Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Geta hljóð eins og I-Doser valdið vímu eða öðrum jafnvel skaðlegum áhrifum á hugarstarf og líðan?

Heiða María Sigurðardóttir

Undanfarið hefur svokallaður I-Doser verið nokkuð í fréttum, en um er að ræða hljóðskrár sem sagðar eru geta haft veruleg áhrif á hugarástand fólks.

Framleiðandi hljóðskránna heldur því fram að þær „samstilli heilabylgjurnar“ með „tvíhlustarslætti“ (e. binaural beats). Þannig geti þær haft sefandi áhrif og jafnvel komið fólki í sæluvímu og valdið ofskynjunum. Framleiðandinn segir enn fremur að aðferðin sé vísindalega prófuð og valdi engum skaða.

Þegar leitað er að leitarorðinu I-Doser í stórum fræðagagnagrunnum á borð við ISI Web of Knowledge og PsycInfo skilar leitin engum niðurstöðum. Þar sem greinar um I-Doser finnast ekki í viðurkenndum ritrýndum vísindaritum verður að draga mjög í efa staðhæfingar um að I-Doser hafi verið rannsakaður með vísindalegum aðferðum.


Tvíhlustarslátt má fá fram með því að spila tvo ólíka tóna í sitt hvort eyrað. Hér má hlusta á 10 Hz tvíhlustarslátt með bakgrunnssuði. Athugið að áhrifin fást einungis fram með heyrnartólum. Einnig er vert að benda á að sumum finnst hljóðið líklega óþægilegt.

Ekki er þó þar með sagt að engin gild þekking liggi að baki I-Doser. Vitað er að þegar spilaðir eru samtímis tveir hreinir tónara af svipaðri tíðni geta þeir „runnið saman“ og skynjast sem einn tónn af annarri tíðni, mitt á milli tíðni hinna tveggja. Fólki finnst svo að hljóðstyrkur nýja tónsins breytist taktfast með tíðni sem samsvarar tíðnimun á upphaflegu tónunum tveimurb.

Sem dæmi má nefna að þegar spilaðir eru tveir hreinir tónar af tíðninni 300 Hzc og 310 Hz getur fólk skynjað þá sem einn tón af tíðni um 305 Hz, það er meðaltíðni hinna tónanna. Þar sem tíðnimunurinn á upphaflegu tónunum er 10 Hz heyrist mönnum sem nýi tónninn endurtaki sig, eða „slái“ (e. beats), 10 sinnum á sekúndu. Þetta getur líka gerst þegar tónarnir berast sitt hvoru eyra, þótt áhrifin séu ekki jafn sterk, en þá er talað um tvíhlustarslátt.

Samkvæmt því sem fram kemur á síðunni I-Doser.com notfærir I-Doser sér slíkan tvíhlustarslátt. Þetta er ástæðan fyrir því að hlusta þarf á I-Doser hljóðskrárnar með heyrnartólum, en þannig ná mismunandi hljóð að berast hvoru eyra.

Það verður að teljast mögulegt að tvíhlustarsláttur hafi mælanleg áhrif á heilabylgjur, eins og framleiðandi I-Doser heldur fram, en þetta er þó ekki vel staðfest. Heilabylgjur er hægt skoða með heilarafriti. Almennt gildir að mismunandi tíðni heilabylgna er til marks um mismunandi vitundarástand eða virkni; þannig koma til dæmis alfabylgjur (tíðni um 8-12 Hz) aðallega fram við slökun en betabylgjur (um 13-30 Hz) þegar fólk er athugult og vel vakandi. Deltabylgjur (undir 3,5 Hz) finnast aðallega hjá fólki í djúpsvefni og þetabylgjur (um 3,5-7,5 Hz) þegar fólk er í svefnrofum. Lágtíðnibylgjur á borð við alfabylgjur eru almennt taldar bera vott um samstilltari (e. synchrony) taugavirkni en hátíðnibylgjur eins og betabylgjur. Það að taugavirkni sé samstillt þýðir samt ekkert endilega að hún sé á einhvern hátt betri en ella, heldur fremur að heilinn sé í hvíldarástandi.


