Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Í hvaða fæðutegundum eru flókin kolvetni og í hvaða fæðutegundum eru einföld kolvetni?

Þuríður Þorbjarnardóttir

Kolvetni finnast nær eingöngu í fæðutegundum sem eru úr jurtaríkinu. Eina kolvetnið úr dýraríkinu sem við borðum er svolítið af glýkógeni sem hefur stundum verið kallað dýramjölvi eða dýrasterkja á íslensku. Hér er um að ræða flókið kolvetni sem finnst í svolitlu magni í vöðvum og lifur og er orkuforði dýra. Við mennirnir myndum þetta efni í sömu líffærum en eins og flestir vita er fita samt aðalorkuforði dýra.

Kolvetni flokkast í tvennt. Annars vegar eru einföld kolvetni eða sykur og hins vegar flókin kolvetni. Einföld kolvetni eru sæt á bragðið og meltast mjög hratt. Sum þarf jafnvel ekkert að melta, það eru einsykrurnar glúkósi (þrúgusykur) og frúktósi (ávaxtasykur). Súkrósi (strásykur), maltósi (maltsykur) og laktósi (mjólkursykur) eru helstu tvísykrurnar. Einföld kolvetni finnast ekki í dýraafurðum en helstu plöntuafurðir með slík kolvetni eru ávextir, mjólkurafurðir og öll matvæli sem innihalda viðbættan sykur.

Einföld kolvetni eru meðal annars í ávöxtum, mjólkurvörum og öllum matvælum með viðbættum sykri, þar með talið kökum og öðrum sætindum.

Flókin kolvetni eru mjölvi (sterkja) sem eru gerð úr mörgum einsykrueiningum, aðallega glúkósa, og þarf því að melta þau áður en við getum nýtt þau. Mikið er af mjölva í kartöflum, hrísgrjónum og pasta, brauði og öðrum vörum úr korntegundum.

Trefjaefni tilheyra einnig flóknum kolvetnum. Þau finnast í öllum óunnum plöntuafurðum, þar sem þau eru meginefnið í öllum plöntufrumuveggjum. Þessi kolvetni eru ekki nýtt á sama hátt og þau sem við meltum, sem sagt sem orkugjafi, heldur er þeirra hlutverk að flýta för efna í gegnum meltingarveginn. Með þeim er oft mikið af vítamínum og steinefnum.

Fæðutegundir sem eru auðugar að trefjaefnum eru grænmeti og ávextir, hnetur og fræ, þar með talin heilt korn eins og heilhveiti. Í heilhveiti er fræskurnin með þegar malað er en í hvítu hveiti er fræskurnin skilin frá kíminu í fræinu sem er aðallega mjölvi. Í heilhveiti eru því trefjaefni með fullt af vítamínum og steinefnum en þessu er hent við gerð hvíts hveitis. Til að fá mikið af orku er um að gera að borða hvít brauð úr fínunnu hveiti en heilhveitibrauð ef sóst er eftir meira af næringarefnum en eingöngu orkuefnum. Þetta á ekki eingöngu við um brauð, heldur einnig hrísgrjón og pasta.

Flóknum kolvetnum má skipta í mjölva og trefjar. Kartöflur, hrísgrjón, pasta, brauð og aðrar kornvörur eru ríkar af mjölva. Trefjar fáum við meðal annars úr ávöxtum og grænmeti, hnetum og grófu korni.

Öll kolvetni í líkamanum sem meltast verða að glúkósa í blóðinu (oft kallaður blóðsykur) og er það formið sem líkaminn nýtir sem aðalorkugjafa. Það er misjafnt eftir fæðutegundum hvað þær gefa mikið af glúkósa í blóði. Í þessu sambandi er fæðutegundum oft gefinn sykurstuðull (e. glycemic index). Hann segir til um hversu mikið blóðsykurinn hækkar í kjölfar neyslu á tiltekinni fæðutegund, reiknuð út frá nýtanlegu kolvetni í henni (heildarkolvetni - trefjaefni).

Myndir:

Höfundur

Útgáfudagur

8.10.2012

Spyrjandi

Heba Hertervig

Tilvísun

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Í hvaða fæðutegundum eru flókin kolvetni og í hvaða fæðutegundum eru einföld kolvetni?“ Vísindavefurinn, 8. október 2012. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=62159.

