Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hver var Pierre Bourdieu og hvert var framlag hans til félagsvísinda?

Gestur Guðmundsson

Pierre Bourdieu (1930-2002) er einn áhrifamesti félagsvísindamaður síðustu áratuga. Hann var af alþýðufólki kominn en lauk heimspekinámi frá elítuháskóla í París og hóf síðan að vinna að félagsfræðilegum rannsóknum. Hann fékkst frá upphafi við viðamiklar empírískar rannsóknir, bæði eigindlegar og megindlegar, en þróaði smám saman eigin hugtök og kenningar á grundvelli rannsóknanna. Þar byggði hann á félagsfræðikenningum Max Webers, Émile Durkheims, Karls Marx, Erving Goffman og fleiri, sem og Marcel Mauss og fleiri mannfræðingum. Hann sótti einnig megindlegar aðferðir til raunvísinda og rökvís hugtakamyndun hans byggði á grunnmenntun hans í þekkingarfræði og annarri heimspeki.

Meginviðfangsefni Bourdieus voru menntun og menning. Hann sýndi fram á að börn menntamanna eru á heimavelli í skóla en börn verkalýðs og bænda á útivelli. Þessi félagslega skilvinda er þó hulin þátttakendum að mestu leyti, og bæði kennarar og nemendur sjá heimanmund barna úr efri stéttum sem persónulega verðleika barnanna en heimanmund barna úr lægri stéttum sem ófullkominn og óviðkomandi skólastarfinu (Bourdieu og Passeron, 1990). Bourdieu skoðaði próf og önnur vinnubrögð í frönskum háskólum og komst að raun um að fas nemenda og beinar og óbeinar tilvísanir í hámenningu yfirstéttarinnar skiptu verulegu máli í dómum kennara um hæfni nemenda sinna (Bourdieu, 1979).

Á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar gerðu Bourdieu og samstarfsmenn hans umfangsmiklar rannsóknir á menningarneyslu Frakka þar sem ýtarleg viðtöl voru tekin við stór úrtök meðal allrar þjóðarinnar. Úrvinnsla gagnanna fór fram í mörgum þrepum, þar sem skiptust á tölfræðileg úrvinnsla, túlkanir og fræðilegar greiningar, en niðurstöður sýndu ríka samsvörun milli menningarneyslu einstakra hópa og stöðu þeirra í stigveldi eftir stétt, kyni og búsetu (Bourdieu, 1984).

Pierre Bourdieu (1930-2002).

Hvað eftir annað á starfsferli sínum skoðaði Bourdieu einstaka vettvanga menningar, til dæmis myndlistarheim Parísar, ljósmyndir, sjónvarp og bókmenntaheiminn. Hann fann það sammerkt með þessum vettvöngum að þeir sköpuðu sér visst sjálfræði gagnvart pólitískum og efnahagslegum valdaöflum, að innan þeirra urðu til ákveðnar leikreglur um samkeppni og ákveðnir dómarar eða menningarpáfar og að allir vettvangar menningar einkenndust af togstreitu annars vegar milli listrænna gilda og markaðar og hins vegar milli nýliða og þeirra sem hefðu tryggt sér ákveðinn sess (Bourdieu, 1996). Svipaðri nálgun beitti Bourdieu einnig á vettvang háskólanna og skoðaði hvernig einstakir prófessorar sköpuðu sér stöðu líkt og menningarpáfar og listamenn gera á vettvöngum lista (Bourdieu, 1988; 1998).

Auk vettvangshugtaksins er menningarauður grundvallarhugtak hjá Bourdieu, en hugtakið nær yfir þá menntun, siðfágun og menningu sem nýtur virðingar í samfélaginu og skapar eigendum sínum stöðu í samfélaginu. Annað grundvallarhugtak er habitus (stundum þýtt sem veruháttur á íslensku) sem á við um þær félagslegu forskriftir að hegðun, skynjun og umhugsun sem hafa runnið okkur svo í merg og bein að við beitum þeim án umhugsunar. Þessi lykilhugtök eru nátengd hvert öðru og segja má að þau komi saman í hugtakinu smekkur, þar sem eiginleikar neytanda og vöru mætast og renna saman (Bourdieu, 2007). Bourdieu hafnar því ekki að habitus, smekkur og ýmsar hliðar menningarauðs geti verið einstaklingsbundnar, en hann leggur áherslu á að beita hugtökunum sem félagslegum hugtökum sem skýra mismunun í samfélaginu.

