Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hvers vegna var Kópavogsfundurinn haldinn og hver var tilgangurinn með honum?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Kópavogsfundurinn 1662 var afleiðing af atburðum sem höfðu gerst í Danmörku næstu ár á undan. Í danska konungsríkinu hafði aðallinn lengi ráðið miklu. Konungar voru kjörnir, þótt þeir væru jafnan valdir úr ríkjandi konungsfjölskyldu, og gátu aðalsmenn sett nýjum konungi skilyrði sem takmörkuðu völd hans. Stéttaþing, þar sem aðallinn réði miklu, tóku mikilvægar ákvarðanir um löggjöf og skatta. Aðallinn greiddi ekki skatt en átti í stað þess að halda uppi landvörnum ríkisins.

Friðrik III (1609-1670) konungur Danmerkur 1648-1670 innleiddi einveldi í ríkjum sínum, þar á meðal á Íslandi.

Á árunum 1657–59 geisaði stríð á milli Dana og Svía; Danir misstu öll lönd sín austan Eyrarsunds, þeirra mest Skán. Umsátri Svía um Kaupmannahöfn var hins vegar hrundið, að miklu leyti af borgurum bæjarins. Eftir stríðið var fjárhagur ríkisins í molum, og þótti mörgum tímabært að aðallinn tæki á sig skattbyrði, enda hefðu þeir brugðist sem landvarnarmenn. Aðalsmenn neituðu því enn á stéttaþingi árið 1660. Þá tóku konungur og borgarar Kaupmannahafnar höndum saman gegn aðlinum og knúðu það fram að tekið var upp konungseinveldi í landinu árið 1661. Konungur fékk bókstaflega allt ríkisvaldið í sínar hendur, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, en fól svo embættismönnum sínum að framkvæma mestan hluta þess því ekki gat konungur sjálfur skipt sér af hverju máli. Sama ár var einveldi konungs samþykkt í Noregi sem var þá undir krúnu Danakonungs.

Óljóst var hvaða áhrif þessi breyting hefði á stjórnkerfi Íslands. Landið var jú í danska konungsríkinu, en þar var enginn aðall til að missa völd, og ekki var fyllilega ljóst hvernig völdum var skipt á milli konungs og Alþingis Íslendinga. Íslenskir fræðimenn hafa löngum haldið því fram að Alþingi hafi haft löggjafarvald með konungi, og svo mikið er víst að það samþykkti svokallaða alþingisdóma sem höfðu lagagildi, að minnsta kosti eftir að konungur hafði staðfest þá. En Danastjórn vildi láta Íslendinga sverja konungi einveldi. Vorið 1662 bárust til Íslands bréf frá konungi þess efnis að Íslendingar skyldu senda tiltekna fulltrúa sína til Alþingis um sumarið til að hylla Friðrik konung III. sem erfðakonung. Á einveldi var ekki minnst. Fulltrúi konungs á Íslandi, Henrik Bjelke hirðstjóri, hafði verið í Danmörku um veturinn og kom of seint til landsins til að ná Alþingi. En þingfulltrúar bókuðu að óþarft væri að hafa sérstaka erfðahyllingu á Íslandi vegna þess að landið tilheyrði norska konungsríkinu sem væri hreint erfðaríki.

Skömmu síðar kom Bjelke hirðstjóri til landsins og sendi út bréf um að fulltrúar Íslendinga skyldu koma til Bessastaða 26. júlí og sverja konungi hollustu daginn eftir. Það var þó ekki fyrr en 28. júlí sem þing var sett í Kópavogi. Þar var bókað að fulltrúar Íslendinga viðurkenndu konung sem erfðakonung og einveldiskonung. Um leið samþykktu þingfulltrúar að fara fram á það við konung að landsmenn héldu fornum lögum sínum og réttindum. Með réttindum er væntanlega átt við þau skilyrði sem Íslendingar höfðu sett í Gamla sáttmála fyrir því að hafa Noregskonung að þjóðhöfðingja sínum. Þetta má túlka sem þversögn, að Íslendingar hafi fallist á einveldi konungs með því skilyrði að engu yrði breytt í stjórnkerfinu og einveldi konungs því ekki komið á.

