Sendu inn spurningu

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Hvað eru vísindi?

Nútímavísindi eru reist á þeirri meginhugmynd að þekking sé afurð rökhugsunar og reynslu eingöngu. Vísindi felast samkvæmt þessu í að leita að þekkingu með því að kanna reynsluna með skipulegum hætti og beita rökhugsun. Það fylgir að sönn þekking sé þekking á staðreyndum. Vísindi leiti sannleikans og séu hlutlaus um lífsgildi og önnur verðmæti.

Vísindaheimspeki 20. aldar snerist framan af um að gera grein fyrir rökgerð vísindalegra uppgötvana og skýringa og varpa ljósi á sérstakt samband vísindanna við sannleikann. Á síðari hluta aldarinnar höfnuðu heimspekingar því hinsvegar í auknum mæli að vísindi hefðu greiðari og betri aðgang að sannleikanum heldur en önnur mannleg starfsemi.

Þó að hin mikla vísindatrú sem einkenndi fyrri hluta aldarinnar sé nú horfin að mestu og vísindamenn og fræðimenn um vísindi hafi bent á takmarkanir vísinda bæði gagnvart sannleikanum sjálfum og gagnvart vandamálum manna fer því að sjálfsögðu fjarri að hlutverk vísinda í stjórnmálum og samfélagsþróun hafi minnkað. Öll forspá og framtíðarskipulagning þróaðra samfélaga nú á dögum er byggð á vísindarannsóknum . Þetta endurspeglast í fræðilegri umræðu um vísindi sem snýst ekki síst um stöðu vísindanna í samfélaginu og félagslegar og siðferðilegar afleiðingar vísindalegra uppgötvana.


Vísindamenn rannsaka risasmokkfisk.

Mörgum grundvallarspurningum um eðli vísinda má þó segja að sé ósvarað. Hvernig er hægt að réttlæta gífurlega áherslu vestrænna þjóðfélaga á hverskyns vísindarannsóknir þegar ekki er lengur reynt að halda því fram að vísindi séu hlutlaus um verðmæti? Hvað réttlætir vísindaiðkun þegar ókleift er að sýna fram á að niðurstöður vísinda séu "sannari" en niðurstöður sem fengnar eru með óvísindalegum aðferðum? Hvað verður um vísindin þegar mönnum er orðið ljóst að þau, rétt eins og annað mannlegt atferli, eru háð praktískum, félagslegum og menningarlegum viðmiðum?

Margir fræðimenn hafa á síðari árum skoðað vísindin sem menningarlegt fyrirbæri og rýnt í það hvernig vísindin koma fram í valdaskipan og samfélagstogstreitu. Þannig má sjá að vísindaleg starfsemi ræðst mjög af hagsmunum og völdum. Orðræða vísindanna endurspeglar hagsmuni þeirra sem völdin hafa og er fráleitt hlutlaus.

Því er þá vísað á bug að vísindi geti hafið sig yfir aðrar tegundir orðræðu. Samkvæmt þessu viðhorfi til vísinda er því þannig ekki aðeins hafnað að vísindin hafi einkarétt á sannleikanum, heldur er aðferð vísindanna lögð að jöfnu við hvaða aðferð sem vera skal við að festa skoðun í sessi.

Það má segja að þessi skoðun sé á vissan hátt and-vísindaleg eða and-fræðileg. Hún þarf þó ekki að vera það: Ekki er gert lítið úr hlutverki vísinda og vísindarannsókna. Það er sérstaða vísindanna sem efast er um og þar með sú aðferð sem helst er beitt til að vernda vísindalega orðræðu fyrir "óvísindalegri" gagnrýni.

Aðrir fræðimenn hafa haldið því fram að vísindi standi alls ekki eða falli með sérstöku sambandi við sannleikann og þó að vísindarannsóknir standi jafnan í sambandi við hagsmuni og þá menningu sem þær spretta úr, sé það enginn áfellisdómur yfir vísindunum.

Einkenni vísinda eru mörg önnur en goðsögnin um að vísindi geti dregið upp sanna mynd af veruleikanum eins og hann er. Eitt höfuðeinkenni vísindalegrar aðferðar er sífelld endurskoðun vísindalegra niðurstaðna. Það er einnig einkenni vísindalegrar aðferðar að afmarka viðfangsefni þannig að alltaf sé ljóst með hvaða hætti megi hrekja kenningu eða tilgátu sem sett er fram. Þessi einkenni vísinda benda til að sá valdi ekki alltaf sem á heldur. Allri vísindarannsókn hlýtur að fylgja áhætta því að niðurstöður eru ekki vísar fyrirfram.

Þó að vísindunum sé varpað af stalli þá eru þau svo snar þáttur í nútímamenningu að því má halda fram að þau endurreisi sig sjálfkrafa. Ástæðan er meðal annars sú að í mörgum greinum samfélags- og stjórnmála hafa vísindin einfaldlega orðið óháður vettvangur sem málsaðilar neyðast til að fallast á. Það merkir ekki að vísindalegar niðurstöður séu einhlítur úrskurður en þær geta orðið innlegg í deilur sem málsaðilar verða að taka tillit til.

Eins hafa auknar efasemdir manna um að tengja megi árangur stærðfræði og náttúruvísinda beint við sannleikann orðið til þess að víkka svið vísinda. Augljóslega rúmast fleira innan vísindahugtaksins falli menn frá því að telja grundvallarmarkmið vísinda vera að draga upp heildarmynd af veruleikanum eins og hann sé "í raun og veru."

Hvernig sem á það er litið þá eru vísindi einn af grundvallarþáttum nútímasamfélags. Þau eru því miklu meira heldur en safn skoðana á veruleikanum eða aðferða til að gera uppgötvanir. Orðræða vísindanna blandast inn í allar tilraunir til að skýra, meta eða skipuleggja mannlegt líf og samneyti.

Mynd:

Útgáfudagur

3.7.2000

Spyrjandi

Þóra Huld Magnúsdóttir, Fannar Freyr Ívarsson

Höfundur

prófessor við Hugvísindasvið Háskóla Íslands

Tilvísun

Jón Ólafsson. „Hvað eru vísindi?“ Vísindavefurinn, 3. júlí 2000. Sótt 27. nóvember 2015. http://visindavefur.is/svar.php?id=609.

Jón Ólafsson. (2000, 3. júlí). Hvað eru vísindi? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=609

Jón Ólafsson. „Hvað eru vísindi?“ Vísindavefurinn. 3. júl. 2000. Vefsíða. 27. nóv. 2015. <http://visindavefur.is/svar.php?id=609>.

Chicago | APA | MLA

Sendu inn spurningu
eða

Vísindadagatalið

Maria Goeppert-Mayer

1906-1972

Þýsk-bandarískur Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði (1963), átti ríkan þátt í að setja fram og þróa skeljalíkan um atómkjarna og töfratölur sem í því felast.