Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hvað getið þið sagt mér um þjóðernishreinsanir Króata í Balkanskagastríðinu?

Ragna Björk Þorvaldsdóttir

Upphaflegu spurningarnar voru eftirfarandi:

Hversu rösklega gengu króatísk stjórnvöld fram í þjóðernishreinsunum á 10. áratug 20. aldar? Hafa króatísk stjórnvöld sýnt iðrun og yfirbót, t.d. með því að bjóða burtreknu fólki að flytja aftur heim til sín?

Undanfari þjóðernishreinsana er þjóðernishyggja sem komin er úr allri hömlu. Þjóðerniskennd er víða áberandi í löndum fyrrum Júgóslavíu en einn helsti örlagavaldur þjóðanna er þó ekki föðurlandsást sem slík heldur þjóðhverfa, það er hópkennd innan þjóðar/ættbálks þar sem eigin gildi og virði eru með misvísandi samanburði sett ofar annarra. Í sinni dekkstu og ýktustu mynd getur þjóðhverfur hugsunarháttur hæglega þróast í ofstækisfulla þjóðerniskennd með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sú þjóðernisstefna sem hefur notið umtalsverðs fylgis í Serbíu, og sem einna afdrifaríkust hefur reynst íbúum Balkanskagans, nefnist 'Stærri-Serbía' (e. Greater Serbia). Í stuttu máli gengur hún út á það að serbneskum yfirvöldum beri að kasta eign sinni á hvern þann stað þar sem Serba er að finna enda sé það heilög skylda þeirra að sameina alla Serba undir einum hatti og standa þannig vörð um hagsmuni þeirra hvarvetna.

Serbar á flótta af Krajina-svæðinu í kjölfar Operation Storm.

Slóvenía, Króatía og Bosnía lýstu yfir sjálfstæði sínu á árunum 1991 og 1992, í mikilli andstöðu Serba. Sökum þess að Serbar voru tiltölulega fjölmennir í þessum löndum, sér í lagi í Bosníu, voru viðbrögð þeirra við sjálfstæðisyfirlýsingum Bosníumanna og Króata mjög hörð. Serbar stofnuðu sérstakt sjálfstjórnarríki í Bosníu (Republika Srpska) í byrjun árs 1992 og standa enn þann dag í dag vörð um það. Króatar lýstu sömuleiðis yfir stofnun sjálfstæðs króatísks svæðis í Bosníu árið 1991 en það rann sitt skeið árið 1994.

Í öllum löndum skagans voru þjóðirnar blandaðar en mismikið eftir svæðum. Í Króatíu voru um 12% íbúanna af serbnesku bergi brotnir og bjó um helmingur þeirra á Krajina-svæðinu. Í anda 'Stærri-Serbíu' stofnuðu Serbar einnig sjálfstjórnarríki í Krajina (Republic of Serbian Krajina), árið 1991, undir stjórn hins alræmda herforingja Ratko Mladic, og skáru Króatíu þar með nánast í tvennt. Áður en langt um leið hafði króatískum borgurum í Krajina fækkað úr rúmum 295.000 í 3.500 einstaklinga. Nærri þremur árum síðar létu Króatar til skarar skríða gegn Serbum á Krajina-svæðinu, nánar tiltekið í borginni Knin, með Operation Storm, sem var síðasta stóra orrustan í sjálfstæðisstríði Króata. Þar með var Krajina-héraðinu endanlega komið undir réttmæta króatíska stjórn.

Ákærur Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í málefnum fyrrum Júgóslavíu (ICTY) á hendur Ante Gotovina, helsta hershöfðingi Króata, snerust að miklu leyti um þann atburð þegar allt að 120.000 serbneskir íbúar Krajina-svæðisins voru með harðræði reknir af heimilum sínum. Allt að 150 Serbar létu lífið í aðgerðinni. Í eftirmála aðgerðarinnar var þeim Serbum sem leitað höfðu skjóls á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna gefinn kostur á að snúa aftur til heimila sinna að því tilskyldu að þeir gerðust fullgildir króatískir þegnar og segðu skilið við serbneskan þegnrétt að fullu og öllu. Þessi skilyrði voru auðvitað mjög ósveigjanleg og eru Serbar nú aðeins um 4% íbúa svæðisins.

