Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Orkumenning og orkusaga

Þorsteinn Vilhjálmsson

Ef til vill má orða meginniðurstöður erindisins þannig að "enginn er eyland". Þróun íslenskra orkumála gerist ekki í óbreytanlegum einangrunarklefa heldur í víðu og síbreytilegu samhengi. Þetta gildir hvort sem litið er til þróunar í orkuvinnslu, umhverfismálum, stóriðju eða til dæmis í heimilistækjum og lífsháttum hins almenna notanda á hverjum tíma. Við skoðum nokkur slík mál til að læra af þeim en viljum þó varast vandlætingu. Slíkt á ekki heima í fræðilegri söguiðkun enda er fátt auðveldara en að vera vitur eftir á.

Ágrip

Í þessu yfirlitserindi verður leitast við að gefa mynd af nokkrum þáttum orkumála á tuttugustu öld. Einkum verður fjallað um íslensk orkumál en þó ekki litið framhjá samhengi þeirra við framvinduna á alþjóðlegum vettvangi. Áhersla er lögð á grundvallarviðhorf sem ráðið hafa þróuninni og hvernig þau hafa breyst í tímans rás. Jafnframt er lýst dæmum um það hvernig orkusagan tvinnast saman við aðra tækni, stjórnmálasögu og hugmyndasögu, sem og lífshætti og lífskjör. Um leið er orkusagan góður spegill fyrir margt sem varðar framvindu í almennri sögu.

Ef til vill má orða meginniðurstöður erindisins þannig að "enginn er eyland". Þróun íslenskra orkumála gerist ekki í óbreytanlegum einangrunarklefa heldur í víðu og síbreytilegu samhengi. Þetta gildir hvort sem litið er til þróunar í orkuvinnslu, umhverfismálum, stóriðju eða til dæmis í heimilistækjum og lífsháttum hins almenna notanda á hverjum tíma. Við skoðum nokkur slík mál til að læra af þeim en viljum þó varast vandlætingu. Slíkt á ekki heima í fræðilegri söguiðkun enda er fátt auðveldara en að vera vitur eftir á.

Meðal þess sem ber á góma í erindinu er samhengið milli rafvæðingar og jafnréttismála. Einnig er því haldið fram að ráðamenn á Íslandi hafi lengst af ofmetið orkulindir landsins sem auðlindir í einhverjum almennum, fortakslausum skilningi. Til marks um það má nefna að framvinda mála hefur öll verið miklu hægari en spáð var fyrirfram.

Inngangsorð

Þetta erindi fjallar um það sem kalla mætti hugmyndasögu orkumálanna. Henni hefur lítið verið sinnt fram að þessu, hvort sem við lítum á fræðilega sagnfræði eða almenna stjórnmálaumræðu um orkumál og umhverfismál. En þarna er að finna margar skemmtilegar og fróðlegar matarholur, bæði handa sagnfræðingum almennt og einnig handa þeim sem stunda vopnaskak stjórnmálanna; af þessari sögu má ekki síður margt læra en af mörgum öðrum. Meðal annars er hún ágætur spegill fyrir ýmsar breytingar á daglegu lífi og fyrir hugmyndir og viðhorfsbreytingar sem hafa orðið í tímans rás eða eru til umræðu í samtíðinni.

Hvar byrjar saga orkumálanna?

Ef spurt er hvar eigi að byrja sögu orkumálanna verður hið sama uppi og oft er þegar þannig er spurt; svarið ræðst af því hvað við viljum fella undir orðin orkunotkun og orkumál. Hugsanlegt væri til dæmis að skilgreina orkunotkun þannig að hún taki til þess þegar maðurinn notar orku utan eigin líkama til þess að vinna tiltekin verk. Samkvæmt því mundi það falla undir orkumál þegar maðurinn fór að temja hesta, asna, úlfalda og önnur dýr af því tagi til að spara sér bæði sporin og stritið. Einnig gæti það fallið undir orkumál þegar menn nota sér vindorkuna til siglinga og síðar meir til að mala korn. Og vert er að muna að vatnsorka hefur ekki eingöngu verið notuð til raforkuframleiðslu heldur var hún notuð um aldir til kornmölunar. Einnig má minna á notkun eldsins frá örófi alda en með henni hefur ýmist verið gengið á endurnýjanlegar auðlindir eins og eldivið eða á takmarkaða auðlindabanka í jarðefnum eins og kolum eða mó, olíu eða gasi.

"Mór og kol voru helstu hitagjafar á reykvískum heimilum fram undir miðja 20.öld og urðu ofnar af ýmsum gerðum og misíburðamiklir brátt á flestum heimilum. Ofnarnir, sem oftast voru búnir til úr pottjárni eða keramiki, voru yfirleitt fluttir inn frá Danmörku". Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;31.

Ef þessum skilgreiningum er fylgt hefur orkunotkun Íslendinga hafist með landnáminu, nánar tiltekið með siglingum til landsins, með húsdýrum eins og hestum og með eldiviðarvinnslu og mótekju til að hita híbýli og laga mat. Hér er ekki þörf á að rekja þá sögu nánar enda er hún alkunn.

Upphaf nútíma orkumála á Íslandi

Hins vegar er væntanlega eðlilegt að miða nútíma orkuvinnslu við það þegar menn fóru að nota vélar til orkuframleiðslu og orkunýtingar. Hér verður einkum staldrað við innlenda orkugjafa, það er að segja vatnsorku og jarðhita. Nýting þessara orkugjafa hér á landi hófst þegar menn fóru að virkja bæjarlæki og önnur slík fallvötn um aldamótin 1900. Einn af frumkvöðlum þess var Vestur-Íslendingurinn Frímann B. Arngrímsson.[1]

Saga orkumálanna um aldamótin 1900 felur meðal annars í sér merkilegar hliðar á samspilinu milli einkaframtaks annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Svo virðist sem einkaframtak bænda og annarra smærri aðila hafi verið fyrri til en ríkisvald eða sveitarfélög til að nýta sér þessa nýju tækni sem átti eftir reynast Íslendingum svo vel sem raun ber vitni. Einnig er sagan áhugaverð frá sjónarmiði byggðamála og byggðaþróunar, til dæmis vegna þess að Reykvíkingar á þessum árum urðu höndum seinni í rafvæðingunni. Hér veðjuðu menn á annan hest, gasið, sem reyndist síðar ekki henta hér á landi.

Gasstöðin í Reykjavík. Einu merki stöðvarinnar sem nú sjást er íbúðarhús stöðvarstjórans, húsið sem er lengst til hægri á myndinni, nú aðsetur strætisvagnabílstjóra við Hlemm." Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;33)

Virkjun bæjarlækjanna og önnur raforkuvinnsla á þessum tíma miðaðist í fyrstu einkum við að framleiða orku til ljósa, enda var þá ekki völ á tækjum til annarar raforkunotkunar. En ekki er heldur erfitt að sjá fyrir sér hversu miklu rafljósin hafa breytt í lífi fólks, til dæmis í íslensku skammdegismyrkri. Ljósin sem menn höfðu áður, grútartýrur, olíulampar og síðast gasljós, voru bæði dauf og kostnaðarsöm í rekstri, gátu verið hættuleg og heilsuspillandi og þurftu mikla umhirðu.

Þorsteinn Halldórsson (1998) sagði frá því nýlega í grein að fólk sem var komið á efri ár upp úr miðri 20. öld var spurt hvað það teldi hafa breytt mestu í daglegu lífi á sinni ævi. Ætla mætti að margir hefðu nefnt til dæmis símann, útvarpið eða bílinn en í ljós kom að flestir nefndu rafljósin.

Og raflýsingin var ekki aðeins einhver mesta tækniframför í þágu almennings á 20. öld, heldur eru rafljós líklega ein allra hagkvæmasta orkunýting sem um getur, meðal annars vegna þess hversu fjarri fer því að við getum skapað jafngóða og þægilega lýsingu eftir öðrum leiðum. Merking orðsins "upplýsing" er því ekki eins tvöföld og hún kann að virðast við fyrstu sýn. Svo mikið er víst að draugar landsins hafa orðið fyrir barðinu á upplýsingunni í báðum merkingum hennar og þurft að láta undan síga. Þeir geta látið sig litlu varða hvor þeirra er á ferðinni hverju sinni.

Hugmyndabarátta skáldanna

Ég hef áður bent á það í ræðu og riti - á Orkuþingi árið 1981 [1a] - hvernig þrjú af þjóðskáldum okkar í byrjun 20. aldar mótuðu í rauninni þá meginfarvegi sem viðhorf manna til orkumála og vatnsaflsvirkjana hafa fallið í allar götur síðan. Þetta voru þeir Einar Benediktsson, Þorsteinn Erlingsson og Stephan G. Stephansson. Í stuttu máli má segja að Einar hafi fjallað nær gagnrýnislaust um virkjanir og aðrar tækniframfarir í kvæðum sínum, meðal annars um Dettifoss:
Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör

að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör ...[2]
Í þessu og öðrum kvæðum Einars er engin gagnrýnis- eða varnaðarorð að finna þegar vatnsaflsvirkjanir og stóriðja eru annars vegar. Það var því engin furða að Þorsteinn Erlingsson svaraði skáldbróður sínum fullum hálsi í kvæði sínu, Við fossinn frá 1907, og gekk þar býsna langt í málflutningi sínum gegn vatnsorkuverum:
Hví vilja ekki þeir sem þú tylltir á tá

á titrandi ljósbogans hæðum,

að ættjörðin megi þá aflstrauma fá

úr óbornu skáldanna kvæðum?[3]
Lífsskoðanir og lífsreynsla Stephans G. buðu honum hins vegar að fara bil beggja og mæla með virkjunum svo framarlega sem þær yrðu til þess að létta ok hins vinnandi manns. Hann yrkir í orðastað fossins í kvæðinu Fossaföll frá 1910:
Mig langar hins, eins lengi og fjallið stendur,

að lyfta byrði, er þúsund gætu ei reist,

og hvíla allar oftaks lúnar hendur

á örmum mér, er fá ei særst né þreyst, ...[4]
Eiginleg vistfræði eða umhverfismál voru þá ekki komin til umræðu en auðvelt er að yrkja í eyðurnar í deilum skáldjöfranna og bæta þeim málaflokki við í röksemdum þeirra.