Heilabylgjur má mæla með heilarafritun, en þá er rafvirkni heilans mæld með rafskautum á höfði.

Rannsóknarniðurstöður gefa vísbendingu um að með því að stjórna tíðni tvíhlustarsláttarins megi hafa áhrif á hugarástand. Það virðist til dæmis frekar auka árvekni fólks ef það er látið hlusta á tvíhlustarslátt af betatíðni (það er tíðni sem samsvarar nokkurn veginn tíðni betabylgna í heila) heldur en deltatíðni eða þetatíðni. Enn fremur verður fólk fremur ringlað eða ruglað af því að hlusta á tvíhlustarslátt af delta- og þetatíðni heldur en af betatíðni. Í annarri rannsókn dró tvíhlustarsláttur, aðallega af deltatíðni, úr kvíða fyrir uppskurð og hafði þessi aðferð marktækt meiri áhrif heldur en þegar spiluð voru sams konar hljóð án tvíhlustarsláttar.

Niðurstöður þessara rannsókna eru í samræmi við þá tilgátu að tvíhlustarslátturinn veki upp heilabylgjur af svipaðri tíðni; betabylgjur í heila tengjast virku vökuástandi, jafnvel kvíða, en þetabylgjur og deltabylgjur aftur á móti þreytu og svefni. Hæpið er að hægt sé að skýra niðurstöðurnar út frá væntingum þátttakenda, þar sem hvorki þeir né rannsakendur vissu á hvað hver þátttakandi var látinn hlusta.

Rannsóknir á tvíhlustarslætti eru enn sem komið er frekar fáar og áhrif hans eru því ekki vel staðfest. Samt sem áður benda þær til þess að tvíhlustarsláttur geti mögulega haft áhrif á líðan og örvunarástand (e. arousal). Það er þó er ekki með fullu vitað hvernig þetta gerist né hvort slátturinn hafi alltaf önnur og meiri áhrif en annars konar hljóð. Tvíhlustarsláttur af lágri tíðni virðist þó fremur hafa róandi eða sefandi áhrif, á meðan sláttur af hærri tíðni hefur frekar örvandi áhrif.

Hugmyndir um að I-Doser samstilli heilabylgjur með tvíhlustarslætti eru því ef til vill ekki fjarri sannleikanum. Þó er nokkuð víst að framleiðandi I-Doser heldur ýmsu fram sem enn verður að teljast óstaðfest, svo sem að fólk komist í sæluvímu eða verði fyrir ofskynjunum. Að auki blandar I-Doser tvíhlustarslætti saman við ýmis stef og suð, svo erfitt getur verið að skilja á milli áhrifa tvíhlustarsláttarins og annars konar hljóða. Ekki verður hægt að segja til um áhrif I-Doser nema gerðar verði kerfisbundnar rannsóknir þar sem hægt er að hafa stjórn á öllum áhrifaþáttum.

Spurt er hvort I-Doser geti verið hættulegur. Eflaust getur sumum þótt óþægilegt að hlusta á hann, rétt eins og fólk fær oft hausverk af því að hlusta á suð eða horfa á ruglaða sjónvarpsútsendingu. Það verður þó að teljast afar ólíklegt að I-Doser hafi einhver skaðleg langtímaáhrif. Aftur á móti treysti ég mér hvorki til þess að mæla með né gegn notkun I-Doser eða annarra sambærilegra hljóðskráa, til þess er þetta hreinlega of lítið þekkt.