Henrik Bjelke (1615–1683) var hirðstjóri á Íslandi þegar einveldi var komið á. Heimildir eru óljósar um hvernig samskipti Bjelke og Íslendinga voru á Kópavogsfundinum í júlí 1662.

Óljósar og mótsagnakenndar heimildir eru um hvernig Íslendingar tóku þessari nýjung. Í annálum segir að fulltrúar þeirra í Kópavogi hafi setið veislu hirðstjóra fram á nótt og þar hafi verið „sungið og spilað upp á margs kyns hljóðfæri“ og skotið af fallbyssum til að fagna atburðinum. En til eru tveir pappírssneplar þar sem Árni Magnússon prófessor og handritasafnari (sem var fæddur 1663) hefur það eftir einum fulltrúanum á Kópavogsfundi að Íslendingar hafi verið kúgaðir til að skrifa undir einveldisskuldbindinguna. Á öðrum sneplinum stendur að Bjelke hafi haft hermenn með byssum með sér á Kópavogsfundi. Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson hafi sagt honum að Íslendingar vildu ekki afsala sér réttindum sínum hafi Bjelke bent honum á hermennina og spurt hvort hann sæi þessa. Á hinum sneplinum stendur að Árni Oddsson lögmaður hafi streist á móti því heilan dag að sverja konungi einveldi en síðast gert það tárfellandi.

Það er því nokkuð óvíst hvað gerðist í Kópavogi 1662. Hitt er víst að einveldi konungs komst á hér á landi eins og annars staðar í ríki Danakonungs. Íslendingar hættu fljótlega að senda konungi til staðfestingar alþingisdóma með lagareglum. Alþingi starfaði sem dómstóll í meira en öld eftir þetta uns það var lagt niður um aldamótin 1800 og Landsyfirréttur stofnaður í Reykjavík í staðinn. Það beið svo sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að snúa þróuninni við og afnema einveldi Danakonungs á landi þeirra.

Heimildir og myndir:

  • Alþingisbækur Íslands VI. 1640–1662. Reykjavík, Sögufélag, 1933–40.
  • Bergsteinn Jónsson: „Fáein orð um upphaf einveldis á Íslandi.“ Saga IV (1964), 70–86.
  • Gunnar Karlsson: „Að ná íslenskum lögum. Um lagaákvæði Gamla sáttmála og löggjafarvald á Íslandi í veldi Noregskonungs.“ Yfir Íslandsála. Afmælisrit til heiðurs Magnúsi Stefánssyni (Reykjavík, Sögufræðslusjóður, 1991), 53–75.
  • Helgi Þorláksson: „Undir einveldi.“ Saga Íslands VII. Samin að tilhlutan Þjóðhátíðarnefndar 1974. Ritstjóri Sigurður Líndal (Reykavík, Bókmenntafélag, 2004), 1–211.
  • Skjöl um hylling Íslendinga 1649 við Friðrik konung þriðja með viðbæti um Kópavogssærin 1662. Reykjavík, Sögufélag, 1914.
  • Sigurður Ólason: Yfir alda haf. Greinar um söguleg og þjóðleg fræði. Reykjavík, Hildur, 1964.
  • Mynd af Friðriki III: The Royal Danish Collection. Sótt 3. 2. 2012.
  • Mynd af Henrik Bjelke: Henrik Bjelke á is.wikipedia.org. Sótt 3. 2. 2012

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

8.2.2012

Spyrjandi

Kristjana Jónsdóttir

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers vegna var Kópavogsfundurinn haldinn og hver var tilgangurinn með honum?“ Vísindavefurinn, 8. febrúar 2012. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61371.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2012, 8. febrúar). Hvers vegna var Kópavogsfundurinn haldinn og hver var tilgangurinn með honum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61371