Þannig má segja að óslitinn þráður liggi frá Einari til þeirra sem nú ganga harðast fram í baráttu sinni fyrir virkjunum og stóriðju. Ég vænti þeir láti sér það vel líka enda kemur sú niðurstaða trúlega engum á óvart! En það má líka spinna samfelldan þráð frá Þorsteini Erlingssyni til þeirra sem eru fremstir í flokki til verndar fossum og gegn stóriðju og jafnvel líka ýmsu öðru sem oft er talið til tækniframfara. Og að lokum er sá hópur líklega hreint ekki lítill sem hugsar um þessi mál á svipuðum nótum og Stephan G., að virkjun fossins sé vissulega þess virði ef með því má "hvíla oftaks lúnar hendur".

Fossasalan: Draumórar eða mistök?

Þegar við lesum um liðna tíð vilja margir taka afstöðu til þess sem persónur sögunnar taka sér fyrir hendur. Þetta á meðal annars við um fræga tilburði Einars Benediktssonar og fleiri til að fá útlendinga til að kaupa fossa og virkja þá. Sú spurning leitar þá á hugann hvort þessar hugmyndir skáldsins hafi verið draumórar einir, fjarri öllum tengslum við veruleikann. Svarið við þeirri spurningu er að mínu mati bæði já og nei.

Hugmyndirnar um sölu á vatnsorku til stóriðju á fyrri hluta 20. aldar voru ekki fjarstæðukenndari en svo í þann tíð, að á sama tíma var einmitt verið að virkja fossa og reisa meiri háttar stóriðjuver á nokkrum stöðum í Noregi [4a]. Eins og eðlilegt er var þá fyrst borið niður á þeim stöðum sem menn vissu hentugasta miðað við tæknina eins og hún var þá. Menn virkjuðu fallvötn sem höfðu mikla fallhæð og voru jafnframt nálægt sjó þannig að ekki þurfti að flytja orkuna um langan veg til stóriðjuversins, enda höfðu menn þá ekki góð tök á slíkum flutningum.

Orkuver við Odda í Harðangursfirði í Noregi.

Við nútímamenn mundum segja að Norðmenn hafi á sínum tíma fórnað verulegum öðrum hagsmunum eða gæðum fyrir þessi orkuver því að þarna var meðal annars tjaldað til sumum fegurstu stöðum Noregs, stöðum sem höfðu verið ofarlega á blaði þegar ferðamennska fór að komast í tísku hjá fyrirfólki í Evrópu fyrir aldamótin 1900 (til dæmis Odda við Harðangursfjörð). -- En þetta voru engu að síður afar hagkvæm fyrirtæki þegar horft var á virkjun og iðjuver saman - miklu hagkvæmari en það sem Ísland gat boðið. Það var því engin tilviljun að Ísland hlaut að bíða gott betur en hálfa öld þar til íslenska vatnsorkan fór að freista útlendinga í alvöru. Að því leyti getum við sagt að hugmyndir um orkufreka stóriðju á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar hafi verið í ætt við draumóra frekar en raunsæi [5]. Og um leið getum við sagt að það hafi ekki verið nein mistök af hálfu samningamanna eða fossasölumanna að þeim skyldi ekkert verða ágengt svona lengi; varan sem þeir höfðu að bjóða var einfaldlega ekki betri en svo miðað við tæknistig, markað og annað þar fram eftir götunum á þeim tíma.

Hvað er auðlind?

Umræður um vatnsaflsvirkjanir hafa löngum verið miklar hér á landi. Menn hafa bæði viljað ræða af kappi hver skuli eiga fallvötnin, orkuverin og stóriðjuna, hvenær skuli virkja, hvernig og með hvaða formerkjum, og hvað skuli gera við orkuna.

Í svo langvinnum umræðum grafa menn sér oft eins konar skotgrafir og éta síðan ákveðin atriði gagnrýnislaust hver eftir öðrum. Hér á þetta til dæmis við um þá fullyrðingu að orkan sé auðlind - náttúruauðlind eins og við segjum líka stundum - án þess að menn átti sig nánar á merkingu þeirra orða. Með því einurðarleysi hafa menn síðan bakað sér og sínum margvísleg vonbrigði og vandræði í tímans rás.

En hvað merkir þetta þá, að orkan sé auðlind? Er hún auðlind í sama skilningi og gullnáma, eða kannski eins og andrúmsloftið? Eða eru gullnáman og andrúmsloftið auðlindir í sama skilningi, sem vatnsorkan getur þá líka fallið undir?

Nú búum við svo vel að íslenska orðið auðlind er tiltölulega gagnsætt og hlýtur að eiga að tákna eitthvað sem menn geta gert sér auð úr - auðsuppspretta eins og stundum er sagt. Í nútíma samfélagi þýðir þetta að menn geti nýtt sér fyrirbærið til arðbærrar framleiðslu eða starfsemi, þrátt fyrir að öflun þess kunni að kosta fé og fyrirhöfn. En á almennara máli sem gæti náð yfir fleiri og eldri samfélagsgerðir mundi þetta þýða að menn geti nýtt viðkomandi efni eða fyrirbæri - auðlindina - til þess að spara sér eitthvað annað þannig að aukin hagkvæmni náist, í víðum skilningi. Það þarf sem sé að vera einhver sem vill nýta auðlindina eða "kaupa vöruna" svo að við notum velþekkt orðalag úr viðskiptum; nýtingin þarf að færa mönnum meiri "auð" en sem svarar kostnaðinum við nýtinguna.

Við sjáum af þessu að merking orðsins "auðlind" er afstæð gagnvart stað og tíma; það sem er auðlind á einum stað og einum tíma þarf ekkert endilega að vera það annars staðar eða á öðrum tíma. Og þó að eitthvað sé auðlind - auðsuppspretta - í einhverju tilteknu magni, þá er ekki þar með sagt að meira af því sama sé líka auðlind. Um þetta hefur auðlindahagfræðin sjálfsagt miklu meira að segja en hér verður rakið.

Dæmin um þetta afstæði auðlindarhugtaksins eru legíó ef við horfum örlítið kringum okkur í tíma og rúmi. Þannig voru mómýrar á Íslandi mikilvæg auðlind áður fyrr en eru það ekki lengur; markaðsverð þeirra er núll nú á dögum. Sauðfjárbeitilönd Íslands voru auðlind meðan nógur markaður var fyrir vöruna sem varð til með beitinni -- á verði sem stóð undir framleiðslukostnaði -- en svo þarf ekki að vera endalaust ef verðhlutföll og aðrar aðstæður breytast -- og þannig mætti lengi telja.

Orka fallvatnanna var hins vegar í raun og veru alls engin auðlind fyrr en til sögunnar kom tækni sem gerði mönnum kleift að virkja hana - og, Nota Bene, nýta hana til einhvers við hinn enda raflínunnar! Með öðrum orðum hefði raforka frá virkjun til dæmis verið einskis virði ef ekki væru til nógu mörg og fjölbreytileg tæki eins og ljósaperan til að breyta henni í eitthvað sem að gagni mátti koma fyrir mannfólkið.

Fróðlegt er líka að hugleiða í þessu viðfangi í hvaða skilningi andrúmsloftið sé auðlind. Að því marki sem nóg er af blessuðu loftinu allt um kring virðist svo ekki vera. Jafnvel þótt við notum það í ýmiss konar efnislega framleiðslu, til dæmis í tilbúinn áburð, þá mundum við ekkert endilega taka svo til orða að það sé þar í hlutverki auðlindar. Ástæðan er sú að sjálf öflun þess - loftsins sjálfs - kostar ekki neitt og það er nóg af því alls staðar þannig að þess vegna má til dæmis einu gilda hvar við komum áburðarverksmiðju fyrir.

Hins vegar er vel hægt að hugsa sér þær aðstæður að hreint andrúmsloft sé auðlind, til dæmis í stórborgum nútímans þar sem skortur er á því. Þetta nýja eðli þess þarf ekki endilega að birtast þannig að hreint loft gangi kaupum og sölum í tönkum, heldur til dæmis í mismunandi ásókn í lóðir og búsetu eftir ástandi loftsins á hverjum stað.

Er vatnsorkan auðlind?

Það blasir auðvitað við að íslensk vatnsorka er auðlind að því leyti að við getum notað hana hér innanlands til að létta okkur lífið og spara okkur strit; vinnan og verðmætin sem fara í að virkja vatnið eru greinilega miklu minni en vinnan sem við spörum með rafmagninu á eftir. Saga 20. aldar sýnir okkur þetta glöggt og jafnframt má segja að á þeirri öld hafi menn náð því að fullnýta auðlindina að þessu leyti í bili - við höfum lokið "rafvæðingu" landsins eins og það hét einu sinni. Nær allir Íslendingar hafa nú nóg rafmagn frá rafveitum til þeirra hluta sem þeir vilja hafa á heimilum sínum eða í daglegu lífi að öðru leyti.

Hins vegar eru þær hugmyndir sem nú eru uppi um að nota vatnsorkuna til að framleiða vetni og knýja farartæki enn eitt dæmið um afstæði auðlindarhugtaksins. Vatnsorkan verður þá auðlind í enn nýjum skilningi og nýtt stig rafvæðingar getur hafist; nýtt skeið sem getur vel orðið álíka langt og hið fyrra.

Þetta er allt gott og blessað en málið vandast hins vegar þegar menn ætla vatnsorkunni hlutverk auðlindar gagnvart erlendum kaupendum handan við Atlants ála, enda hefur sú saga öll gengið skrykkjótt. Íslenskir fossar stóðust einfaldlega ekki samkeppnina til dæmis við norsku "auð"lindirnar; miðað við það tæknistig sem menn höfðu þá náð (mikil fallhæð á afmörkuðu svæði, stöðugt rennsli, hafnir og heppilegir staðir fyrir stóriðjuver nálægt virkjunarstöðum, meira vinnuafl en hér til byggingar og reksturs, nálægð við markaði fyrir afurðir stóriðjunnar, heppilegra veðurfar og svo framvegis).

Miklar umræður um orkumál urðu sem kunnugt er á sjöunda áratug 20. aldar þegar Búrfellsvirkjun og álver í Straumsvík voru á dagskrá. Ein röksemdin sem fylgjendur framkvæmda beittu var sú að Íslendingar þyrftu að hafa hraðan á að koma vatnsorku landsins - auðlindinni - í verð áður en kjarnorka mundi kaffæra aðrar aðferðir til orkuframleiðslu á heimsmarkaði. Ef þetta hefði gengið eftir hefði það verið enn eitt dæmið um afstæði auðlindarhugtaksins sem ég ræddi um áðan. En þetta gerðist ekki sem kunnugt er, hvort sem mönnum líkar betur eða verr; kjarnorkan reyndist ekki sú auðlind sem menn höfðu haldið og því erum við enn að ræða um íslenska orku. Og sjálfsagt eru einhverjir meðal okkar sem vildu hafa talað öðru vísi þá - eftir á að hyggja - en þannig er nú einu sinni sagan, að sá sem spáir fram í tímann tekur áhættu. Það hafa báðir aðilar í deilum um orkumál hér á landi sannarlega fengið að reyna.