Bourdieu var einn upphafsmanna hugtaksins um félagsauð, en ólíkt mörgum öðrum lagði hann jafnan megináherslu á að félagsauði væri jafnan misskipt og að sú misskipting fylgdi stéttarlegum og menningarlegum mun að meginhluta til.

Nafn Bourdieus varð þekkt strax á 7. áratug 20. aldar og var meðal annars nefnt í fyrirlestrum við Háskóla Íslands upp úr 1970. Hann eignaðist ástríðufulla lærisveina í Frakklandi og víðar, meðal annars í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð. Upp úr 1980 vildu margir dæma Bourdieu úr leik sem strúktúralista og marxista, en fáum árum síðar fór vegur hans vaxandi á nýjan leik, æ fleiri verk hans voru þýdd á æ fleiri tungur og nafn hans varð mjög þekkt í hinum enskumælandi heimi, Japan og víðar. Síðasta áratug ævi sinnar var Bourdieu vinsæll fyrirlesari víða um heim og hann átti þátt í að rita margar bækur þar sem hugtök hans og nálgun voru kynnt fyrir nýjum lesendum (Bourdieu og Wacquant, 1992). Jafnframt tók hann þátt í rannsóknum á fátækt meðal ríkra þjóða, lagði sitt af mörkum til kynjafræði og var ekki síst óþreytandi í að styðja þá sem áttu undir högg að sækja, til dæmis unga innflytjendur í Frakklandi (Bourdieu, 1999; 2001).

Uppruni og vegferð Bourdieu hjálpuðu honum að koma auga á þau gangvirki sem viðhalda félagslegri mismunun í skólum, menningu og á hinum ýmsu vettvöngum samfélagsins. Sumir fræðimenn leggja sig fram um að beita hugtökum og safna gögnum sem líkast Bourdieu sjálfum, aðrir nota hann lauslega sem kenningarlega viðmiðun, en það er sennilega mest í anda hans að vanda empírískar rannsóknir og halda áfram að framþróa hugtök hans í glímu við ný samfélög og breyttan tíma.

Fjölmargir íslenskir háskólamenn hafa notað Bourdieu að einhverju leyti, til dæmis í doktorsverkefnum, meistaraverkefnum og öðrum rannsóknum en þó má fullyrða að engin meiri háttar rannsókn hafi enn verið gerð hér á landi þar sem kenningar og nálgun Bourdieus eru í öndvegi.

Nánari útskýringu og umræðu um kenningar Bourdieus er meðal annars að finna í bókinni Félagsfræði menntunar eftir Gest Guðmundsson.

Tilvísanir (enskar og íslenskar útgáfur)

  • Bourdieu, Pierre (1979) The Inheritors: French Students and Their Relations to Culture, Chicago: University of Chicago Press.
  • Bourdieu, Pierre (1984) Distinction. A Social Critique of the Judgement of Taste, London: Routledge and Kegan Paul.
  • Bourdieu, Pierre (1988) Homo Academicus, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (1996) The Rules of Art. Genesis and Structure of the Literary Field, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (1998) State nobility: Elite Schools in the Field of Power, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (1999) Weight of the World: Social Suffering in Contemporary Society, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (2001) Masculine Domination, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (2007) Almenningsálitið er ekki til, Atvik 11. Greinasafn í ísl. þýð. Ritstj. Davíð Kristinsson. Reykjavík: Reykjavíkurakademían/Omdúrman.
  • Bourdieu, Pierre, og Jean-Claude Passeron (1990) Reproduction in Education, Society and Culture, Beverly Hills: Sage.
  • Bourdieu, Pierre og Loïc Wacquant (1992) An Invitation to Reflexive Sociology, Chicago: University of Chicago Press.
  • Gestur Guðmundsson (2012) Félagsfræði menntunar, 2. útgáfa. Reykjavík: Skrudda.

Mynd:

Höfundur

Gestur Guðmundsson

prófessor í félagsfræði menntunar við HÍ

Útgáfudagur

10.12.2011

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Gestur Guðmundsson. „Hver var Pierre Bourdieu og hvert var framlag hans til félagsvísinda?“ Vísindavefurinn, 10. desember 2011. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=61450.

