Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var Christian Jürgensen Thomsen og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?

Orri Vésteinsson

Hvernig er hægt að vita hversu gamall gripur er? Löngu áður en algildar tímasetningaraðferðir eins og kolefnisaldursgreining voru þróaðar um og eftir miðja 20. öld, höfðu fornleifafræðingar fundið leiðir til að raða gripum í tímaröð eftir efni og gerð. Gerðfræði, eða typologia, fæst við að flokka gripi, að ákveða hverjir séu frá sama tímabili á grundvelli líkinda. Ef hægt er að tímasetja einn grip í flokki, til dæmis út frá peningi með ártali sem finnst í sama lagi, þá er þar með komin tímasetning á alla aðra gripi í þeim flokki, og afstæð tímasetning á þá flokka sem teljast eldri eða yngri í tímaröðinni. Á löngum tíma hefur byggst upp víðfeðm þekking á gerðum gripa, gerðfræðilegum breytileika og gerðfræðilegri þróun, og liggur hún enn til grundvallar fornleifafræðilegum tímasetningum þó aðrar aðferðir hafi komið til sögunnar. Gerðfræðin rekur upphaf sitt til danska fornleifafræðingsins Christians Jürgensens Thomsens (1788-1865).

Árið 1807 hafði verið stofnuð konungleg nefnd til varðveislu fornmenja í Danmörku og vann hún ötult starf við að skrá fornleifar og safna gripum, meðal annars á Íslandi. Fljótlega varð til mikið gripasafn á lofti Þrenningarkirkjunnar í Kaupmannahöfn þar sem nefndin hafði aðstöðu og 1816 réði hún ungan mann, Christian Thomsen, sem ritara til að setja upp sýningu á gripunum. Helstu kostir Thomsens þóttu að hann var af efnamönnum kominn og því þurfti ekki að borga honum laun, en hann hafði líka menntað sig í París og rannsakað rómverska mynt og þótti hafa sýnt hæfileika til að skrá og flokka sem gætu nýst vel í hinu nýja starfi.

Thomsen hófst strax handa við að skrá gripasafn nefndarinnar (sem var vísirinn að danska þjóðminjasafninu) og bjó sér til flokkunarkerfi sem byggði á efni gripanna en tók líka til forms þeirra, skreytingar og hlutverks. Hann beindi sérstaklega sjónum að gripum sem höfðu fundist margir saman, einkum úr gröfum, því hann áttaði sig á því að með því að skrá skipulega hvers konar gripir hefðu fundist í sama samhengi mætti draga ályktanir um hvaða gerðir væru samtíma. Hann tók eftir því að flokka mátti lokuð gripasöfn, það er gripi úr sama samhengi, í:
  1. stein eingöngu og stein+leirker
  2. stein+leirker+brons/kopar
  3. stein+leirker+brons/kopar+járn.
Einnig áttaði hann sig á því að útilokað var að til dæmis leirker úr flokki 3 ætti sér samsvörun í flokki 1 eða að bronshlutur úr flokki 3 ætti sér samsvörun í flokki 2. Á þessum grundvelli setti hann fram þá kenningu að skipta mætti forsögu Norðurlanda í þrjár aldir: steinöld, bronsöld og járnöld. Steinöldin væri elst og járnöldin yngst. Þetta er kallað þriggja alda kenningin og stendur hún enn lítt högguð sem grundvöllur að skiptingu forsögu mannsins í tímabil.

Skýringarmynd úr höfuðriti Thomsens, Ledetraad til Nordisk Oldkyndighed, sem sýnir muninn á skrauti frá bronsöld og járnöld. Efri tvær raðirnar sýna rúmfræðileg mynstur frá bronsöld en dýramynstrin í neðstu röðinni eru frá járnöld. Thomsen tók eftir að rúnaáletranir fundust stundum með dýramynstrum en aldrei með rúmfræðilegum mynstrum.

