Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hver voru áhrif hvalveiða á íslenskt samfélag á 19. öld?

Gunnar Karlsson (1939-2019)

Hvalveiðar voru stundaðar frá Íslandi frá því á miðöldum, og á 17. öld sóttu útlendingar mikið til veiða hér, einkum Baskar frá Spáni og Frakkar. Eftir það dró smám saman úr þessum veiðum, og fram eftir 19. öld var sáralítið um hvalveiði, aðeins nýttir hvalir sem rak stundum á land. En á síðustu áratugum aldarinnar hófst hér meiri hvalveiði en nokkru sinni fyrr, aðallega á vegum Norðmanna. Undanfari þeirra var síldveiðar Norðmanna við landið sem urðu afar umfangsmiklar í nokkur ár um og eftir 1880. Um 1890 hættu Norðmenn að mestu við síldveiðarnar og tóku til við hvalveiðar, þar sem þeir náðu enn meiri uppgripum.

Útflutningur hvalafurða hófst að verulegu marki 1890 og komst þá yfir 200 þúsund krónur að verðmæti. Síðan óx hann yfirleitt ár frá ári og nam um og yfir tveim milljónum króna árlega um aldamótin 1900. Það voru um 20% af verðmæti útflutnings frá Íslandi, og hélst svo fram til 1903, en lækkaði síðan niður undir 10% og hélst þar til 1910. Ekki er því heppilegt að skoða áhrif hvalveiðanna á 19. öld sérstaklega heldur blómaskeið þeirra sem má kalla að nái yfir tvo áratugi, 1890–1910. Langmest af afurðum hvalveiðanna var hvallýsi, en hvalskíði og mjöl voru einnig flutt út fyrir álitlegar upphæðir. Öll mun þessi vara hafa verið í eigu Norðmanna.

Norski hvalveiðimaðurinn Hans Ellefsen byggði mikla hvalveiðistöð á Sólbakka við Flateyri 1889. Verksmiðjan eyðilagðist í bruna árið 1901.

Norðmenn reistu hvalstöðvar víða á Vestfjörðum og síðar einnig á Austfjörðum. Stöðvarnar voru margar hverjar afar stórar og umsvifamiklar á íslenskan mælikvarða þess tíma. En þær voru aðallega reknar með norsku vinnuafli. Helst áttu Íslendingar kost á almennum verkamannastörfum og ígripavinnu.

Töluverður styr stóð lengst af um veiðarnar, enda töldu margir að hagur landsmanna væri borinn fyrir borð þar sem skattar og tollar á þær væru of lágir. Þá átti sú skoðun miklu fylgi að fagna að með hvalveiðum væri fiskveiðunum stefnt í voða. Töldu sumir að hvalirnir kæmu styggð að síldartorfum sem fyrir vikið þéttust og leituðu inn á firðina. Þorskurinn elti svo síldina í ætisleit upp að landi þangað sem sækja mætti á árabátum. Ef hvölunum yrði fækkað mikið hyrfi þessi hvati þorsksins til að leita á grunnmið. Þessar deilur stóðu hvað hæst á árunum 1899 til 1903 og var þar fiskifræðingur landsins, Bjarni Sæmundsson, fremstur í flokki þeirra sem vörðu hvalveiðarnar.

Lyktir málsins urðu þær að Alþingi bannaði árið 1913 hvalveiðar frá landstöðvum á Íslandi um tíu ára skeið frá og með árinu 1916. Með því lauk að mestu hvalveiðum við Ísland þar til veiðifyrirtækið Hvalur hf. var stofnað árið 1949.