Ég vil þakka Þóri Eysteinssyni, dósent í lífeðlisfræði, fyrir yfirlestur svarsins.


a Hreinn tónn er tónn af aðeins einni tíðni og hefur því enga yfirtóna, sjá nánar í Hvað ákveður nákvæmlega tónhæð hvers tóns? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.

b Skynjunin getur raunar verið flóknari en hér er lýst, allt eftir því hversu mikill tíðnimunur er á tónunum tveimur (sjá til dæmis Karino, Yamasoba, Ito og Kaga, 2005).

c Hz (Hertz) er mælieining fyrir tíðni og táknar 'á sekúndu'. 300 Hz tónn merkir því að hljóðbylgjan hafi 300 sveiflur á sekúndu.


Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Carlson, N. R. (2001). Physiology of behavior (7. útgáfa). Needham Heights, MA: Allyn and Bacon..
  • I-Doser.com.
  • Karino, S., Yamasoba, T., Ito, K. og Kaga, K. (2005). Alteration of frequency range for binaural beats in acute low-tone hearing loss. Audiology and Neurotology, 10, 201-208
  • Lane, J. D., Kasian, S. J., Owens, J. E. og March, G. R. (1998). Binaural auditory beats affect vigilance performance and mood. Physiology and Behavior, 63(2), 249–252.
  • Padmanabhan, R., Hildreth, A. J. og Laws, D. (2005). A prospective, randomised, controlled study examining binaural beat audio and pre-operative anxiety in patients undergoing general anaesthesia for day case surgery. Anaesthesia, 60, 874-877.
  • Schwarz, D. W. F. og Taylor, P. (2005). Human auditory steady state responses to binaural and monaural beats. Clinical Neurophysiology, 116, 658–668.

Myndir

Höfundur

Heiða María Sigurðardóttir

prófessor við Sálfræðideild

Útgáfudagur

23.5.2007

Spyrjandi

Þór Beck
Baldur Richter
Bjarni Örvar Björnsson, f. 1994
Andri Ottósson

Tilvísun

Heiða María Sigurðardóttir. „Geta hljóð eins og I-Doser valdið vímu eða öðrum jafnvel skaðlegum áhrifum á hugarstarf og líðan? “ Vísindavefurinn, 23. maí 2007. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6651.

Heiða María Sigurðardóttir. (2007, 23. maí). Geta hljóð eins og I-Doser valdið vímu eða öðrum jafnvel skaðlegum áhrifum á hugarstarf og líðan? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6651

Heiða María Sigurðardóttir. „Geta hljóð eins og I-Doser valdið vímu eða öðrum jafnvel skaðlegum áhrifum á hugarstarf og líðan? “ Vísindavefurinn. 23. maí. 2007. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6651>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Geta hljóð eins og I-Doser valdið vímu eða öðrum jafnvel skaðlegum áhrifum á hugarstarf og líðan?
Undanfarið hefur svokallaður I-Doser verið nokkuð í fréttum, en um er að ræða hljóðskrár sem sagðar eru geta haft veruleg áhrif á hugarástand fólks.

Framleiðandi hljóðskránna heldur því fram að þær „samstilli heilabylgjurnar“ með „tvíhlustarslætti“ (e. binaural beats). Þannig geti þær haft sefandi áhrif og jafnvel komið fólki í sæluvímu og valdið ofskynjunum. Framleiðandinn segir enn fremur að aðferðin sé vísindalega prófuð og valdi engum skaða.

Þegar leitað er að leitarorðinu I-Doser í stórum fræðagagnagrunnum á borð við ISI Web of Knowledge og PsycInfo skilar leitin engum niðurstöðum. Þar sem greinar um I-Doser finnast ekki í viðurkenndum ritrýndum vísindaritum verður að draga mjög í efa staðhæfingar um að I-Doser hafi verið rannsakaður með vísindalegum aðferðum.


Tvíhlustarslátt má fá fram með því að spila tvo ólíka tóna í sitt hvort eyrað. Hér má hlusta á 10 Hz tvíhlustarslátt með bakgrunnssuði. Athugið að áhrifin fást einungis fram með heyrnartólum. Einnig er vert að benda á að sumum finnst hljóðið líklega óþægilegt.