Kenningu sína lagði Thomsen til grundvallar á forngripasýningu sem hann opnaði þegar árið 1817 og vakti hún fljótlega athygli og deilur. Það var þó ekki fyrr en 1836 sem hann birti rit um kenningar sínar, Ledetraad til Nordisk Oldkyndighed, en þær höfðu þá þegar haft áhrif víða um Evrópu. Bók hans var þýdd á þýsku 1837 og ensku 1848 og um miðja 19. öld er óhætt að segja að fornleifafræðingar hafi almennt verið búnir að átta sig á notagildi þessarar kenningar. Ekki aðeins var fljótlega sýnt að sams konar þróun hafði orðið utan Norðurlanda heldur líka að flokkunaraðferðir Thomsens mátti nota á gripi hvaðanæva. Kenningin og aðferðafræðin sem hún byggði á olli byltingu í fornleifarannsóknum og fljótlega tókst að skipta öldunum niður í styttri tímabil. Steinöld skiptist í fornsteinöld og nýsteinöld en aðrar skiptingar eru flestar staðbundnar. Að greiða úr þessu og skipa forngripum á bása varð meginviðfangsefni fornleifafræðinga það sem eftir lifði 19. aldarinnar og lengi framan af þeirri 20. Þróun algildra tímasetningaraðferða hefur haft í för með sér að fornleifafræðingar eru ekki eins háðir gerðfræðinni um tímasetningar, en gerðfræðilegar rannsóknir eru engu að síður enn þá veigamikill hluti af starfi flestra fornleifafræðinga.

Frá sjónarmiði vísindasögunnar er framlag Christians Thomsens merkilegt því hann tilheyrði nýjum straumum í vísindum á 19. öld sem töldu að eigin athugun vísindamannsins væri betri og traustari aðferð en að rannsaka hvað stæði um málið í bókum. Í þeim skilningi var hin nýja fornleifafræði Thomsens raun-vísindi. Hann skrifaði til dæmis í sendibréfi:

Ég hef enga samúð með þeim sem fá þekkingu sína og lærdóm eingöngu úr bókum. Ég hef of oft rekið mig á hversu fullkomlega fáránleg mistök slíkir menn gera þegar þegar reyna að beita þekkingu sinni á praktísk vandamál. Látum oss því fyrir alla muni, góði vinur, kaupa bækur og lesa þær með athygli en forsómum aldrei að skoða hlutina með eigin augum.
Kenningar Thomsens voru settar fram á sama tíma og aðrir vísindamenn voru að átta sig á vísbendingum um háan aldur mannkyns og háan aldur jarðarinnar, vísbendingar sem ekki var auðvelt að koma heim og saman við frásagnir Biblíunnar. Þótt ekki væri hægt að álykta um raunaldur fornleifanna drógu kenningar Thomsens fram hversu flókin og virðburðarík forsagan var, löng tímabil sem í engu var getið í Biblíunni. Þær áttu því sinn þátt í að grafa undan trausti á Biblíuna sem meginheimild um mannkynssöguna og styrkja vísindamenn í þeirri ályktun að forsaga mannsins væri miklu lengri en af Biblíunni má ráða.

Við vitum nú að steinöldin hófst fyrir rúmlega 2 milljónum ára, en nýsteinöld fyrir um 12.000 árum, bronsöld fyrir rúmlega 5.000 árum og járnöld fyrir meir en 3.000 árum. Við vitum líka að kerfið gengur ekki að öllu leyti upp alls staðar á jörðinni. Þannig koma brons og járn fram á sama tíma í Austur-Asíu, og því ekki hægt að tala um sérstaka bronsöld þar, og í Ameríku voru járn og kopar ekki notuð til áhaldagerðar fyrir komu Evrópumanna, þó menning til dæmis Inka og Azteka hefði flest önnur einkenni málmaldarsamfélaga í gamla heiminum. Engu að síður heldur kenningin í megindráttum, en það sem meira er um vert er að aðferðafræði Thomsens hefur reynst, og reynist enn, öflugt tæki við rannsóknir fornleifafræðinga á sögu mannkynsins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Jensen, Ole-Klindt. 1975. A History of Scandinvian Archaeology. Thames&Hudson, London, einkum bls. 46-57, tilvitnun á bls. 51.
  • Trigger, Bruce G. 1989. A History of Archaeological Thought. Cambridge University Press, Cambridge, einkum bls. 73-94.

Myndir:

Höfundur

Orri Vésteinsson

prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

6.3.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Orri Vésteinsson. „Hver var Christian Jürgensen Thomsen og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?“ Vísindavefurinn, 6. mars 2011. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58614.

