Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver var Bjarni Sæmundsson og hvert var hans framlag til náttúrufræða á Íslandi?

Jón Már Halldórsson

Bjarni Sæmundsson (1867 - 1940) var brautryðjandi í rannsóknum á lífríki Íslands. Hann fæddist á Járngerðarstöðum í Grindavík þann 15. apríl 1867 og voru foreldrar hans Sæmundur Jónsson útvegsbóndi og Sigríður Bjarnadóttir. Snemma kom í ljós að Bjarni var gæddur miklum gáfum og var hann einnig mjög hagur. Það lá beinast við að hann lærði einhverja iðn, færi í skipasmíðar eða jafnvel ljósmyndun en svo fór þó ekki. Áhugi hans á náttúrunni kom snemma í ljós, „og hvað var líka betur fallið til þess að skapa undrun og lotningu í senn, en hið mislynda úthaf með spegilsléttum fleti, víðum sjóndeildarhring og gjöfulli hendi annan daginn en fossandi brotsjónum og ógnandi grimmd hinn daginn“ segir Árni Friðriksson í minningagrein um Bjarna í Náttúrufræðingnum (1940).

Bjarni hóf nám í Lærða skólanum árið 1883 þá 16 ára gamall og lauk stúdentsprófi sex árum síðar. Að prófi loknu sigldi hann til Kaupmannahafnar til háskólanáms og lauk fullnaðarprófi í náttúrufræði og landafræði árið 1894. Strax að námi loknu fékk Bjarni kennslu í náttúrufræði við Lærða skólann og því starfi gegndi hann í 29 ár.

Þegar Bjarni hóf kennaraferil sinn voru ekki til neinar kennslubækur í náttúrufræði á íslensku og tók hann sig því til og skrifaði hverja kennslubókina á fætur annarri. Bókin Náttúrufræði handa barnaskólum var áratugum saman kennd í barnaskólum landsins og fleiri kunnar kennslubækur lifðu eftir hans daga. Meðal annarra kennslubóka eftir hann eru Dýrafræði handa gagnfræðaskólum og Landafræði handa gagnfræðaskólum auk þess sem hann skrifaði kennslubókina Sjór og loft sem kennd var í náttúrufræðideildum menntaskólanna í áratugi.

Bjarni Sæmundsson er líklegar best þekktur fyrir fiskirannsóknir sínar. Eftir kennslu á vorin hafði Bjarni þann háttinn á að hann ferðaðist um landið þvert og endilangt til að kynnast fiskveiðum landsmanna. Hann vildi bæði sjá hvað betur mátti fara og ekki síður hafði hafði hann áhuga á að safna upplýsingum um reynslu og þekkingu manna svo þær yrðu ekki gleymsku að bráð. Upp úr þessum rannsóknaferðum hans kom fyrst út ritgerðin „Fáein orð um fiskveiðar vorar“ sem birtist í 20. árgangi tímaritsins Andvara árið 1895. Næstu áratugina á eftir birti Bjarni margar fleiri ritgerðir bæði í íslenskum og erlendum tímaritum.


Frímerki með Bjarna Sæmundssyni og tveimur þorskum.

Af mikilli eljusemi og áhuga fór Bjarni í ótal ferðir á haf út til sýnatöku oft við erfiðar aðstæður. Við upphaf 20. aldar var komið á fót viðamiklum rannsóknum á höfum Evrópu og féll það í skaut danskra yfirvalda að rannsaka hafsvæðið umhverfis Ísland og Færeyjar. Danski dýrafræðingurinn Johannes Schmidt kom hingað í því skyni ásamt föruneyti á rannsóknaskipinu Thor vorið 1903 og fékk hann Bjarna til að taka þátt í leiðangrinum vegna viðamikillar þekkingar sinnar á lífríki hafsins umhverfis landið. Upp frá þessu hélt Bjarni rannsóknum áfram á grunnsævinu við Suður- og Suðvesturland á leigðum bát. Þar rannsakaði hann hinar ýmsu fisktegundir og aldur þeirra. Að þessum rannsóknum vann hann til ársins 1930.

