Sólin Sólin Rís 05:26 • sest 21:28 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 21:24 • Sest 05:22 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 06:10 • Síðdegis: 18:30 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 00:11 • Síðdegis: 12:20 í Reykjavík

Hver var Aristarkos frá Samos og hvert var framlag hans til vísindanna?

Geir Þ. Þórarinsson

Aristarkos frá Samos var forngrískur stjörnufræðingur sem er frægastur fyrir að hafa sett fram sólmiðjukenningu. Hann fæddist á eynni Samos um 320 eða 310 f.Kr. en lærði í Aþenu hjá aristótelíska heimspekingnum Stratoni frá Lampsakos. Straton stýrði skólanum Lýkeion, sem Aristóteles stofnaði, á árunum 286-268 f.Kr. Aristarkos starfaði svo lengst af í Alexandríu í Egyptalandi, sem á þessum tíma var miðstöð vísinda og fræða. Hann lést líklega einhvern tímann eftir miðja 3. öld f.Kr.

Aristarkos frá Samos (um 310 - um 230 f.Kr.).

Vegna sólmiðjukenningarinnar hefur Aristarkos verið nefndur hinn forni Kópernikus. Forngríski fjölfræðingurinn Plútarkos segir reyndar að Aristarkos hafi einungis stungið upp á kenningunni en stjörnufræðingurinn Selevkos hafi síðar orðið málsvari hennar. (Plút., Platonskar spurningar 8). En sólmiðjukenningin átti reyndar erfitt uppdráttar í fornöld. Á öðrum stað segir Plútarkos:
[…] eins og Kleanþes taldi að Grikkir ættu að ákæra Aristarkos fyrir guðlast á þeim forsendum að hann væri að hrófla við eldstæði alheimsins, þar eð að maðurinn var að reyna að bjarga sýndinni og gerði ráð fyrir að himinninn stæði í stað en að jörðin snerist í kring á sporbaug og snerist á sama tíma um möndul sinn.“ (Plút., De faciae quae in orbe lunae apparet 6).

Af þessum vitnisburði virðist ljóst hver meginatriðin voru í kenningunni. Í stað þess að gera ráð fyrir að sólin og fastastjörnurnar snerust ásamt himinhvolfinu í kringum jörðina gerði Aristarkos ráð fyrir að jörðin snerist á sporbaug um sólina og snerist einnig um möndul sinn. Í öðru lagi gekk hann út frá þessu með það fyrir augunum að gefa betri skýringu á sýnilegri hreyfingu fyrirbæra á himni. Reyndar hafði Herakleides frá Pontos um það bil einni kynslóð áður lagt til að jörðin snerist um möndul sinn en að fastastjörnurnar stæðu í stað. En hann gekk þó ekki út frá sólmiðjukenningu, heldur taldi hann að jörðin væri í miðju alheimsins.

Af tilvitnuninni að ofan er einnig greinileg ein ástæða þess að kenningin átti erfitt uppdráttar: tillagan þótti vera ósæmileg ef ekki vera hreint svívirðileg. Tökum eftir að Plútarkos segir Aristarkos hafa ætlað að bjarga sýndinni (τὰ φαινόμενα σῴζειν). Sýnilegir atburðir, svo sem hvernig himnafyrirbæri virðast hreyfast, virðast ekki hafa verið helsta þrætueplið; kenningunni var ekki andmælt vegna þess að henni tækist ekki að skýra sýnilega hreyfingu fyrirbæra á himni, heldur var henni andmælt á öðrum forsendum. Grikkir áttu í fyrsta lagi enga sjónauka, svo að frekari rannsóknir voru erfiðar, en í öðru lagi var markhyggja ríkjandi viðhorf en það er sú kenning að skýringar eigi að höfða til tilgangs. Grikkjum reyndist alltaf erfitt að sjá tilgang þess að jörðin væri ekki í miðju alheimsins, heldur snerist hún í kringum sólina. Straton, kennari Aristarkosar, hafði reyndar að mestu losað sig undan markhyggjunni, sem annars var ætíð sterk jafnt í aristótelískri heimspeki sem víðar. Eigi að síður var það á forsendum markhyggju og eðlisfræði sem kenningunni var andmælt en ekki vegna skýringargildis hennar.