Ekki er þó þar með sagt að engin gild þekking liggi að baki I-Doser. Vitað er að þegar spilaðir eru samtímis tveir hreinir tónara af svipaðri tíðni geta þeir „runnið saman“ og skynjast sem einn tónn af annarri tíðni, mitt á milli tíðni hinna tveggja. Fólki finnst svo að hljóðstyrkur nýja tónsins breytist taktfast með tíðni sem samsvarar tíðnimun á upphaflegu tónunum tveimurb.

Sem dæmi má nefna að þegar spilaðir eru tveir hreinir tónar af tíðninni 300 Hzc og 310 Hz getur fólk skynjað þá sem einn tón af tíðni um 305 Hz, það er meðaltíðni hinna tónanna. Þar sem tíðnimunurinn á upphaflegu tónunum er 10 Hz heyrist mönnum sem nýi tónninn endurtaki sig, eða „slái“ (e. beats), 10 sinnum á sekúndu. Þetta getur líka gerst þegar tónarnir berast sitt hvoru eyra, þótt áhrifin séu ekki jafn sterk, en þá er talað um tvíhlustarslátt.

Samkvæmt því sem fram kemur á síðunni I-Doser.com notfærir I-Doser sér slíkan tvíhlustarslátt. Þetta er ástæðan fyrir því að hlusta þarf á I-Doser hljóðskrárnar með heyrnartólum, en þannig ná mismunandi hljóð að berast hvoru eyra.

Það verður að teljast mögulegt að tvíhlustarsláttur hafi mælanleg áhrif á heilabylgjur, eins og framleiðandi I-Doser heldur fram, en þetta er þó ekki vel staðfest. Heilabylgjur er hægt skoða með heilarafriti. Almennt gildir að mismunandi tíðni heilabylgna er til marks um mismunandi vitundarástand eða virkni; þannig koma til dæmis alfabylgjur (tíðni um 8-12 Hz) aðallega fram við slökun en betabylgjur (um 13-30 Hz) þegar fólk er athugult og vel vakandi. Deltabylgjur (undir 3,5 Hz) finnast aðallega hjá fólki í djúpsvefni og þetabylgjur (um 3,5-7,5 Hz) þegar fólk er í svefnrofum. Lágtíðnibylgjur á borð við alfabylgjur eru almennt taldar bera vott um samstilltari (e. synchrony) taugavirkni en hátíðnibylgjur eins og betabylgjur. Það að taugavirkni sé samstillt þýðir samt ekkert endilega að hún sé á einhvern hátt betri en ella, heldur fremur að heilinn sé í hvíldarástandi.


Heilabylgjur má mæla með heilarafritun, en þá er rafvirkni heilans mæld með rafskautum á höfði.

Rannsóknarniðurstöður gefa vísbendingu um að með því að stjórna tíðni tvíhlustarsláttarins megi hafa áhrif á hugarástand. Það virðist til dæmis frekar auka árvekni fólks ef það er látið hlusta á tvíhlustarslátt af betatíðni (það er tíðni sem samsvarar nokkurn veginn tíðni betabylgna í heila) heldur en deltatíðni eða þetatíðni. Enn fremur verður fólk fremur ringlað eða ruglað af því að hlusta á tvíhlustarslátt af delta- og þetatíðni heldur en af betatíðni. Í annarri rannsókn dró tvíhlustarsláttur, aðallega af deltatíðni, úr kvíða fyrir uppskurð og hafði þessi aðferð marktækt meiri áhrif heldur en þegar spiluð voru sams konar hljóð án tvíhlustarsláttar.

Niðurstöður þessara rannsókna eru í samræmi við þá tilgátu að tvíhlustarslátturinn veki upp heilabylgjur af svipaðri tíðni; betabylgjur í heila tengjast virku vökuástandi, jafnvel kvíða, en þetabylgjur og deltabylgjur aftur á móti þreytu og svefni. Hæpið er að hægt sé að skýra niðurstöðurnar út frá væntingum þátttakenda, þar sem hvorki þeir né rannsakendur vissu á hvað hver þátttakandi var látinn hlusta.

