Sólin Sólin Rís 05:51 • sest 21:06 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 09:47 • Sest 06:52 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 00:02 • Síðdegis: 12:48 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 06:36 • Síðdegis: 18:53 í Reykjavík

Ég er með gest frá Mexíkó, hvert er best að fara til að sýna honum hvar jarðskorpuflekarnir mætast?

Snæbjörn Guðmundsson

Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Ég er með mann frá Mexíkó í heimsókn hjá mér, og spyr hvort og hvar við getum séð sprungu þar sem Norður-Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn mætast? Hann langar mikið til að skoða það. Ég er á Akureyri og væri til í að fá upplýsingar um hvort við getum farið héðan og litið á þetta?

Í svari undirritaðs við spurningunni: Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn? kemur fram hvar flekaskilin liggja um landið frá Reykjanesskaganum norðaustur í Vatnajökul og þaðan í gegnum Ódáðahraun norður að Tjörnesi og Öxarfirði. Meira og minna alls staðar á þessari leið má sjá merki flekareksins en ummerkin eru þó mismunandi eftir svæðum. Víðast hvar eru flekaskilin mörkuð fjölda eldstöðva, sem gefið hafa af sér hraun af ýmsum stærðum og gerðum. Þetta er til að mynda áberandi á Reykjanesskaganum og á hálendinu milli Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls, þar sem gríðarumfangsmikil eldgos hafa átt sér stað síðustu árþúsundin. Á Suðurlandsbrotabeltinu er engin eldvirkni heldur birtast flekaskilin í mikilli jarðskjálftavirkni og umfangsmiklum jarðskjálftasprungusvæðum.

Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu jarðskjálfta á Íslandi. Á kortið eru flekaskilin dregin inn með bláum lit. Þykkt línunnar sýnir hinn mismikla hraða gliðnunarinnar á flekaskilunum. Mesta gliðnunin á suðurhluta landsins er á austurgosbeltinu milli Torfajökuls og Vatnajökuls á meðan gliðnunin er miklu minni á vestugosbeltinu frá Hengli norður í Langjökul. Heiti jarðskorpuflekanna eru merkt inn á kortið auk örva sem gefa til kynna rekstefnu flekanna.

Enn annars staðar eru stakar og stórar megineldstöðvar áberandi, svo sem í Vatnajökli og á flekaskilunum þar norður af en þar eru stærstar eldstöðvarnar Askja í Dyngjufjöllum og Krafla, norðaustur af Mývatni. Við þessar eldstöðvar á sér stað rek milli flekanna tveggja, Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans, eins og spyrjandi nefnir í spurningunni. Flekaskilin eru hins vegar ekki ein áberandi sprunga eins og margir eflaust ímynda sér, heldur sjást þau í landslaginu sem margar samsíða sprungur, yfirleitt með suður-norður stefnu. Sprungurnar verða til þegar jörðin rifnar í sundur og sekkur þá gjarnan landið öðrum megin sprungunnar svo áberandi langur og beinn stallur myndast í landslaginu. Slík landform kallast misgengi og eru hinir áberandi stallar gjarnan kallaðir misgengisstallar.

Víða má sjá slík misgengi á Norðurlandi, til dæmis norður og austur af Mývatni. Misgengin þekkjast á beinum og löngum stöllunum. Oft eru brúnir misgengjanna máðar eða ávalar, sérstaklega ef misgengin eru gömul eða ef þau verða í efni sem rennur til eins og sandi eða jarðvegi. Slík misgengi eru við Húsavík og sjást þau vel þegar ekið er úr bænum í norðurátt. Ef misgengissprungur myndast í hraunum eða gróðurvana jörð myndast hins vegar skarpir misgengisstallar, jafnvel há og löng klettabelti. Slíkar myndanir eru til að mynda áberandi á austanverðu Tjörnesi þegar ekið er niður í Öxarfjörð.

Séð til suðurs yfir Mývatn. Það er í raun ekki hægt að benda á eina sprungu sem flekamótin liggja um, því flekamótin eru nokkuð breitt svæði. Þó er hægt að sjá ummerki og hluta af sprungum með því að heimsækja hin eldvirku svæði Norðaustanlands, til dæmis suður og austur af Mývatni.

Til að svara spurningunni í stuttu máli, þá er í raun ekki hægt að benda á eina sprungu sem flekamótin liggja um, því flekamótin eru nokkuð breitt svæði. Ef mexíkóski gesturinn sættir sig hins vegar við að sjá einfaldlega ummerki flekareksins og hluta af sprungum sem myndast hafa vegna þess, er hentugast að heimsækja hin eldvirku svæði Norðaustanlands, svo sem við Mývatn eða við sjávarströndina á Tjörnesi og í botni Öxarfjarðar. Besta yfirlitið fæst mögulega með því að fara austur á Tjörnes og skoða misgengisstallana við vestanverðan Öxarfjörð og um leið horfa yfir Kelduhverfið yfir á Melrakkasléttu en um það svæði liggja einmitt flekaskilin.

Mynd:

Kort:
  • Snæbjörn Guðmundsson.

Höfundur

Snæbjörn Guðmundsson

jarðfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands

Útgáfudagur

6.7.2015

Spyrjandi

Anna Jóna Vigfúsdóttir

Tilvísun

Snæbjörn Guðmundsson. „Ég er með gest frá Mexíkó, hvert er best að fara til að sýna honum hvar jarðskorpuflekarnir mætast? “ Vísindavefurinn, 6. júlí 2015. Sótt 16. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70257.

