Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Hvers vegna tóku Rómverjar upp dýrkun á grísku guðunum?

Geir Þ. Þórarinsson

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:
Hvers vegna tóku Rómverjar upp dýrkun á grísku guðunum og hver var munurinn á milli dýrkun Rómverja og Grikkja á guðunum?

Bæði Grikkir og Rómverjar voru fjölgyðistrúar, það er trúðu á marga guði. Sumir grísku guðanna voru ævafornir indóevrópskir guðir sem höfðu fylgt Grikkjunum frá því áður en Grikkir urðu Grikkir – ef þannig má að orði komast. Þessi trú var menningararfur sem þeir áttu sem þjóð. Grikkir tóku aldrei upp trúna á Seif því hún hafði fylgt þeim frá upphafi, frá því áður en gríska tungumálið varð til og Grikkir urðu til sem þjóð. Gríska er indóevrópskt tungumál og á rætur að rekja til frumindóevrópsku, formóður allra indóevrópskra tungumála, en Seifur (á grísku Ζεύς Zeus) átti sjálfur rætur að rekja til indóevrópska himnaguðsins *Dyéus (stundum ritað *Dyews). Á grísku beygist nafn Seifs svona:

nefnifall Ζεύς (Zeus)

eignarfall Διός (Dios)

þágufall Διί (Dii)

þolfall Δία (Dia)

ávarpsfall Ζεῦ (Zeu)

Í beygingunni er örlítil óregla en glöggt má sjá líkindin við *Dyéus/*Dyews. Seifur er himnaguð en *Dyéus merkti upphaflega bara dagbjartur himinn[1] sem svo var persónugerður og dýrkaður sem himnaguð. Indóevrópski himnaguðinn virðist hafa verið ávarpaður sem faðir, það er *Dyéu ph2tér (sbr. Dyáus pitá í sanskrít). Stundum var Seifur líka ávarpaður (í ávarpsfalli) Ζεῦ πάτερ (Zeu pater) en það festist aldrei í grísku. Í latínu, tungumáli Rómverja, festist þetta ávarp hins vegar sem nafn guðsins, það er Iuppiter eða Júpíter, eins og við skrifum á íslensku. Þess má geta að af frumindóevrópska orðinu *Dyéus er einnig komið latneska orðið dies sem merkir dagur og af orðmyndinni *deiuos, sem er rótskyld orðinu *Dyéus, er komið latneska orðið deus sem merkir guð.[2]

Þannig áttu sumir rómversku guðanna og grísku guðanna sameiginlegan uppruna. Seifur og Júpíter voru upphaflega sami indóevrópski guðinn, áttu alltént rætur að rekja til sama indóevrópska guðsins. Því er erfitt að segja að Rómverjar hafi beinlínis tekið upp trúna á þessa guði frá Grikkjum. Rómverjar voru nefnilega líka erfingjar indóevrópskrar menningar, engu síður en Grikkir.

Seifur og Júpíter voru upphaflega sami indóevrópski guðinn, áttu alltént rætur að rekja til sama indóevrópska guðsins.

Öðrum guðum kynntust Grikkir hjá nágrannaþjóðum sínum rétt eins og Rómverjar. Til að mynda er talið að trúin á Apollon hafi borist Grikkjum að austan og breiðst út einhvern tímann á 12.-9. öld f.Kr. eða jafnvel töluvert fyrr,[3] þótt reyndar sé deilt um uppruna guðsins. Og alveg eins og Grikkir tóku upp trúna á þennan innflutta guð tóku Rómverjar líka upp trúna á hann frá Grikkjum árið 433 f.Kr.

