinu. Vökvinn sem myndast við síun kallast frumþvag (e. glomerular filtrate) og er að mestu leyti gerður úr vatni, söltum (einkum natrín- og kalínjónum), glúkósa og úrgangsefninu þvagefni (e. urea) sem lifrin myndar úr eiturefninu ammóníaki sem verður til við niðurbrot amínósýra, byggingareininga prótína. Síunarhraði líkamans er 125 ml/mínútu eða 180 lítrar á dag.

Meðalþvaglát eru um það bil einn og hálfur lítri á dag.

Við annað ferli þvagmyndunar, endursog, eru efnin í frumþvaginu sem líkaminn getur notað, einkum vatn, glúkósi og natrínjónir, tekin aftur upp í blóðið. Endursog gerist í nýrnapíplum sem eru umluktar háræðum og skiptast í nærpíplur (e. proximal convoluted tubules), sveigpíplur (e. loop of Henle) og fjærpíplur (e. distal convoluted tubules). Endursog fer einnig fram í safnrásum nýrunganna. Um 99% af vatninu í frumþvagi eða 178 lítrar eru endursogaðir úr nærpíplunum og gerist það með óvirkum hætti (osmósu). Allur glúkósi er endursogaður úr frumþvagi. Til þess þarf virkur flutningur að koma til. Ef óeðlilega mikill sykur (glúkósi) er í blóðinu eins og gerist við sykursýki ræður líkaminn þó ekki við að endursoga hann allan og endanlegt þvag verður sætt. Endursog natrínjóna fer eftir því hversu mikið salt við höfum borðað. Ef við höfum borðað saltan mat er mikið salt í blóði og endursog minnkar og mikið verður af natrínjónum í endanlegu þvagi. Hið andstæða á við ef við höfum borðað lítið salt. Þá eykst endursog natrínjóna og lítið er af þeim í þvaginu.

Þriðja ferli þvagmyndunar heitir seyti (e. secretion) og er í raun andstæðan við endursog. Þá eru efni tekin úr blóði og sett í frumþvagið. Seyti verður bæði vegna flæðis og virks flutnings. Efni sem er seytt úr blóði í nýrnapíplur eru vetnisjónir, kalínjónir, ammóníak og tiltekin lyf. Seyti nýrnanna á virkan þátt í að viðhalda réttu sýrustigi líkamans og er eitt aðalhlutverk nýrna. Það fer fram í nýrnapíplum.

Skýringarmynd sem sýnir ferli þvagmyndunar í mönnum.

Við þessi þrjú ferli myndast á einum sólahring um það bil einn og hálfur lítri af endanlegu þvagi (e. urine) eins og áður sagði. Þvagmagnið er þó breytilegt frá degi til dags og á milli einstaklinga. Það sem ræður mestu um þvagmagnið er stjórnun á vatns- og natrínmagni blóðs og er það undir neyslu okkar á vatni og söltum komið. Þvagtemprandi hormón (ÞTH) (e. anti-diuretic hormone=ADH) stjórnar þessu jafnvægi. Sérstakir nemar í undirstúku heilans fylgjast með styrk natrínjóna í blóðinu og þar með öðrum líkamsvökvum. Þegar þeir verða þess varir að styrkur natrínjóna eykst (eða þegar vatnsmagn minnkar) senda þeir boð niður til afturhluta heiladinguls sem þá seytir ÞTH. Það berst með blóði til nýrnanna og eykur gegndræpi í fjærpíplum fyrir vatni þannig að endursog vatns eykst og þvagmagnið minnkar. Það leiðir til þess að blóðið þynnist og styrkur natrínjóna minnkar.

Þorsti hefur áhrif á þetta stjórnunarferli. Hann stjórnar vatnsinntöku á meðan ÞTH stjórnar vatnsútlátum. Við finnum fyrir þorsta þegar styrkur natrínjóna í blóði eykst og leitumst við að svala þorstanum með því að drekka. Drykkja slær á þorstatilfinninguna löngu áður en vatnið er komið út í blóðið og þynnir það. Þetta er mikilvægt svo að við höldum ekki áfram að þamba eftir að nægilegt vatn er komið í líkamann.

Aldósterón er annað hormón sem hefur áhrif á þvagmyndun. Það er myndað af nýrnahettuberki og hefur áhrif á gegndræpi kalín- og natrínjóna í nýrnapíplum. Það stuðlar að því að halda í natrínjónir en þveita (e. excrete) kalínjónum út úr líkamanum. Vegna áhrifa á natrínjónir stuðlar aldósterón líka að því að spara vatn.

Heimild og myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

3.5.2012

Spyrjandi

Guðbjörg Soffía Magnúsdóttir

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað pissar meðalmaðurinn mikið á dag?“ Vísindavefurinn, 3. maí 2012. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=56710.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 3. maí). Hvað pissar meðalmaðurinn mikið á dag? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=56710

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Hvað pissar meðalmaðurinn mikið á dag?“ Vísindavefurinn. 3. maí. 2012. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=56710>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað pissar meðalmaðurinn mikið á dag?
Meðalþvaglát eru um það bil einn og hálfur lítri á dag. Endanlegt þvag myndast við þrjú ferli sem fara fram í svokölluðum nýrungum (e. nephrons) sem eru starfseiningar nýrnanna. Í hvoru nýra eru um það bil ein milljón nýrunga. Í grófum dráttum eru helstu hlutar nýrunga:

  1. nýrnahnoðri (e. renal corpuscle) sem samanstendur af a) æðhnoðra og b) hnoðrahylki sem umlykur hann,
  2. nýrnapípla (e. renal tubule) sem liggur frá hnoðrahylkinu og
  3. safnrás (e. collecting duct).