Orri Vésteinsson. (2011, 6. mars). Hver var Christian Jürgensen Thomsen og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58614

Orri Vésteinsson. „Hver var Christian Jürgensen Thomsen og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?“ Vísindavefurinn. 6. mar. 2011. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58614>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Christian Jürgensen Thomsen og hvert var framlag hans til fornleifafræðinnar?
Hvernig er hægt að vita hversu gamall gripur er? Löngu áður en algildar tímasetningaraðferðir eins og kolefnisaldursgreining voru þróaðar um og eftir miðja 20. öld, höfðu fornleifafræðingar fundið leiðir til að raða gripum í tímaröð eftir efni og gerð. Gerðfræði, eða typologia, fæst við að flokka gripi, að ákveða hverjir séu frá sama tímabili á grundvelli líkinda. Ef hægt er að tímasetja einn grip í flokki, til dæmis út frá peningi með ártali sem finnst í sama lagi, þá er þar með komin tímasetning á alla aðra gripi í þeim flokki, og afstæð tímasetning á þá flokka sem teljast eldri eða yngri í tímaröðinni. Á löngum tíma hefur byggst upp víðfeðm þekking á gerðum gripa, gerðfræðilegum breytileika og gerðfræðilegri þróun, og liggur hún enn til grundvallar fornleifafræðilegum tímasetningum þó aðrar aðferðir hafi komið til sögunnar. Gerðfræðin rekur upphaf sitt til danska fornleifafræðingsins Christians Jürgensens Thomsens (1788-1865).

Árið 1807 hafði verið stofnuð konungleg nefnd til varðveislu fornmenja í Danmörku og vann hún ötult starf við að skrá fornleifar og safna gripum, meðal annars á Íslandi. Fljótlega varð til mikið gripasafn á lofti Þrenningarkirkjunnar í Kaupmannahöfn þar sem nefndin hafði aðstöðu og 1816 réði hún ungan mann, Christian Thomsen, sem ritara til að setja upp sýningu á gripunum. Helstu kostir Thomsens þóttu að hann var af efnamönnum kominn og því þurfti ekki að borga honum laun, en hann hafði líka menntað sig í París og rannsakað rómverska mynt og þótti hafa sýnt hæfileika til að skrá og flokka sem gætu nýst vel í hinu nýja starfi.

Thomsen hófst strax handa við að skrá gripasafn nefndarinnar (sem var vísirinn að danska þjóðminjasafninu) og bjó sér til flokkunarkerfi sem byggði á efni gripanna en tók líka til forms þeirra, skreytingar og hlutverks. Hann beindi sérstaklega sjónum að gripum sem höfðu fundist margir saman, einkum úr gröfum, því hann áttaði sig á því að með því að skrá skipulega hvers konar gripir hefðu fundist í sama samhengi mætti draga ályktanir um hvaða gerðir væru samtíma. Hann tók eftir því að flokka mátti lokuð gripasöfn, það er gripi úr sama samhengi, í:
  1. stein eingöngu og stein+leirker
  2. stein+leirker+brons/kopar
  3. stein+leirker+brons/kopar+járn.
Einnig áttaði hann sig á því að útilokað var að til dæmis leirker úr flokki 3 ætti sér samsvörun í flokki 1 eða að bronshlutur úr flokki 3 ætti sér samsvörun í flokki 2. Á þessum grundvelli setti hann fram þá kenningu að skipta mætti forsögu Norðurlanda í þrjár aldir: steinöld, bronsöld og járnöld. Steinöldin væri elst og járnöldin yngst. Þetta er kallað þriggja alda kenningin og stendur hún enn lítt högguð sem grundvöllur að skiptingu forsögu mannsins í tímabil.

Skýringarmynd úr höfuðriti Thomsens, Ledetraad til Nordisk Oldkyndighed, sem sýnir muninn á skrauti frá bronsöld og járnöld. Efri tvær raðirnar sýna rúmfræðileg mynstur frá bronsöld en dýramynstrin í neðstu röðinni eru frá járnöld. Thomsen tók eftir að rúnaáletranir fundust stundum með dýramynstrum en aldrei með rúmfræðilegum mynstrum.