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hvers vegna var Kópavogsfundurinn haldinn og hver var tilgangurinn með honum?“ Vísindavefurinn. 8. feb. 2012. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61371>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna var Kópavogsfundurinn haldinn og hver var tilgangurinn með honum?
Kópavogsfundurinn 1662 var afleiðing af atburðum sem höfðu gerst í Danmörku næstu ár á undan. Í danska konungsríkinu hafði aðallinn lengi ráðið miklu. Konungar voru kjörnir, þótt þeir væru jafnan valdir úr ríkjandi konungsfjölskyldu, og gátu aðalsmenn sett nýjum konungi skilyrði sem takmörkuðu völd hans. Stéttaþing, þar sem aðallinn réði miklu, tóku mikilvægar ákvarðanir um löggjöf og skatta. Aðallinn greiddi ekki skatt en átti í stað þess að halda uppi landvörnum ríkisins.

Friðrik III (1609-1670) konungur Danmerkur 1648-1670 innleiddi einveldi í ríkjum sínum, þar á meðal á Íslandi.

Á árunum 1657–59 geisaði stríð á milli Dana og Svía; Danir misstu öll lönd sín austan Eyrarsunds, þeirra mest Skán. Umsátri Svía um Kaupmannahöfn var hins vegar hrundið, að miklu leyti af borgurum bæjarins. Eftir stríðið var fjárhagur ríkisins í molum, og þótti mörgum tímabært að aðallinn tæki á sig skattbyrði, enda hefðu þeir brugðist sem landvarnarmenn. Aðalsmenn neituðu því enn á stéttaþingi árið 1660. Þá tóku konungur og borgarar Kaupmannahafnar höndum saman gegn aðlinum og knúðu það fram að tekið var upp konungseinveldi í landinu árið 1661. Konungur fékk bókstaflega allt ríkisvaldið í sínar hendur, löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald, en fól svo embættismönnum sínum að framkvæma mestan hluta þess því ekki gat konungur sjálfur skipt sér af hverju máli. Sama ár var einveldi konungs samþykkt í Noregi sem var þá undir krúnu Danakonungs.

Óljóst var hvaða áhrif þessi breyting hefði á stjórnkerfi Íslands. Landið var jú í danska konungsríkinu, en þar var enginn aðall til að missa völd, og ekki var fyllilega ljóst hvernig völdum var skipt á milli konungs og Alþingis Íslendinga. Íslenskir fræðimenn hafa löngum haldið því fram að Alþingi hafi haft löggjafarvald með konungi, og svo mikið er víst að það samþykkti svokallaða alþingisdóma sem höfðu lagagildi, að minnsta kosti eftir að konungur hafði staðfest þá. En Danastjórn vildi láta Íslendinga sverja konungi einveldi. Vorið 1662 bárust til Íslands bréf frá konungi þess efnis að Íslendingar skyldu senda tiltekna fulltrúa sína til Alþingis um sumarið til að hylla Friðrik konung III. sem erfðakonung. Á einveldi var ekki minnst. Fulltrúi konungs á Íslandi, Henrik Bjelke hirðstjóri, hafði verið í Danmörku um veturinn og kom of seint til landsins til að ná Alþingi. En þingfulltrúar bókuðu að óþarft væri að hafa sérstaka erfðahyllingu á Íslandi vegna þess að landið tilheyrði norska konungsríkinu sem væri hreint erfðaríki.

Skömmu síðar kom Bjelke hirðstjóri til landsins og sendi út bréf um að fulltrúar Íslendinga skyldu koma til Bessastaða 26. júlí og sverja konungi hollustu daginn eftir. Það var þó ekki fyrr en 28. júlí sem þing var sett í Kópavogi. Þar var bókað að fulltrúar Íslendinga viðurkenndu konung sem erfðakonung og einveldiskonung. Um leið samþykktu þingfulltrúar að fara fram á það við konung að landsmenn héldu fornum lögum sínum og réttindum. Með réttindum er væntanlega átt við þau skilyrði sem Íslendingar höfðu sett í Gamla sáttmála fyrir því að hafa Noregskonung að þjóðhöfðingja sínum. Þetta má túlka sem þversögn, að Íslendingar hafi fallist á einveldi konungs með því skilyrði að engu yrði breytt í stjórnkerfinu og einveldi konungs því ekki komið á.