Á hinn bóginn er einnig áberandi að meðal rómversku guðanna eru guðir sem eiga uppruna sinn á Ítalíu en hafa glatað einkennum sínum og lagað sig í staðinn að helstu hliðstæðu sinni meðal grísku guðanna. Rómverska gyðjan Venus og gríska gyðjan Afródíta eiga til dæmis ekki sameiginlegan uppruna eins og Seifur/Júpíter en Venus var ekki heldur innflutt gyðja í sama skilningi og Apollon var innfluttur. Hún var í upphafi einhvers konar gróður- og frjósemisgyðja og hafði verið dýrkuð á Ítalíu allt frá því fyrir stofnun Rómarborgar og tengdist Afródítu í upphafi ekki neitt. En hún tapaði sínum sérkennum og frá 2. öld f.Kr. fór hún smám saman að líkjast Afródítu æ meir. Önnur dæmi um sömu þróun eru rómversku guðirnir Satúrnus, Júnó, Ceres og Mars.[4]

Nú má spyrja bæði hvers vegna þjóðir flytja inn nýja guði og hvers vegna þær laga sína eigin guði að guðum annarra þjóða. Eins og fram kemur í svari við spurningunni Af hverju tóku Grikkir upp á því að trúa á grísku guðina? geta verið margvíslegar skýringar á því að trú á guði einnar þjóðar breiðist út til annarra þjóða. Þar segir:

Svo kunnuglegt dæmi sé nefnt tóku Íslendingar upp kristna trú árið 999 fyrst og fremst af pólitískum ástæðum en áður var kristinn minnihluti í landinu. Kristni er vitaskuld innflutt trú, bæði á Íslandi og í Noregi þaðan sem hún barst Íslendingum. Við vitum sæmilega mikið um hvernig kristnin barst til Íslands en minna er vitað um áhrif erlendra trúarbragða í Grikklandi hinu forna og því oft vandi að segja hvers vegna eða með hvaða hætti trúarbrögð annarra þjóða höfðu áhrif á trúarbrögð Grikkja. Sennilega hefur þótt þess virði að taka upp trú á guði sem sagðir voru ríkja yfir ákveðnum sviðum sem þóttu mikilvæg. Ef Grikkir kynntust til dæmis lækninga- og spádómsguðinum Apolloni hjá erlendum mönnum og enginn af guðunum sem Grikkir trúðu á þá þegar ríkti yfir þessum sviðum, þá er ekki ósennilegt að þeir hafi tekið upp trúna á hann vegna þess að það hefur þótt borga sig að hafa slíkan guð sér hliðhollan.

Raunar er vafasamt að Apollon hafi í upphafi verið sérstakur lækningaguð, þótt hann gæti hafa bætt við sig því hlutverki áður en Grikkir kynntust honum.[5] En þannig tignuðu Rómverjar hann framan af, það er sem Apollo Medicus og fluttu inn trúna á hann til að bregðast við farsótt sem þá geisaði í Róm. Rómverjar voru reyndar oftast (en ekki alveg alltaf) mjög fúsir til þess að bæta við sig guðum, til að mynda guðum þeirra þjóða og þjóðflokka sem þeir sigruðu og lögðu undir sig enda ekki verra að hafa sem flesta guði hliðholla sér.[6]

Fæðing Venusar eftir Sandro Botticelli. Venus var upphaflega rómversk gyðja sem smám saman fór að líkjast Afródítu meir og meir.

Þetta skýrir þó ekki hvers vegna ítalískir guðir eins og Satúrnus, Venus eða Mínerva fóru að líkjast grískum guðum í svo miklum mæli að um síðir urðu þau vart annað en rómversk nöfn á grískum guðum. Það er freistandi að segja að ómótstæðilegar bókmenntir Grikkjanna hafi orðið til þess að Rómverjar gerðu grískar goðsögur að sínum. Bókmenntir eru gríðarlega öflugt tæki til miðlunar á menningararfi. Bókmenntir Grikkja höfðu náð miklum þroska löngu áður en bókmenntasaga Rómverja hófst. Raunar voru fyrstu bókmenntir Rómverja ritaðar á grísku, eins og verk rómverska sagnaritarans Fabiusar Pictors, og fyrstu bókmenntir Rómverja á latínu voru þýðingar Liviusar Andronicusar á grískum bókmenntaverkum. Það er því ekki ósennileg ágiskun að máttur bókmenntanna hafi ráðið miklu um það að eiginlegir rómverskir guðir með ítalskan uppruna urðu að rómverskum nöfnum á grískum guðum.