Þannig hefur tímabilið frá sjöunda áratugnum fram til aldamótanna 2000 enn einu sinni leitt í ljós afstæði auðlindarhugtaksins; sýnt hversu skammgóður vermir það er að byggja skýjaborgir á þeirri grunnhugmynd að orkan sé fortakslaust auðlind í einhverjum einföldum skilningi. Þannig hafa stjórnmálamenn úr flestum eða öllum stjórnmálaflokkum talað fjálglega um orkuna sem auðlind á löngum tímabilum án þess að nokkur tryggur kaupandi væri í augsýn. Og í annan stað hafa þeir látið í það skína að ákvarðanir í þessum efnum væru allar í höndum þjóðarinnar þegar raunin er sú að kaupendur setja sín skilyrði um vöruna sem þeir vilja kaupa, og þá á ég ekki bara við orkuna sjálfa heldur vöruna alla í víðasta skilningi, þar með talið allt umhverfi framleiðslunnar. Stóriðjufyrirtækin vita sem er að rafeindirnar sem orkuverið afhendir þeim eru allar eins, en þau spyrja eftir sem áður um ýmiss konar umhverfismál í víðum skilningi. Þetta má til dæmis sjá þegar þau kynna sig á vefsíðum og einnig í verki í ýmsum viðbrögðum þeirra við nýjum upplýsingum og viðhorfum.

Í seinni tíð hefur vitund almennings og fyrirtækja um umhverfismál þróast á þann veg að mörg stóriðjufyrirtæki sjá sér ekki lengur hag í því að eiga aðild að stóriðjuverum þar sem umhverfismál eru í ólestri. Þetta er nýlunda sem margir virðast enn ekki hafa áttað sig á; enn eitt dæmið um hið víða samhengi sem hafa þarf í huga í orkumálum, kannski enn frekar en í ýmsum öðrum málaflokkum, til dæmis vegna þess að ákvarðanir í orkumálum geta náð svo langt fram í tímann. En þeir sem ætla að semja við slík fyrirtæki um orkusölu geta þurft að taka þessi nýju viðhorf rækilega til greina.

Hitaveitan

Ég minntist áðan á það að notkun rafmagns til ljósa væri sennilega einhver hagkvæmasta orkunotkun sem um getur, og því hafa menn verið býsna heppnir að Edison skyldi finna upp ljósaperuna svo snemma. Hér má hafa til marks gömlu ljósavélarnar sem menn komu fyrir á sveitabæjum í eina tíð. Þetta voru yfirleitt dísilvélar sem framleiddu rafmagn með lítilli nýtni, en rafmagnið var hins vegar svo dýrmætt af því að það var notað til lýsingar og ekki var völ á öðrum aðferðum til að skapa jafngóða lýsingu. Kolaeldavélin stóð á hinn bóginn lengi vel fyrir sínu í sveitum, hitaði bæði híbýli og mat og þróaðist verulega fram eftir 20. öldinni.

"Áróðursmynd frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur þar sem fólk er hvatt til þess að kaupa rafmagnseldavél." Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;142

Sú orkunýting sem líklega kemur hvað næst lýsingunni í heildarhagkvæmni er húshitun með jarðhita sem hófst í stórum stíl hér á landi um 1940. Eftir á að hyggja höfum við séð að þetta er ákaflega umhverfisvæn orkuframleiðsla. Henni fylgir hvorki reykur né sót eins og þegar kol eða olía eru notuð til húshitunar og önnur umhverfisspjöll hafa reynst bæði lítil og auðveld viðfangs í samanburði við sparnaðinn sem fylgir nýtingu jarðhitans. Sjálf orkuverin hafa líka miklu minni áhrif á umhverfið en vatnsorkuverin og er það ein ástæðan til þess að jarðvarminn sækir nú á sem auðlind til raforkuframleiðslu.

Við Íslendingar erum ekki lausir við sjálfhælni sem kunnugt er og stærum okkur oft af hlutum sem standa í rauninni ekki undir hólinu. Þetta á þó ekki við um nýtingu jarðhitans sem hefur fært okkur ómældan auð og þægindi og er þó enn ekki fullnýttur á innanlandsmarkaði, til dæmis á sveitabæjum og í sumarbústöðum. Raunveruleg nytsemi jarðhitans mælist þó ekki eingöngu í peningum á hverjum tíma heldur sést hún líka til að mynda af því að þær raddir heyrast varla sem mæla gegn jarðhitanum og nýtingu hans.

Innreið þungu raftækjanna

Það vill oft gleymast að Reykvíkingar notuðu gas sem orkulind um alllangt skeið á fyrri hluta 20. aldar, til húshitunar, matargerðar og ljósa svo að dæmi séu tekin, en rafveitan miðaðist fyrst í stað mest við lýsingu eins og áður er sagt. Það er í rauninni dálítið furðulegt hvað þessu er lítið haldið á loft og hve fáir vita af því; engu líkara en það sé einhvers konar "tabú" sem stangist á við þá sjálfsmynd sem við viljum hafa?

Rafmagnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1921 og framleiddi í fyrstu einkum rafmagn til ljósa. En raforkunotkun til eldunar fór að aukast um 1940 og við það margfaldaðist orkuþörfin. Menn fóru að reisa stærri virkjanir eins og Laxárvirkjun 1 og virkjanirnar þrjár við Sogið. Þeim var yfirleitt ákaft fagnað sem miklu framfaramáli í þann tíð en þær raddir heyrðust þó líka sem töldu að með þessum framkvæmdum væri hallað á sveitir landsins. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem menn vöknuðu upp við vondan draum um það að líklega hefði gleymst að hugsa um urriðann í Þingvallavatni.[6]

Segja má að þetta skeið í raforkusögu innanlandsmarkaðarins hafi staðið sem næst frá 1940-1985. Það einkennist af síaukinni notkun á tiltölulega orkufrekum tækjum á heimilunum - tækjum sem komu á markaðinn hvert af öðru. Neytandinn keypti þau í takt við vaxandi velmegun og nú þykja þau sjálfsagður hlutur á hverju heimili. En jafnframt gerbreyttust lífshættir fólks með batnandi húsnæði, aukinni bílaeign og ekki síst vegna þessara þungu raftækja.

Rafmagnseldavélin var fyrsta tækið af þessum toga og hún er ennþá eitt af orkufrekustu raftækjum heimilisins. Tæknin í henni er fremur einföld og fyrsta kynslóð eldavélanna var jafnvel framleidd hér á landi (Rafha í Hafnarfirði).

Á eftir eldavélinni kom fyrsta kynslóð af einföldum þvottavélum og rafknúnum þvottapottum. Þau táknuðu verulega framför frá því sem áður var þegar konur þvoðu alla þvotta með höndum í bala og með þvottabretti. Enn þurfti að standa yfir tækjunum og færa blautan þvottinn milli þeirra. Kannski má lýsa framförinni þannig að mannshöndin þurfti að koma að verkinu en það var hins vegar miklu léttara. - Í þvottapottunum var hitað talsvert af vatni og þeir tóku því til sín umtalsverða orku, nema þar sem fært þótti að nota hitaveituvatn í þá.

"Þvottavélin Mjöll, framleidd í samvinnu Héðins og Rafha." Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;163.

Það var ekki fyrr en upp úr 1960 sem næsta kynslóð þvottatækja sá dagsins ljós; sjálfvirkar vélar sem eru nú í hverju þvottahúsi og vinna hin ýmsu verk þvottaferlisins sjálfkrafa hvert af öðru. Ein slík vél kom í staðinn fyrir hin tvö, gömlu þvottavélina og þvottapottinn. Þvottavélarnar hita allmikið vatn til þvottanna og yfirleitt er ekki notað hitaveituvatn í þær, þannig að þær eru talsvert orkufrekar. Tæknin í þeim er nokkuð háþróuð eins og í annarri sjálfvirkni og mannshöndin þurfti nú ekki lengur að koma nálægt þvottaferlinu sjálfu. Þess vegna er sjálfvirka þvottavélin einn besti fulltrúi þeirrar lífsháttabreytingar sem fylgdi rafvæðingunni og ég kem nánar að síðar.

Ísskápar komu fram á sjónarsviðið næstir á eftir þvottatækjum af fyrstu kynslóð. Þeir léttu heimilisstörfin meira en ætla mætti við fyrstu sýn. Áður þurfti til dæmis að kaupa mjólk, fisk og ýmsa aðra matvöru til heimilisins á hverjum degi, en nú var hægt að kaupa meira í einu og geyma það til nokkurra daga. Samhliða þessu þróaðist varan, til dæmis mjólkin, þannig að hún þoldi meiri geymslu og frágangur á henni tók mið af ísskápnum. - Ísskápar taka ekki mikinn straum en eru hins vegar lengi í gangi á hverjum sólarhring þannig að orkunotkun þeirra er þó nokkur og hefur vafalaust verið meiri í fyrstu kynslóðum en hún er nú. - Tæknin í ísskápum og frystikistum er í sjálfu sér nokkuð merkileg og nær út fyrir það sem við upplifum ella í daglegu lífi.

Næst ber að nefna frystikistuna en hún hefur einnig breytt daglegu lífi allverulega. Hún tekur til sín allverulega orku á hverjum sólarhring og vegur þó nokkuð þungt í orkureikningi heimilanna. Orkunotkunin fer þó talsvert eftir hönnun annars vegar og hins vegar eftir því hvernig menn nýta sér tækið, til dæmis hvort ferðirnar í frystikistuna eru margar og hvort menn frysta vöru sem áður er ófrosin.

Síðasta þunga raftækið sem náð hefur almennri útbreiðslu er uppþvottavélin. Sjálfvirknin í henni er í ætt við sjálfvirku þvottavélina en sá er munurinn að uppþvottavélin hitar lítið vatn. Hún er því ekki mjög orkufrek og ekki eins mikilvæg í orkusögunni og flest önnur tæki sem hér hafa verið nefnd.

