Sólin Sólin Rís 05:43 • sest 21:13 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 13:37 • Sest 06:11 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 02:59 • Síðdegis: 15:47 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 09:39 • Síðdegis: 21:50 í Reykjavík

Hefur gosið oft í Kverkfjöllum?

Magnús Tumi Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Guðrún Larsen, Páll Einarsson, Ármann Höskuldsson og Páll Imsland

Gossaga Kverkfjallakerfisins er ekki vel þekkt en þó má telja nánast víst að ekki hafi gosið þar eftir að land byggðist. Engin gjóskulög með efnasamsetningu Kverkfjalla hafa fundist í ísnum í Vatnajökli eða jarðvegi frá sögulegum tíma.1 Yngsta hraunið, Lindahraun, rann skömmu fyrir landnám, ef marka má umhverfisbreytingar af völdum þess í Hvannalindum og gjóskulög sem varðveitt eru í jarðvegi þar. Lindirnar sjálfar mynduðust við tilkomu hraunsins. Grunnvatn flæddi þá í gegnum gropið hraunið og spratt fram sem kaldavermsl við enda þess. Þetta ferskvatnsflæði skapaði gróðurvinina fyrir framan hraunið. Í jarðvegi Hvannalinda sést landnámslagið frá því um 870 og að auki fimm gjóskulög frá Kötlu, Grímsvötnum og Kverkfjöllum þar fyrir neðan áður en komið er niður á urð. Af þessu má draga þá ályktun að Lindahraun, yngsta hraungosið á Kverkfjallareininni, sé frá því fyrir landnám og sennilega um 1300 ára gamalt.2

Allmörg eldgos á síðustu öldum hafa þó verið kennd við Kverkfjöll og hefur ýmislegt verið um það ritað.3 Síðari rannsóknir hafa fundið flestum þessara gosa annan stað og víst er að stærsta gjóskulagið sem var kennt við Kverkfjöll er hluti gjóskulags úr Veiðivatnagosinu frá 1477. Ekki er hægt að útiloka lítil og skammvinn gos en erfitt getur verið að greina á milli ummerkja slíkra gosa og gufusprenginga. Haustið 1959 fannst lítið gjóskulag í sigkatlinum Gengissigi en hann hafði þá nýlega tæmst í jökulhlaupi.4 „Gjóskan“ sem upp kom var þó ekki ný, heldur ummyndaður móbergssalli, enda glitraði hún af glópagulli. Þarna hefur því orðið einhvers konar gufusprenging, líklega í tengslum við tæmingu Gengissigs. Ákafur gufustrókur sást í Kverkfjöllum vorið 1968 og hafði breytingar á jarðhitavirkni í för með sér.5 Dæmi um óljósar „gosmenjar“ er svart lag frá fjórða áratug síðustu aldar sem sást í snjóstáli í Hveradalnum6 og ekki verður greint hvort var vikurlag eða lag eftir gufusprengingu því að sýni eru ekki til.

Kverkfjöll.

Á forsögulegum tíma hafa orðið 12-15 eldgos á gossprungum í Kverkfjallarana.7 Hraunin þekja um 80 ferkílómetra svæði vestan hnjúkanna, auk þeirra sem fylla dældir milli móbergshryggjanna þar. Flest hraunin eru lítil og lengd þeirra er yfirleitt á bilinu 5-17 kílómetrar. Rúmmálstölur liggja ekki fyrir nema um gosefni frá Biskupsfellssprungunni og er heildarrúmmál þeirra um 40 milljón rúmmetrar eða 0,04 rúmkílómetrar.8 Eitt hraun sker sig þó úr, nefnilega Krepputunguhraun sem er elst þeirra, um 8000 ára, og upprunnið úr gossprungu á sléttunni vestan Kverkhnjúka. Krepputunguhraun er að minnsta kosti 45 kílómetra langt og rúmmál þess meira en sjö rúmkílómetrar.9 Einungis Lindahraun er tímasett með sæmilegri vissu en aldur Biskupsfellsgossins hefur verið áætlaður 4-5000 ár.10 Fáein gjóskulög sem gætu verið ættuð frá jökulþöktum hluta Kverkfjallakerfisins hafa fundist í jarðvegi eins og áður er getið. Áður fyrr voru Kverkfjöll talin mikilvirk eldstöð en niðurstaða síðari rannsókna er sú að gos á Kverkfjallakerfi séu fremur lítil og strjál, líklega ekki meira en eitt til þrjú gos á hverjum 1000 árum.