Kenningu sína lagði Thomsen til grundvallar á forngripasýningu sem hann opnaði þegar árið 1817 og vakti hún fljótlega athygli og deilur. Það var þó ekki fyrr en 1836 sem hann birti rit um kenningar sínar, Ledetraad til Nordisk Oldkyndighed, en þær höfðu þá þegar haft áhrif víða um Evrópu. Bók hans var þýdd á þýsku 1837 og ensku 1848 og um miðja 19. öld er óhætt að segja að fornleifafræðingar hafi almennt verið búnir að átta sig á notagildi þessarar kenningar. Ekki aðeins var fljótlega sýnt að sams konar þróun hafði orðið utan Norðurlanda heldur líka að flokkunaraðferðir Thomsens mátti nota á gripi hvaðanæva. Kenningin og aðferðafræðin sem hún byggði á olli byltingu í fornleifarannsóknum og fljótlega tókst að skipta öldunum niður í styttri tímabil. Steinöld skiptist í fornsteinöld og nýsteinöld en aðrar skiptingar eru flestar staðbundnar. Að greiða úr þessu og skipa forngripum á bása varð meginviðfangsefni fornleifafræðinga það sem eftir lifði 19. aldarinnar og lengi framan af þeirri 20. Þróun algildra tímasetningaraðferða hefur haft í för með sér að fornleifafræðingar eru ekki eins háðir gerðfræðinni um tímasetningar, en gerðfræðilegar rannsóknir eru engu að síður enn þá veigamikill hluti af starfi flestra fornleifafræðinga.

Frá sjónarmiði vísindasögunnar er framlag Christians Thomsens merkilegt því hann tilheyrði nýjum straumum í vísindum á 19. öld sem töldu að eigin athugun vísindamannsins væri betri og traustari aðferð en að rannsaka hvað stæði um málið í bókum. Í þeim skilningi var hin nýja fornleifafræði Thomsens raun-vísindi. Hann skrifaði til dæmis í sendibréfi:

Ég hef enga samúð með þeim sem fá þekkingu sína og lærdóm eingöngu úr bókum. Ég hef of oft rekið mig á hversu fullkomlega fáránleg mistök slíkir menn gera þegar þegar reyna að beita þekkingu sinni á praktísk vandamál. Látum oss því fyrir alla muni, góði vinur, kaupa bækur og lesa þær með athygli en forsómum aldrei að skoða hlutina með eigin augum.
Kenningar Thomsens voru settar fram á sama tíma og aðrir vísindamenn voru að átta sig á vísbendingum um háan aldur mannkyns og háan aldur jarðarinnar, vísbendingar sem ekki var auðvelt að koma heim og saman við frásagnir Biblíunnar. Þótt ekki væri hægt að álykta um raunaldur fornleifanna drógu kenningar Thomsens fram hversu flókin og virðburðarík forsagan var, löng tímabil sem í engu var getið í Biblíunni. Þær áttu því sinn þátt í að grafa undan trausti á Biblíuna sem meginheimild um mannkynssöguna og styrkja vísindamenn í þeirri ályktun að forsaga mannsins væri miklu lengri en af Biblíunni má ráða.

Við vitum nú að steinöldin hófst fyrir rúmlega 2 milljónum ára, en nýsteinöld fyrir um 12.000 árum, bronsöld fyrir rúmlega 5.000 árum og járnöld fyrir meir en 3.000 árum. Við vitum líka að kerfið gengur ekki að öllu leyti upp alls staðar á jörðinni. Þannig koma brons og járn fram á sama tíma í Austur-Asíu, og því ekki hægt að tala um sérstaka bronsöld þar, og í Ameríku voru járn og kopar ekki notuð til áhaldagerðar fyrir komu Evrópumanna, þó menning til dæmis Inka og Azteka hefði flest önnur einkenni málmaldarsamfélaga í gamla heiminum. Engu að síður heldur kenningin í megindráttum, en það sem meira er um vert er að aðferðafræði Thomsens hefur reynst, og reynist enn, öflugt tæki við rannsóknir fornleifafræðinga á sögu mannkynsins.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Heimildir:
  • Jensen, Ole-Klindt. 1975. A History of Scandinvian Archaeology. Thames&Hudson, London, einkum bls. 46-57, tilvitnun á bls. 51.
  • Trigger, Bruce G. 1989. A History of Archaeological Thought. Cambridge University Press, Cambridge, einkum bls. 73-94.

Myndir:

...