Rannsóknir á tvíhlustarslætti eru enn sem komið er frekar fáar og áhrif hans eru því ekki vel staðfest. Samt sem áður benda þær til þess að tvíhlustarsláttur geti mögulega haft áhrif á líðan og örvunarástand (e. arousal). Það er þó er ekki með fullu vitað hvernig þetta gerist né hvort slátturinn hafi alltaf önnur og meiri áhrif en annars konar hljóð. Tvíhlustarsláttur af lágri tíðni virðist þó fremur hafa róandi eða sefandi áhrif, á meðan sláttur af hærri tíðni hefur frekar örvandi áhrif.

Hugmyndir um að I-Doser samstilli heilabylgjur með tvíhlustarslætti eru því ef til vill ekki fjarri sannleikanum. Þó er nokkuð víst að framleiðandi I-Doser heldur ýmsu fram sem enn verður að teljast óstaðfest, svo sem að fólk komist í sæluvímu eða verði fyrir ofskynjunum. Að auki blandar I-Doser tvíhlustarslætti saman við ýmis stef og suð, svo erfitt getur verið að skilja á milli áhrifa tvíhlustarsláttarins og annars konar hljóða. Ekki verður hægt að segja til um áhrif I-Doser nema gerðar verði kerfisbundnar rannsóknir þar sem hægt er að hafa stjórn á öllum áhrifaþáttum.

Spurt er hvort I-Doser geti verið hættulegur. Eflaust getur sumum þótt óþægilegt að hlusta á hann, rétt eins og fólk fær oft hausverk af því að hlusta á suð eða horfa á ruglaða sjónvarpsútsendingu. Það verður þó að teljast afar ólíklegt að I-Doser hafi einhver skaðleg langtímaáhrif. Aftur á móti treysti ég mér hvorki til þess að mæla með né gegn notkun I-Doser eða annarra sambærilegra hljóðskráa, til þess er þetta hreinlega of lítið þekkt.

Ég vil þakka Þóri Eysteinssyni, dósent í lífeðlisfræði, fyrir yfirlestur svarsins.


a Hreinn tónn er tónn af aðeins einni tíðni og hefur því enga yfirtóna, sjá nánar í Hvað ákveður nákvæmlega tónhæð hvers tóns? eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur.

b Skynjunin getur raunar verið flóknari en hér er lýst, allt eftir því hversu mikill tíðnimunur er á tónunum tveimur (sjá til dæmis Karino, Yamasoba, Ito og Kaga, 2005).

c Hz (Hertz) er mælieining fyrir tíðni og táknar 'á sekúndu'. 300 Hz tónn merkir því að hljóðbylgjan hafi 300 sveiflur á sekúndu.


Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir

  • Carlson, N. R. (2001). Physiology of behavior (7. útgáfa). Needham Heights, MA: Allyn and Bacon..
  • I-Doser.com.
  • Karino, S., Yamasoba, T., Ito, K. og Kaga, K. (2005). Alteration of frequency range for binaural beats in acute low-tone hearing loss. Audiology and Neurotology, 10, 201-208
  • Lane, J. D., Kasian, S. J., Owens, J. E. og March, G. R. (1998). Binaural auditory beats affect vigilance performance and mood. Physiology and Behavior, 63(2), 249–252.
  • Padmanabhan, R., Hildreth, A. J. og Laws, D. (2005). A prospective, randomised, controlled study examining binaural beat audio and pre-operative anxiety in patients undergoing general anaesthesia for day case surgery. Anaesthesia, 60, 874-877.
  • Schwarz, D. W. F. og Taylor, P. (2005). Human auditory steady state responses to binaural and monaural beats. Clinical Neurophysiology, 116, 658–668.

Myndir

...