Í einhverjum tilvikum var þetta þó pólitísk eða trúarpólitísk ákvörðun. Strax í upphafi 5. aldar f.Kr. fóru Rómverjar til dæmis að slá saman gróður- og náttúrugyðjunni Ceresi og hinni grísku korn- og akurgyðju Demetru af ásettu ráði.

En hvort sem um er að ræða frumindóevrópumenn, Grikki, Rómverja eða aðra er grundvallarspurningu enn ósvarað, hvers vegna menn taka yfirleitt upp á að dýrka guði, óháð því hvort guðirnir eru uppfinning þeirra sjálfra eða innfluttir frá öðrum löndum. Um það sagði undirritaður í eldra svari og á enn við: „Sennilega liggja rætur flestrar guðstrúar á endanum í hjátrú og trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri, sem aftur má skýra með tilvísun til vanþekkingar manna á því sem þeir verða vitni að í náttúrunni.“ Hér að framan var ýjað að því að Rómverjum hefði ef til vill þótt bókmenntir Grikkja ómótstæðilegar en að svo miklu leyti sem þeir trúðu á guði sína á trúin að líkindum rætur að rekja til vanþekkingar og hjátrúar.

Stundum er sagt að trúarbrögð fornmanna hafi snúist um réttverknað (orþópraxía) fremur en rétttrúnað (orþódoxía).[7] Það sem skipti máli var ekki nákvæmlega hverju menn trúðu um guðina, heldur hvernig staðið var að verki í að blíðka þá, til dæmis þegar fórnir eru færðar. Meira að segja í gyðingdómi og kristni virðist rétttrúnaður ekki koma til sögunnar fyrr en á þriðju og fjórðu öld.[8] Hjá Grikkjum voru engar miðstýrðar kirkjustofnanir og engin helgirit með sams konar stöðu og biblía kristinna manna. Trúarbrögð og -iðkun tilheyrðu í grundvallaratriðum hinu opinbera[9] og opinber embætti og embætti presta voru að ýmsu leyti samofin: pólitískum embættum fylgdu trúarlegar skyldur. Auk þessa voru víða helgidómar tileinkaðir tilteknum guðum og launhelgar sem lofuðu einhvers konar frelsun og framhaldslífi. Hjá bæði Grikkjum og Rómverjum voru reglulegar opinberar trúarhátíðir eins konar umgjörð um trúariðkun almennings.[10] Prestsembætti Rómverjanna voru aðskildari öðrum opinberum embættum en hjá Grikkjum. Og forfeðradýrkun – sem segja má að hafi haft ákveðnar trúarlegar tengingar – var mun sterkari meðal Rómverja en Grikkja. Eftir sem áður var trúarlíf Rómverja að miklu leyti hluti af opinberu lífi þeirra en án miðstýringar og heilagrar ritningar. Fjölbreytni og gróska í trúariðkun almennings í Róm var þó töluvert meiri en hjá Grikkjunum því að í grísku borgríkjunum var ríkistrú en Róm var alltaf fjölmenningarborg ólíkt grísku borgríkjunum og þar var auk hefðbundinna trúarbragða sem nutu stuðnings ríkisins að finna meðal annars Ísisartrú frá Egyptalandi, Míþratrú frá Persíu, samfélag gyðinga og um síðir kristni.