Freisting framreikningsins

Innreið þungu raftækjanna á heimilin, bæði hér og víða í nágrannalöndum, hófst sem fyrr segir um 1940 og stóð allar götur fram til 1985 eða svo þegar gróin heimili voru flest komin með öll þessi tæki nema þá helst uppþvottavélina sem skiptir hvort eð er litlu. Á þessu tímabili óx raforkunotkun heimilanna jafnt og þétt um nálægt 7% á ári sem er auðvitað veruleg aukning.

"Orkunotkun á mann á veitusvæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur." Sumarliði R. Ísleifsson.1996;203.

Hún stafaði fyrst og fremst af því að tækjunum á hverju heimili var að fjölga. En hjá þeim sem hugsuðu sem mest um orkupólitík landsmanna urðu þessi 7 prósent smám saman að heilagri tölu. Þeir gerðu hiklaust ráð fyrir að þessi vöxtur mundi líklegast halda áfram endalaust og höguðu umræðum og áformum um virkjanir samkvæmt því. Þetta leiddi ásamt öðru til þess að framboð á rafafli fór að óþörfu fram úr eftirspurn í nokkur ár þegar dró úr vextinum í orkuþörf hins almenna markaðar um 1985 (sjá mynd). Þannig má segja að þetta sé eitt dæmið um skort á yfirsýn í íslenskri orkusögu. Að sjálfsögðu er ekki verið að gagnrýna einstaklinga með því að benda á þetta, því að það er mannlegt að skjátlast og allt orkar tvímælis þá gert er. Þeir sem þarna settu tölur á blað voru einfaldlega að fylgja fram ríkjandi viðhorfum í sínum hópi.

Ein ástæðan til þess að talan 7% á ári varð ekki jafnheilög og fastarnir í lögmálum náttúrunnar er sú að neysla almennings - eða öllu heldur viðbótin í neyslu - sótti um þetta leyti í aðra farvegi, í hluti sem voru ekki eins orkufrekir og áður hafði verið. Ber þar hæst að um þetta sama leyti er tölvubyltingin að byrja og talsvert af neyslufé heimilanna fer að renna til kaupa á einkatölvum sem hafa lengst af verið talsvert dýrari en orkufreku heimilistækin. Auk þess hefur tegundum orkufrekra tækja ekki haldið áfram að fjölga.

Þessi stefnubreyting neyslunnar hefur að sjálfsögðu ekki aðeins sagt til sín hér á landi heldur víðast hvar í vestrænum heimi. Þar hefur hún ásamt öðru orðið til þess að efnisleg neysla á mann, til dæmis notkun málma, hefur ekki vaxið eins ört og menn ætluðu fyrirfram. Það hefur svo aftur átt sinn þátt í því að eftirspurn eftir álverum og orku handa þeim óx lengi vel ekki eins og menn höfðu ímyndað sér, þó að líklega sé eitthvað að létta til í þeim efnum á síðustu árum.

Raftækin og jafnréttið

Ekki fer milli mála að glögg tengsl eru milli raftækjavæðingarinnar sem hófst á fimmta áratug 20. aldar og vaxandi vinnu kvenna utan heimilis sem hófst nokkru síðar. Það hafði áður verið fullt starf að reka heimili meðalfjölskyldunnar en nú varð það smám saman aðeins hlutastarf sem hægt var að rækja samhliða starfi utan heimilis, ýmis hálfu eða heilu eftir atvikum. Það voru ekki síst þungu raftækin, tæki eins og sjálfvirka þvottavélin, ísskápurinn og frystikistan, sem gerðu þetta mögulegt. Þegar jafnréttissinnaðar konur voru ásakaðar um það í hita umræðunnar að svíkjast undan skyldum sínum við heimilið kom raunar fyrir að þær vísuðu á móti til heimilistækjanna sem hefðu létt heimilisstörfin svo mjög og stytt tímann sem til þeirra þurfti.

Seinna meir virðist sem þessi tengsl milli rafmagnsins og jafnréttisins vilji gleymast í umræðunni. Kannski stafar það af því að þeir eru fáir sem hafa bæði áhuga á rafmagni og jafnréttismálum. Einnig gæti þó komið til venjuleg söguskekkja, það er að segja tilhneiging okkar til að halda að allt hafi alltaf verið eins og það er núna. Þannig eru kannski margir búnir að gleyma því að fyrir 40 árum var það ennþá fullt starf að sjá um heimili vísitölufjölskyldunnar.

Tæknin og lífskjörin

Þeir menn eru til sem vilja gera lítið úr svokölluðum framförum sem orðið hafa á síðustu öldum og tengjast vísindum og tækni. Slíka menn er líklega öðru fremur að finna í þeim fílabeinsturnum akademíunnar sem tengjast ekki almenningi í viðkomandi samfélagi. En við skulum glöggva okkur á þessu með því að líta á daglegt líf húsmóður í 5 manna fjölskyldu í Reykjavík á árunum 1930-1940 eða svo, með áherslu á þau atriði sem tengjast viðfangsefnum okkar.

Vinnuvika þessarar húsmóður hefst á mánudegi með því að þvo föt, sængurföt og annað af fjölskyldunni. Heimilisfaðirinn vinnur erfiðisvinnu þannig að mikið fellur til af þvotti frá honum. Börnin leika sér líka mikið úti í mold og aur enda var malbik þá nánast óþekkti á Íslandi, en þetta kostaði mikinn þvott á fötum barnanna. Talsvert af fataefnum í þá daga þurfti suðu eða 60 gráðu þvott (mislitt). Þvottavatnið var hitað í kolapotti og þvotturinn þveginn í bala með þvottabretti sem nútímamenn þekkja sjálfsagt best af því að það orð er notað um vegi í tilteknu ásigkomulagi. Hræra þurfti í þvottapottinum og lyfta blautum þvottinum nokkrum sinnum milli hans og balans eftir því hvort verið var að þvo eða skola, auk þess sem hann var undinn lauslega fyrir hverja skolun. Að þvottinum loknum var reynt að vinda mestu bleytuna úr þvottinum í höndunum eða með rullu áður en hann var hengdur upp á snúru, annaðhvort í þvottahúsi eða úti. Þegar þvotturinn var síðan orðinn þurr þurfti að teygja hann og síðan að strauja og brjóta saman eftir kúnstarinnar reglum.

"Skopmynd úr Morgunblaðinu frá 1962. Þrjátíu árum eftir deilurnar um fyrstu virkjun Sogsins néri blaðið framsóknarmönnum því um nasir að þeir hefðu verið andstæðir virkjuninni." Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;80.

Í kvæðinu sem við syngjum á jólunum, "Göngum við í kringum ..." er þessu ferli svo lýst að það taki fimm daga, frá mánudegi til föstudags, en á laugardeginum voru gólfin þvegin. Þetta er auðvitað lýsing með skáldaleyfi en þvottaferlið tók samt í raun nokkra daga meðfram öðrum verkum. Þar á meðal þurfti að fara í mjólkurbúð einu sinni á dag og kaupa svo sem fjóra lítra af mjólk ásamt skyri og fleiri mjólkurafurðum. Svo var komið við hjá fisksalanum og í nýlenduvörubúðinni. Margvísleg matargerð var líka ríkur þáttur í störfum húsmóðurinnar, þar með taldar ýmsar aðgerðir til varðveislu matar, svo sem sláturgerð og meðferð súrmetis og saltfisks. Jafnframt þurfti að sinna börnunum þremur, heilsu þeirra og skólagöngua. Sömuleiðis var algengast í þá daga að húsmæður í alþýðufjölskyldum saumuðu fötin á fjölskylduna og héldu þeim við.

Þetta hefur allt gerbreyst með tilkomu rafmagns og raftækja sem hélst í hendur við þróun á nýjum neysluvörum. Er óþarft að rekja það í smáatriðum hér utan hvað ég vil nefna að það eru ekki bara þvottavélarnar sem hafa breytt störfunum kringum þvottinn heldur líka hvers konar ný fataefni sem komið hafa á markað. Lækkandi verð á fötum miðað við vinnutekjur og tímakaup hefur einnig átt sinn þátt í því að saumaskapur á heimilum fer nú ört minnkandi þó að saumavélum hafi fleygt fram eins og öðrum tækjum.

Í stuttu máli má líklega segja að fyrrnefnd heimilisstörf taki nú 1-2 tíma á dag en voru þá að minnsta kosti fullt starf samkvæmt okkar mælikvarða, 10-12 stundir á dag. Vinnumagnið sem um ræðir sést meðal annars af því hvernig brugðist var við þegar foreldrar voru einstæðir; þá var nær ógerningur að reka fjölskylduna hún var oftar en ekki leyst upp. Þannig hafa tæknin og atvinnuhættirnir meðal annars áhrif á einkalífið, þar á meðal það sem einkalegast er af öllu, sjálfa fjölskyldugerðina.

Virkjanasagan, "auðlindin" og heildardæmið

En snúum okkur nú aftur að hinum enda raflínunnar, framleiðsluendanum. Í þeirri sögu hafa ekki síður gerst forvitnilegir hlutir en við endann sem snýr að heimilunum. Og saga orkuframleiðslunnar á Íslandi er ekki bara saga atburða, ártala og annarra talna heldur búa oftar en ekki forvitnileg almenn viðhorf bak við atburði og ákvarðanir þó að svo kunni stundum að virðast sem þær séu teknar í tilteknum hópi einstaklinga.

Ég nefndi það áðan að bygging Sogsvirkjana og Laxárvirkjunar um og upp úr 1940 hefði ekki verið með öllu óumdeild vegna ágreinings milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það var þá ríkjandi skautun í byggðamálum þar sem núna er frekar talað um höfuðborgarsvæði eða suðvesturhorn "á móti rest". En talsmenn dreifbýlisins um miðja 20. öld hafa líklega ekki allir hugað að því að rafvæðing þéttbýlisins var nauðsynleg forsenda þess að rafmagnið mundi líka ná til sveitanna í fyllingu tímans.

"Leifar Miðkvíslarstíflu 22 árum eftir að hún var rofin síðla sumars 1970. Ljósmynd: Bergsteinn Gizurarson. Sigurður Gizurarson. 1991;99.

Trúlega er þarna fólginn einn lykillinn að því að skilja muninn á Laxárdeilunni og og öðrum deilum sem orðið hafa um orkumál hér á landi í seinni tíð. Meginskautin í þeirri deilu voru sem sé Laxárbændur annars vegar og valdamenn á Akureyri hins vegar, en þeir fyrrnefndu fengu síðan stuðning hjá þeim vísi að umhverfisvendarhreyfingu sem þá var að koma upp á Reykjavíkursvæðinu. En hvað sem því líður er umhugsunarvert að Laxárbændur virðast ekki hafa átt sér marga skoðanabræður meðal bænda kringum þær virkjanir sem síðan hafa verið byggðar eða fyrirhugaðar á ýmsum stöðum á landinu. Þráðinn sem byrjað var að spinna með náttúruverndarrökunum í Laxárdeilunni má hins vegar rekja sleitulaust allt til þessa dags.