Árið 1923 var Bjarni leystur frá kennslustörfum þá 56 ára gamall og gat hann þá helgað sig ritstörfum og vísindarannsóknum. Fiskirannsóknir sínar dró Bjarni saman í bókinni Fiskarnir sem kom út árið 1926. Bókin er eitt merkilegasta rit sem kom út á fyrri hluta 20. aldar á sviði náttúrufræða. Hún er 528 blaðsíður að lengd og prýdd 290 myndum. Í bókinni fjallar Bjarni um allar tegundir fiska sem þá höfðu fundist hér við land, um innri og ytri byggingu þeirra og helstu lifnaðarhætti.

Á titilblaði bókarinnar er yfirtitillinn „íslensk dýr I“ og á eftir þessari bók kom út Spendýrin árið 1932 og Fuglarnir 1936. Báðar voru þessar bækur mikil rit, bókin um spendýrin var 433 blaðsíður og sú síðarnefnda 700 blaðsíður. Með þessari ritröð gerði Bjarni grein fyrir öllum íslenskum hryggdýrum og teljast þessi ritverk vera óvenjumikið afrek miðað við þær aðstæður og þá tíma sem þær eru ritaðar á.

Fyrir merkar vísindarannsóknir og framlag til náttúrurannsókna var Bjarni Sæmundsson kjörinn heiðursdoktor við Hafnarháskóla á 450 ára afmæli skólans árið 1929.

Bjarni Sæmundsson lést þann 6. nóvember árið 1940.

Heimildir:

  • Árni Friðriksson. Bjarni Sæmundsson dr. phil. h.c. Náttúrufræðingurinn, 3-4. tölublað. 1940.
  • Bjarni Sæmundsson. Fiskarnir. 2. útgáfa aukin. Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. 1957

Mynd:

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

13.9.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Hver var Bjarni Sæmundsson og hvert var hans framlag til náttúrufræða á Íslandi?“ Vísindavefurinn, 13. september 2011. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60623.

Jón Már Halldórsson. (2011, 13. september). Hver var Bjarni Sæmundsson og hvert var hans framlag til náttúrufræða á Íslandi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60623

Jón Már Halldórsson. „Hver var Bjarni Sæmundsson og hvert var hans framlag til náttúrufræða á Íslandi?“ Vísindavefurinn. 13. sep. 2011. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60623>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Bjarni Sæmundsson og hvert var hans framlag til náttúrufræða á Íslandi?
Bjarni Sæmundsson (1867 - 1940) var brautryðjandi í rannsóknum á lífríki Íslands. Hann fæddist á Járngerðarstöðum í Grindavík þann 15. apríl 1867 og voru foreldrar hans Sæmundur Jónsson útvegsbóndi og Sigríður Bjarnadóttir. Snemma kom í ljós að Bjarni var gæddur miklum gáfum og var hann einnig mjög hagur. Það lá beinast við að hann lærði einhverja iðn, færi í skipasmíðar eða jafnvel ljósmyndun en svo fór þó ekki. Áhugi hans á náttúrunni kom snemma í ljós, „og hvað var líka betur fallið til þess að skapa undrun og lotningu í senn, en hið mislynda úthaf með spegilsléttum fleti, víðum sjóndeildarhring og gjöfulli hendi annan daginn en fossandi brotsjónum og ógnandi grimmd hinn daginn“ segir Árni Friðriksson í minningagrein um Bjarna í Náttúrufræðingnum (1940).

Bjarni hóf nám í Lærða skólanum árið 1883 þá 16 ára gamall og lauk stúdentsprófi sex árum síðar. Að prófi loknu sigldi hann til Kaupmannahafnar til háskólanáms og lauk fullnaðarprófi í náttúrufræði og landafræði árið 1894. Strax að námi loknu fékk Bjarni kennslu í náttúrufræði við Lærða skólann og því starfi gegndi hann í 29 ár.