Tilvísanir:
  1. ^ Robert S.P. Beekes, Comparative Indo-European Linguistics: An Introduction, endursk. 2. útg. Michiels de Vaan (John Benjamins Publishing Company, 2011), bls. 40.
  2. ^ Robert S.P. Beekes, Comparative Indo-European Linguistics: An Introduction, endursk. 2. útg. Michiels de Vaan (John Benjamins Publishing Company, 2011), bls. 40.
  3. ^ Sjá Mark P.O. Morford, Robert J. Lenardon og Michael Sham, Classical Mythology, international ninth edition (Oxford University Press, 2011), bls. 246.
  4. ^ Um rómversku guðina, sjá Mark P.O. Morford, Robert J. Lenardon og Michael Sham, Classical Mythology, international ninth edition (Oxford University Press, 2011), bls. 653-90.
  5. ^ Rök hafa verið færð fyrir því að Apollon hafi í grunninn verið veiðiguð. Sjá Edwin L. Brown, „In Search for Anatolian Apollo“, Hesperia Supplements vol. 33 (2004): 243-5.
  6. ^ Peter Jones og Keith Sidwell (ritstj.), The World of Rome: An Introduction to Roman Culture (Cambridge University Press, 1997), bls. 172.
  7. ^ Sjá t.d. Charles King, „The Organization of Roman Religious Beliefs“, Classical Antiquity 22 (2) (2003): 275-312.
  8. ^ Simon Price, Religions of the Ancient Greeks (Cambridge University Press, 1999), bls. 160-61. Price veitir gott yfirlit yfir alla þætti grískrar trúariðkunar.
  9. ^ Sjá t.d. Charles W. Hedrick Jr., „Religion and Society in Classical Greece“, hjá Daniel Ogden (ritstj.), A Companion to Greek Religion (Blackwell, 2007): bls. 283-96. Nancy Evans, Civic Rites: Democracy and Religion in Ancient Athens (University of California Press, 2010) er ítarleg greining á fléttun hins trúarlega inn í opinbert líf Aþeninga á klassískum tíma.
  10. ^ Ágætt yfirlit yfir trúariðkun Rómverja er að finna hjá F.R. Cowell, Life in Ancient Rome (Perigee Books, 1980), bls. 180-95. Mun ítarlegri umfjöllun um trúarbrögð í Rómaveldi er að finna hjá Mary Beard, John North og Simon Price, Religions of Rome volume I: A History (Cambridge University Press, 1998); og Jörg Rüpke (ritstj.), A Companion to Roman Religion (Blackwell, 2007).

Myndir:

Höfundur

Geir Þ. Þórarinsson

aðjúnkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands

Útgáfudagur

17.9.2014

Spyrjandi

Júlía Ósk Bjarnadóttir

Tilvísun

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers vegna tóku Rómverjar upp dýrkun á grísku guðunum?“ Vísindavefurinn, 17. september 2014. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=67983.

Geir Þ. Þórarinsson. (2014, 17. september). Hvers vegna tóku Rómverjar upp dýrkun á grísku guðunum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=67983

Geir Þ. Þórarinsson. „Hvers vegna tóku Rómverjar upp dýrkun á grísku guðunum?“ Vísindavefurinn. 17. sep. 2014. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=67983>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hvers vegna tóku Rómverjar upp dýrkun á grísku guðunum?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Hvers vegna tóku Rómverjar upp dýrkun á grísku guðunum og hver var munurinn á milli dýrkun Rómverja og Grikkja á guðunum?

Bæði Grikkir og Rómverjar voru fjölgyðistrúar, það er trúðu á marga guði. Sumir grísku guðanna voru ævafornir indóevrópskir guðir sem höfðu fylgt Grikkjunum frá því áður en Grikkir urðu Grikkir – ef þannig má að orði komast. Þessi trú var menningararfur sem þeir áttu sem þjóð. Grikkir tóku aldrei upp trúna á Seif því hún hafði fylgt þeim frá upphafi, frá því áður en gríska tungumálið varð til og Grikkir urðu til sem þjóð. Gríska er indóevrópskt tungumál og á rætur að rekja til frumindóevrópsku, formóður allra indóevrópskra tungumála, en Seifur (á grísku Ζεύς Zeus) átti sjálfur rætur að rekja til indóevrópska himnaguðsins *Dyéus (stundum ritað *Dyews). Á grísku beygist nafn Seifs svona:

nefnifall Ζεύς (Zeus)

eignarfall Διός (Dios)

þágufall Διί (Dii)

þolfall Δία (Dia)

ávarpsfall Ζεῦ (Zeu)

