Sólin Sólin Rís 05:40 • sest 21:16 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 15:13 • Sest 05:59 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 03:57 • Síðdegis: 16:31 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:23 • Síðdegis: 22:34 í Reykjavík
Árnastofnun - mynd í *Árnarstofnun

Var til sérstök stétt skrifara á miðöldum?

Guðvarður Már Gunnlaugsson

Oft er orðið skrifari skilgreint þannig að um sé að ræða mann sem skrifar bækur eða skjöl í atvinnuskyni. Þessi skilgreining á við síðari aldir (fyrir tíma ritvélarinnar) þegar margir embættismenn og opinberar stofnanir urðu að hafa skrifara við vinnu.

Á miðöldum var samfélagið ekki eins flókið og nú og opinber stjórnsýsla mun umfangsminni en síðar varð. Samt sem áður urðu allir konungar og aðrir furstar að hafa skrifara í vinnu við að skrifa bréf, skjöl og handrit. Sem dæmi um slíkt má nefna það þegar færeyska sauðabréfið var skrifað en frumritið er varðveitt í handriti sem er kallað Kongsbókin á færeysku.

Frumrit færeyska sauðabréfsins er varðveitt í handriti sem kallað er Kongsbókin á færeysku.

Sauðabréfið, sem heitir Seyðabrævið á færeysku, er ekki bréf í venjulegri merkingu þess orðs, heldur réttarbót eða konungleg tilskipun sem hafði lagagildi sem viðbót við eða breyting á gildandi lögum. Réttarbótin sjálf er á átta blaðsíðum. Neðanmáls þvert yfir 4. og 5. blaðsíðu er skrifuð skýring með textanum. Í henni kemur fram að séra Teitur hafi skrifað Sauðabréfið í Túnsbergi í Víkinni 28. júní árið 1298, að Áki kanslari (innsiglisvörður) hafi innsiglað það og að Bárður Pétursson notarius hafi skrifað skýringarklausuna. Notarius var einmitt það orð sem margir skrifarar á miðöldum notuðu um sig en Bárður var skrifari konungs.

Skrifari og innsiglisvörður voru nánustu aðstoðarmenn konunga sem sést enn þann dag í dag á starfsheitum sumra æðstu ráðamanna hér á Vesturlöndum; en til dæmis er forsætisráðherra Þýskalands kallaður Kanzler og ráðherrar í enskumælandi ríkjum eru stundum kallaðir secretaries. Eini skrifarinn á Íslandi, sem vitað er að hafi kallað sig notarius, var Jón Egilsson, sem var skrifari Hólabiskups á fyrri hluta 15. aldar en hann titlaði sig notarius publicus. Til eru mörg fornbréf, það eru skjöl, með hans hendi.

Í borgum og bæjum sunnar í Evrópu voru á síðmiðöldum (eftir 1200) starfandi skrifarar sem höfðu lífsviðurværi sitt af því að skrifa fyrir aðra. Sumir afrituðu kver fyrir háskóla, aðrir skrifuðu handrit eftir pöntunum og enn aðrir sátu á torgum og rituðu bréf fyrir alla alþýðu manna. Fyrir tíma háskólanna og vaxandi borga voru flest handrit skrifuð fyrir kirkjur og klausturbókasöfn og þeir sem skrifuðu voru því annað hvort munkar eða prestar og djáknar að aðalstarfi.

Tíðabækur eru mikið skreyttar og fallegar bækur. Á myndinni má sjá tíðabók kennda við Utrecht í Hollandi.

Á 13. öld og síðar jókst til muna áhugi efnaðs fólks á að eignast fín og dýr handrit, til dæmis tíðabækur (e. Books of hours) og er mikið til af ákaflega fallega skreyttum bókum af því tagi frá 15. öld; háskólum fjölgaði til muna og stjórnsýsla efldist með stórauknum bréfaskriftum. Jafnframt fjölgaði alþýðufólki sem vildi senda bréf af einhverju tagi og fékk skrifara á næsta markaðstorgi til að skrifa það fyrir sig.

Niðurstaðan er því sú að spurningunni verði að svara játandi ef litið er til síðmiðalda á Englandi og meginlandi Evrópu, en ef til vill voru aldrei nógu margir atvinnuskrifarar starfandi samtímis á Íslandi til að hægt sé að tala um stétt manna. Hlutverk skrifara breyttist mjög með tilkomu prentunar; annars vegar fækkaði mjög þeim sem létu skrifa fyrir sig handrit en á hinn bóginn varð stjórnsýsla umfangsmeiri og fleiri og fleiri menn störfuðu sem ritarar og skrifuðu bréf og skjöl og færðu bókhald. Þessi breyting tók þó lengri tíma á Íslandi en víða annars staðar vegna þess að eina prentsmiðja landsins var lengi vel aðeins notuð til að prenta guðsorð og lög.

Myndir:

Höfundur

Guðvarður Már Gunnlaugsson

rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar

Útgáfudagur

1.6.2015

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Var til sérstök stétt skrifara á miðöldum? “ Vísindavefurinn, 1. júní 2015. Sótt 19. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70121.