Gestur Guðmundsson. (2011, 10. desember). Hver var Pierre Bourdieu og hvert var framlag hans til félagsvísinda? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=61450

Gestur Guðmundsson. „Hver var Pierre Bourdieu og hvert var framlag hans til félagsvísinda?“ Vísindavefurinn. 10. des. 2011. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=61450>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver var Pierre Bourdieu og hvert var framlag hans til félagsvísinda?
Pierre Bourdieu (1930-2002) er einn áhrifamesti félagsvísindamaður síðustu áratuga. Hann var af alþýðufólki kominn en lauk heimspekinámi frá elítuháskóla í París og hóf síðan að vinna að félagsfræðilegum rannsóknum. Hann fékkst frá upphafi við viðamiklar empírískar rannsóknir, bæði eigindlegar og megindlegar, en þróaði smám saman eigin hugtök og kenningar á grundvelli rannsóknanna. Þar byggði hann á félagsfræðikenningum Max Webers, Émile Durkheims, Karls Marx, Erving Goffman og fleiri, sem og Marcel Mauss og fleiri mannfræðingum. Hann sótti einnig megindlegar aðferðir til raunvísinda og rökvís hugtakamyndun hans byggði á grunnmenntun hans í þekkingarfræði og annarri heimspeki.

Meginviðfangsefni Bourdieus voru menntun og menning. Hann sýndi fram á að börn menntamanna eru á heimavelli í skóla en börn verkalýðs og bænda á útivelli. Þessi félagslega skilvinda er þó hulin þátttakendum að mestu leyti, og bæði kennarar og nemendur sjá heimanmund barna úr efri stéttum sem persónulega verðleika barnanna en heimanmund barna úr lægri stéttum sem ófullkominn og óviðkomandi skólastarfinu (Bourdieu og Passeron, 1990). Bourdieu skoðaði próf og önnur vinnubrögð í frönskum háskólum og komst að raun um að fas nemenda og beinar og óbeinar tilvísanir í hámenningu yfirstéttarinnar skiptu verulegu máli í dómum kennara um hæfni nemenda sinna (Bourdieu, 1979).

Á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar gerðu Bourdieu og samstarfsmenn hans umfangsmiklar rannsóknir á menningarneyslu Frakka þar sem ýtarleg viðtöl voru tekin við stór úrtök meðal allrar þjóðarinnar. Úrvinnsla gagnanna fór fram í mörgum þrepum, þar sem skiptust á tölfræðileg úrvinnsla, túlkanir og fræðilegar greiningar, en niðurstöður sýndu ríka samsvörun milli menningarneyslu einstakra hópa og stöðu þeirra í stigveldi eftir stétt, kyni og búsetu (Bourdieu, 1984).

Pierre Bourdieu (1930-2002).

Hvað eftir annað á starfsferli sínum skoðaði Bourdieu einstaka vettvanga menningar, til dæmis myndlistarheim Parísar, ljósmyndir, sjónvarp og bókmenntaheiminn. Hann fann það sammerkt með þessum vettvöngum að þeir sköpuðu sér visst sjálfræði gagnvart pólitískum og efnahagslegum valdaöflum, að innan þeirra urðu til ákveðnar leikreglur um samkeppni og ákveðnir dómarar eða menningarpáfar og að allir vettvangar menningar einkenndust af togstreitu annars vegar milli listrænna gilda og markaðar og hins vegar milli nýliða og þeirra sem hefðu tryggt sér ákveðinn sess (Bourdieu, 1996). Svipaðri nálgun beitti Bourdieu einnig á vettvang háskólanna og skoðaði hvernig einstakir prófessorar sköpuðu sér stöðu líkt og menningarpáfar og listamenn gera á vettvöngum lista (Bourdieu, 1988; 1998).

Auk vettvangshugtaksins er menningarauður grundvallarhugtak hjá Bourdieu, en hugtakið nær yfir þá menntun, siðfágun og menningu sem nýtur virðingar í samfélaginu og skapar eigendum sínum stöðu í samfélaginu. Annað grundvallarhugtak er habitus (stundum þýtt sem veruháttur á íslensku) sem á við um þær félagslegu forskriftir að hegðun, skynjun og umhugsun sem hafa runnið okkur svo í merg og bein að við beitum þeim án umhugsunar. Þessi lykilhugtök eru nátengd hvert öðru og segja má að þau komi saman í hugtakinu smekkur, þar sem eiginleikar neytanda og vöru mætast og renna saman (Bourdieu, 2007). Bourdieu hafnar því ekki að habitus, smekkur og ýmsar hliðar menningarauðs geti verið einstaklingsbundnar, en hann leggur áherslu á að beita hugtökunum sem félagslegum hugtökum sem skýra mismunun í samfélaginu.