Í beygingunni er örlítil óregla en glöggt má sjá líkindin við *Dyéus/*Dyews. Seifur er himnaguð en *Dyéus merkti upphaflega bara dagbjartur himinn[1] sem svo var persónugerður og dýrkaður sem himnaguð. Indóevrópski himnaguðinn virðist hafa verið ávarpaður sem faðir, það er *Dyéu ph2tér (sbr. Dyáus pitá í sanskrít). Stundum var Seifur líka ávarpaður (í ávarpsfalli) Ζεῦ πάτερ (Zeu pater) en það festist aldrei í grísku. Í latínu, tungumáli Rómverja, festist þetta ávarp hins vegar sem nafn guðsins, það er Iuppiter eða Júpíter, eins og við skrifum á íslensku. Þess má geta að af frumindóevrópska orðinu *Dyéus er einnig komið latneska orðið dies sem merkir dagur og af orðmyndinni *deiuos, sem er rótskyld orðinu *Dyéus, er komið latneska orðið deus sem merkir guð.[2]

Þannig áttu sumir rómversku guðanna og grísku guðanna sameiginlegan uppruna. Seifur og Júpíter voru upphaflega sami indóevrópski guðinn, áttu alltént rætur að rekja til sama indóevrópska guðsins. Því er erfitt að segja að Rómverjar hafi beinlínis tekið upp trúna á þessa guði frá Grikkjum. Rómverjar voru nefnilega líka erfingjar indóevrópskrar menningar, engu síður en Grikkir.

Seifur og Júpíter voru upphaflega sami indóevrópski guðinn, áttu alltént rætur að rekja til sama indóevrópska guðsins.

Öðrum guðum kynntust Grikkir hjá nágrannaþjóðum sínum rétt eins og Rómverjar. Til að mynda er talið að trúin á Apollon hafi borist Grikkjum að austan og breiðst út einhvern tímann á 12.-9. öld f.Kr. eða jafnvel töluvert fyrr,[3] þótt reyndar sé deilt um uppruna guðsins. Og alveg eins og Grikkir tóku upp trúna á þennan innflutta guð tóku Rómverjar líka upp trúna á hann frá Grikkjum árið 433 f.Kr.

Á hinn bóginn er einnig áberandi að meðal rómversku guðanna eru guðir sem eiga uppruna sinn á Ítalíu en hafa glatað einkennum sínum og lagað sig í staðinn að helstu hliðstæðu sinni meðal grísku guðanna. Rómverska gyðjan Venus og gríska gyðjan Afródíta eiga til dæmis ekki sameiginlegan uppruna eins og Seifur/Júpíter en Venus var ekki heldur innflutt gyðja í sama skilningi og Apollon var innfluttur. Hún var í upphafi einhvers konar gróður- og frjósemisgyðja og hafði verið dýrkuð á Ítalíu allt frá því fyrir stofnun Rómarborgar og tengdist Afródítu í upphafi ekki neitt. En hún tapaði sínum sérkennum og frá 2. öld f.Kr. fór hún smám saman að líkjast Afródítu æ meir. Önnur dæmi um sömu þróun eru rómversku guðirnir Satúrnus, Júnó, Ceres og Mars.[4]

Nú má spyrja bæði hvers vegna þjóðir flytja inn nýja guði og hvers vegna þær laga sína eigin guði að guðum annarra þjóða. Eins og fram kemur í svari við spurningunni Af hverju tóku Grikkir upp á því að trúa á grísku guðina? geta verið margvíslegar skýringar á því að trú á guði einnar þjóðar breiðist út til annarra þjóða. Þar segir:

Svo kunnuglegt dæmi sé nefnt tóku Íslendingar upp kristna trú árið 999 fyrst og fremst af pólitískum ástæðum en áður var kristinn minnihluti í landinu. Kristni er vitaskuld innflutt trú, bæði á Íslandi og í Noregi þaðan sem hún barst Íslendingum. Við vitum sæmilega mikið um hvernig kristnin barst til Íslands en minna er vitað um áhrif erlendra trúarbragða í Grikklandi hinu forna og því oft vandi að segja hvers vegna eða með hvaða hætti trúarbrögð annarra þjóða höfðu áhrif á trúarbrögð Grikkja. Sennilega hefur þótt þess virði að taka upp trú á guði sem sagðir voru ríkja yfir ákveðnum sviðum sem þóttu mikilvæg. Ef Grikkir kynntust til dæmis lækninga- og spádómsguðinum Apolloni hjá erlendum mönnum og enginn af guðunum sem Grikkir trúðu á þá þegar ríkti yfir þessum sviðum, þá er ekki ósennilegt að þeir hafi tekið upp trúna á hann vegna þess að það hefur þótt borga sig að hafa slíkan guð sér hliðhollan.