Henrik Bjelke (1615–1683) var hirðstjóri á Íslandi þegar einveldi var komið á. Heimildir eru óljósar um hvernig samskipti Bjelke og Íslendinga voru á Kópavogsfundinum í júlí 1662.

Óljósar og mótsagnakenndar heimildir eru um hvernig Íslendingar tóku þessari nýjung. Í annálum segir að fulltrúar þeirra í Kópavogi hafi setið veislu hirðstjóra fram á nótt og þar hafi verið „sungið og spilað upp á margs kyns hljóðfæri“ og skotið af fallbyssum til að fagna atburðinum. En til eru tveir pappírssneplar þar sem Árni Magnússon prófessor og handritasafnari (sem var fæddur 1663) hefur það eftir einum fulltrúanum á Kópavogsfundi að Íslendingar hafi verið kúgaðir til að skrifa undir einveldisskuldbindinguna. Á öðrum sneplinum stendur að Bjelke hafi haft hermenn með byssum með sér á Kópavogsfundi. Þegar Brynjólfur biskup Sveinsson hafi sagt honum að Íslendingar vildu ekki afsala sér réttindum sínum hafi Bjelke bent honum á hermennina og spurt hvort hann sæi þessa. Á hinum sneplinum stendur að Árni Oddsson lögmaður hafi streist á móti því heilan dag að sverja konungi einveldi en síðast gert það tárfellandi.

Það er því nokkuð óvíst hvað gerðist í Kópavogi 1662. Hitt er víst að einveldi konungs komst á hér á landi eins og annars staðar í ríki Danakonungs. Íslendingar hættu fljótlega að senda konungi til staðfestingar alþingisdóma með lagareglum. Alþingi starfaði sem dómstóll í meira en öld eftir þetta uns það var lagt niður um aldamótin 1800 og Landsyfirréttur stofnaður í Reykjavík í staðinn. Það beið svo sjálfstæðisbaráttu Íslendinga að snúa þróuninni við og afnema einveldi Danakonungs á landi þeirra.

Heimildir og myndir:

  • Alþingisbækur Íslands VI. 1640–1662. Reykjavík, Sögufélag, 1933–40.
  • Bergsteinn Jónsson: „Fáein orð um upphaf einveldis á Íslandi.“ Saga IV (1964), 70–86.
  • Gunnar Karlsson: „Að ná íslenskum lögum. Um lagaákvæði Gamla sáttmála og löggjafarvald á Íslandi í veldi Noregskonungs.“ Yfir Íslandsála. Afmælisrit til heiðurs Magnúsi Stefánssyni (Reykjavík, Sögufræðslusjóður, 1991), 53–75.
  • Helgi Þorláksson: „Undir einveldi.“ Saga Íslands VII. Samin að tilhlutan Þjóðhátíðarnefndar 1974. Ritstjóri Sigurður Líndal (Reykavík, Bókmenntafélag, 2004), 1–211.
  • Skjöl um hylling Íslendinga 1649 við Friðrik konung þriðja með viðbæti um Kópavogssærin 1662. Reykjavík, Sögufélag, 1914.
  • Sigurður Ólason: Yfir alda haf. Greinar um söguleg og þjóðleg fræði. Reykjavík, Hildur, 1964.
  • Mynd af Friðriki III: The Royal Danish Collection. Sótt 3. 2. 2012.
  • Mynd af Henrik Bjelke: Henrik Bjelke á is.wikipedia.org. Sótt 3. 2. 2012

...