Í bænum Vukovar í austurhluta Króatíu eru íbúar mjög blandaðir; 57% Króatar og 33% Serbar. Þar hafa yfirvöld lagt sig fram um að gera báðum hópum jafnhátt undir höfði, meðal annars með því að setja upp opinber skilti bæði á króatísku og kyrillísku letri. Þessi afstaða hefur reyndar mætt miklum mótbyr af hálfu Króata í Vukovar, enda eiga margir enn um sárt að binda og nokkuð í land að full sátt náist.

Nú þegar Króatía hefur fullgilda aðild að Evrópusambandinu er augljóst að kröfur um aga og aðhald á hendur stjórnvöldum hafa stórum aukist. Það gildir að sjálfsögðu um allar ákvarðanir sem snúa að því að útrýma mismunun minnihlutahópa – rétt eins og önnur stefnumótun sambandsins hefur bein og óbein áhrif á þau lönd sem því tengjast. Í viðsjárverðum heimi þar sem blikur öfgakenndra þjóðernissjónarmiða sýnast víða enn á lofti verður að telja áhrif og ítök ESB í löndum Balkanskagans – sem og í öðrum ríkjum Evrópu – af hinu góða.

Heimildir og mynd:

Höfundur

Ragna Björk Þorvaldsdóttir

MA í alþjóðasamskiptum

Útgáfudagur

12.2.2015

Spyrjandi

N.N.

Tilvísun

Ragna Björk Þorvaldsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um þjóðernishreinsanir Króata í Balkanskagastríðinu?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2015. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=63735.

Ragna Björk Þorvaldsdóttir. (2015, 12. febrúar). Hvað getið þið sagt mér um þjóðernishreinsanir Króata í Balkanskagastríðinu? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=63735

Ragna Björk Þorvaldsdóttir. „Hvað getið þið sagt mér um þjóðernishreinsanir Króata í Balkanskagastríðinu?“ Vísindavefurinn. 12. feb. 2015. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=63735>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað getið þið sagt mér um þjóðernishreinsanir Króata í Balkanskagastríðinu?
Upphaflegu spurningarnar voru eftirfarandi:

Hversu rösklega gengu króatísk stjórnvöld fram í þjóðernishreinsunum á 10. áratug 20. aldar? Hafa króatísk stjórnvöld sýnt iðrun og yfirbót, t.d. með því að bjóða burtreknu fólki að flytja aftur heim til sín?

Undanfari þjóðernishreinsana er þjóðernishyggja sem komin er úr allri hömlu. Þjóðerniskennd er víða áberandi í löndum fyrrum Júgóslavíu en einn helsti örlagavaldur þjóðanna er þó ekki föðurlandsást sem slík heldur þjóðhverfa, það er hópkennd innan þjóðar/ættbálks þar sem eigin gildi og virði eru með misvísandi samanburði sett ofar annarra. Í sinni dekkstu og ýktustu mynd getur þjóðhverfur hugsunarháttur hæglega þróast í ofstækisfulla þjóðerniskennd með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Sú þjóðernisstefna sem hefur notið umtalsverðs fylgis í Serbíu, og sem einna afdrifaríkust hefur reynst íbúum Balkanskagans, nefnist 'Stærri-Serbía' (e. Greater Serbia). Í stuttu máli gengur hún út á það að serbneskum yfirvöldum beri að kasta eign sinni á hvern þann stað þar sem Serba er að finna enda sé það heilög skylda þeirra að sameina alla Serba undir einum hatti og standa þannig vörð um hagsmuni þeirra hvarvetna.