Raunar er vafasamt að Apollon hafi í upphafi verið sérstakur lækningaguð, þótt hann gæti hafa bætt við sig því hlutverki áður en Grikkir kynntust honum.[5] En þannig tignuðu Rómverjar hann framan af, það er sem Apollo Medicus og fluttu inn trúna á hann til að bregðast við farsótt sem þá geisaði í Róm. Rómverjar voru reyndar oftast (en ekki alveg alltaf) mjög fúsir til þess að bæta við sig guðum, til að mynda guðum þeirra þjóða og þjóðflokka sem þeir sigruðu og lögðu undir sig enda ekki verra að hafa sem flesta guði hliðholla sér.[6]

Fæðing Venusar eftir Sandro Botticelli. Venus var upphaflega rómversk gyðja sem smám saman fór að líkjast Afródítu meir og meir.

Þetta skýrir þó ekki hvers vegna ítalískir guðir eins og Satúrnus, Venus eða Mínerva fóru að líkjast grískum guðum í svo miklum mæli að um síðir urðu þau vart annað en rómversk nöfn á grískum guðum. Það er freistandi að segja að ómótstæðilegar bókmenntir Grikkjanna hafi orðið til þess að Rómverjar gerðu grískar goðsögur að sínum. Bókmenntir eru gríðarlega öflugt tæki til miðlunar á menningararfi. Bókmenntir Grikkja höfðu náð miklum þroska löngu áður en bókmenntasaga Rómverja hófst. Raunar voru fyrstu bókmenntir Rómverja ritaðar á grísku, eins og verk rómverska sagnaritarans Fabiusar Pictors, og fyrstu bókmenntir Rómverja á latínu voru þýðingar Liviusar Andronicusar á grískum bókmenntaverkum. Það er því ekki ósennileg ágiskun að máttur bókmenntanna hafi ráðið miklu um það að eiginlegir rómverskir guðir með ítalskan uppruna urðu að rómverskum nöfnum á grískum guðum.

Í einhverjum tilvikum var þetta þó pólitísk eða trúarpólitísk ákvörðun. Strax í upphafi 5. aldar f.Kr. fóru Rómverjar til dæmis að slá saman gróður- og náttúrugyðjunni Ceresi og hinni grísku korn- og akurgyðju Demetru af ásettu ráði.

En hvort sem um er að ræða frumindóevrópumenn, Grikki, Rómverja eða aðra er grundvallarspurningu enn ósvarað, hvers vegna menn taka yfirleitt upp á að dýrka guði, óháð því hvort guðirnir eru uppfinning þeirra sjálfra eða innfluttir frá öðrum löndum. Um það sagði undirritaður í eldra svari og á enn við: „Sennilega liggja rætur flestrar guðstrúar á endanum í hjátrú og trú á yfirnáttúrleg fyrirbæri, sem aftur má skýra með tilvísun til vanþekkingar manna á því sem þeir verða vitni að í náttúrunni.“ Hér að framan var ýjað að því að Rómverjum hefði ef til vill þótt bókmenntir Grikkja ómótstæðilegar en að svo miklu leyti sem þeir trúðu á guði sína á trúin að líkindum rætur að rekja til vanþekkingar og hjátrúar.