Annars má segja að virkjanasaga okkar á seinni hluta 20. aldar hafi mjög einkennst af fyrrnefndri oftrú á orkunni sem einhvers konar algildri auðlind. Sannleikurinn er auðvitað sá, ef við setjum okkur í spor hugsanlegs orkukaupanda, að hann þarf að bera saman verð vörunnar og notagildi hennar fyrir sig, til dæmis það sem hann fær fyrir hana þegar henn selur afurð sína. Sá sem er að velta því fyrir sér að bræða ál eða annan málm á Íslandi þarf að bera saman verðið sem hann fær fyrir vöruna og heildarkostnaðinn við framleiðsluna, þar á meðal hráefnisöflun, flutning hráefnis, orkuöflun til bræðslunnar, flutning vörunnar á markað og svo framvegis. Flestir liðir þessarar jöfnu, aðrir en ef til vill orkuöflunin sjálf, eru Íslendingum í óhag í samanburði við mörg önnur lönd þar sem orka kanna að vera í boði, og áhrif þeirra eru í sama stærðarþrepi og þær tölur sem þjarkað er um þegar verið er að semja um orkuverð.[7]

Það er að sjálfsögðu þetta heildardæmi sem hefur ráðið því að sala á íslenskri orku til erlendrar stóriðju hefur ekki gengið nærri því eins ört og menn héldu þegar verið var að leggja út á þessa braut á sjöunda áratugnum. Útkoman úr dæminu er einfaldlega ekki hagstæðari en svo að algengar og eðlilegar sveiflur til og frá í einstökum liðum þess geta ráðið því hvort útkoman er plústala eða mínustala, hagnaður eða tap af kostnaðarsamri fjárfestingu. Þetta er auðvitað meginskýringin á því að fá erlend fyrirtæki hafa sýnt Íslandi áhuga, hann hefur oft verið takmarkaður og fyrirtækin hafa stundum dregið sig í hlé í miðjum klíðum eða verið áhugalítil um framvindu mála.

Ný viðhorf í valdakerfinu

Lengst af hefur það verið svo í sögu íslenskrar orkuvæðingar að valdakerfi landsins, "the establishment", hefur verið á einu máli um virkjanir og stóriðjuver sem hafa verið á dagskrá hverju sinni. Þetta hefur yfirleitt átt við um ríkisstjórn hvers tíma en að vísu ekki endilega um stjórnarandstöðuna svo sem kunnugt er. Það hefur einnig átt við um embættismenn ríkisins og um flesta þá sem eru í fyrirsvari fyrir meiri háttar fyrirtæki, samtök atvinnurekenda og fleiri. Tilhneigingin hefur einnig verið sú að forystumenn launþega hafa verið frekar jákvæðir í garð orkuvera og stóriðju vegna þeirrar atvinnu sem slík fyrirtæki skapa á byggingartíma og að nokkru í rekstri.

Andstaðan hefur á hinn bóginn til skamms tíma komið mest frá hefðbundnum andófsöflum, almenningi sem hefur talið sig eiga hagsmuna að gæta og síðan frá áhugamönnum um náttúruvernd og umhverfismál sem hafa ekki átt neitt að ráði undir sér, sem kallað er.

Þess vegna hefur verið afar athyglisvert að sjá þetta breytast núna á síðustu árum. Einna gleggst höfum við séð það í afstöðu ferðamálaiðnaðarins sem hefur risið gegn síðustu hugmyndum um virkjanir með þeim rökum að verið væri að draga úr möguleikum þessarar atvinnugreinar. Þetta sætir tíðindum í umræðu og hugmyndasögu og er glöggt dæmi um það hvernig viðhorfin í þessum málum eru sífellt að breytast.

Vistkreppan

Þegar umhverfissinnar fóru að láta í sér heyra á áttunda áratugnum, meðal annars í bókum á alþjóðlegum vettvangi,[8]urðu margir til að andmæla þeim eða lýsa vantrú sinni á því að umhverfismálin kæmust nokkurn tímann "upp á dekk"; mundu nokkurn tímann fara að hafa áhrif á ákvarðanir í samfélaginu. Og jafnvel þeir sem töldu sig hafa skilning á þessum málstað hafa sjálfsagt fáir trúað því að sjónarmið umhverfisverndar yrðu svo fljót til áhrifa sem raunin hefur orðið.

Þeir sem hófu upp raust sína um vistkreppu fyrir hartnær 30 árum höfðu áhyggjur af fólksfjölgun, mengun og öðrum umhverfisspjöllum, auðlindaþurrð og fleiru sem leiða mundi til kreppu innan tíðar. Orkunotkun var ofarlega á baugi í þessari umræðu því að mikið af orkunni sem menn nota kemur frá jarðefnaeldsneyti, og þar af mest úr olíu en að minnsta kosti tvær meiri háttar olíukreppur gengu yfir heiminn á áttunda áratugnum.

Forsíða "Endimarka vaxtarins" eða "Limits to Growth" sem kom fyrst út í New York 1972.

Þessar pælingar tengdust ekki einni stjórnmálastefnu framar öðrum og áttu ekkert endilega upptök sín hjá einhvers konar andófsmönnum af yngri kynslóð, heldur fengu hugmyndirnar meðal annars byr undir báða vængi hjá áhrifamiklum iðnjöfrum á Vesturlöndum. Því fór þó fjarri að menn væru á einu máli um vistkreppuspárnar og þeir voru margir sem töldu þetta óráðshjal eitt.

Skemmst er frá því að segja að margt hefur ræst eða virðist ætla að rætast í spánum um vistkreppu og auðlindaþurrð, og mörg merki má sjá um það á Orkuþingi árið 2001. Nægir þar að nefna annars vegar versnandi ástand lofthjúpsins vegna rýrnunar ósonlagsins og vaxandi gróðurhúsaáhrifa og hins vegar þverrandi olíulindir ásamt viðleitni manna til að nýta nýjar eldsneytistegundir á farartæki. Sitthvað hefur þó auðvitað ekki ræst. Sumpart stafar það af því eðli spádóma af þessu tagi að spádómurinn sjálfur hefur áhrif á það sem spáð er um, ýmist til þess að það rætist eða rætist ekki, eftir aðstæðum í hverju tilviki.

Lokaorð

Ég hef nú sagt sögur í drjúga stund og er mál að linni. Eðlilegt er þó að staldra við í lokin og spyrja hverju við erum nær. Kannski áttu einhverjir von á að ég mundi prédika í vandlætingartón yfir hausamótunum á persónum sögunnar, lífs eða liðnum, útdeila lofi og lasti og kveða upp úr um sigra og ósigra (segja hver vann). En þess konar skepna er hugmyndasagan ekki. Það er þvert á móti fyrsta boðorð hennar að meta hverja hugmynd í eigin samhengi sem barn síns tíma en ekki út frá sjónarhóli okkar sem komum löngu seinna og höldum að við eigum eða þurfum að kveða upp dóma.

En dómar sögunnar fjalla ekki fyrst og fremst um siðfræði, hvað hafi verið "rétt" eða "rangt" að gera í tiltekinni stöðu á tilteknum tíma. Þeir fjalla heldur ekki endilega um það hvaða hugmyndir hafi reynst "réttar" eða "rangar", eftir á að hyggja. Nei, þeir fjalla í rauninni öðru fremur um það eitt hvaða hugmyndir hafi orðið ofan á á tilteknum tíma og við tilteknar aðstæður, hvers vegna og hvernig. Þannig á góð hugmyndasaga að geta dýpkað skilning okkar á framvindunni og hjálpað okkur með því til draga af henni lærdóma sem við getum nýtt okkur í framtíðinni.

Orkumál lítillar þjóðar eins og okkar eru kannski að því leyti öðru vísi en mörg önnur mál að ákvarðanir í þeim geta verið afdrifaríkar bæði í bráð og í lengd. Þess vegna er mikilvægt að vandað sé til þeirra. Uppskriftin að því er í rauninni nærtækari en ætla mætti og má lesa hana að talsverðu leyti úr sögunni hér á undan. Ég sé heldur ekki betur en menn hafi að ýmsu leyti verið að nálgast hana á undanförnum áratugum. Nefnum til glöggvunar nokkur atriði:
  1. Allra tiltækra gagna sé aflað áður en tillögur mótast.
  2. Reynt sé að hafa sjónhringinn sem víðastan.
  3. Annarlegum sjónarmiðum eða hagsmunum sé bægt frá.
  4. Fagleg markmið skilgreind og þau höfð að leiðarljósi.
  5. Vönduðu verklagi fylgt.
  6. Staðreyndir og sérfræðiþekking sé virt.
  7. Menn einangri raunveruleg ágreiningsmál sem ekki verði leyst með gagnaöflun.
  8. Þjóðhagslegt gildi fyrirtækja og framkvæmda, afkoma og annað slíkt ráði sem mestu en ekki tímabundnar eða staðbundnar atkvæðaveiðar.
  9. Órökstutt sérhagsmunapot í bland við frekju taki ekki ráðin af skynsemi og aðgát eða hagsmunum fyrirtækja í framtíðinni.
  10. Tekið sé tillit til þess hvaða kostir í virkjunum og staðarvali fyrir stóriðjuver séu fýsilegastir í augum erlendra fyrirtækja sem leitað er samstarfs við, en ekki bara hlaupið eftir dyntum innanlandsstjórnmála.
Það getur vissulega kostað sitt að vanda til undirbúnings, til dæmis með því að setja sér verklagsreglur fyrirfram. Stundum kann að virðast sem þá sé verið að vinna verkið tvisvar, en svo er ekki því að galdurinn liggur í því að stuðla að faglegum vinnubrögðum með því að vinna verkið fyrst "akademískt", það er að segja án þess að annarlegir hagsmunir komist að, og reyna síðan að fella raunveruleg mál í sama farveg.

Sem sagt: Sagan getur kennt okkur ýmislegt og við skulum bara vera bjartsýn um það að verklagið í þessum málum sé að þróast í rétta átt, þá átt sem reynslan vísar okkur.