Höggunarsprungur Kverkfjallakerfisins ná miklu lengra norður en gossprungurnar. Norðan við Kverkfjallarana eru misgengin oft um fimm metrar og stærsta misgengi frá nútíma um 20 metra sig til vesturs.11 Ekki er þó ljóst hvað það gerðist í mörgum áföngum. Nýjar rannsóknir benda til þess að sprungurnar nái austar en áður var talið og ein grein þeirra liggi um Kárahnjúkasvæðið. Þar urðu síðast hreyfingar á misgengissprungum fyrir um 4000 árum.12

Tilvísanir:

1 Guðrún Larsen og fleiri, 1998. Eight centuries of periodic volcanism at the center of the Iceland hotspot revealed by glacier tephrostratigraphy. Geology, 26, 943-946.

2 Þorvaldur Þórðarson og Ármann Höskuldsson, 2002. Iceland. Classic Geology in Europe, 3. Terra Publishing, Harpenden.

3 Til dæmis Ólafur Jónsson, 1945. Ódáðahraun I-III. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri.

Sigurður Þórarinsson, 1976. Gjóskulög og gamlar rústir. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1976, 5-38.

4 Magnús Jóhannsson, 1959. Haustferð á Vatnajökul 1959. Jökull, 9, 41-42.

5 Sigurður Þórarinsson, 1968. Vatnajökulsleiðangur 1968. 1.-14. Júní. Jökull, 18, 394-400.

6 Ólafur Jónsson, 1945, Ódáðahraun I-III. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri.

Sigurður Þórarinsson, 1950. Jökulhlaup og eldgos á jökulvatnasvæði Jökulsár á Fjöllum. Náttúrufræðingurinn, 20, 113-133.

7 Guttormur Sigbjarnarson, 1993. Norðan Vatnajökuls II. Jarðlagaskipan og jarðfræðikort. Náttúrufræðingurinn 65, 201-217.

Guttormur Sigbjarnarson, 1996. Norðan Vatnajökuls III. Eldstöðvar og hraun frá nútíma. Náttúrufræðingurinn, 65, 199-212.

Þorvaldur Þórðarson, 2008, óbirt gögn.

8 Karhunen, R. 1998. Eruption mechanism and rheomorphism during the basaltic fissure eruption in Biskupsfell, Kverkfjöll, North-Central Iceland. Research Report 8802. Nordic Volcanology Institute, Reykjavík.

9 Þorvaldur Þórðarson og S. Self, 1998. The Roza Member, Columbia River Basalt Group: A gigantic pahoehoe lava frow field formed by endogenous processes? Journal og Geophysical Research, 103(B11), 27411-27445.

10 Þorvaldur Þórðarson, óbirt gögn, 2008.

11 Guttormur Sigbjarnarson, 1996. Norðan Vatnajökuls III. Eldstöðvar og hraun frá nútíma. Náttúrufræðingurinn, 65, 199-212.

12 Kristján Sæmundsson og Haukur Jóhannesson, 2005. Inspection of faults at Kárahnjúkar. ÍSOR-2005/035 og LV 2005/071. Orkustofnun og Landsvirkjun, Reykjavík.

Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson, 2012. The Kverkfjöll fissure swarm and the eastern boundary of the Northern Volcanic Rift Zone, Iceland. Bulletin of Volcanology, 74(1), 143-162.

Mynd:


Texta þessa svars má finna í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar. Hann er birtur á Vísindavefnum með góðfúslegu leyfi.

Höfundar

Magnús Tumi Guðmundsson

prófessor í jarðeðlisfræði við HÍ

Þorvaldur Þórðarson

eldfjallafræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Guðrún Larsen

jarðfræðingur á Jarðvísindastofnun HÍ

Páll Einarsson

prófessor emeritus í jarðeðlisfræði við HÍ

Ármann Höskuldsson

eldfjallafræðingur við Jarðvísindastofnun Háskólans

Páll Imsland

jarðfræðingur

Útgáfudagur

13.1.2014

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Magnús Tumi Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Guðrún Larsen, Páll Einarsson, Ármann Höskuldsson og Páll Imsland. „Hefur gosið oft í Kverkfjöllum?“ Vísindavefurinn, 13. janúar 2014. Sótt 18. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=66085.