Bourdieu var einn upphafsmanna hugtaksins um félagsauð, en ólíkt mörgum öðrum lagði hann jafnan megináherslu á að félagsauði væri jafnan misskipt og að sú misskipting fylgdi stéttarlegum og menningarlegum mun að meginhluta til.

Nafn Bourdieus varð þekkt strax á 7. áratug 20. aldar og var meðal annars nefnt í fyrirlestrum við Háskóla Íslands upp úr 1970. Hann eignaðist ástríðufulla lærisveina í Frakklandi og víðar, meðal annars í Bretlandi, Danmörku og Svíþjóð. Upp úr 1980 vildu margir dæma Bourdieu úr leik sem strúktúralista og marxista, en fáum árum síðar fór vegur hans vaxandi á nýjan leik, æ fleiri verk hans voru þýdd á æ fleiri tungur og nafn hans varð mjög þekkt í hinum enskumælandi heimi, Japan og víðar. Síðasta áratug ævi sinnar var Bourdieu vinsæll fyrirlesari víða um heim og hann átti þátt í að rita margar bækur þar sem hugtök hans og nálgun voru kynnt fyrir nýjum lesendum (Bourdieu og Wacquant, 1992). Jafnframt tók hann þátt í rannsóknum á fátækt meðal ríkra þjóða, lagði sitt af mörkum til kynjafræði og var ekki síst óþreytandi í að styðja þá sem áttu undir högg að sækja, til dæmis unga innflytjendur í Frakklandi (Bourdieu, 1999; 2001).

Uppruni og vegferð Bourdieu hjálpuðu honum að koma auga á þau gangvirki sem viðhalda félagslegri mismunun í skólum, menningu og á hinum ýmsu vettvöngum samfélagsins. Sumir fræðimenn leggja sig fram um að beita hugtökum og safna gögnum sem líkast Bourdieu sjálfum, aðrir nota hann lauslega sem kenningarlega viðmiðun, en það er sennilega mest í anda hans að vanda empírískar rannsóknir og halda áfram að framþróa hugtök hans í glímu við ný samfélög og breyttan tíma.

Fjölmargir íslenskir háskólamenn hafa notað Bourdieu að einhverju leyti, til dæmis í doktorsverkefnum, meistaraverkefnum og öðrum rannsóknum en þó má fullyrða að engin meiri háttar rannsókn hafi enn verið gerð hér á landi þar sem kenningar og nálgun Bourdieus eru í öndvegi.

Nánari útskýringu og umræðu um kenningar Bourdieus er meðal annars að finna í bókinni Félagsfræði menntunar eftir Gest Guðmundsson.

Tilvísanir (enskar og íslenskar útgáfur)

  • Bourdieu, Pierre (1979) The Inheritors: French Students and Their Relations to Culture, Chicago: University of Chicago Press.
  • Bourdieu, Pierre (1984) Distinction. A Social Critique of the Judgement of Taste, London: Routledge and Kegan Paul.
  • Bourdieu, Pierre (1988) Homo Academicus, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (1996) The Rules of Art. Genesis and Structure of the Literary Field, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (1998) State nobility: Elite Schools in the Field of Power, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (1999) Weight of the World: Social Suffering in Contemporary Society, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (2001) Masculine Domination, Cambridge: Polity Press.
  • Bourdieu, Pierre (2007) Almenningsálitið er ekki til, Atvik 11. Greinasafn í ísl. þýð. Ritstj. Davíð Kristinsson. Reykjavík: Reykjavíkurakademían/Omdúrman.
  • Bourdieu, Pierre, og Jean-Claude Passeron (1990) Reproduction in Education, Society and Culture, Beverly Hills: Sage.
  • Bourdieu, Pierre og Loïc Wacquant (1992) An Invitation to Reflexive Sociology, Chicago: University of Chicago Press.
  • Gestur Guðmundsson (2012) Félagsfræði menntunar, 2. útgáfa. Reykjavík: Skrudda.

Mynd:

...