Ekki liggur fyrir ljóst eða nákvæmlega hvaða áhrif hvalveiðarnar höfðu á Íslandi. Landsjóði Íslands skiluðu þær tekjum í útflutningsgjöldum, aðflutningsgjöldum og tekjuskatti. Þegar þessar tekjur voru svo háar að eitthvað munaði um þær, á árabilinu 1890–1910, má ætla að þær hafi numið um 40–50 þúsund krónum á ári sem var um 20% af tekjum Landsjóðs. Áætlað hefur verið að önnur gjöld, útsvör sveitarfélaga, vinnulaun Íslendinga og landleiga, hafi skilað landsmönnum álíka hárri upphæð. Hefur munað um þetta meðan það varði. Einhverjir Íslendingar sem fengu vinnu í stöðvum þar sem hvalur var verkaður hafa lært nýja véltækni sem hefur komið að gagni í þeirri tæknivæðingu sem var að fara af stað á Íslandi. En enginn þeirra staða sem hýstu hvalstöðvar varð verulega stór, eins og til dæmis síldveiðibærinn Seyðisfjörður varð á íslenskan mælikvarða litlu fyrr. Flateyri í Önundarfirði og Hesteyri í Jökulfjörðum, þar sem Norðmenn reistu miklar hvalstöðvar, urðu aldrei meira en smáþorp. Asknes í Mjóafirði, mesta hvalstöðin á Austfjörðum, var ennþá hógværara pláss. Í fimm hvalstöðvabyggðum á Vestfjörðum, Tálknafirði, Dýrafirði, Önundarfirði, Álfta- og Seyðisfirði og Hesteyrarfirði, fjölgaði fólki um 35% á árunum 1890–1910. Á sama tíma var landsmeðaltalið um 20% fólksfjölgun. Eigum við að kalla þetta mikil áhrif? Það getur hver metið fyrir sig.

Heimildir og mynd:

  • Gunnar Karlsson: „Atvinubylting og ríkismyndun 1874–1918.“ Saga Íslands X (Reykjavík, Bókmenntafélag, 2009), 5-312.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Trausti Einarsson: Hvalveiðar við Ísland 1600–1939. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1987 (Sagnfræðirannsóknir VIII).
  • Mynd: Önfirðingafélagið í Reykjavík - Fréttir: Í dag eru 112 ár frá bruna Hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka. (Sótt 2. 9. 2013).

Höfundur

Gunnar Karlsson (1939-2019)

prófessor emeritus í sagnfræði við HÍ

Útgáfudagur

9.9.2013

Spyrjandi

Alex Rafn Elfarsson

Tilvísun

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver voru áhrif hvalveiða á íslenskt samfélag á 19. öld?“ Vísindavefurinn, 9. september 2013. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=64349.

Gunnar Karlsson (1939-2019). (2013, 9. september). Hver voru áhrif hvalveiða á íslenskt samfélag á 19. öld? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=64349

Gunnar Karlsson (1939-2019). „Hver voru áhrif hvalveiða á íslenskt samfélag á 19. öld?“ Vísindavefurinn. 9. sep. 2013. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=64349>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver voru áhrif hvalveiða á íslenskt samfélag á 19. öld?
Hvalveiðar voru stundaðar frá Íslandi frá því á miðöldum, og á 17. öld sóttu útlendingar mikið til veiða hér, einkum Baskar frá Spáni og Frakkar. Eftir það dró smám saman úr þessum veiðum, og fram eftir 19. öld var sáralítið um hvalveiði, aðeins nýttir hvalir sem rak stundum á land. En á síðustu áratugum aldarinnar hófst hér meiri hvalveiði en nokkru sinni fyrr, aðallega á vegum Norðmanna. Undanfari þeirra var síldveiðar Norðmanna við landið sem urðu afar umfangsmiklar í nokkur ár um og eftir 1880. Um 1890 hættu Norðmenn að mestu við síldveiðarnar og tóku til við hvalveiðar, þar sem þeir náðu enn meiri uppgripum.

Útflutningur hvalafurða hófst að verulegu marki 1890 og komst þá yfir 200 þúsund krónur að verðmæti. Síðan óx hann yfirleitt ár frá ári og nam um og yfir tveim milljónum króna árlega um aldamótin 1900. Það voru um 20% af verðmæti útflutnings frá Íslandi, og hélst svo fram til 1903, en lækkaði síðan niður undir 10% og hélst þar til 1910. Ekki er því heppilegt að skoða áhrif hvalveiðanna á 19. öld sérstaklega heldur blómaskeið þeirra sem má kalla að nái yfir tvo áratugi, 1890–1910. Langmest af afurðum hvalveiðanna var hvallýsi, en hvalskíði og mjöl voru einnig flutt út fyrir álitlegar upphæðir. Öll mun þessi vara hafa verið í eigu Norðmanna.

Norski hvalveiðimaðurinn Hans Ellefsen byggði mikla hvalveiðistöð á Sólbakka við Flateyri 1889. Verksmiðjan eyðilagðist í bruna árið 1901.