Magnús Tumi Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Guðrún Larsen, Páll Einarsson, Ármann Höskuldsson og Páll Imsland. (2014, 13. janúar). Hefur gosið oft í Kverkfjöllum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=66085

Magnús Tumi Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Guðrún Larsen, Páll Einarsson, Ármann Höskuldsson og Páll Imsland. „Hefur gosið oft í Kverkfjöllum?“ Vísindavefurinn. 13. jan. 2014. Vefsíða. 18. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=66085>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hefur gosið oft í Kverkfjöllum?
Gossaga Kverkfjallakerfisins er ekki vel þekkt en þó má telja nánast víst að ekki hafi gosið þar eftir að land byggðist. Engin gjóskulög með efnasamsetningu Kverkfjalla hafa fundist í ísnum í Vatnajökli eða jarðvegi frá sögulegum tíma.1 Yngsta hraunið, Lindahraun, rann skömmu fyrir landnám, ef marka má umhverfisbreytingar af völdum þess í Hvannalindum og gjóskulög sem varðveitt eru í jarðvegi þar. Lindirnar sjálfar mynduðust við tilkomu hraunsins. Grunnvatn flæddi þá í gegnum gropið hraunið og spratt fram sem kaldavermsl við enda þess. Þetta ferskvatnsflæði skapaði gróðurvinina fyrir framan hraunið. Í jarðvegi Hvannalinda sést landnámslagið frá því um 870 og að auki fimm gjóskulög frá Kötlu, Grímsvötnum og Kverkfjöllum þar fyrir neðan áður en komið er niður á urð. Af þessu má draga þá ályktun að Lindahraun, yngsta hraungosið á Kverkfjallareininni, sé frá því fyrir landnám og sennilega um 1300 ára gamalt.2

Allmörg eldgos á síðustu öldum hafa þó verið kennd við Kverkfjöll og hefur ýmislegt verið um það ritað.3 Síðari rannsóknir hafa fundið flestum þessara gosa annan stað og víst er að stærsta gjóskulagið sem var kennt við Kverkfjöll er hluti gjóskulags úr Veiðivatnagosinu frá 1477. Ekki er hægt að útiloka lítil og skammvinn gos en erfitt getur verið að greina á milli ummerkja slíkra gosa og gufusprenginga. Haustið 1959 fannst lítið gjóskulag í sigkatlinum Gengissigi en hann hafði þá nýlega tæmst í jökulhlaupi.4 „Gjóskan“ sem upp kom var þó ekki ný, heldur ummyndaður móbergssalli, enda glitraði hún af glópagulli. Þarna hefur því orðið einhvers konar gufusprenging, líklega í tengslum við tæmingu Gengissigs. Ákafur gufustrókur sást í Kverkfjöllum vorið 1968 og hafði breytingar á jarðhitavirkni í för með sér.5 Dæmi um óljósar „gosmenjar“ er svart lag frá fjórða áratug síðustu aldar sem sást í snjóstáli í Hveradalnum6 og ekki verður greint hvort var vikurlag eða lag eftir gufusprengingu því að sýni eru ekki til.

Kverkfjöll.

Á forsögulegum tíma hafa orðið 12-15 eldgos á gossprungum í Kverkfjallarana.7 Hraunin þekja um 80 ferkílómetra svæði vestan hnjúkanna, auk þeirra sem fylla dældir milli móbergshryggjanna þar. Flest hraunin eru lítil og lengd þeirra er yfirleitt á bilinu 5-17 kílómetrar. Rúmmálstölur liggja ekki fyrir nema um gosefni frá Biskupsfellssprungunni og er heildarrúmmál þeirra um 40 milljón rúmmetrar eða 0,04 rúmkílómetrar.8 Eitt hraun sker sig þó úr, nefnilega Krepputunguhraun sem er elst þeirra, um 8000 ára, og upprunnið úr gossprungu á sléttunni vestan Kverkhnjúka. Krepputunguhraun er að minnsta kosti 45 kílómetra langt og rúmmál þess meira en sjö rúmkílómetrar.9 Einungis Lindahraun er tímasett með sæmilegri vissu en aldur Biskupsfellsgossins hefur verið áætlaður 4-5000 ár.10 Fáein gjóskulög sem gætu verið ættuð frá jökulþöktum hluta Kverkfjallakerfisins hafa fundist í jarðvegi eins og áður er getið. Áður fyrr voru Kverkfjöll talin mikilvirk eldstöð en niðurstaða síðari rannsókna er sú að gos á Kverkfjallakerfi séu fremur lítil og strjál, líklega ekki meira en eitt til þrjú gos á hverjum 1000 árum.

