Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvað þarf að vera í sögu til þess að hún sé talin til Íslendingasagna?

Aðalheiður Guðmundsdóttir

Sögur þær sem Íslendingar rituðu á 13. og 14. öld, og fjalla um íslenska menn og málefni svonefndrar sögualdar (um 930–1030), hafa verið nefndar Íslendingasögur. Hátt í 40 sögur falla undir þessa skilgreiningu, og eiga þær – auk þess ofangreinda – ýmis sameiginleg einkenni.

Talsverður tími leið frá því að atburðir sagnanna voru sagðir hafa átt sér stað og þar til sögurnar voru ritaðar, en álitið er að sagnir af atburðunum eða kjarna þeirra hafi gengið í munnmælum frá söguöld og fram að ritunartíma. Yfirleitt er talið að meirihluti sagnanna sé ritaður á 13. öld, þótt einungis örfá brot varðveittra handrita séu svo gömul. Heilar sögur eru varðveittar í skinnhandritum frá 14. og 15. öld og yngri pappírshandritum. Engin saga er varðveitt í frumriti.

Skiptar skoðanir eru um sannleiksgildi Íslendingasagna og hversu mikinn þátt munnmælasögur hafa átt í sköpun þeirra. Líklegt verður þó að teljast að sagnaritarar hafi unnið úr ýmsum heimildum, munnlegum jafnt sem rituðum, svo sem kveðskap og ýmsum fróðleiksmolum. Auk þess hafa þeir eflaust sett sitt eigið mark á sögurnar, og þar með mótað þær sem höfundarverk. Trúverðugleiki Íslendingasagna er mismikill og í yngri sögunum grípa sagnaritarar sífellt meira til formúlunotkunar, jafnframt því að nýta sér vinsælt og jafnvel reyfarakennt sagnaefni.

Íslendingasögum hefur stundum verið skipt í fornlegar sögur, sígildar sögur og unglegar sögur. Samkvæmt þessu hefur því verið haldið fram að sögurnar fylgi ákveðnu þróunarferli, frá tiltölulega einföldum, hlutlægum sögum að flóknari listaverkum og loks til hnignunar um og upp úr 1300. Kenningin hefur verið nokkuð gagnrýnd, enda varla hægt að halda öðru fram en að til dæmis Grettis saga, sem talin er frá 14. öld, sé meðal merkustu sagnanna, enda fádæma vinsæl langt fram eftir öldum.

Íslendingasögur sækja efni sitt til allra fjórðunga landsins; flestar sögur, eða 13 talsins, koma frá Vestfirðingafjórðungi og Norðlendingafjórðungi hvorum um sig, en 7 sögur frá Austfirðingafjórðungi og loks 4 frá Sunnlendingafjórðungi. Njáls saga hefur löngum þótt mesta listaverkið, þótt Egils saga, Laxdæla saga og Grettis saga hafi einnig höfðað mjög til lesenda.

Íslendingasögur eru að mörgu leyti einstæðar meðal miðaldabókmennta og þar af leiðandi eru þær frumlegasta framlag Íslendinga til heimsbókmenntanna bæði fyrr og síðar. Helstu einkenni þeirra eru í stuttu máli þessi: Þær eru veraldlegar frásagnir sem snúast að meira eða minna leyti um heiður og sæmd Íslendinga á söguöld. Þær fela að jafnaði í sér deilur og átök, og bent hefur verið á að flestar þeirra fylgi ákveðnu deilumynstri. Deilur leiða til mannvíga og kalla á sátt eða hefnd. Hefndin gegnir stóru hlutverki í sögunum, enda var mönnum skylt að verja heiður sinn og fjölskyldu sinnar. Ef til vill má segja að Laxdæla saga sé hin dæmigerða Íslendingasaga. Hún nær hápunkti með falli hetjunnar sem leiðir til hefnda, gagnhefnda og loks eftirmála.

Sögurnar gerast að mestu leyti á Íslandi, og þótt hetjur þeirra sigli margar hverjar til nágrannalandanna, einkum Noregs, fara átökin að mestu fram hér innanlands. Utanför hetjanna felur yfirleitt í sér manndómsvígslu og er hvort tveggja til þess fallin að varpa ljóma á þær og auka virðingu þeirra; það ber því alla jafna meira á ýktum og ótrúlegum frásögnum af afrekum hetjanna utanlands en heima fyrir.

Konur gegna oft og tíðum veigamiklu hlutverki í sögunum og er það mótað af þema sagnanna; konurnar ýmist hvetja til hefnda eða gerast sáttasemjarar; með þessu móti hafa þær bein áhrif á atburði sagnanna. Kvenhetjur Íslendingasagna hafa margar hverjar orðið að táknmynd íslenskra kvenskörunga.

Sögurnar eru án formála jafnt sem eftirmála og lausar við innskot höfundar. Flestar hefjast þær með ættrakningu söguhetjanna, og er þar með lögð áhersla á að Íslendingasögur fjalli um raunverulegt fólk og séu ekki uppspuni; hvort svo er má hins vegar deila um.