Stundum er sagt að trúarbrögð fornmanna hafi snúist um réttverknað (orþópraxía) fremur en rétttrúnað (orþódoxía).[7] Það sem skipti máli var ekki nákvæmlega hverju menn trúðu um guðina, heldur hvernig staðið var að verki í að blíðka þá, til dæmis þegar fórnir eru færðar. Meira að segja í gyðingdómi og kristni virðist rétttrúnaður ekki koma til sögunnar fyrr en á þriðju og fjórðu öld.[8] Hjá Grikkjum voru engar miðstýrðar kirkjustofnanir og engin helgirit með sams konar stöðu og biblía kristinna manna. Trúarbrögð og -iðkun tilheyrðu í grundvallaratriðum hinu opinbera[9] og opinber embætti og embætti presta voru að ýmsu leyti samofin: pólitískum embættum fylgdu trúarlegar skyldur. Auk þessa voru víða helgidómar tileinkaðir tilteknum guðum og launhelgar sem lofuðu einhvers konar frelsun og framhaldslífi. Hjá bæði Grikkjum og Rómverjum voru reglulegar opinberar trúarhátíðir eins konar umgjörð um trúariðkun almennings.[10] Prestsembætti Rómverjanna voru aðskildari öðrum opinberum embættum en hjá Grikkjum. Og forfeðradýrkun – sem segja má að hafi haft ákveðnar trúarlegar tengingar – var mun sterkari meðal Rómverja en Grikkja. Eftir sem áður var trúarlíf Rómverja að miklu leyti hluti af opinberu lífi þeirra en án miðstýringar og heilagrar ritningar. Fjölbreytni og gróska í trúariðkun almennings í Róm var þó töluvert meiri en hjá Grikkjunum því að í grísku borgríkjunum var ríkistrú en Róm var alltaf fjölmenningarborg ólíkt grísku borgríkjunum og þar var auk hefðbundinna trúarbragða sem nutu stuðnings ríkisins að finna meðal annars Ísisartrú frá Egyptalandi, Míþratrú frá Persíu, samfélag gyðinga og um síðir kristni.

Tilvísanir:
  1. ^ Robert S.P. Beekes, Comparative Indo-European Linguistics: An Introduction, endursk. 2. útg. Michiels de Vaan (John Benjamins Publishing Company, 2011), bls. 40.
  2. ^ Robert S.P. Beekes, Comparative Indo-European Linguistics: An Introduction, endursk. 2. útg. Michiels de Vaan (John Benjamins Publishing Company, 2011), bls. 40.
  3. ^ Sjá Mark P.O. Morford, Robert J. Lenardon og Michael Sham, Classical Mythology, international ninth edition (Oxford University Press, 2011), bls. 246.
  4. ^ Um rómversku guðina, sjá Mark P.O. Morford, Robert J. Lenardon og Michael Sham, Classical Mythology, international ninth edition (Oxford University Press, 2011), bls. 653-90.
  5. ^ Rök hafa verið færð fyrir því að Apollon hafi í grunninn verið veiðiguð. Sjá Edwin L. Brown, „In Search for Anatolian Apollo“, Hesperia Supplements vol. 33 (2004): 243-5.
  6. ^ Peter Jones og Keith Sidwell (ritstj.), The World of Rome: An Introduction to Roman Culture (Cambridge University Press, 1997), bls. 172.
  7. ^ Sjá t.d. Charles King, „The Organization of Roman Religious Beliefs“, Classical Antiquity 22 (2) (2003): 275-312.
  8. ^ Simon Price, Religions of the Ancient Greeks (Cambridge University Press, 1999), bls. 160-61. Price veitir gott yfirlit yfir alla þætti grískrar trúariðkunar.
  9. ^ Sjá t.d. Charles W. Hedrick Jr., „Religion and Society in Classical Greece“, hjá Daniel Ogden (ritstj.), A Companion to Greek Religion (Blackwell, 2007): bls. 283-96. Nancy Evans, Civic Rites: Democracy and Religion in Ancient Athens (University of California Press, 2010) er ítarleg greining á fléttun hins trúarlega inn í opinbert líf Aþeninga á klassískum tíma.
  10. ^ Ágætt yfirlit yfir trúariðkun Rómverja er að finna hjá F.R. Cowell, Life in Ancient Rome (Perigee Books, 1980), bls. 180-95. Mun ítarlegri umfjöllun um trúarbrögð í Rómaveldi er að finna hjá Mary Beard, John North og Simon Price, Religions of Rome volume I: A History (Cambridge University Press, 1998); og Jörg Rüpke (ritstj.), A Companion to Roman Religion (Blackwell, 2007).

Myndir:

...