Erindi flutt á Orkuþingi 13. október 2001

Aftanmálsgreinar

[1] Leó Kristjánsson, ... Sjá einnig til dæmis Sumarliða Ísleifsson, 1996, 22-25, og Björn Þorsteinsson og Bergstein Jónsson, 1991, 367. -- Frímann var sérvitur nokkuð og spillti það svolítið fyrir honum þannig að störf hans á þessu sviði urðu endaslepp. Hins vegar er hann dæmi um þá merkilegu speki að mæla skuli hvern mann þar sem hann er hæstur, og mætti þá vel við una.

[1a] Þorsteinn Vilhjálmsson, 1981.

[2] Einar Benediktsson,1945, II, 60-63.

[3] Þorsteinn Erlingsson, 1943, 229-230. -- Sigurður Nordal skrifar nærfærnislega um stjórnmálaskoðanir Þorsteins í inngangi þessarar útgáfu, meðal annars með samanburði við þá Einar Benediktsson og Stephan G., sjá hér einkum Sigurð Nordal, 1943, LXIX.

[4] Stephan G. Stephansson, 1980, 130. -- Sigurður skrifar einnig ágætan inngang að þessari útgáfu um Stephan (Sigurður Nordal, 1980). Hann rekur þar í stuttu máli þessa ritdeilu skáldjöfranna þriggja og setur viðhorf Stephans í samhengi við önnur stjórnmálaviðhorf hans.

[4a] Guðjón Friðriksson, 1999, til dæmis bls. 16-25.

[5] Finnbogi Jónsson, 1981.

[6] Össur Skarphéðinsson, 1996.

[7] Finnbogi Jónsson, 1981.

[8] Meadows o.fl., 1974

Heimildaskrá (ekki fullbúin)
  • Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, 1991. Íslandssaga: til okkar daga. Reykjavík: Sögufélag.
  • Einar Benediktsson, 1945. Ljóðmæli I-III. Pétur Sigurðsson bjó til prentunar. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
  • Finnbogi Jónsson, 1981. "Samkeppnisstaða Íslands í orkufrekum iðnaði". Orkuþing, II, 479-494.
  • Guðjón Friðriksson, 1999. Einar Benediktsson: Ævisaga II. Reykjavík: Iðunn.
  • Meadows, Donella H., Dennis L. Meadows, Jørgen Randers, William W. Behrens, 1974. Endimörk vaxtarins: Þáttur í rannsókn Rómarsamtakanna á ógöngum mannkynsins. Þorsteinn Vilhjálmsson og Finnbogi Guðmundsson íslenskuðu. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
  • Orkuþing 81: Erindi flutt á Orkuþingi 9., 10.k og 11. júní, 1981, I-II. Reykjavík: Iðnaðarráðuneytið o.fl.
  • Sigurður Gizurarson, 1991. Laxárdeilan. Reykjavík: Skákprent.
  • Sigurður Nordal, 1943. "Þyrnar". Þorsteinn Erlingsson, bls. XI-CIV.
  • Sigurður Nordal, 1980. "Formáli". Stephan G. Stephansson, bls. 9-110.
  • Stephan G. Stephansson, 1980. Andvökur. Önnur útgáfa. Sigurður Nordal sá um útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning.
  • Sumarliði Ísleifsson, 1996. Í straumsambandi. Reykjavík: Rafmagnsveita Reykjavíkur.
  • Þorsteinn Erlingsson, 1943. Þyrnar. Fjórða prentun aukin. Sigurður Nordal gaf út. Reykjavík: Helgafell.
  • Þorsteinn J. Halldórsson, 1998. "Sjón og sjónhverfingar". Hjá Þorsteini Vilhjálmssyni, bls. 107-129. Reykjavík: Heimskringla.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, 1981. "Staðarval orkuiðnaðar, byggðaþróun og félagsáhrif". Orkuþing, II, 575-581.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson (ritstjóri), 1998. Undur veraldar: Greinasafn um raunvísindi fyrir almenning.. Reykjavík: Mál og menning.
  • Össur Skarphéðinsson, 1996. Urriðadans: ástir og örlög stórurriðans í Þingvallavatni. Reykjavík: Mál og menning

Höfundur

Þorsteinn Vilhjálmsson

prófessor emeritus, ritstjóri Vísindavefsins 2000-2010 og ritstjóri Evrópuvefsins 2011

Útgáfudagur

13.10.2001

Spyrjandi

Ritstjórn

Efnisorð

Tilvísun

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Orkumenning og orkusaga.“ Vísindavefurinn, 13. október 2001. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=70773.

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2001, 13. október). Orkumenning og orkusaga. Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=70773

Þorsteinn Vilhjálmsson. „Orkumenning og orkusaga.“ Vísindavefurinn. 13. okt. 2001. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=70773>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Orkumenning og orkusaga
Ef til vill má orða meginniðurstöður erindisins þannig að "enginn er eyland". Þróun íslenskra orkumála gerist ekki í óbreytanlegum einangrunarklefa heldur í víðu og síbreytilegu samhengi. Þetta gildir hvort sem litið er til þróunar í orkuvinnslu, umhverfismálum, stóriðju eða til dæmis í heimilistækjum og lífsháttum hins almenna notanda á hverjum tíma. Við skoðum nokkur slík mál til að læra af þeim en viljum þó varast vandlætingu. Slíkt á ekki heima í fræðilegri söguiðkun enda er fátt auðveldara en að vera vitur eftir á.

Ágrip

Í þessu yfirlitserindi verður leitast við að gefa mynd af nokkrum þáttum orkumála á tuttugustu öld. Einkum verður fjallað um íslensk orkumál en þó ekki litið framhjá samhengi þeirra við framvinduna á alþjóðlegum vettvangi. Áhersla er lögð á grundvallarviðhorf sem ráðið hafa þróuninni og hvernig þau hafa breyst í tímans rás. Jafnframt er lýst dæmum um það hvernig orkusagan tvinnast saman við aðra tækni, stjórnmálasögu og hugmyndasögu, sem og lífshætti og lífskjör. Um leið er orkusagan góður spegill fyrir margt sem varðar framvindu í almennri sögu.

Ef til vill má orða meginniðurstöður erindisins þannig að "enginn er eyland". Þróun íslenskra orkumála gerist ekki í óbreytanlegum einangrunarklefa heldur í víðu og síbreytilegu samhengi. Þetta gildir hvort sem litið er til þróunar í orkuvinnslu, umhverfismálum, stóriðju eða til dæmis í heimilistækjum og lífsháttum hins almenna notanda á hverjum tíma. Við skoðum nokkur slík mál til að læra af þeim en viljum þó varast vandlætingu. Slíkt á ekki heima í fræðilegri söguiðkun enda er fátt auðveldara en að vera vitur eftir á.

Meðal þess sem ber á góma í erindinu er samhengið milli rafvæðingar og jafnréttismála. Einnig er því haldið fram að ráðamenn á Íslandi hafi lengst af ofmetið orkulindir landsins sem auðlindir í einhverjum almennum, fortakslausum skilningi. Til marks um það má nefna að framvinda mála hefur öll verið miklu hægari en spáð var fyrirfram.

Inngangsorð

Þetta erindi fjallar um það sem kalla mætti hugmyndasögu orkumálanna. Henni hefur lítið verið sinnt fram að þessu, hvort sem við lítum á fræðilega sagnfræði eða almenna stjórnmálaumræðu um orkumál og umhverfismál. En þarna er að finna margar skemmtilegar og fróðlegar matarholur, bæði handa sagnfræðingum almennt og einnig handa þeim sem stunda vopnaskak stjórnmálanna; af þessari sögu má ekki síður margt læra en af mörgum öðrum. Meðal annars er hún ágætur spegill fyrir ýmsar breytingar á daglegu lífi og fyrir hugmyndir og viðhorfsbreytingar sem hafa orðið í tímans rás eða eru til umræðu í samtíðinni.

Hvar byrjar saga orkumálanna?

Ef spurt er hvar eigi að byrja sögu orkumálanna verður hið sama uppi og oft er þegar þannig er spurt; svarið ræðst af því hvað við viljum fella undir orðin orkunotkun og orkumál. Hugsanlegt væri til dæmis að skilgreina orkunotkun þannig að hún taki til þess þegar maðurinn notar orku utan eigin líkama til þess að vinna tiltekin verk. Samkvæmt því mundi það falla undir orkumál þegar maðurinn fór að temja hesta, asna, úlfalda og önnur dýr af því tagi til að spara sér bæði sporin og stritið. Einnig gæti það fallið undir orkumál þegar menn nota sér vindorkuna til siglinga og síðar meir til að mala korn. Og vert er að muna að vatnsorka hefur ekki eingöngu verið notuð til raforkuframleiðslu heldur var hún notuð um aldir til kornmölunar. Einnig má minna á notkun eldsins frá örófi alda en með henni hefur ýmist verið gengið á endurnýjanlegar auðlindir eins og eldivið eða á takmarkaða auðlindabanka í jarðefnum eins og kolum eða mó, olíu eða gasi.

"Mór og kol voru helstu hitagjafar á reykvískum heimilum fram undir miðja 20.öld og urðu ofnar af ýmsum gerðum og misíburðamiklir brátt á flestum heimilum. Ofnarnir, sem oftast voru búnir til úr pottjárni eða keramiki, voru yfirleitt fluttir inn frá Danmörku". Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;31.

Ef þessum skilgreiningum er fylgt hefur orkunotkun Íslendinga hafist með landnáminu, nánar tiltekið með siglingum til landsins, með húsdýrum eins og hestum og með eldiviðarvinnslu og mótekju til að hita híbýli og laga mat. Hér er ekki þörf á að rekja þá sögu nánar enda er hún alkunn.

Upphaf nútíma orkumála á Íslandi

Hins vegar er væntanlega eðlilegt að miða nútíma orkuvinnslu við það þegar menn fóru að nota vélar til orkuframleiðslu og orkunýtingar. Hér verður einkum staldrað við innlenda orkugjafa, það er að segja vatnsorku og jarðhita. Nýting þessara orkugjafa hér á landi hófst þegar menn fóru að virkja bæjarlæki og önnur slík fallvötn um aldamótin 1900. Einn af frumkvöðlum þess var Vestur-Íslendingurinn Frímann B. Arngrímsson.[1]

Saga orkumálanna um aldamótin 1900 felur meðal annars í sér merkilegar hliðar á samspilinu milli einkaframtaks annars vegar og ríkis og sveitarfélaga hins vegar. Svo virðist sem einkaframtak bænda og annarra smærri aðila hafi verið fyrri til en ríkisvald eða sveitarfélög til að nýta sér þessa nýju tækni sem átti eftir reynast Íslendingum svo vel sem raun ber vitni. Einnig er sagan áhugaverð frá sjónarmiði byggðamála og byggðaþróunar, til dæmis vegna þess að Reykvíkingar á þessum árum urðu höndum seinni í rafvæðingunni. Hér veðjuðu menn á annan hest, gasið, sem reyndist síðar ekki henta hér á landi.