Aristarkos gerði tilraun til að reikna stærð og fjarlægð sólarinnar og tunglsins frá jörðu. Síða úr grísku handriti frá 10. öld af verki hans.

Hvort sem það er nú rétt hjá Plútarkosi eða ekki að Aristarkos hafi aldrei í reynd haldið sólmiðjukenningu sinni fram, gengur Aristarkos í það minnsta ekki út frá henni í eina ritinu sem varðveitt er eftir hann, Um stærð og fjarlægð sólar og tungls (De magnitudinibus et distantiis solis et lunae). Þar er þvert á móti lögð til grundvallar jarðmiðjukenning. Eigi að síður er ljóst að Aristarkos var glöggur stjörnufræðingur og stærðfræðingur á sínum tíma. Í Um stærð og fjarlægð sólar og tungls reyndi hann að beita stærðfræðilögmálum til að reikna út stærð og fjarlægð sólarinnar og tunglsins frá jörðu, að vísu ekki með góðum árangri því áætlanir hans eru nokkuð fjarri lagi. Hann vissi að tunglið þæði ljós sitt frá sólu og snerist um jörðu og þekkti orsakir sólmyrkva. Hann reyndi svo að meta stærð og fjarlægð tunglsins með útreikningum byggðum á athugunum á sólmyrkvum. Hann er enn fremur sagður hafa fundið upp nákvæmari gerð af sólúri en áður þekktust og hafa áætlað að lengd ársins væri 365 dagar, 7 klukkustundir og 29 mínútur sem verður að teljast góður árangur.

Heimildir og myndir
  • Toomer, G.J., „Aristarchus“ hjá Simon Hornblower og Antony Spawforth (ritstj.), Oxford Classical Dictionary, 3ja útg. (Oxford: Oxford University Press, 1996).
  • Mynd af Aristarkos: Russell Cottrell. Sótt 6. 12. 2011.
  • Mynd af teikningu: Astronomy Today. Sótt 6. 12. 2011.

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

6.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Aristarkos frá Samos og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn, 6. desember 2011. Sótt 23. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61425.

Geir Þ. Þórarinsson. (2011, 6. desember). Hver var Aristarkos frá Samos og hvert var framlag hans til vísindanna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61425

Geir Þ. Þórarinsson. „Hver var Aristarkos frá Samos og hvert var framlag hans til vísindanna?“ Vísindavefurinn. 6. des. 2011. Vefsíða. 23. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61425>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Aristarkos frá Samos og hvert var framlag hans til vísindanna?
Aristarkos frá Samos var forngrískur stjörnufræðingur sem er frægastur fyrir að hafa sett fram sólmiðjukenningu. Hann fæddist á eynni Samos um 320 eða 310 f.Kr. en lærði í Aþenu hjá aristótelíska heimspekingnum Stratoni frá Lampsakos. Straton stýrði skólanum Lýkeion, sem Aristóteles stofnaði, á árunum 286-268 f.Kr. Aristarkos starfaði svo lengst af í Alexandríu í Egyptalandi, sem á þessum tíma var miðstöð vísinda og fræða. Hann lést líklega einhvern tímann eftir miðja 3. öld f.Kr.

Aristarkos frá Samos (um 310 - um 230 f.Kr.).

Vegna sólmiðjukenningarinnar hefur Aristarkos verið nefndur hinn forni Kópernikus. Forngríski fjölfræðingurinn Plútarkos segir reyndar að Aristarkos hafi einungis stungið upp á kenningunni en stjörnufræðingurinn Selevkos hafi síðar orðið málsvari hennar. (Plút., Platonskar spurningar 8). En sólmiðjukenningin átti reyndar erfitt uppdráttar í fornöld. Á öðrum stað segir Plútarkos:
[…] eins og Kleanþes taldi að Grikkir ættu að ákæra Aristarkos fyrir guðlast á þeim forsendum að hann væri að hrófla við eldstæði alheimsins, þar eð að maðurinn var að reyna að bjarga sýndinni og gerði ráð fyrir að himinninn stæði í stað en að jörðin snerist í kring á sporbaug og snerist á sama tíma um möndul sinn.“ (Plút., De faciae quae in orbe lunae apparet 6).