Guðvarður Már Gunnlaugsson. (2015, 1. júní). Var til sérstök stétt skrifara á miðöldum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70121

Guðvarður Már Gunnlaugsson. „Var til sérstök stétt skrifara á miðöldum? “ Vísindavefurinn. 1. jún. 2015. Vefsíða. 19. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70121>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Var til sérstök stétt skrifara á miðöldum?
Oft er orðið skrifari skilgreint þannig að um sé að ræða mann sem skrifar bækur eða skjöl í atvinnuskyni. Þessi skilgreining á við síðari aldir (fyrir tíma ritvélarinnar) þegar margir embættismenn og opinberar stofnanir urðu að hafa skrifara við vinnu.

Á miðöldum var samfélagið ekki eins flókið og nú og opinber stjórnsýsla mun umfangsminni en síðar varð. Samt sem áður urðu allir konungar og aðrir furstar að hafa skrifara í vinnu við að skrifa bréf, skjöl og handrit. Sem dæmi um slíkt má nefna það þegar færeyska sauðabréfið var skrifað en frumritið er varðveitt í handriti sem er kallað Kongsbókin á færeysku.

Frumrit færeyska sauðabréfsins er varðveitt í handriti sem kallað er Kongsbókin á færeysku.

Sauðabréfið, sem heitir Seyðabrævið á færeysku, er ekki bréf í venjulegri merkingu þess orðs, heldur réttarbót eða konungleg tilskipun sem hafði lagagildi sem viðbót við eða breyting á gildandi lögum. Réttarbótin sjálf er á átta blaðsíðum. Neðanmáls þvert yfir 4. og 5. blaðsíðu er skrifuð skýring með textanum. Í henni kemur fram að séra Teitur hafi skrifað Sauðabréfið í Túnsbergi í Víkinni 28. júní árið 1298, að Áki kanslari (innsiglisvörður) hafi innsiglað það og að Bárður Pétursson notarius hafi skrifað skýringarklausuna. Notarius var einmitt það orð sem margir skrifarar á miðöldum notuðu um sig en Bárður var skrifari konungs.

Skrifari og innsiglisvörður voru nánustu aðstoðarmenn konunga sem sést enn þann dag í dag á starfsheitum sumra æðstu ráðamanna hér á Vesturlöndum; en til dæmis er forsætisráðherra Þýskalands kallaður Kanzler og ráðherrar í enskumælandi ríkjum eru stundum kallaðir secretaries. Eini skrifarinn á Íslandi, sem vitað er að hafi kallað sig notarius, var Jón Egilsson, sem var skrifari Hólabiskups á fyrri hluta 15. aldar en hann titlaði sig notarius publicus. Til eru mörg fornbréf, það eru skjöl, með hans hendi.

Í borgum og bæjum sunnar í Evrópu voru á síðmiðöldum (eftir 1200) starfandi skrifarar sem höfðu lífsviðurværi sitt af því að skrifa fyrir aðra. Sumir afrituðu kver fyrir háskóla, aðrir skrifuðu handrit eftir pöntunum og enn aðrir sátu á torgum og rituðu bréf fyrir alla alþýðu manna. Fyrir tíma háskólanna og vaxandi borga voru flest handrit skrifuð fyrir kirkjur og klausturbókasöfn og þeir sem skrifuðu voru því annað hvort munkar eða prestar og djáknar að aðalstarfi.

Tíðabækur eru mikið skreyttar og fallegar bækur. Á myndinni má sjá tíðabók kennda við Utrecht í Hollandi.

Á 13. öld og síðar jókst til muna áhugi efnaðs fólks á að eignast fín og dýr handrit, til dæmis tíðabækur (e. Books of hours) og er mikið til af ákaflega fallega skreyttum bókum af því tagi frá 15. öld; háskólum fjölgaði til muna og stjórnsýsla efldist með stórauknum bréfaskriftum. Jafnframt fjölgaði alþýðufólki sem vildi senda bréf af einhverju tagi og fékk skrifara á næsta markaðstorgi til að skrifa það fyrir sig.

Niðurstaðan er því sú að spurningunni verði að svara játandi ef litið er til síðmiðalda á Englandi og meginlandi Evrópu, en ef til vill voru aldrei nógu margir atvinnuskrifarar starfandi samtímis á Íslandi til að hægt sé að tala um stétt manna. Hlutverk skrifara breyttist mjög með tilkomu prentunar; annars vegar fækkaði mjög þeim sem létu skrifa fyrir sig handrit en á hinn bóginn varð stjórnsýsla umfangsmeiri og fleiri og fleiri menn störfuðu sem ritarar og skrifuðu bréf og skjöl og færðu bókhald. Þessi breyting tók þó lengri tíma á Íslandi en víða annars staðar vegna þess að eina prentsmiðja landsins var lengi vel aðeins notuð til að prenta guðsorð og lög.

Myndir: ...