Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Finnast þjóðsögur í öllum löndum?

Rósa Þorsteinsdóttir

Til að svara þessari spurningu verður eiginlega að byrja á því að skilgreina hvað þjóðsaga er. Reyndar ber spurningin með sér að sú sem spyr viti hvað þjóðsögur eru en best er að vera viss um að spyrjandinn, sú sem svarar og þau sem lesa svarið séu öll að tala um sama hlutinn.

Innan hugtaksins þjóðsögur má segja að rúmist allar munnmælasögur, sem sagt sögur sem einn segir öðrum og fólk lærir hvert af öðru án stuðnings bóka. Þjóðsögur geta að sjálfsögðu ratað á bækur, bæði skrifuð handrit og prentaðar bækur, en jafnframt síðar komist aftur út í hina munnlegu geymd.

Slíkt munnlegt sagnaefni hefur stundum verið flokkað í þrennt: ævintýri, sagnir og goðsögur, en skilin á milli þessara sagnagreina eru oft óljós. Ævintýrin eru yfirleitt hafin yfir stað og stund, þau gerast sem sagt „einu sinni fyrir langa löngu“ á einhverjum óræðum stað. Sagnir eru aftur á móti oftast sagðar eins og þær séu sannar, festar við ákveðinn stað og tíma og tengjast jafnvel nafngreindu fólki, huldufólkssögur og draugasögur eru íslensk dæmi um sagnir. Goðsögur segir fólk til að útskýra bæði náttúrufyrirbæri og ýmsa siði og venjur samfélagsins, eða jafnvel til að skýra hvernig heimurinn varð til fyrir mátt einhverra yfirnáttúrlegra afla.

Bræðurnir Jacob og Wilhelm Grimm voru frumkvöðlar í söfnun þjóðsagna snemma á 19. öld.

Í mörgum löndum Evrópu hófst skipuleg söfnun þjóðsagna snemma á 19. öld eftir að bræðurnir Jacob og Wilhelm Grimm höfðu safnað og gefið út ævintýrasafn árið 1812 og safn með þýskum sögnum á árunum 1816 og 1818. Þá kom í ljós að allar evrópskar þjóðir áttu sér svipaðar sögur og bræðurnir höfðu safnað í Þýskalandi. Ekki er það þó þannig að engin spor hafi verið um þjóðsögur fyrr en þá, því mörg eldri sagnasöfn sem byggðu að stórum hluta á munnmælasögum þekktust bæði í öðrum löndum Evrópu, í Miðausturlöndum og Austur-Asíu. Sem dæmi má nefna hið vel þekkta sagnasafn Þúsund og ein nótt með sögum frá vestur- og suðurhlutum Asíu.

Þegar í ljós kom að líkar sögur voru til í mörgum mismunandi löndum fóru þjóðsagnafræðingar fljótlega að safna saman dæmum um líkar sögur frá flestum heimshornum og eru Öskubuskusögur til að mynda gott dæmi um slíkar, en þær er að finna víða um heim þar sem hvert tilbrigði tekur mynd af samfélaginu sem það er sagt í. Við þessa vinnu fræðinganna varð smám saman til skrá yfir sagnagerðir með tilvísunum til þess hvar tilbrigði sagnanna er að finna í heiminum. Skrá sem slík verður samt aldrei tæmandi þar sem söfnun og skráning þjósagna er ekki jöfn yfir allan heiminn, en hún gefur þó góða mynd af því hvað þjóðsögur finnast í mörgum samfélögum. Nýjasta skráin af þessu tagi er frá árinu 2004.

Í nútímalegu tæknisamfélagi geta sögur að sjálfsögðu dreifst á Netinu eins og munnlega, en einnig verður að geta þess að alls ekki hafa allar sögur í heiminum verið skráðar. Til eru samfélög þar sem tungumálið sem talað er á sér ekkert ritmál og sögur og annar fróðleikur gengur eingöngu í munnmælum og hver lærir af öðrum. Þá verður einnig að hafa í huga að til eru margar aðferðir við að segja sögur svo sem með söng, dansi og myndum.