Oft hefur verið bent á að atburðum Íslendingasagna sé miðlað á hlutlægan hátt og að lýsingar séu bundnar við það sem heyra má og sjá. Þetta á alloft við, til dæmis miðast umhverfislýsingar að mestu við atburðarásina á meðan persónulýsingar geta haft allmikla dýpt, þrátt fyrir að vera stuttar og hnitmiðaðar.

Stundum hefur verið talað um að hetjur Íslendingasagna skiptist í ljósar hetjur og dökkar, gæfumenn og ógæfumenn, samanber til dæmis bræðurna Þórólf og Egil Skallagrímssyni. Þetta er þó ekki alltaf svo einhlítt, sérstaklega ef litið er á vísur. Vísur er að finna í flestum sagnanna og eru þær stundum notaðar sem stílbragð, þar sem höfundur brýtur upp lausamálstextann og gefur lesendum sínum og áheyrendum aðra og stundum dýpri sýn á hlutina, og kallar þar með fram annars konar þankagang hjá þeim.

Málfar Íslendingasagna er einfalt og stíllinn að jafnaði slípaður og fágaður. Setningaskipan er einföld, málsgreinar stuttar og samtöl hnitmiðuð. Stundum ber nokkuð á kaldhæðni og fá orð eru höfð um tilfinningar, sem þó eru sýndar með myndrænum hætti. Þetta er því knappur og raunsæislegur stíll sem rúmar ekki óþarfa mælgi, en gefur lesandanum þess í stað svigrúm til túlkunar, og þess að lesa á milli línanna. Ýmis fleiri stílbrögð mætti tína til, svo sem forspá og fyrirboða, sem eru vel til þess fallin að magna spennu, sem og sviðsetningu atburða sem getur verið áberandi myndræn.

Höfundar Íslendingasagnanna eru ókunnir, þótt uppi hafi verið getgátur um höfunda einstakra sagna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Íslensk bókmenntasaga II. Ritstj. Vésteinn Ólason. Mál og menning. Reykjavík, 1993.
  • Íslenzk fornrit II–XIV. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík, 1933–91.

Myndir

Höfundur

Aðalheiður Guðmundsdóttir

prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda

Útgáfudagur

22.1.2007

Spyrjandi

Brynja Guðmundsdóttir

Tilvísun

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað þarf að vera í sögu til þess að hún sé talin til Íslendingasagna?“ Vísindavefurinn, 22. janúar 2007. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6476.

Aðalheiður Guðmundsdóttir. (2007, 22. janúar). Hvað þarf að vera í sögu til þess að hún sé talin til Íslendingasagna? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6476

Aðalheiður Guðmundsdóttir. „Hvað þarf að vera í sögu til þess að hún sé talin til Íslendingasagna?“ Vísindavefurinn. 22. jan. 2007. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6476>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvað þarf að vera í sögu til þess að hún sé talin til Íslendingasagna?
Sögur þær sem Íslendingar rituðu á 13. og 14. öld, og fjalla um íslenska menn og málefni svonefndrar sögualdar (um 930–1030), hafa verið nefndar Íslendingasögur. Hátt í 40 sögur falla undir þessa skilgreiningu, og eiga þær – auk þess ofangreinda – ýmis sameiginleg einkenni.

Talsverður tími leið frá því að atburðir sagnanna voru sagðir hafa átt sér stað og þar til sögurnar voru ritaðar, en álitið er að sagnir af atburðunum eða kjarna þeirra hafi gengið í munnmælum frá söguöld og fram að ritunartíma. Yfirleitt er talið að meirihluti sagnanna sé ritaður á 13. öld, þótt einungis örfá brot varðveittra handrita séu svo gömul. Heilar sögur eru varðveittar í skinnhandritum frá 14. og 15. öld og yngri pappírshandritum. Engin saga er varðveitt í frumriti.

Skiptar skoðanir eru um sannleiksgildi Íslendingasagna og hversu mikinn þátt munnmælasögur hafa átt í sköpun þeirra. Líklegt verður þó að teljast að sagnaritarar hafi unnið úr ýmsum heimildum, munnlegum jafnt sem rituðum, svo sem kveðskap og ýmsum fróðleiksmolum. Auk þess hafa þeir eflaust sett sitt eigið mark á sögurnar, og þar með mótað þær sem höfundarverk. Trúverðugleiki Íslendingasagna er mismikill og í yngri sögunum grípa sagnaritarar sífellt meira til formúlunotkunar, jafnframt því að nýta sér vinsælt og jafnvel reyfarakennt sagnaefni.

Íslendingasögum hefur stundum verið skipt í fornlegar sögur, sígildar sögur og unglegar sögur. Samkvæmt þessu hefur því verið haldið fram að sögurnar fylgi ákveðnu þróunarferli, frá tiltölulega einföldum, hlutlægum sögum að flóknari listaverkum og loks til hnignunar um og upp úr 1300. Kenningin hefur verið nokkuð gagnrýnd, enda varla hægt að halda öðru fram en að til dæmis Grettis saga, sem talin er frá 14. öld, sé meðal merkustu sagnanna, enda fádæma vinsæl langt fram eftir öldum.