Gasstöðin í Reykjavík. Einu merki stöðvarinnar sem nú sjást er íbúðarhús stöðvarstjórans, húsið sem er lengst til hægri á myndinni, nú aðsetur strætisvagnabílstjóra við Hlemm." Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;33)

Virkjun bæjarlækjanna og önnur raforkuvinnsla á þessum tíma miðaðist í fyrstu einkum við að framleiða orku til ljósa, enda var þá ekki völ á tækjum til annarar raforkunotkunar. En ekki er heldur erfitt að sjá fyrir sér hversu miklu rafljósin hafa breytt í lífi fólks, til dæmis í íslensku skammdegismyrkri. Ljósin sem menn höfðu áður, grútartýrur, olíulampar og síðast gasljós, voru bæði dauf og kostnaðarsöm í rekstri, gátu verið hættuleg og heilsuspillandi og þurftu mikla umhirðu.

Þorsteinn Halldórsson (1998) sagði frá því nýlega í grein að fólk sem var komið á efri ár upp úr miðri 20. öld var spurt hvað það teldi hafa breytt mestu í daglegu lífi á sinni ævi. Ætla mætti að margir hefðu nefnt til dæmis símann, útvarpið eða bílinn en í ljós kom að flestir nefndu rafljósin.

Og raflýsingin var ekki aðeins einhver mesta tækniframför í þágu almennings á 20. öld, heldur eru rafljós líklega ein allra hagkvæmasta orkunýting sem um getur, meðal annars vegna þess hversu fjarri fer því að við getum skapað jafngóða og þægilega lýsingu eftir öðrum leiðum. Merking orðsins "upplýsing" er því ekki eins tvöföld og hún kann að virðast við fyrstu sýn. Svo mikið er víst að draugar landsins hafa orðið fyrir barðinu á upplýsingunni í báðum merkingum hennar og þurft að láta undan síga. Þeir geta látið sig litlu varða hvor þeirra er á ferðinni hverju sinni.

Hugmyndabarátta skáldanna

Ég hef áður bent á það í ræðu og riti - á Orkuþingi árið 1981 [1a] - hvernig þrjú af þjóðskáldum okkar í byrjun 20. aldar mótuðu í rauninni þá meginfarvegi sem viðhorf manna til orkumála og vatnsaflsvirkjana hafa fallið í allar götur síðan. Þetta voru þeir Einar Benediktsson, Þorsteinn Erlingsson og Stephan G. Stephansson. Í stuttu máli má segja að Einar hafi fjallað nær gagnrýnislaust um virkjanir og aðrar tækniframfarir í kvæðum sínum, meðal annars um Dettifoss:
Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör

að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör ...[2]
Í þessu og öðrum kvæðum Einars er engin gagnrýnis- eða varnaðarorð að finna þegar vatnsaflsvirkjanir og stóriðja eru annars vegar. Það var því engin furða að Þorsteinn Erlingsson svaraði skáldbróður sínum fullum hálsi í kvæði sínu, Við fossinn frá 1907, og gekk þar býsna langt í málflutningi sínum gegn vatnsorkuverum:
Hví vilja ekki þeir sem þú tylltir á tá

á titrandi ljósbogans hæðum,

að ættjörðin megi þá aflstrauma fá

úr óbornu skáldanna kvæðum?[3]
Lífsskoðanir og lífsreynsla Stephans G. buðu honum hins vegar að fara bil beggja og mæla með virkjunum svo framarlega sem þær yrðu til þess að létta ok hins vinnandi manns. Hann yrkir í orðastað fossins í kvæðinu Fossaföll frá 1910:
Mig langar hins, eins lengi og fjallið stendur,

að lyfta byrði, er þúsund gætu ei reist,

og hvíla allar oftaks lúnar hendur

á örmum mér, er fá ei særst né þreyst, ...[4]
Eiginleg vistfræði eða umhverfismál voru þá ekki komin til umræðu en auðvelt er að yrkja í eyðurnar í deilum skáldjöfranna og bæta þeim málaflokki við í röksemdum þeirra.

Þannig má segja að óslitinn þráður liggi frá Einari til þeirra sem nú ganga harðast fram í baráttu sinni fyrir virkjunum og stóriðju. Ég vænti þeir láti sér það vel líka enda kemur sú niðurstaða trúlega engum á óvart! En það má líka spinna samfelldan þráð frá Þorsteini Erlingssyni til þeirra sem eru fremstir í flokki til verndar fossum og gegn stóriðju og jafnvel líka ýmsu öðru sem oft er talið til tækniframfara. Og að lokum er sá hópur líklega hreint ekki lítill sem hugsar um þessi mál á svipuðum nótum og Stephan G., að virkjun fossins sé vissulega þess virði ef með því má "hvíla oftaks lúnar hendur".

Fossasalan: Draumórar eða mistök?

Þegar við lesum um liðna tíð vilja margir taka afstöðu til þess sem persónur sögunnar taka sér fyrir hendur. Þetta á meðal annars við um fræga tilburði Einars Benediktssonar og fleiri til að fá útlendinga til að kaupa fossa og virkja þá. Sú spurning leitar þá á hugann hvort þessar hugmyndir skáldsins hafi verið draumórar einir, fjarri öllum tengslum við veruleikann. Svarið við þeirri spurningu er að mínu mati bæði já og nei.

Hugmyndirnar um sölu á vatnsorku til stóriðju á fyrri hluta 20. aldar voru ekki fjarstæðukenndari en svo í þann tíð, að á sama tíma var einmitt verið að virkja fossa og reisa meiri háttar stóriðjuver á nokkrum stöðum í Noregi [4a]. Eins og eðlilegt er var þá fyrst borið niður á þeim stöðum sem menn vissu hentugasta miðað við tæknina eins og hún var þá. Menn virkjuðu fallvötn sem höfðu mikla fallhæð og voru jafnframt nálægt sjó þannig að ekki þurfti að flytja orkuna um langan veg til stóriðjuversins, enda höfðu menn þá ekki góð tök á slíkum flutningum.

Orkuver við Odda í Harðangursfirði í Noregi.

Við nútímamenn mundum segja að Norðmenn hafi á sínum tíma fórnað verulegum öðrum hagsmunum eða gæðum fyrir þessi orkuver því að þarna var meðal annars tjaldað til sumum fegurstu stöðum Noregs, stöðum sem höfðu verið ofarlega á blaði þegar ferðamennska fór að komast í tísku hjá fyrirfólki í Evrópu fyrir aldamótin 1900 (til dæmis Odda við Harðangursfjörð). -- En þetta voru engu að síður afar hagkvæm fyrirtæki þegar horft var á virkjun og iðjuver saman - miklu hagkvæmari en það sem Ísland gat boðið. Það var því engin tilviljun að Ísland hlaut að bíða gott betur en hálfa öld þar til íslenska vatnsorkan fór að freista útlendinga í alvöru. Að því leyti getum við sagt að hugmyndir um orkufreka stóriðju á Íslandi á fyrri hluta 20. aldar hafi verið í ætt við draumóra frekar en raunsæi [5]. Og um leið getum við sagt að það hafi ekki verið nein mistök af hálfu samningamanna eða fossasölumanna að þeim skyldi ekkert verða ágengt svona lengi; varan sem þeir höfðu að bjóða var einfaldlega ekki betri en svo miðað við tæknistig, markað og annað þar fram eftir götunum á þeim tíma.

Hvað er auðlind?

Umræður um vatnsaflsvirkjanir hafa löngum verið miklar hér á landi. Menn hafa bæði viljað ræða af kappi hver skuli eiga fallvötnin, orkuverin og stóriðjuna, hvenær skuli virkja, hvernig og með hvaða formerkjum, og hvað skuli gera við orkuna.

Í svo langvinnum umræðum grafa menn sér oft eins konar skotgrafir og éta síðan ákveðin atriði gagnrýnislaust hver eftir öðrum. Hér á þetta til dæmis við um þá fullyrðingu að orkan sé auðlind - náttúruauðlind eins og við segjum líka stundum - án þess að menn átti sig nánar á merkingu þeirra orða. Með því einurðarleysi hafa menn síðan bakað sér og sínum margvísleg vonbrigði og vandræði í tímans rás.

En hvað merkir þetta þá, að orkan sé auðlind? Er hún auðlind í sama skilningi og gullnáma, eða kannski eins og andrúmsloftið? Eða eru gullnáman og andrúmsloftið auðlindir í sama skilningi, sem vatnsorkan getur þá líka fallið undir?

Nú búum við svo vel að íslenska orðið auðlind er tiltölulega gagnsætt og hlýtur að eiga að tákna eitthvað sem menn geta gert sér auð úr - auðsuppspretta eins og stundum er sagt. Í nútíma samfélagi þýðir þetta að menn geti nýtt sér fyrirbærið til arðbærrar framleiðslu eða starfsemi, þrátt fyrir að öflun þess kunni að kosta fé og fyrirhöfn. En á almennara máli sem gæti náð yfir fleiri og eldri samfélagsgerðir mundi þetta þýða að menn geti nýtt viðkomandi efni eða fyrirbæri - auðlindina - til þess að spara sér eitthvað annað þannig að aukin hagkvæmni náist, í víðum skilningi. Það þarf sem sé að vera einhver sem vill nýta auðlindina eða "kaupa vöruna" svo að við notum velþekkt orðalag úr viðskiptum; nýtingin þarf að færa mönnum meiri "auð" en sem svarar kostnaðinum við nýtinguna.

Við sjáum af þessu að merking orðsins "auðlind" er afstæð gagnvart stað og tíma; það sem er auðlind á einum stað og einum tíma þarf ekkert endilega að vera það annars staðar eða á öðrum tíma. Og þó að eitthvað sé auðlind - auðsuppspretta - í einhverju tilteknu magni, þá er ekki þar með sagt að meira af því sama sé líka auðlind. Um þetta hefur auðlindahagfræðin sjálfsagt miklu meira að segja en hér verður rakið.