Norðmenn reistu hvalstöðvar víða á Vestfjörðum og síðar einnig á Austfjörðum. Stöðvarnar voru margar hverjar afar stórar og umsvifamiklar á íslenskan mælikvarða þess tíma. En þær voru aðallega reknar með norsku vinnuafli. Helst áttu Íslendingar kost á almennum verkamannastörfum og ígripavinnu.

Töluverður styr stóð lengst af um veiðarnar, enda töldu margir að hagur landsmanna væri borinn fyrir borð þar sem skattar og tollar á þær væru of lágir. Þá átti sú skoðun miklu fylgi að fagna að með hvalveiðum væri fiskveiðunum stefnt í voða. Töldu sumir að hvalirnir kæmu styggð að síldartorfum sem fyrir vikið þéttust og leituðu inn á firðina. Þorskurinn elti svo síldina í ætisleit upp að landi þangað sem sækja mætti á árabátum. Ef hvölunum yrði fækkað mikið hyrfi þessi hvati þorsksins til að leita á grunnmið. Þessar deilur stóðu hvað hæst á árunum 1899 til 1903 og var þar fiskifræðingur landsins, Bjarni Sæmundsson, fremstur í flokki þeirra sem vörðu hvalveiðarnar.

Lyktir málsins urðu þær að Alþingi bannaði árið 1913 hvalveiðar frá landstöðvum á Íslandi um tíu ára skeið frá og með árinu 1916. Með því lauk að mestu hvalveiðum við Ísland þar til veiðifyrirtækið Hvalur hf. var stofnað árið 1949.

Ekki liggur fyrir ljóst eða nákvæmlega hvaða áhrif hvalveiðarnar höfðu á Íslandi. Landsjóði Íslands skiluðu þær tekjum í útflutningsgjöldum, aðflutningsgjöldum og tekjuskatti. Þegar þessar tekjur voru svo háar að eitthvað munaði um þær, á árabilinu 1890–1910, má ætla að þær hafi numið um 40–50 þúsund krónum á ári sem var um 20% af tekjum Landsjóðs. Áætlað hefur verið að önnur gjöld, útsvör sveitarfélaga, vinnulaun Íslendinga og landleiga, hafi skilað landsmönnum álíka hárri upphæð. Hefur munað um þetta meðan það varði. Einhverjir Íslendingar sem fengu vinnu í stöðvum þar sem hvalur var verkaður hafa lært nýja véltækni sem hefur komið að gagni í þeirri tæknivæðingu sem var að fara af stað á Íslandi. En enginn þeirra staða sem hýstu hvalstöðvar varð verulega stór, eins og til dæmis síldveiðibærinn Seyðisfjörður varð á íslenskan mælikvarða litlu fyrr. Flateyri í Önundarfirði og Hesteyri í Jökulfjörðum, þar sem Norðmenn reistu miklar hvalstöðvar, urðu aldrei meira en smáþorp. Asknes í Mjóafirði, mesta hvalstöðin á Austfjörðum, var ennþá hógværara pláss. Í fimm hvalstöðvabyggðum á Vestfjörðum, Tálknafirði, Dýrafirði, Önundarfirði, Álfta- og Seyðisfirði og Hesteyrarfirði, fjölgaði fólki um 35% á árunum 1890–1910. Á sama tíma var landsmeðaltalið um 20% fólksfjölgun. Eigum við að kalla þetta mikil áhrif? Það getur hver metið fyrir sig.

Heimildir og mynd:

  • Gunnar Karlsson: „Atvinubylting og ríkismyndun 1874–1918.“ Saga Íslands X (Reykjavík, Bókmenntafélag, 2009), 5-312.
  • Hagskinna. Sögulegar hagtölur um Ísland. Icelandic Historical Statistics. Ritstjórar Guðmundur Jónsson, Magnús S. Magnússon. Reykjavík, Hagstofa Íslands, 1997.
  • Trausti Einarsson: Hvalveiðar við Ísland 1600–1939. Reykjavík, Bókaútgáfa Menningarsjóðs, 1987 (Sagnfræðirannsóknir VIII).
  • Mynd: Önfirðingafélagið í Reykjavík - Fréttir: Í dag eru 112 ár frá bruna Hvalveiðistöðvarinnar á Sólbakka. (Sótt 2. 9. 2013).

...