Íslendingasögur sækja efni sitt til allra fjórðunga landsins; flestar sögur, eða 13 talsins, koma frá Vestfirðingafjórðungi og Norðlendingafjórðungi hvorum um sig, en 7 sögur frá Austfirðingafjórðungi og loks 4 frá Sunnlendingafjórðungi. Njáls saga hefur löngum þótt mesta listaverkið, þótt Egils saga, Laxdæla saga og Grettis saga hafi einnig höfðað mjög til lesenda.

Íslendingasögur eru að mörgu leyti einstæðar meðal miðaldabókmennta og þar af leiðandi eru þær frumlegasta framlag Íslendinga til heimsbókmenntanna bæði fyrr og síðar. Helstu einkenni þeirra eru í stuttu máli þessi: Þær eru veraldlegar frásagnir sem snúast að meira eða minna leyti um heiður og sæmd Íslendinga á söguöld. Þær fela að jafnaði í sér deilur og átök, og bent hefur verið á að flestar þeirra fylgi ákveðnu deilumynstri. Deilur leiða til mannvíga og kalla á sátt eða hefnd. Hefndin gegnir stóru hlutverki í sögunum, enda var mönnum skylt að verja heiður sinn og fjölskyldu sinnar. Ef til vill má segja að Laxdæla saga sé hin dæmigerða Íslendingasaga. Hún nær hápunkti með falli hetjunnar sem leiðir til hefnda, gagnhefnda og loks eftirmála.

Sögurnar gerast að mestu leyti á Íslandi, og þótt hetjur þeirra sigli margar hverjar til nágrannalandanna, einkum Noregs, fara átökin að mestu fram hér innanlands. Utanför hetjanna felur yfirleitt í sér manndómsvígslu og er hvort tveggja til þess fallin að varpa ljóma á þær og auka virðingu þeirra; það ber því alla jafna meira á ýktum og ótrúlegum frásögnum af afrekum hetjanna utanlands en heima fyrir.

Konur gegna oft og tíðum veigamiklu hlutverki í sögunum og er það mótað af þema sagnanna; konurnar ýmist hvetja til hefnda eða gerast sáttasemjarar; með þessu móti hafa þær bein áhrif á atburði sagnanna. Kvenhetjur Íslendingasagna hafa margar hverjar orðið að táknmynd íslenskra kvenskörunga.

Sögurnar eru án formála jafnt sem eftirmála og lausar við innskot höfundar. Flestar hefjast þær með ættrakningu söguhetjanna, og er þar með lögð áhersla á að Íslendingasögur fjalli um raunverulegt fólk og séu ekki uppspuni; hvort svo er má hins vegar deila um.

Oft hefur verið bent á að atburðum Íslendingasagna sé miðlað á hlutlægan hátt og að lýsingar séu bundnar við það sem heyra má og sjá. Þetta á alloft við, til dæmis miðast umhverfislýsingar að mestu við atburðarásina á meðan persónulýsingar geta haft allmikla dýpt, þrátt fyrir að vera stuttar og hnitmiðaðar.

Stundum hefur verið talað um að hetjur Íslendingasagna skiptist í ljósar hetjur og dökkar, gæfumenn og ógæfumenn, samanber til dæmis bræðurna Þórólf og Egil Skallagrímssyni. Þetta er þó ekki alltaf svo einhlítt, sérstaklega ef litið er á vísur. Vísur er að finna í flestum sagnanna og eru þær stundum notaðar sem stílbragð, þar sem höfundur brýtur upp lausamálstextann og gefur lesendum sínum og áheyrendum aðra og stundum dýpri sýn á hlutina, og kallar þar með fram annars konar þankagang hjá þeim.

Málfar Íslendingasagna er einfalt og stíllinn að jafnaði slípaður og fágaður. Setningaskipan er einföld, málsgreinar stuttar og samtöl hnitmiðuð. Stundum ber nokkuð á kaldhæðni og fá orð eru höfð um tilfinningar, sem þó eru sýndar með myndrænum hætti. Þetta er því knappur og raunsæislegur stíll sem rúmar ekki óþarfa mælgi, en gefur lesandanum þess í stað svigrúm til túlkunar, og þess að lesa á milli línanna. Ýmis fleiri stílbrögð mætti tína til, svo sem forspá og fyrirboða, sem eru vel til þess fallin að magna spennu, sem og sviðsetningu atburða sem getur verið áberandi myndræn.

Höfundar Íslendingasagnanna eru ókunnir, þótt uppi hafi verið getgátur um höfunda einstakra sagna.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Íslensk bókmenntasaga II. Ritstj. Vésteinn Ólason. Mál og menning. Reykjavík, 1993.
  • Íslenzk fornrit II–XIV. Hið íslenzka fornritafélag. Reykjavík, 1933–91.

Myndir

...