Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Hver var Rosalind Franklin og hvernig tengist hún rannsóknum á DNA?

Guðmundur Eggertsson

Rosalind Elsie Franklin var fædd í London árið 1920. Hún var af gyðingaættum. Hún lauk jafngildi B.Sc.-prófs í eðlisfræði frá Cambridge árið 1941 og hlaut doktorsgráðu í eðlisefnafræði frá sama skóla árið 1945. Rannsóknir hennar til doktorsprófs snerust um vissa eiginleika kola. Frá 1947 til 1950 starfaði hún í París og fékkst enn við rannsóknir á kolum og beitti röntgengeislagreiningu við rannsóknirnar. Henni varð vel ágengt og birti margar greinar um rannsóknir sínar.

Í ársbyrjun 1951 hóf Franklin störf við King's College í London þar sem hún vann að rannsóknum á kjarnsýrunni DNA (deoxýríbósakjarnsýru) og notfærði sér röntgengeislatækni til að ná myndum af sameindinni. Sú tækni, sem var vandmeðfarin, þótti vænlegust til að veita upplýsingar um byggingu sameindarinnar. Menn vissu að sameindin var langur þráður gerður úr nokkuð margbrotnum byggingareiningum sem nefnast kirni (núkleótíð), en alger óvissa ríkti um hvaða form hún tæki á sig í lifandi frumum þar sem hún var, ásamt prótínum, byggingarefni litninga. Ýmislegt benti nú til þess að DNA væri erfðaefni lífvera og fór áhugi á kjarnsýrunni því mjög vaxandi.

Við King´s College hafði eðlisfræðingurinn Maurice Wilkins (1916-2004) unnið að DNA-rannsóknum um tíma, en yfirmaður rannsóknarstofunnar, John Randall, lét hjá líða að segja honum frá því að hann hafði beðið Franklin um að taka að sér DNA-rannsóknirnar. Þetta mun hafa átt drjúgan þátt í þeim stirðleika sem varð í samskiptum þeirra Franklins og Wilkins. En rannsóknir Franklins komust fljótt á skrið. Hún komst að því að DNA getur komið fyrir í tveimur myndum. Ef sameindin hefur bundið talsvert af vatni tekur hún á sig svonefnda B-mynd, en ef hún er „þurrari“ kemur hún fyrir í A-mynd. Það er B-mynd sameindarinnar sem flestum er nú kunnugleg.

Á sama tíma unnu þeir James D. Watson (f. 1928) og Francis Crick (1916-2004) í Cambridge að gerð líkans af DNA-sameindinni. Þeir hófu þessa vinnu árið 1951. Þeir höfðu gott samband við Wilkins en samskipti þeirra við Franklin voru lítil. Á ýmsu gekk við líkansmíðina og hlé varð á, en í janúar 1953 fengu þeir Watson og Crick aðgang að afbragðsgóðri mynd sem Franklin hafði tekið af B-mynd DNA og að rannsóknarskýrslu sem hún hafði skrifað, hvort tveggja án vitundar hennar. Myndin, sem hér sést, þótti sýna einkar vel að DNA-sameindin er tvöfaldur helix og úr henni mátti lesa mál helixins. Nú komst mikill skriður á líkansmíðina og í apríl á sama ári birtu þeir Watson og Crick grein í tímaritinu Nature þar sem þeir lýstu glæsilegu líkani af DNA sem staðist hefur tímans tönn. Í sama hefti tímaritsins voru greinar eftir Wilkins og Franklin þar sem þau lýstu niðurstöðum sínum. Þá hafði Franklin nýlega hætt störfum við King´s College og flutt sig um set til Birkbeck College, en þar vann hún á rannsóknarstofu hins fræga kristalfræðings J.D. Bernals (1901-1971). Hún hóf þar rannsóknir á tóbakstiglaveirunni og stundaði þær með mjög góðum árangri til dauðadags árið 1958. Hún lést úr krabbameini.

Það var frekar hljótt um nafn Franklins þangað til að út kom bók Watsons The Double Helix árið 1968. Lýsing hans á Franklin í bókinni þótti ósmekkleg og ósanngjörn og nýting þeirra félaga á niðurstöðum hennar vafasöm. Annars hafði Franklin átt góð samskipti við bæði Watson og Crick, eftir birtingu DNA-líkansins, sérstaklega við Crick. Rétt er að taka það fram að menn eru ekki á eitt sáttir um það hvort myndin góða hafi ráðið úrslitum um ráðningu gátunnar, en samkvæmt frásögn Watsons er að minnsta kosti ljóst að hún endurvakti áhuga hans á líkansmíðinni sem lítt hafði miðað áfram.

Heimild og myndir:
  • Rosalind Franklin: The Dark Lady of DNA eftir Brenda Maddox. HarperCollinsPublishers, London (2002).
  • Mynd af Franklin: Encyclopædia Britannica. Sótt 15. 9. 2011
  • Röntgenmynd: Nature Education. Sótt 15. 9. 2011

Höfundur

Guðmundur Eggertsson

prófessor emeritus

Útgáfudagur

20.9.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Guðmundur Eggertsson. „Hver var Rosalind Franklin og hvernig tengist hún rannsóknum á DNA?“ Vísindavefurinn, 20. september 2011. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=60645.

Guðmundur Eggertsson. (2011, 20. september). Hver var Rosalind Franklin og hvernig tengist hún rannsóknum á DNA? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=60645

Guðmundur Eggertsson. „Hver var Rosalind Franklin og hvernig tengist hún rannsóknum á DNA?“ Vísindavefurinn. 20. sep. 2011. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=60645>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Rosalind Franklin og hvernig tengist hún rannsóknum á DNA?
Rosalind Elsie Franklin var fædd í London árið 1920. Hún var af gyðingaættum. Hún lauk jafngildi B.Sc.-prófs í eðlisfræði frá Cambridge árið 1941 og hlaut doktorsgráðu í eðlisefnafræði frá sama skóla árið 1945. Rannsóknir hennar til doktorsprófs snerust um vissa eiginleika kola. Frá 1947 til 1950 starfaði hún í París og fékkst enn við rannsóknir á kolum og beitti röntgengeislagreiningu við rannsóknirnar. Henni varð vel ágengt og birti margar greinar um rannsóknir sínar.

Í ársbyrjun 1951 hóf Franklin störf við King's College í London þar sem hún vann að rannsóknum á kjarnsýrunni DNA (deoxýríbósakjarnsýru) og notfærði sér röntgengeislatækni til að ná myndum af sameindinni. Sú tækni, sem var vandmeðfarin, þótti vænlegust til að veita upplýsingar um byggingu sameindarinnar. Menn vissu að sameindin var langur þráður gerður úr nokkuð margbrotnum byggingareiningum sem nefnast kirni (núkleótíð), en alger óvissa ríkti um hvaða form hún tæki á sig í lifandi frumum þar sem hún var, ásamt prótínum, byggingarefni litninga. Ýmislegt benti nú til þess að DNA væri erfðaefni lífvera og fór áhugi á kjarnsýrunni því mjög vaxandi.

Við King´s College hafði eðlisfræðingurinn Maurice Wilkins (1916-2004) unnið að DNA-rannsóknum um tíma, en yfirmaður rannsóknarstofunnar, John Randall, lét hjá líða að segja honum frá því að hann hafði beðið Franklin um að taka að sér DNA-rannsóknirnar. Þetta mun hafa átt drjúgan þátt í þeim stirðleika sem varð í samskiptum þeirra Franklins og Wilkins. En rannsóknir Franklins komust fljótt á skrið. Hún komst að því að DNA getur komið fyrir í tveimur myndum. Ef sameindin hefur bundið talsvert af vatni tekur hún á sig svonefnda B-mynd, en ef hún er „þurrari“ kemur hún fyrir í A-mynd. Það er B-mynd sameindarinnar sem flestum er nú kunnugleg.

Á sama tíma unnu þeir James D. Watson (f. 1928) og Francis Crick (1916-2004) í Cambridge að gerð líkans af DNA-sameindinni. Þeir hófu þessa vinnu árið 1951. Þeir höfðu gott samband við Wilkins en samskipti þeirra við Franklin voru lítil. Á ýmsu gekk við líkansmíðina og hlé varð á, en í janúar 1953 fengu þeir Watson og Crick aðgang að afbragðsgóðri mynd sem Franklin hafði tekið af B-mynd DNA og að rannsóknarskýrslu sem hún hafði skrifað, hvort tveggja án vitundar hennar. Myndin, sem hér sést, þótti sýna einkar vel að DNA-sameindin er tvöfaldur helix og úr henni mátti lesa mál helixins. Nú komst mikill skriður á líkansmíðina og í apríl á sama ári birtu þeir Watson og Crick grein í tímaritinu Nature þar sem þeir lýstu glæsilegu líkani af DNA sem staðist hefur tímans tönn. Í sama hefti tímaritsins voru greinar eftir Wilkins og Franklin þar sem þau lýstu niðurstöðum sínum. Þá hafði Franklin nýlega hætt störfum við King´s College og flutt sig um set til Birkbeck College, en þar vann hún á rannsóknarstofu hins fræga kristalfræðings J.D. Bernals (1901-1971). Hún hóf þar rannsóknir á tóbakstiglaveirunni og stundaði þær með mjög góðum árangri til dauðadags árið 1958. Hún lést úr krabbameini.

Það var frekar hljótt um nafn Franklins þangað til að út kom bók Watsons The Double Helix árið 1968. Lýsing hans á Franklin í bókinni þótti ósmekkleg og ósanngjörn og nýting þeirra félaga á niðurstöðum hennar vafasöm. Annars hafði Franklin átt góð samskipti við bæði Watson og Crick, eftir birtingu DNA-líkansins, sérstaklega við Crick. Rétt er að taka það fram að menn eru ekki á eitt sáttir um það hvort myndin góða hafi ráðið úrslitum um ráðningu gátunnar, en samkvæmt frásögn Watsons er að minnsta kosti ljóst að hún endurvakti áhuga hans á líkansmíðinni sem lítt hafði miðað áfram.

Heimild og myndir:
  • Rosalind Franklin: The Dark Lady of DNA eftir Brenda Maddox. HarperCollinsPublishers, London (2002).
  • Mynd af Franklin: Encyclopædia Britannica. Sótt 15. 9. 2011
  • Röntgenmynd: Nature Education. Sótt 15. 9. 2011
...