Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Hver er skilgreiningin á epík, lýrik og dramatík?

Jón Gunnar Þorsteinsson

Epík, lýrik og dramatík eru þrjár höfuðgreinar bókmennta. Hugtökin eru öll komin úr grísku. Hér verður einkum fjallað um upphaflega merkingu orðanna og tengsl hennar við síðari tíma, en auk þess hafa sum þeirra bætt við sig nýrri merkingu.

Epík er dregið af gríska orðinu epos en frummerking þess er "það sem sagt er" enda er epík frásagnarskáldskapur. Þekktustu dæmin um epískan skáldskap úr fornöld eru Ódysseifs- og Ilíonskviða gríska skáldsins Hómers og Eneasarkviða eftir rómverska skáldið Virgil. Segja má að nú hafi skáldsöguhugtakið komið í stað hins gamla epos. Þýski heimspekingurinn G. W. F. Hegel (1770-1831) kallaði skáldsöguna sögulegt epos síns tíma.


Mósaíkmynd af grískum leikhúsgrímum.

Dramatík er myndað eftir gríska orðinu drama sem merkir 'athöfn, framkvæmd, atburðarás'. Í dramatík í upphaflegri merkingu orðsins eiga atburðirnir sér yfirleitt stað í nútíð og dramatík tengdist leiksviði hjá Forngrikkjum. Epíkin er aftur á móti frásögn sögumanns af atburðum sem hafa gerst eða eiga að hafa gerst. Á íslensku er orðið leikritun stundum notað fyrir dramatík.

Lýrik er dregið af gríska orðinu lyra sem var strengjahljóðfæri. Í upphafi átti orðið lýrik aðeins við söng með lýruundirleik en nú er það samheiti yfir kveðskap sem túlkar helst tilfinningar og hugblæ. Lýrískur skáldskapur er andstæða epísks skáldskapar sem lýsir frekar því ytra og hlutlæga og segir af atburðum sem hafa gerst eða eiga að hafa gerst, ólíkt hinu lýríska sem lýtur að núinu eða hinu ókomna og lýsir oft hinu huglæga án þess að vísa endilega til atburða.

Einnig má minnast á orðið dídaktík sem er notað um fræðiljóð eða fræðiskáldskap. Dídaktík er dregið af gríska orðinu didaskein sem merkir 'kenna'. Dídaktískur skáldskapur hefur fræðslu að meginmarkmiði. Kunn fræðiljóð eru til dæmis Verk og dagar eftir gríska skáldið Hesíodos sem fjallar um landbúnað og Um eðli hlutanna eftir Rómverjann Lucretius sem er einnig þekkt undir latneska heitinu, De rerum natura. Af íslenskum dídaktískum skáldskap má nefna Búnaðarbálk eftir Eggert Ólafsson. Rétt er að nefna að sumir gera lítinn greinarmun á dídaktík og epík.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd:
  • Aristóteles, Um skáldskaparlistina (þýð. Kristján Árnason), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1976.
  • Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Mál og menning, Reykjavík 1989.
  • Kristján Árnason, "Forngrísk ljóðlist", í Grikkland ár og síð (ritstj. Sigurður A. Magnússon o. fl.), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1991, s. 163-179.
  • Greek Masks

Höfundur

Jón Gunnar Þorsteinsson

bókmenntafræðingur og ritstjóri Vísindavefsins

Útgáfudagur

31.10.2007

Spyrjandi

Ingibjörg Þórðardóttir

Tilvísun

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hver er skilgreiningin á epík, lýrik og dramatík?“ Vísindavefurinn, 31. október 2007. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=6877.

Jón Gunnar Þorsteinsson. (2007, 31. október). Hver er skilgreiningin á epík, lýrik og dramatík? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=6877

Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hver er skilgreiningin á epík, lýrik og dramatík?“ Vísindavefurinn. 31. okt. 2007. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=6877>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Hver er skilgreiningin á epík, lýrik og dramatík?
Epík, lýrik og dramatík eru þrjár höfuðgreinar bókmennta. Hugtökin eru öll komin úr grísku. Hér verður einkum fjallað um upphaflega merkingu orðanna og tengsl hennar við síðari tíma, en auk þess hafa sum þeirra bætt við sig nýrri merkingu.

Epík er dregið af gríska orðinu epos en frummerking þess er "það sem sagt er" enda er epík frásagnarskáldskapur. Þekktustu dæmin um epískan skáldskap úr fornöld eru Ódysseifs- og Ilíonskviða gríska skáldsins Hómers og Eneasarkviða eftir rómverska skáldið Virgil. Segja má að nú hafi skáldsöguhugtakið komið í stað hins gamla epos. Þýski heimspekingurinn G. W. F. Hegel (1770-1831) kallaði skáldsöguna sögulegt epos síns tíma.


Mósaíkmynd af grískum leikhúsgrímum.

Dramatík er myndað eftir gríska orðinu drama sem merkir 'athöfn, framkvæmd, atburðarás'. Í dramatík í upphaflegri merkingu orðsins eiga atburðirnir sér yfirleitt stað í nútíð og dramatík tengdist leiksviði hjá Forngrikkjum. Epíkin er aftur á móti frásögn sögumanns af atburðum sem hafa gerst eða eiga að hafa gerst. Á íslensku er orðið leikritun stundum notað fyrir dramatík.

Lýrik er dregið af gríska orðinu lyra sem var strengjahljóðfæri. Í upphafi átti orðið lýrik aðeins við söng með lýruundirleik en nú er það samheiti yfir kveðskap sem túlkar helst tilfinningar og hugblæ. Lýrískur skáldskapur er andstæða epísks skáldskapar sem lýsir frekar því ytra og hlutlæga og segir af atburðum sem hafa gerst eða eiga að hafa gerst, ólíkt hinu lýríska sem lýtur að núinu eða hinu ókomna og lýsir oft hinu huglæga án þess að vísa endilega til atburða.

Einnig má minnast á orðið dídaktík sem er notað um fræðiljóð eða fræðiskáldskap. Dídaktík er dregið af gríska orðinu didaskein sem merkir 'kenna'. Dídaktískur skáldskapur hefur fræðslu að meginmarkmiði. Kunn fræðiljóð eru til dæmis Verk og dagar eftir gríska skáldið Hesíodos sem fjallar um landbúnað og Um eðli hlutanna eftir Rómverjann Lucretius sem er einnig þekkt undir latneska heitinu, De rerum natura. Af íslenskum dídaktískum skáldskap má nefna Búnaðarbálk eftir Eggert Ólafsson. Rétt er að nefna að sumir gera lítinn greinarmun á dídaktík og epík.

Frekara lesefni á Vísindavefnum

Heimildir og mynd:
  • Aristóteles, Um skáldskaparlistina (þýð. Kristján Árnason), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1976.
  • Jakob Benediktsson (ritstj.), Hugtök og heiti í bókmenntafræði, Mál og menning, Reykjavík 1989.
  • Kristján Árnason, "Forngrísk ljóðlist", í Grikkland ár og síð (ritstj. Sigurður A. Magnússon o. fl.), Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 1991, s. 163-179.
  • Greek Masks
...