Snæbjörn Guðmundsson. (2015, 6. júlí). Ég er með gest frá Mexíkó, hvert er best að fara til að sýna honum hvar jarðskorpuflekarnir mætast? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70257

Snæbjörn Guðmundsson. „Ég er með gest frá Mexíkó, hvert er best að fara til að sýna honum hvar jarðskorpuflekarnir mætast? “ Vísindavefurinn. 6. júl. 2015. Vefsíða. 16. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70257>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Ég er með gest frá Mexíkó, hvert er best að fara til að sýna honum hvar jarðskorpuflekarnir mætast?
Upprunalega hljóðaði spurningin svona:

Ég er með mann frá Mexíkó í heimsókn hjá mér, og spyr hvort og hvar við getum séð sprungu þar sem Norður-Ameríkuflekinn og Evrasíuflekinn mætast? Hann langar mikið til að skoða það. Ég er á Akureyri og væri til í að fá upplýsingar um hvort við getum farið héðan og litið á þetta?

Í svari undirritaðs við spurningunni: Er annar hluti Almannagjár virkilega Norður-Ameríkuflekinn og hinn Evrasíuflekinn? kemur fram hvar flekaskilin liggja um landið frá Reykjanesskaganum norðaustur í Vatnajökul og þaðan í gegnum Ódáðahraun norður að Tjörnesi og Öxarfirði. Meira og minna alls staðar á þessari leið má sjá merki flekareksins en ummerkin eru þó mismunandi eftir svæðum. Víðast hvar eru flekaskilin mörkuð fjölda eldstöðva, sem gefið hafa af sér hraun af ýmsum stærðum og gerðum. Þetta er til að mynda áberandi á Reykjanesskaganum og á hálendinu milli Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls, þar sem gríðarumfangsmikil eldgos hafa átt sér stað síðustu árþúsundin. Á Suðurlandsbrotabeltinu er engin eldvirkni heldur birtast flekaskilin í mikilli jarðskjálftavirkni og umfangsmiklum jarðskjálftasprungusvæðum.

Yfirlitskort sem sýnir staðsetningu jarðskjálfta á Íslandi. Á kortið eru flekaskilin dregin inn með bláum lit. Þykkt línunnar sýnir hinn mismikla hraða gliðnunarinnar á flekaskilunum. Mesta gliðnunin á suðurhluta landsins er á austurgosbeltinu milli Torfajökuls og Vatnajökuls á meðan gliðnunin er miklu minni á vestugosbeltinu frá Hengli norður í Langjökul. Heiti jarðskorpuflekanna eru merkt inn á kortið auk örva sem gefa til kynna rekstefnu flekanna.

Enn annars staðar eru stakar og stórar megineldstöðvar áberandi, svo sem í Vatnajökli og á flekaskilunum þar norður af en þar eru stærstar eldstöðvarnar Askja í Dyngjufjöllum og Krafla, norðaustur af Mývatni. Við þessar eldstöðvar á sér stað rek milli flekanna tveggja, Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans, eins og spyrjandi nefnir í spurningunni. Flekaskilin eru hins vegar ekki ein áberandi sprunga eins og margir eflaust ímynda sér, heldur sjást þau í landslaginu sem margar samsíða sprungur, yfirleitt með suður-norður stefnu. Sprungurnar verða til þegar jörðin rifnar í sundur og sekkur þá gjarnan landið öðrum megin sprungunnar svo áberandi langur og beinn stallur myndast í landslaginu. Slík landform kallast misgengi og eru hinir áberandi stallar gjarnan kallaðir misgengisstallar.

Víða má sjá slík misgengi á Norðurlandi, til dæmis norður og austur af Mývatni. Misgengin þekkjast á beinum og löngum stöllunum. Oft eru brúnir misgengjanna máðar eða ávalar, sérstaklega ef misgengin eru gömul eða ef þau verða í efni sem rennur til eins og sandi eða jarðvegi. Slík misgengi eru við Húsavík og sjást þau vel þegar ekið er úr bænum í norðurátt. Ef misgengissprungur myndast í hraunum eða gróðurvana jörð myndast hins vegar skarpir misgengisstallar, jafnvel há og löng klettabelti. Slíkar myndanir eru til að mynda áberandi á austanverðu Tjörnesi þegar ekið er niður í Öxarfjörð.

Séð til suðurs yfir Mývatn. Það er í raun ekki hægt að benda á eina sprungu sem flekamótin liggja um, því flekamótin eru nokkuð breitt svæði. Þó er hægt að sjá ummerki og hluta af sprungum með því að heimsækja hin eldvirku svæði Norðaustanlands, til dæmis suður og austur af Mývatni.

Til að svara spurningunni í stuttu máli, þá er í raun ekki hægt að benda á eina sprungu sem flekamótin liggja um, því flekamótin eru nokkuð breitt svæði. Ef mexíkóski gesturinn sættir sig hins vegar við að sjá einfaldlega ummerki flekareksins og hluta af sprungum sem myndast hafa vegna þess, er hentugast að heimsækja hin eldvirku svæði Norðaustanlands, svo sem við Mývatn eða við sjávarströndina á Tjörnesi og í botni Öxarfjarðar. Besta yfirlitið fæst mögulega með því að fara austur á Tjörnes og skoða misgengisstallana við vestanverðan Öxarfjörð og um leið horfa yfir Kelduhverfið yfir á Melrakkasléttu en um það svæði liggja einmitt flekaskilin.

Mynd:

Kort:
  • Snæbjörn Guðmundsson.

...