Af þessum vitnisburði virðist ljóst hver meginatriðin voru í kenningunni. Í stað þess að gera ráð fyrir að sólin og fastastjörnurnar snerust ásamt himinhvolfinu í kringum jörðina gerði Aristarkos ráð fyrir að jörðin snerist á sporbaug um sólina og snerist einnig um möndul sinn. Í öðru lagi gekk hann út frá þessu með það fyrir augunum að gefa betri skýringu á sýnilegri hreyfingu fyrirbæra á himni. Reyndar hafði Herakleides frá Pontos um það bil einni kynslóð áður lagt til að jörðin snerist um möndul sinn en að fastastjörnurnar stæðu í stað. En hann gekk þó ekki út frá sólmiðjukenningu, heldur taldi hann að jörðin væri í miðju alheimsins.

Af tilvitnuninni að ofan er einnig greinileg ein ástæða þess að kenningin átti erfitt uppdráttar: tillagan þótti vera ósæmileg ef ekki vera hreint svívirðileg. Tökum eftir að Plútarkos segir Aristarkos hafa ætlað að bjarga sýndinni (τὰ φαινόμενα σῴζειν). Sýnilegir atburðir, svo sem hvernig himnafyrirbæri virðast hreyfast, virðast ekki hafa verið helsta þrætueplið; kenningunni var ekki andmælt vegna þess að henni tækist ekki að skýra sýnilega hreyfingu fyrirbæra á himni, heldur var henni andmælt á öðrum forsendum. Grikkir áttu í fyrsta lagi enga sjónauka, svo að frekari rannsóknir voru erfiðar, en í öðru lagi var markhyggja ríkjandi viðhorf en það er sú kenning að skýringar eigi að höfða til tilgangs. Grikkjum reyndist alltaf erfitt að sjá tilgang þess að jörðin væri ekki í miðju alheimsins, heldur snerist hún í kringum sólina. Straton, kennari Aristarkosar, hafði reyndar að mestu losað sig undan markhyggjunni, sem annars var ætíð sterk jafnt í aristótelískri heimspeki sem víðar. Eigi að síður var það á forsendum markhyggju og eðlisfræði sem kenningunni var andmælt en ekki vegna skýringargildis hennar.

Aristarkos gerði tilraun til að reikna stærð og fjarlægð sólarinnar og tunglsins frá jörðu. Síða úr grísku handriti frá 10. öld af verki hans.

Hvort sem það er nú rétt hjá Plútarkosi eða ekki að Aristarkos hafi aldrei í reynd haldið sólmiðjukenningu sinni fram, gengur Aristarkos í það minnsta ekki út frá henni í eina ritinu sem varðveitt er eftir hann, Um stærð og fjarlægð sólar og tungls (De magnitudinibus et distantiis solis et lunae). Þar er þvert á móti lögð til grundvallar jarðmiðjukenning. Eigi að síður er ljóst að Aristarkos var glöggur stjörnufræðingur og stærðfræðingur á sínum tíma. Í Um stærð og fjarlægð sólar og tungls reyndi hann að beita stærðfræðilögmálum til að reikna út stærð og fjarlægð sólarinnar og tunglsins frá jörðu, að vísu ekki með góðum árangri því áætlanir hans eru nokkuð fjarri lagi. Hann vissi að tunglið þæði ljós sitt frá sólu og snerist um jörðu og þekkti orsakir sólmyrkva. Hann reyndi svo að meta stærð og fjarlægð tunglsins með útreikningum byggðum á athugunum á sólmyrkvum. Hann er enn fremur sagður hafa fundið upp nákvæmari gerð af sólúri en áður þekktust og hafa áætlað að lengd ársins væri 365 dagar, 7 klukkustundir og 29 mínútur sem verður að teljast góður árangur.

Heimildir og myndir
  • Toomer, G.J., „Aristarchus“ hjá Simon Hornblower og Antony Spawforth (ritstj.), Oxford Classical Dictionary, 3ja útg. (Oxford: Oxford University Press, 1996).
  • Mynd af Aristarkos: Russell Cottrell. Sótt 6. 12. 2011.
  • Mynd af teikningu: Astronomy Today. Sótt 6. 12. 2011.

...