Fyrsta ferli þvagmyndunar, síun, fer fram í nýrnahnoðranum. Við síun berast efni úr blóðinu í æðhnoðranum í gegnum vegg hans í hnoðrahylkið. Efnin sem hér er um að ræða eru vatn, glúkósi, sölt, og uppleyst úrgangsefni, sem sagt bæði nothæf efni og ónothæf. Efni sem komast í gegnum himnuna þrýstast í gegn en blóðkorn og stórar prótínsameindir verða eftir í blóðinu. Vökvinn sem myndast við síun kallast frumþvag (e. glomerular filtrate) og er að mestu leyti gerður úr vatni, söltum (einkum natrín- og kalínjónum), glúkósa og úrgangsefninu þvagefni (e. urea) sem lifrin myndar úr eiturefninu ammóníaki sem verður til við niðurbrot amínósýra, byggingareininga prótína. Síunarhraði líkamans er 125 ml/mínútu eða 180 lítrar á dag.

Meðalþvaglát eru um það bil einn og hálfur lítri á dag.

Við annað ferli þvagmyndunar, endursog, eru efnin í frumþvaginu sem líkaminn getur notað, einkum vatn, glúkósi og natrínjónir, tekin aftur upp í blóðið. Endursog gerist í nýrnapíplum sem eru umluktar háræðum og skiptast í nærpíplur (e. proximal convoluted tubules), sveigpíplur (e. loop of Henle) og fjærpíplur (e. distal convoluted tubules). Endursog fer einnig fram í safnrásum nýrunganna. Um 99% af vatninu í frumþvagi eða 178 lítrar eru endursogaðir úr nærpíplunum og gerist það með óvirkum hætti (osmósu). Allur glúkósi er endursogaður úr frumþvagi. Til þess þarf virkur flutningur að koma til. Ef óeðlilega mikill sykur (glúkósi) er í blóðinu eins og gerist við sykursýki ræður líkaminn þó ekki við að endursoga hann allan og endanlegt þvag verður sætt. Endursog natrínjóna fer eftir því hversu mikið salt við höfum borðað. Ef við höfum borðað saltan mat er mikið salt í blóði og endursog minnkar og mikið verður af natrínjónum í endanlegu þvagi. Hið andstæða á við ef við höfum borðað lítið salt. Þá eykst endursog natrínjóna og lítið er af þeim í þvaginu.

Þriðja ferli þvagmyndunar heitir seyti (e. secretion) og er í raun andstæðan við endursog. Þá eru efni tekin úr blóði og sett í frumþvagið. Seyti verður bæði vegna flæðis og virks flutnings. Efni sem er seytt úr blóði í nýrnapíplur eru vetnisjónir, kalínjónir, ammóníak og tiltekin lyf. Seyti nýrnanna á virkan þátt í að viðhalda réttu sýrustigi líkamans og er eitt aðalhlutverk nýrna. Það fer fram í nýrnapíplum.

Skýringarmynd sem sýnir ferli þvagmyndunar í mönnum.

Við þessi þrjú ferli myndast á einum sólahring um það bil einn og hálfur lítri af endanlegu þvagi (e. urine) eins og áður sagði. Þvagmagnið er þó breytilegt frá degi til dags og á milli einstaklinga. Það sem ræður mestu um þvagmagnið er stjórnun á vatns- og natrínmagni blóðs og er það undir neyslu okkar á vatni og söltum komið. Þvagtemprandi hormón (ÞTH) (e. anti-diuretic hormone=ADH) stjórnar þessu jafnvægi. Sérstakir nemar í undirstúku heilans fylgjast með styrk natrínjóna í blóðinu og þar með öðrum líkamsvökvum. Þegar þeir verða þess varir að styrkur natrínjóna eykst (eða þegar vatnsmagn minnkar) senda þeir boð niður til afturhluta heiladinguls sem þá seytir ÞTH. Það berst með blóði til nýrnanna og eykur gegndræpi í fjærpíplum fyrir vatni þannig að endursog vatns eykst og þvagmagnið minnkar. Það leiðir til þess að blóðið þynnist og styrkur natrínjóna minnkar.

Þorsti hefur áhrif á þetta stjórnunarferli. Hann stjórnar vatnsinntöku á meðan ÞTH stjórnar vatnsútlátum. Við finnum fyrir þorsta þegar styrkur natrínjóna í blóði eykst og leitumst við að svala þorstanum með því að drekka. Drykkja slær á þorstatilfinninguna löngu áður en vatnið er komið út í blóðið og þynnir það. Þetta er mikilvægt svo að við höldum ekki áfram að þamba eftir að nægilegt vatn er komið í líkamann.

Aldósterón er annað hormón sem hefur áhrif á þvagmyndun. Það er myndað af nýrnahettuberki og hefur áhrif á gegndræpi kalín- og natrínjóna í nýrnapíplum. Það stuðlar að því að halda í natrínjónir en þveita (e. excrete) kalínjónum út úr líkamanum. Vegna áhrifa á natrínjónir stuðlar aldósterón líka að því að spara vatn.

Heimild og myndir:

...