Þegar Bjarni hóf kennaraferil sinn voru ekki til neinar kennslubækur í náttúrufræði á íslensku og tók hann sig því til og skrifaði hverja kennslubókina á fætur annarri. Bókin Náttúrufræði handa barnaskólum var áratugum saman kennd í barnaskólum landsins og fleiri kunnar kennslubækur lifðu eftir hans daga. Meðal annarra kennslubóka eftir hann eru Dýrafræði handa gagnfræðaskólum og Landafræði handa gagnfræðaskólum auk þess sem hann skrifaði kennslubókina Sjór og loft sem kennd var í náttúrufræðideildum menntaskólanna í áratugi.

Bjarni Sæmundsson er líklegar best þekktur fyrir fiskirannsóknir sínar. Eftir kennslu á vorin hafði Bjarni þann háttinn á að hann ferðaðist um landið þvert og endilangt til að kynnast fiskveiðum landsmanna. Hann vildi bæði sjá hvað betur mátti fara og ekki síður hafði hafði hann áhuga á að safna upplýsingum um reynslu og þekkingu manna svo þær yrðu ekki gleymsku að bráð. Upp úr þessum rannsóknaferðum hans kom fyrst út ritgerðin „Fáein orð um fiskveiðar vorar“ sem birtist í 20. árgangi tímaritsins Andvara árið 1895. Næstu áratugina á eftir birti Bjarni margar fleiri ritgerðir bæði í íslenskum og erlendum tímaritum.


Frímerki með Bjarna Sæmundssyni og tveimur þorskum.

Af mikilli eljusemi og áhuga fór Bjarni í ótal ferðir á haf út til sýnatöku oft við erfiðar aðstæður. Við upphaf 20. aldar var komið á fót viðamiklum rannsóknum á höfum Evrópu og féll það í skaut danskra yfirvalda að rannsaka hafsvæðið umhverfis Ísland og Færeyjar. Danski dýrafræðingurinn Johannes Schmidt kom hingað í því skyni ásamt föruneyti á rannsóknaskipinu Thor vorið 1903 og fékk hann Bjarna til að taka þátt í leiðangrinum vegna viðamikillar þekkingar sinnar á lífríki hafsins umhverfis landið. Upp frá þessu hélt Bjarni rannsóknum áfram á grunnsævinu við Suður- og Suðvesturland á leigðum bát. Þar rannsakaði hann hinar ýmsu fisktegundir og aldur þeirra. Að þessum rannsóknum vann hann til ársins 1930.

Árið 1923 var Bjarni leystur frá kennslustörfum þá 56 ára gamall og gat hann þá helgað sig ritstörfum og vísindarannsóknum. Fiskirannsóknir sínar dró Bjarni saman í bókinni Fiskarnir sem kom út árið 1926. Bókin er eitt merkilegasta rit sem kom út á fyrri hluta 20. aldar á sviði náttúrufræða. Hún er 528 blaðsíður að lengd og prýdd 290 myndum. Í bókinni fjallar Bjarni um allar tegundir fiska sem þá höfðu fundist hér við land, um innri og ytri byggingu þeirra og helstu lifnaðarhætti.

Á titilblaði bókarinnar er yfirtitillinn „íslensk dýr I“ og á eftir þessari bók kom út Spendýrin árið 1932 og Fuglarnir 1936. Báðar voru þessar bækur mikil rit, bókin um spendýrin var 433 blaðsíður og sú síðarnefnda 700 blaðsíður. Með þessari ritröð gerði Bjarni grein fyrir öllum íslenskum hryggdýrum og teljast þessi ritverk vera óvenjumikið afrek miðað við þær aðstæður og þá tíma sem þær eru ritaðar á.

Fyrir merkar vísindarannsóknir og framlag til náttúrurannsókna var Bjarni Sæmundsson kjörinn heiðursdoktor við Hafnarháskóla á 450 ára afmæli skólans árið 1929.

Bjarni Sæmundsson lést þann 6. nóvember árið 1940.

Heimildir:

  • Árni Friðriksson. Bjarni Sæmundsson dr. phil. h.c. Náttúrufræðingurinn, 3-4. tölublað. 1940.
  • Bjarni Sæmundsson. Fiskarnir. 2. útgáfa aukin. Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar. 1957

Mynd: