Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni?

Freysteinn Sigmundsson og Helgi Björnsson

Jöklar rýrna nú um allan heim vegna hlýnandi veðurfars. Leysingavatn rennur því í auknum mæli til hafs og vatnsmagn þess eykst. Auk þess vex rúmmál hafsins vegna þess að sjórinn þenst út þegar hann hlýnar. Hvorttveggja veldur því að sjávarborð rís. Í næsta nágrenni jöklanna ræðst sjávarstaðan hins vegar af samanlögðum áhrifum af auknu rúmmáli sjávar og landrisi vegna breytinga í fargi íss sem hvílir á jarðskorpunni og undirlögum hennar. Þegar jöklar þynnast minnkar þrýstingur á jarðskorpuna og landið rís. Til þess að svara spurningunni þarf að taka tillit til allra ofangreindra þátta.

Það er erfitt að segja með vissu hver hnattræn hlýnun og rýrnun jökla verður á næstu áratugum, en það er eitt af verkefnum svokallaðrar milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC, Intergovernmental Panel on Climate Change). Í síðustu IPCC-skýrslu er því spáð að hækkun í heimshöfum næstu 20 ár verði á bilinu 4 til 10 cm, háð sviðsmynd um hnattræna hlýnun. Helmingur þess gæti stafað af hlýnun sjávar, en hinn hlutinn skipst jafnt á bráðnun Grænlandsjökuls og Suðurskautslandsins og hins vegar jökla utan heimskautasvæða.

Nýjar vísbendingar koma hins vegar stöðugt fram um að heimskautajöklar, einkum Grænlandsjökull, rýrni hraðar en áður var talið og því megi búast við að hækkun sjávarborðs verði nær efri mörkunum og jafnvel gæti hún orðið enn meiri. Að framansögðu mætti því búast við að minnsta kosti 10 cm hækkun á næstu 20 árum, eða 5 millimetra hækkun á ári. Við lok aldarinnar gæti sjávarborð því hafa risið meir en 1 metra. Sjávarborð verður þó ekki alls staðar jafnt á jörðinni þar sem hitabreytingar í hafinu eru mismiklar. Því er talsverð óvissa um hvort sjávarborð við Ísland rísi upp að því meðaltali í heimshöfunum sem spáð er.

Við Höfn í Hornafirði mun landrisið vegna jöklaþynningar líklega verða meira en sem nemur hækkun sjávar.

Á móti umræddri hækkun sjávar við suðausturströnd Íslands vegur landris sem mælist nú allt í kringum Vatnajökul, allt að 7-25 millimetrar á ári. Nákvæmar GPS-landmælingar sýna þetta landris. Við þær mælingar eru notuð merki frá Global Positioning System-gervitunglum líkt og í venjulegum GPS-staðsetningartækjum. Með því að safna gögnum með GPS-landmælingatækjum á mælistöð í sólarhring eða lengur má reikna afstæða hæð mælipunkta með um 6 mm nákvæmni. Slíkar mælingar hafa verið gerðar árlega eða með nokkurra ára millibili í völdum mælipunktum við suðurjaðar Vatnajökuls. Einnig hefur GPS-tæki á Höfn í Hornafirði mælt samfellt í meira en áratug.

Almennt séð minnkar rishraðinn með fjarlægð frá jöklinum. Á árunum 1996-2004 mældist hann um 24 mm á ári í mælipunkti á Breiðamerkursandi, en á Höfn í Hornafirði var hann um 9 mm á ári. Þar sem tímaröð mælinga er lengst, líkt og á Höfn, er vísbending um að rishraðinn hafi aukist síðustu árin. Risið sem mælst hefur er í samræmi við viðteknar hugmyndir um hegðun jarðar og svörun hennar við fargbreytingum sem eiga sér stað yfir löng tímabil, en þá má segja að jörðin hegði sér eins og mjög seigur vökvi sem hnígur til vegna utanaðkomandi þrýstiáhrifa.

Af framansögðu er ljóst að afstaða láðs og lagar við suðausturströnd Íslands ræðst af samverkan tveggja þátta: hækkun sjávar vegna hlýnandi loftslags og landrisi við rýrnun Vatnajökuls. Við Breiðamerkursand má telja líklegt að landrisið verði á næstu áratugum umtalsvert meira en hækkun sjávar, þannig að þar rísi land úr sjó, hugsanlega með hraða yfir 15 mm á ári. Þetta landris getur dregið úr sjávarrofi á svæðinu og gert auðveldara um vik að verja brú og vegi við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Við Höfn í Hornafirði mun landrisið vegna jöklaþynningar líklega einnig verða meira en sem nemur hækkun sjávar en fara þarf enn lengra frá jöklinum til að hækkun sjávar verði álíka mikil og land rís. Þannig aðstæður gætu orðið í grennd við Djúpavog og þar með væri höfnin þar ein af fáum í heiminum þar sem lítil sem engin afstæð breyting verður á sjávarstöðu á næstu áratugum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:

Höfundar

Freysteinn Sigmundsson

Norræna eldfjallasetrinu, Jarðvísindastofnun Háskólans

Helgi Björnsson

prófessor emeritus í jöklafræði

Útgáfudagur

13.4.2011

Spyrjandi

Ragnar Imsland

Tilvísun

Freysteinn Sigmundsson og Helgi Björnsson. „Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni?“ Vísindavefurinn, 13. apríl 2011. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=58733.

Freysteinn Sigmundsson og Helgi Björnsson. (2011, 13. apríl). Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=58733

Freysteinn Sigmundsson og Helgi Björnsson. „Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni?“ Vísindavefurinn. 13. apr. 2011. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=58733>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hve mikið hækkar sjávarstaða við suðausturströnd Íslands á næstu 20 árum við bráðnun jökla á jörðinni?
Jöklar rýrna nú um allan heim vegna hlýnandi veðurfars. Leysingavatn rennur því í auknum mæli til hafs og vatnsmagn þess eykst. Auk þess vex rúmmál hafsins vegna þess að sjórinn þenst út þegar hann hlýnar. Hvorttveggja veldur því að sjávarborð rís. Í næsta nágrenni jöklanna ræðst sjávarstaðan hins vegar af samanlögðum áhrifum af auknu rúmmáli sjávar og landrisi vegna breytinga í fargi íss sem hvílir á jarðskorpunni og undirlögum hennar. Þegar jöklar þynnast minnkar þrýstingur á jarðskorpuna og landið rís. Til þess að svara spurningunni þarf að taka tillit til allra ofangreindra þátta.

Það er erfitt að segja með vissu hver hnattræn hlýnun og rýrnun jökla verður á næstu áratugum, en það er eitt af verkefnum svokallaðrar milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC, Intergovernmental Panel on Climate Change). Í síðustu IPCC-skýrslu er því spáð að hækkun í heimshöfum næstu 20 ár verði á bilinu 4 til 10 cm, háð sviðsmynd um hnattræna hlýnun. Helmingur þess gæti stafað af hlýnun sjávar, en hinn hlutinn skipst jafnt á bráðnun Grænlandsjökuls og Suðurskautslandsins og hins vegar jökla utan heimskautasvæða.

Nýjar vísbendingar koma hins vegar stöðugt fram um að heimskautajöklar, einkum Grænlandsjökull, rýrni hraðar en áður var talið og því megi búast við að hækkun sjávarborðs verði nær efri mörkunum og jafnvel gæti hún orðið enn meiri. Að framansögðu mætti því búast við að minnsta kosti 10 cm hækkun á næstu 20 árum, eða 5 millimetra hækkun á ári. Við lok aldarinnar gæti sjávarborð því hafa risið meir en 1 metra. Sjávarborð verður þó ekki alls staðar jafnt á jörðinni þar sem hitabreytingar í hafinu eru mismiklar. Því er talsverð óvissa um hvort sjávarborð við Ísland rísi upp að því meðaltali í heimshöfunum sem spáð er.

Við Höfn í Hornafirði mun landrisið vegna jöklaþynningar líklega verða meira en sem nemur hækkun sjávar.

Á móti umræddri hækkun sjávar við suðausturströnd Íslands vegur landris sem mælist nú allt í kringum Vatnajökul, allt að 7-25 millimetrar á ári. Nákvæmar GPS-landmælingar sýna þetta landris. Við þær mælingar eru notuð merki frá Global Positioning System-gervitunglum líkt og í venjulegum GPS-staðsetningartækjum. Með því að safna gögnum með GPS-landmælingatækjum á mælistöð í sólarhring eða lengur má reikna afstæða hæð mælipunkta með um 6 mm nákvæmni. Slíkar mælingar hafa verið gerðar árlega eða með nokkurra ára millibili í völdum mælipunktum við suðurjaðar Vatnajökuls. Einnig hefur GPS-tæki á Höfn í Hornafirði mælt samfellt í meira en áratug.

Almennt séð minnkar rishraðinn með fjarlægð frá jöklinum. Á árunum 1996-2004 mældist hann um 24 mm á ári í mælipunkti á Breiðamerkursandi, en á Höfn í Hornafirði var hann um 9 mm á ári. Þar sem tímaröð mælinga er lengst, líkt og á Höfn, er vísbending um að rishraðinn hafi aukist síðustu árin. Risið sem mælst hefur er í samræmi við viðteknar hugmyndir um hegðun jarðar og svörun hennar við fargbreytingum sem eiga sér stað yfir löng tímabil, en þá má segja að jörðin hegði sér eins og mjög seigur vökvi sem hnígur til vegna utanaðkomandi þrýstiáhrifa.

Af framansögðu er ljóst að afstaða láðs og lagar við suðausturströnd Íslands ræðst af samverkan tveggja þátta: hækkun sjávar vegna hlýnandi loftslags og landrisi við rýrnun Vatnajökuls. Við Breiðamerkursand má telja líklegt að landrisið verði á næstu áratugum umtalsvert meira en hækkun sjávar, þannig að þar rísi land úr sjó, hugsanlega með hraða yfir 15 mm á ári. Þetta landris getur dregið úr sjávarrofi á svæðinu og gert auðveldara um vik að verja brú og vegi við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Við Höfn í Hornafirði mun landrisið vegna jöklaþynningar líklega einnig verða meira en sem nemur hækkun sjávar en fara þarf enn lengra frá jöklinum til að hækkun sjávar verði álíka mikil og land rís. Þannig aðstæður gætu orðið í grennd við Djúpavog og þar með væri höfnin þar ein af fáum í heiminum þar sem lítil sem engin afstæð breyting verður á sjávarstöðu á næstu áratugum.

Frekara lesefni á Vísindavefnum:

Mynd:...