Ekki ætla ég að halda því fram að ég þekki til hvers einasta samfélags í heiminum, en miðað við það sem ég veit á ég bágt með að trúa því að einhvers staðar finnist fólk sem ekki segir sögur af einhverju tagi. Bandaríski rithöfundurinn Ursula K. LeGuin hefur líka sagt að til hafi verið mikil menningarsamfélög þar sem hjólið hafi ekki verið notað, en það hafi aldrei verið til samfélög þar sem ekki voru sagðar sögur (sjá ekostories.com/about-ekostories).

Heimildir og mynd:

  • Jón Hnefill Aðalsteinsson. „Þjóðsögur og sagnir.“ Í Íslensk þjóðmenning VI. Munnmenntir og bókmenntir. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson. Reykjavík: Þjóðsaga, 1989, bls. 228–290.
  • Anna Birgitta Rooth. Öskubuska í austri og vestri. Þýð. Svava Jakobsdóttir og Jón Hnefill Aðalsteinsson. Reykjavík: Iðunn, 1982.
  • Hans-Jörg Uther. The Types of International Folktales. A Classification and Bibliography. 3 bindi. Helsinki: Suomalainen Tiedeakatemia, 2004.
  • Mynd af Grimmsbræðrum: Grimm.jpg - Wikimedia Commons. Málverk frá 1855 eftir Elisabeth Jerichau-Baumann (1819–1881). (Sótt 21. 5. 2015).
  • Writers Write Creative Blog. (Sótt 21. 5, 2015).

Höfundur

Rósa Þorsteinsdóttir

rannsóknarlektor á þjóðfræðisviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum

Útgáfudagur

22.5.2015

Spyrjandi

Jónbjörg Erla Kristjánsdóttir

Tilvísun

Rósa Þorsteinsdóttir. „Finnast þjóðsögur í öllum löndum?“ Vísindavefurinn, 22. maí 2015. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=68723.

Rósa Þorsteinsdóttir. (2015, 22. maí). Finnast þjóðsögur í öllum löndum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=68723

Rósa Þorsteinsdóttir. „Finnast þjóðsögur í öllum löndum?“ Vísindavefurinn. 22. maí. 2015. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=68723>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Finnast þjóðsögur í öllum löndum?
Til að svara þessari spurningu verður eiginlega að byrja á því að skilgreina hvað þjóðsaga er. Reyndar ber spurningin með sér að sú sem spyr viti hvað þjóðsögur eru en best er að vera viss um að spyrjandinn, sú sem svarar og þau sem lesa svarið séu öll að tala um sama hlutinn.

Innan hugtaksins þjóðsögur má segja að rúmist allar munnmælasögur, sem sagt sögur sem einn segir öðrum og fólk lærir hvert af öðru án stuðnings bóka. Þjóðsögur geta að sjálfsögðu ratað á bækur, bæði skrifuð handrit og prentaðar bækur, en jafnframt síðar komist aftur út í hina munnlegu geymd.

Slíkt munnlegt sagnaefni hefur stundum verið flokkað í þrennt: ævintýri, sagnir og goðsögur, en skilin á milli þessara sagnagreina eru oft óljós. Ævintýrin eru yfirleitt hafin yfir stað og stund, þau gerast sem sagt „einu sinni fyrir langa löngu“ á einhverjum óræðum stað. Sagnir eru aftur á móti oftast sagðar eins og þær séu sannar, festar við ákveðinn stað og tíma og tengjast jafnvel nafngreindu fólki, huldufólkssögur og draugasögur eru íslensk dæmi um sagnir. Goðsögur segir fólk til að útskýra bæði náttúrufyrirbæri og ýmsa siði og venjur samfélagsins, eða jafnvel til að skýra hvernig heimurinn varð til fyrir mátt einhverra yfirnáttúrlegra afla.

Bræðurnir Jacob og Wilhelm Grimm voru frumkvöðlar í söfnun þjóðsagna snemma á 19. öld.

Í mörgum löndum Evrópu hófst skipuleg söfnun þjóðsagna snemma á 19. öld eftir að bræðurnir Jacob og Wilhelm Grimm höfðu safnað og gefið út ævintýrasafn árið 1812 og safn með þýskum sögnum á árunum 1816 og 1818. Þá kom í ljós að allar evrópskar þjóðir áttu sér svipaðar sögur og bræðurnir höfðu safnað í Þýskalandi. Ekki er það þó þannig að engin spor hafi verið um þjóðsögur fyrr en þá, því mörg eldri sagnasöfn sem byggðu að stórum hluta á munnmælasögum þekktust bæði í öðrum löndum Evrópu, í Miðausturlöndum og Austur-Asíu. Sem dæmi má nefna hið vel þekkta sagnasafn Þúsund og ein nótt með sögum frá vestur- og suðurhlutum Asíu.

Þegar í ljós kom að líkar sögur voru til í mörgum mismunandi löndum fóru þjóðsagnafræðingar fljótlega að safna saman dæmum um líkar sögur frá flestum heimshornum og eru Öskubuskusögur til að mynda gott dæmi um slíkar, en þær er að finna víða um heim þar sem hvert tilbrigði tekur mynd af samfélaginu sem það er sagt í. Við þessa vinnu fræðinganna varð smám saman til skrá yfir sagnagerðir með tilvísunum til þess hvar tilbrigði sagnanna er að finna í heiminum. Skrá sem slík verður samt aldrei tæmandi þar sem söfnun og skráning þjósagna er ekki jöfn yfir allan heiminn, en hún gefur þó góða mynd af því hvað þjóðsögur finnast í mörgum samfélögum. Nýjasta skráin af þessu tagi er frá árinu 2004.

Í nútímalegu tæknisamfélagi geta sögur að sjálfsögðu dreifst á Netinu eins og munnlega, en einnig verður að geta þess að alls ekki hafa allar sögur í heiminum verið skráðar. Til eru samfélög þar sem tungumálið sem talað er á sér ekkert ritmál og sögur og annar fróðleikur gengur eingöngu í munnmælum og hver lærir af öðrum. Þá verður einnig að hafa í huga að til eru margar aðferðir við að segja sögur svo sem með söng, dansi og myndum.

Ekki ætla ég að halda því fram að ég þekki til hvers einasta samfélags í heiminum, en miðað við það sem ég veit á ég bágt með að trúa því að einhvers staðar finnist fólk sem ekki segir sögur af einhverju tagi. Bandaríski rithöfundurinn Ursula K. LeGuin hefur líka sagt að til hafi verið mikil menningarsamfélög þar sem hjólið hafi ekki verið notað, en það hafi aldrei verið til samfélög þar sem ekki voru sagðar sögur (sjá ekostories.com/about-ekostories).

Heimildir og mynd:

  • Jón Hnefill Aðalsteinsson. „Þjóðsögur og sagnir.“ Í Íslensk þjóðmenning VI. Munnmenntir og bókmenntir. Ritstj. Frosti F. Jóhannsson. Reykjavík: Þjóðsaga, 1989, bls. 228–290.
  • Anna Birgitta Rooth. Öskubuska í austri og vestri. Þýð. Svava Jakobsdóttir og Jón Hnefill Aðalsteinsson. Reykjavík: Iðunn, 1982.
  • Hans-Jörg Uther. The Types of International Folktales. A Classification and Bibliography. 3 bindi. Helsinki: Suomalainen Tiedeakatemia, 2004.
  • Mynd af Grimmsbræðrum: Grimm.jpg - Wikimedia Commons. Málverk frá 1855 eftir Elisabeth Jerichau-Baumann (1819–1881). (Sótt 21. 5. 2015).
  • Writers Write Creative Blog. (Sótt 21. 5, 2015).

...