Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík

Er skynsamlegt að nota maíspoka í staðinn fyrir plastpoka undir rusl?

Stefán Gíslason

Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Nú er mikið átak í gangi að útrýma plasti (að minnsta kosti pokunum) það er svo sannarlega hið besta mál. Oftast er bent á maíspoka í stað plastsins. Ég er því að velta fyrir mér hvaðan allur maísinn er fenginn. Er ef til vill verið að ryðja skóga og rækta maís til að við Vesturlandabúar getum friðað samviskuna og hætt að nota plastpoka, eða eru búnir til pokar úr maís sem annars væri notaður til matar? Þið getið vonandi fundið svar við þessari spurningu.

Ef ætlunin er að nota maíspokana á nákvæmlega sama hátt og plastpokar hafa verið notaðir, þá eru maíspokarnir að öllum líkindum betri frá umhverfislegu sjónarmiði. Þetta á sérstaklega við um þá poka sem fjúka út í veður og vind. Betra væri samt að nota miklu minna af pokum heldur en við gerum í dag og nota þá helst margnota poka. Einnota vörur eru aldrei góðar fyrir umhverfið.

Plast brotnar mjög seint niður við náttúrulegar aðstæður. Plastpokar sem strjúka úr vistinni og sleppa út í náttúruna geta því velkst þar um árum, áratugum eða öldum saman og valdið margvíslegum skaða. Dýr geta til dæmis kafnað við að gleypa plastpoka eða fá þá utan um hálsinn – og ekki má heldur gleyma plastflákunum sem hafa myndast á nokkrum stöðum í úthöfunum þar sem straumar hafa safnað plastinu saman. Plastpokar eiga sinn þátt í þeim.

Víða má finna plastumbúðir í fjörum.

Ef við lítum á hráefnið í maíspokum annars vegar og venjulegum plastpokum hins vegar, þá virðast maíspokarnir hafa nokkra yfirburði í umhverfislegu tilliti. Plönturnar sem leggja til efni í þá fyrrnefndu flokkast jú sem endurnýjanlegar, en plastpokarnir eru unnir úr olíu með öllum þeim umhverfisvandamálum sem því fylgir. Almennt má gera ráð fyrir að til þess að framleiða 1 kg af plasti þurfi 2 kg af olíu. Annað kílóið verður að plasti og hitt kílóið brennur í framleiðsluferlinu. Áætlað hefur verið að Íslendingar noti rúm 1.100 tonn af plastpokum árlega og til að framleiða þessa poka hefur þá þurft rúmlega 2.200 tonn af olíu.

En málið er samt ekki svona einfalt, því að maís er ekki það sama og maís. Til að maíspokarnir hafi raunverulegt forskot á plastpokana þarf olíunotkun í ræktun og framleiðslu að hafa verið innan hóflegra marka, og sama má segja um notkun áburðar og varnarefna. Svo skiptir líka miklu máli á hvers konar landi maísinn var ræktaður. Maíspokarnir hætta til dæmis fljótt að vera sérlega umhverfisvænir ef skógar hafa verið ruddir til að búa til maísakrana. Og ef ræktunin er í beinni samkeppni við fæðuframleiðslu lítur dæmið heldur ekki vel út. Síðarnefnda atriðið skiptir þó líklega sáralitlu máli enn sem komið er, því að varla þarf meira en um 0,5% af maísframleiðslu Evrópu og Bandaríkjanna til að fullnægja allri eftirspurn eftir lífplasti, eins og það efni er gjarnan nefnt sem framleitt er úr efnum úr lífríkinu og er ætlað að leysa olíuplast af hólmi. Auk þess er sífellt meira af lífplasti framleitt úr úrgangi. Það þarf sem sagt ekki alltaf maís til.

Til að maíspokarnir hafi raunverulegt forskot á plastpokana þarf olíunotkun í ræktun og framleiðslu að hafa verið innan hóflegra marka, og sama má segja um notkun áburðar og varnarefna.

Úti í náttúrunni brotna maíspokar niður á nokkrum vikum þannig að lítið verður eftir nema koltvíildi (sem einnig er nefnt koltvísýringur eða koltvíoxið) og vatn. Þess vegna eru þeir líka mun síður hættulegir dýrum en plastpokar. Séu pokarnir hins vegar urðaðir að notkun lokinni lítur dæmið öðruvísi út. Þar hefur hið skjóta niðurbrot maíspokana þann galla í för með sér að þeir breytast tiltölulega hratt í metan, sem er um það bil tuttugu sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi. Plastpokarnir liggja hins vegar væntanlega á sínum stað í haugnum um aldir og verða seint eða aldrei að metani. Þeir taka hins vegar sífellt meira pláss á urðunarstöðum heimsins og taka þannig upp land sem vel hefði mátt nota til annars. Nú til dags er reyndar skylda að safna metangasi frá urðunarstöðum og nýta það eða brenna. Þar með er sá vandi maíspokanna að mestu úr sögunni.

Þegar pokar úr mismunandi efnum eru bornir saman þarf að skoða ýmsa fleiri þætti en þá sem hér hafa verið nefndir. Maíspokar sem blandast saman við plast geta til dæmis spillt endurvinnslu á plastinu. Þetta er sem sagt ekki alveg einfalt.

Eftir því sem næst verður komist standast þeir maíspokar sem fáanlegir eru á Íslandi (í ársbyrjun 2015) allar helstu umhverfiskröfur. Þessir pokar eru líklega allir gerðir úr svokölluðu Mater-Bi-efni, sem framleitt er hjá fyrirtækinu Novamont með höfuðstöðvar á Ítalíu. Þetta efni er framleitt úr fleiru en maís, þar á meðal úr ýmsum hliðarafurðum, svo sem sellulósa, sem er ekki auðvelt að nýta í aðra framleiðslu. Eftir því sem næst verður komist er framleiðslan aldrei í samkeppni við fæðuframleiðslu og hvergi virðist hafa verið rutt nýtt land til að rækta hráefnið. Erfðabreytt efni eru aldrei notuð og pálmaolía og sojabaunaolía koma hvergi við sögu. Auk þess er sífellt unnið að því að þróa orkusparandi vinnsluaðferðir og tækni í endurvinnslu fleygir líka fram.

Myndir:

Höfundur

Stefán Gíslason

umhverfisstjórnunarfræðingur MSc

Útgáfudagur

30.3.2015

Spyrjandi

Sigrún Gísladóttir, Friðrik Gústaf Friðriksson

Tilvísun

Stefán Gíslason. „Er skynsamlegt að nota maíspoka í staðinn fyrir plastpoka undir rusl? “ Vísindavefurinn, 30. mars 2015. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=68490.

Stefán Gíslason. (2015, 30. mars). Er skynsamlegt að nota maíspoka í staðinn fyrir plastpoka undir rusl? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=68490

Stefán Gíslason. „Er skynsamlegt að nota maíspoka í staðinn fyrir plastpoka undir rusl? “ Vísindavefurinn. 30. mar. 2015. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=68490>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Er skynsamlegt að nota maíspoka í staðinn fyrir plastpoka undir rusl?
Upprunalega spurningin hljóðaði svona:

Nú er mikið átak í gangi að útrýma plasti (að minnsta kosti pokunum) það er svo sannarlega hið besta mál. Oftast er bent á maíspoka í stað plastsins. Ég er því að velta fyrir mér hvaðan allur maísinn er fenginn. Er ef til vill verið að ryðja skóga og rækta maís til að við Vesturlandabúar getum friðað samviskuna og hætt að nota plastpoka, eða eru búnir til pokar úr maís sem annars væri notaður til matar? Þið getið vonandi fundið svar við þessari spurningu.

Ef ætlunin er að nota maíspokana á nákvæmlega sama hátt og plastpokar hafa verið notaðir, þá eru maíspokarnir að öllum líkindum betri frá umhverfislegu sjónarmiði. Þetta á sérstaklega við um þá poka sem fjúka út í veður og vind. Betra væri samt að nota miklu minna af pokum heldur en við gerum í dag og nota þá helst margnota poka. Einnota vörur eru aldrei góðar fyrir umhverfið.

Plast brotnar mjög seint niður við náttúrulegar aðstæður. Plastpokar sem strjúka úr vistinni og sleppa út í náttúruna geta því velkst þar um árum, áratugum eða öldum saman og valdið margvíslegum skaða. Dýr geta til dæmis kafnað við að gleypa plastpoka eða fá þá utan um hálsinn – og ekki má heldur gleyma plastflákunum sem hafa myndast á nokkrum stöðum í úthöfunum þar sem straumar hafa safnað plastinu saman. Plastpokar eiga sinn þátt í þeim.

Víða má finna plastumbúðir í fjörum.

Ef við lítum á hráefnið í maíspokum annars vegar og venjulegum plastpokum hins vegar, þá virðast maíspokarnir hafa nokkra yfirburði í umhverfislegu tilliti. Plönturnar sem leggja til efni í þá fyrrnefndu flokkast jú sem endurnýjanlegar, en plastpokarnir eru unnir úr olíu með öllum þeim umhverfisvandamálum sem því fylgir. Almennt má gera ráð fyrir að til þess að framleiða 1 kg af plasti þurfi 2 kg af olíu. Annað kílóið verður að plasti og hitt kílóið brennur í framleiðsluferlinu. Áætlað hefur verið að Íslendingar noti rúm 1.100 tonn af plastpokum árlega og til að framleiða þessa poka hefur þá þurft rúmlega 2.200 tonn af olíu.

En málið er samt ekki svona einfalt, því að maís er ekki það sama og maís. Til að maíspokarnir hafi raunverulegt forskot á plastpokana þarf olíunotkun í ræktun og framleiðslu að hafa verið innan hóflegra marka, og sama má segja um notkun áburðar og varnarefna. Svo skiptir líka miklu máli á hvers konar landi maísinn var ræktaður. Maíspokarnir hætta til dæmis fljótt að vera sérlega umhverfisvænir ef skógar hafa verið ruddir til að búa til maísakrana. Og ef ræktunin er í beinni samkeppni við fæðuframleiðslu lítur dæmið heldur ekki vel út. Síðarnefnda atriðið skiptir þó líklega sáralitlu máli enn sem komið er, því að varla þarf meira en um 0,5% af maísframleiðslu Evrópu og Bandaríkjanna til að fullnægja allri eftirspurn eftir lífplasti, eins og það efni er gjarnan nefnt sem framleitt er úr efnum úr lífríkinu og er ætlað að leysa olíuplast af hólmi. Auk þess er sífellt meira af lífplasti framleitt úr úrgangi. Það þarf sem sagt ekki alltaf maís til.

Til að maíspokarnir hafi raunverulegt forskot á plastpokana þarf olíunotkun í ræktun og framleiðslu að hafa verið innan hóflegra marka, og sama má segja um notkun áburðar og varnarefna.

Úti í náttúrunni brotna maíspokar niður á nokkrum vikum þannig að lítið verður eftir nema koltvíildi (sem einnig er nefnt koltvísýringur eða koltvíoxið) og vatn. Þess vegna eru þeir líka mun síður hættulegir dýrum en plastpokar. Séu pokarnir hins vegar urðaðir að notkun lokinni lítur dæmið öðruvísi út. Þar hefur hið skjóta niðurbrot maíspokana þann galla í för með sér að þeir breytast tiltölulega hratt í metan, sem er um það bil tuttugu sinnum öflugri gróðurhúsalofttegund en koltvíildi. Plastpokarnir liggja hins vegar væntanlega á sínum stað í haugnum um aldir og verða seint eða aldrei að metani. Þeir taka hins vegar sífellt meira pláss á urðunarstöðum heimsins og taka þannig upp land sem vel hefði mátt nota til annars. Nú til dags er reyndar skylda að safna metangasi frá urðunarstöðum og nýta það eða brenna. Þar með er sá vandi maíspokanna að mestu úr sögunni.

Þegar pokar úr mismunandi efnum eru bornir saman þarf að skoða ýmsa fleiri þætti en þá sem hér hafa verið nefndir. Maíspokar sem blandast saman við plast geta til dæmis spillt endurvinnslu á plastinu. Þetta er sem sagt ekki alveg einfalt.

Eftir því sem næst verður komist standast þeir maíspokar sem fáanlegir eru á Íslandi (í ársbyrjun 2015) allar helstu umhverfiskröfur. Þessir pokar eru líklega allir gerðir úr svokölluðu Mater-Bi-efni, sem framleitt er hjá fyrirtækinu Novamont með höfuðstöðvar á Ítalíu. Þetta efni er framleitt úr fleiru en maís, þar á meðal úr ýmsum hliðarafurðum, svo sem sellulósa, sem er ekki auðvelt að nýta í aðra framleiðslu. Eftir því sem næst verður komist er framleiðslan aldrei í samkeppni við fæðuframleiðslu og hvergi virðist hafa verið rutt nýtt land til að rækta hráefnið. Erfðabreytt efni eru aldrei notuð og pálmaolía og sojabaunaolía koma hvergi við sögu. Auk þess er sífellt unnið að því að þróa orkusparandi vinnsluaðferðir og tækni í endurvinnslu fleygir líka fram.

Myndir:

...