Þuríður Þorbjarnardóttir. (2012, 8. október). Í hvaða fæðutegundum eru flókin kolvetni og í hvaða fæðutegundum eru einföld kolvetni? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=62159

Þuríður Þorbjarnardóttir. „Í hvaða fæðutegundum eru flókin kolvetni og í hvaða fæðutegundum eru einföld kolvetni?“ Vísindavefurinn. 8. okt. 2012. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=62159>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Í hvaða fæðutegundum eru flókin kolvetni og í hvaða fæðutegundum eru einföld kolvetni?
Kolvetni finnast nær eingöngu í fæðutegundum sem eru úr jurtaríkinu. Eina kolvetnið úr dýraríkinu sem við borðum er svolítið af glýkógeni sem hefur stundum verið kallað dýramjölvi eða dýrasterkja á íslensku. Hér er um að ræða flókið kolvetni sem finnst í svolitlu magni í vöðvum og lifur og er orkuforði dýra. Við mennirnir myndum þetta efni í sömu líffærum en eins og flestir vita er fita samt aðalorkuforði dýra.

Kolvetni flokkast í tvennt. Annars vegar eru einföld kolvetni eða sykur og hins vegar flókin kolvetni. Einföld kolvetni eru sæt á bragðið og meltast mjög hratt. Sum þarf jafnvel ekkert að melta, það eru einsykrurnar glúkósi (þrúgusykur) og frúktósi (ávaxtasykur). Súkrósi (strásykur), maltósi (maltsykur) og laktósi (mjólkursykur) eru helstu tvísykrurnar. Einföld kolvetni finnast ekki í dýraafurðum en helstu plöntuafurðir með slík kolvetni eru ávextir, mjólkurafurðir og öll matvæli sem innihalda viðbættan sykur.

Einföld kolvetni eru meðal annars í ávöxtum, mjólkurvörum og öllum matvælum með viðbættum sykri, þar með talið kökum og öðrum sætindum.

Flókin kolvetni eru mjölvi (sterkja) sem eru gerð úr mörgum einsykrueiningum, aðallega glúkósa, og þarf því að melta þau áður en við getum nýtt þau. Mikið er af mjölva í kartöflum, hrísgrjónum og pasta, brauði og öðrum vörum úr korntegundum.

Trefjaefni tilheyra einnig flóknum kolvetnum. Þau finnast í öllum óunnum plöntuafurðum, þar sem þau eru meginefnið í öllum plöntufrumuveggjum. Þessi kolvetni eru ekki nýtt á sama hátt og þau sem við meltum, sem sagt sem orkugjafi, heldur er þeirra hlutverk að flýta för efna í gegnum meltingarveginn. Með þeim er oft mikið af vítamínum og steinefnum.

Fæðutegundir sem eru auðugar að trefjaefnum eru grænmeti og ávextir, hnetur og fræ, þar með talin heilt korn eins og heilhveiti. Í heilhveiti er fræskurnin með þegar malað er en í hvítu hveiti er fræskurnin skilin frá kíminu í fræinu sem er aðallega mjölvi. Í heilhveiti eru því trefjaefni með fullt af vítamínum og steinefnum en þessu er hent við gerð hvíts hveitis. Til að fá mikið af orku er um að gera að borða hvít brauð úr fínunnu hveiti en heilhveitibrauð ef sóst er eftir meira af næringarefnum en eingöngu orkuefnum. Þetta á ekki eingöngu við um brauð, heldur einnig hrísgrjón og pasta.

Flóknum kolvetnum má skipta í mjölva og trefjar. Kartöflur, hrísgrjón, pasta, brauð og aðrar kornvörur eru ríkar af mjölva. Trefjar fáum við meðal annars úr ávöxtum og grænmeti, hnetum og grófu korni.

Öll kolvetni í líkamanum sem meltast verða að glúkósa í blóðinu (oft kallaður blóðsykur) og er það formið sem líkaminn nýtir sem aðalorkugjafa. Það er misjafnt eftir fæðutegundum hvað þær gefa mikið af glúkósa í blóði. Í þessu sambandi er fæðutegundum oft gefinn sykurstuðull (e. glycemic index). Hann segir til um hversu mikið blóðsykurinn hækkar í kjölfar neyslu á tiltekinni fæðutegund, reiknuð út frá nýtanlegu kolvetni í henni (heildarkolvetni - trefjaefni).

Myndir:...