Serbar á flótta af Krajina-svæðinu í kjölfar Operation Storm.

Slóvenía, Króatía og Bosnía lýstu yfir sjálfstæði sínu á árunum 1991 og 1992, í mikilli andstöðu Serba. Sökum þess að Serbar voru tiltölulega fjölmennir í þessum löndum, sér í lagi í Bosníu, voru viðbrögð þeirra við sjálfstæðisyfirlýsingum Bosníumanna og Króata mjög hörð. Serbar stofnuðu sérstakt sjálfstjórnarríki í Bosníu (Republika Srpska) í byrjun árs 1992 og standa enn þann dag í dag vörð um það. Króatar lýstu sömuleiðis yfir stofnun sjálfstæðs króatísks svæðis í Bosníu árið 1991 en það rann sitt skeið árið 1994.

Í öllum löndum skagans voru þjóðirnar blandaðar en mismikið eftir svæðum. Í Króatíu voru um 12% íbúanna af serbnesku bergi brotnir og bjó um helmingur þeirra á Krajina-svæðinu. Í anda 'Stærri-Serbíu' stofnuðu Serbar einnig sjálfstjórnarríki í Krajina (Republic of Serbian Krajina), árið 1991, undir stjórn hins alræmda herforingja Ratko Mladic, og skáru Króatíu þar með nánast í tvennt. Áður en langt um leið hafði króatískum borgurum í Krajina fækkað úr rúmum 295.000 í 3.500 einstaklinga. Nærri þremur árum síðar létu Króatar til skarar skríða gegn Serbum á Krajina-svæðinu, nánar tiltekið í borginni Knin, með Operation Storm, sem var síðasta stóra orrustan í sjálfstæðisstríði Króata. Þar með var Krajina-héraðinu endanlega komið undir réttmæta króatíska stjórn.

Ákærur Alþjóðlega stríðsglæpadómstólsins í málefnum fyrrum Júgóslavíu (ICTY) á hendur Ante Gotovina, helsta hershöfðingi Króata, snerust að miklu leyti um þann atburð þegar allt að 120.000 serbneskir íbúar Krajina-svæðisins voru með harðræði reknir af heimilum sínum. Allt að 150 Serbar létu lífið í aðgerðinni. Í eftirmála aðgerðarinnar var þeim Serbum sem leitað höfðu skjóls á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna gefinn kostur á að snúa aftur til heimila sinna að því tilskyldu að þeir gerðust fullgildir króatískir þegnar og segðu skilið við serbneskan þegnrétt að fullu og öllu. Þessi skilyrði voru auðvitað mjög ósveigjanleg og eru Serbar nú aðeins um 4% íbúa svæðisins.

Í bænum Vukovar í austurhluta Króatíu eru íbúar mjög blandaðir; 57% Króatar og 33% Serbar. Þar hafa yfirvöld lagt sig fram um að gera báðum hópum jafnhátt undir höfði, meðal annars með því að setja upp opinber skilti bæði á króatísku og kyrillísku letri. Þessi afstaða hefur reyndar mætt miklum mótbyr af hálfu Króata í Vukovar, enda eiga margir enn um sárt að binda og nokkuð í land að full sátt náist.

Nú þegar Króatía hefur fullgilda aðild að Evrópusambandinu er augljóst að kröfur um aga og aðhald á hendur stjórnvöldum hafa stórum aukist. Það gildir að sjálfsögðu um allar ákvarðanir sem snúa að því að útrýma mismunun minnihlutahópa – rétt eins og önnur stefnumótun sambandsins hefur bein og óbein áhrif á þau lönd sem því tengjast. Í viðsjárverðum heimi þar sem blikur öfgakenndra þjóðernissjónarmiða sýnast víða enn á lofti verður að telja áhrif og ítök ESB í löndum Balkanskagans – sem og í öðrum ríkjum Evrópu – af hinu góða.

Heimildir og mynd:

...