Höggunarsprungur Kverkfjallakerfisins ná miklu lengra norður en gossprungurnar. Norðan við Kverkfjallarana eru misgengin oft um fimm metrar og stærsta misgengi frá nútíma um 20 metra sig til vesturs.11 Ekki er þó ljóst hvað það gerðist í mörgum áföngum. Nýjar rannsóknir benda til þess að sprungurnar nái austar en áður var talið og ein grein þeirra liggi um Kárahnjúkasvæðið. Þar urðu síðast hreyfingar á misgengissprungum fyrir um 4000 árum.12

Tilvísanir:

1 Guðrún Larsen og fleiri, 1998. Eight centuries of periodic volcanism at the center of the Iceland hotspot revealed by glacier tephrostratigraphy. Geology, 26, 943-946.

2 Þorvaldur Þórðarson og Ármann Höskuldsson, 2002. Iceland. Classic Geology in Europe, 3. Terra Publishing, Harpenden.

3 Til dæmis Ólafur Jónsson, 1945. Ódáðahraun I-III. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri.

Sigurður Þórarinsson, 1976. Gjóskulög og gamlar rústir. Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1976, 5-38.

4 Magnús Jóhannsson, 1959. Haustferð á Vatnajökul 1959. Jökull, 9, 41-42.

5 Sigurður Þórarinsson, 1968. Vatnajökulsleiðangur 1968. 1.-14. Júní. Jökull, 18, 394-400.

6 Ólafur Jónsson, 1945, Ódáðahraun I-III. Bókaútgáfan Norðri, Akureyri.

Sigurður Þórarinsson, 1950. Jökulhlaup og eldgos á jökulvatnasvæði Jökulsár á Fjöllum. Náttúrufræðingurinn, 20, 113-133.

7 Guttormur Sigbjarnarson, 1993. Norðan Vatnajökuls II. Jarðlagaskipan og jarðfræðikort. Náttúrufræðingurinn 65, 201-217.

Guttormur Sigbjarnarson, 1996. Norðan Vatnajökuls III. Eldstöðvar og hraun frá nútíma. Náttúrufræðingurinn, 65, 199-212.

Þorvaldur Þórðarson, 2008, óbirt gögn.

8 Karhunen, R. 1998. Eruption mechanism and rheomorphism during the basaltic fissure eruption in Biskupsfell, Kverkfjöll, North-Central Iceland. Research Report 8802. Nordic Volcanology Institute, Reykjavík.

9 Þorvaldur Þórðarson og S. Self, 1998. The Roza Member, Columbia River Basalt Group: A gigantic pahoehoe lava frow field formed by endogenous processes? Journal og Geophysical Research, 103(B11), 27411-27445.

10 Þorvaldur Þórðarson, óbirt gögn, 2008.

11 Guttormur Sigbjarnarson, 1996. Norðan Vatnajökuls III. Eldstöðvar og hraun frá nútíma. Náttúrufræðingurinn, 65, 199-212.

12 Kristján Sæmundsson og Haukur Jóhannesson, 2005. Inspection of faults at Kárahnjúkar. ÍSOR-2005/035 og LV 2005/071. Orkustofnun og Landsvirkjun, Reykjavík.

Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson, 2012. The Kverkfjöll fissure swarm and the eastern boundary of the Northern Volcanic Rift Zone, Iceland. Bulletin of Volcanology, 74(1), 143-162.

Mynd:


Texta þessa svars má finna í bókinni Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar. Hann er birtur á Vísindavefnum með góðfúslegu leyfi.

...