Dæmin um þetta afstæði auðlindarhugtaksins eru legíó ef við horfum örlítið kringum okkur í tíma og rúmi. Þannig voru mómýrar á Íslandi mikilvæg auðlind áður fyrr en eru það ekki lengur; markaðsverð þeirra er núll nú á dögum. Sauðfjárbeitilönd Íslands voru auðlind meðan nógur markaður var fyrir vöruna sem varð til með beitinni -- á verði sem stóð undir framleiðslukostnaði -- en svo þarf ekki að vera endalaust ef verðhlutföll og aðrar aðstæður breytast -- og þannig mætti lengi telja.

Orka fallvatnanna var hins vegar í raun og veru alls engin auðlind fyrr en til sögunnar kom tækni sem gerði mönnum kleift að virkja hana - og, Nota Bene, nýta hana til einhvers við hinn enda raflínunnar! Með öðrum orðum hefði raforka frá virkjun til dæmis verið einskis virði ef ekki væru til nógu mörg og fjölbreytileg tæki eins og ljósaperan til að breyta henni í eitthvað sem að gagni mátti koma fyrir mannfólkið.

Fróðlegt er líka að hugleiða í þessu viðfangi í hvaða skilningi andrúmsloftið sé auðlind. Að því marki sem nóg er af blessuðu loftinu allt um kring virðist svo ekki vera. Jafnvel þótt við notum það í ýmiss konar efnislega framleiðslu, til dæmis í tilbúinn áburð, þá mundum við ekkert endilega taka svo til orða að það sé þar í hlutverki auðlindar. Ástæðan er sú að sjálf öflun þess - loftsins sjálfs - kostar ekki neitt og það er nóg af því alls staðar þannig að þess vegna má til dæmis einu gilda hvar við komum áburðarverksmiðju fyrir.

Hins vegar er vel hægt að hugsa sér þær aðstæður að hreint andrúmsloft sé auðlind, til dæmis í stórborgum nútímans þar sem skortur er á því. Þetta nýja eðli þess þarf ekki endilega að birtast þannig að hreint loft gangi kaupum og sölum í tönkum, heldur til dæmis í mismunandi ásókn í lóðir og búsetu eftir ástandi loftsins á hverjum stað.

Er vatnsorkan auðlind?

Það blasir auðvitað við að íslensk vatnsorka er auðlind að því leyti að við getum notað hana hér innanlands til að létta okkur lífið og spara okkur strit; vinnan og verðmætin sem fara í að virkja vatnið eru greinilega miklu minni en vinnan sem við spörum með rafmagninu á eftir. Saga 20. aldar sýnir okkur þetta glöggt og jafnframt má segja að á þeirri öld hafi menn náð því að fullnýta auðlindina að þessu leyti í bili - við höfum lokið "rafvæðingu" landsins eins og það hét einu sinni. Nær allir Íslendingar hafa nú nóg rafmagn frá rafveitum til þeirra hluta sem þeir vilja hafa á heimilum sínum eða í daglegu lífi að öðru leyti.

Hins vegar eru þær hugmyndir sem nú eru uppi um að nota vatnsorkuna til að framleiða vetni og knýja farartæki enn eitt dæmið um afstæði auðlindarhugtaksins. Vatnsorkan verður þá auðlind í enn nýjum skilningi og nýtt stig rafvæðingar getur hafist; nýtt skeið sem getur vel orðið álíka langt og hið fyrra.

Þetta er allt gott og blessað en málið vandast hins vegar þegar menn ætla vatnsorkunni hlutverk auðlindar gagnvart erlendum kaupendum handan við Atlants ála, enda hefur sú saga öll gengið skrykkjótt. Íslenskir fossar stóðust einfaldlega ekki samkeppnina til dæmis við norsku "auð"lindirnar; miðað við það tæknistig sem menn höfðu þá náð (mikil fallhæð á afmörkuðu svæði, stöðugt rennsli, hafnir og heppilegir staðir fyrir stóriðjuver nálægt virkjunarstöðum, meira vinnuafl en hér til byggingar og reksturs, nálægð við markaði fyrir afurðir stóriðjunnar, heppilegra veðurfar og svo framvegis).

Miklar umræður um orkumál urðu sem kunnugt er á sjöunda áratug 20. aldar þegar Búrfellsvirkjun og álver í Straumsvík voru á dagskrá. Ein röksemdin sem fylgjendur framkvæmda beittu var sú að Íslendingar þyrftu að hafa hraðan á að koma vatnsorku landsins - auðlindinni - í verð áður en kjarnorka mundi kaffæra aðrar aðferðir til orkuframleiðslu á heimsmarkaði. Ef þetta hefði gengið eftir hefði það verið enn eitt dæmið um afstæði auðlindarhugtaksins sem ég ræddi um áðan. En þetta gerðist ekki sem kunnugt er, hvort sem mönnum líkar betur eða verr; kjarnorkan reyndist ekki sú auðlind sem menn höfðu haldið og því erum við enn að ræða um íslenska orku. Og sjálfsagt eru einhverjir meðal okkar sem vildu hafa talað öðru vísi þá - eftir á að hyggja - en þannig er nú einu sinni sagan, að sá sem spáir fram í tímann tekur áhættu. Það hafa báðir aðilar í deilum um orkumál hér á landi sannarlega fengið að reyna.

Þannig hefur tímabilið frá sjöunda áratugnum fram til aldamótanna 2000 enn einu sinni leitt í ljós afstæði auðlindarhugtaksins; sýnt hversu skammgóður vermir það er að byggja skýjaborgir á þeirri grunnhugmynd að orkan sé fortakslaust auðlind í einhverjum einföldum skilningi. Þannig hafa stjórnmálamenn úr flestum eða öllum stjórnmálaflokkum talað fjálglega um orkuna sem auðlind á löngum tímabilum án þess að nokkur tryggur kaupandi væri í augsýn. Og í annan stað hafa þeir látið í það skína að ákvarðanir í þessum efnum væru allar í höndum þjóðarinnar þegar raunin er sú að kaupendur setja sín skilyrði um vöruna sem þeir vilja kaupa, og þá á ég ekki bara við orkuna sjálfa heldur vöruna alla í víðasta skilningi, þar með talið allt umhverfi framleiðslunnar. Stóriðjufyrirtækin vita sem er að rafeindirnar sem orkuverið afhendir þeim eru allar eins, en þau spyrja eftir sem áður um ýmiss konar umhverfismál í víðum skilningi. Þetta má til dæmis sjá þegar þau kynna sig á vefsíðum og einnig í verki í ýmsum viðbrögðum þeirra við nýjum upplýsingum og viðhorfum.

Í seinni tíð hefur vitund almennings og fyrirtækja um umhverfismál þróast á þann veg að mörg stóriðjufyrirtæki sjá sér ekki lengur hag í því að eiga aðild að stóriðjuverum þar sem umhverfismál eru í ólestri. Þetta er nýlunda sem margir virðast enn ekki hafa áttað sig á; enn eitt dæmið um hið víða samhengi sem hafa þarf í huga í orkumálum, kannski enn frekar en í ýmsum öðrum málaflokkum, til dæmis vegna þess að ákvarðanir í orkumálum geta náð svo langt fram í tímann. En þeir sem ætla að semja við slík fyrirtæki um orkusölu geta þurft að taka þessi nýju viðhorf rækilega til greina.

Hitaveitan

Ég minntist áðan á það að notkun rafmagns til ljósa væri sennilega einhver hagkvæmasta orkunotkun sem um getur, og því hafa menn verið býsna heppnir að Edison skyldi finna upp ljósaperuna svo snemma. Hér má hafa til marks gömlu ljósavélarnar sem menn komu fyrir á sveitabæjum í eina tíð. Þetta voru yfirleitt dísilvélar sem framleiddu rafmagn með lítilli nýtni, en rafmagnið var hins vegar svo dýrmætt af því að það var notað til lýsingar og ekki var völ á öðrum aðferðum til að skapa jafngóða lýsingu. Kolaeldavélin stóð á hinn bóginn lengi vel fyrir sínu í sveitum, hitaði bæði híbýli og mat og þróaðist verulega fram eftir 20. öldinni.

"Áróðursmynd frá Rafmagnsveitu Reykjavíkur þar sem fólk er hvatt til þess að kaupa rafmagnseldavél." Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;142

Sú orkunýting sem líklega kemur hvað næst lýsingunni í heildarhagkvæmni er húshitun með jarðhita sem hófst í stórum stíl hér á landi um 1940. Eftir á að hyggja höfum við séð að þetta er ákaflega umhverfisvæn orkuframleiðsla. Henni fylgir hvorki reykur né sót eins og þegar kol eða olía eru notuð til húshitunar og önnur umhverfisspjöll hafa reynst bæði lítil og auðveld viðfangs í samanburði við sparnaðinn sem fylgir nýtingu jarðhitans. Sjálf orkuverin hafa líka miklu minni áhrif á umhverfið en vatnsorkuverin og er það ein ástæðan til þess að jarðvarminn sækir nú á sem auðlind til raforkuframleiðslu.

Við Íslendingar erum ekki lausir við sjálfhælni sem kunnugt er og stærum okkur oft af hlutum sem standa í rauninni ekki undir hólinu. Þetta á þó ekki við um nýtingu jarðhitans sem hefur fært okkur ómældan auð og þægindi og er þó enn ekki fullnýttur á innanlandsmarkaði, til dæmis á sveitabæjum og í sumarbústöðum. Raunveruleg nytsemi jarðhitans mælist þó ekki eingöngu í peningum á hverjum tíma heldur sést hún líka til að mynda af því að þær raddir heyrast varla sem mæla gegn jarðhitanum og nýtingu hans.

Innreið þungu raftækjanna

Það vill oft gleymast að Reykvíkingar notuðu gas sem orkulind um alllangt skeið á fyrri hluta 20. aldar, til húshitunar, matargerðar og ljósa svo að dæmi séu tekin, en rafveitan miðaðist fyrst í stað mest við lýsingu eins og áður er sagt. Það er í rauninni dálítið furðulegt hvað þessu er lítið haldið á loft og hve fáir vita af því; engu líkara en það sé einhvers konar "tabú" sem stangist á við þá sjálfsmynd sem við viljum hafa?

Rafmagnsveita Reykjavíkur var stofnuð árið 1921 og framleiddi í fyrstu einkum rafmagn til ljósa. En raforkunotkun til eldunar fór að aukast um 1940 og við það margfaldaðist orkuþörfin. Menn fóru að reisa stærri virkjanir eins og Laxárvirkjun 1 og virkjanirnar þrjár við Sogið. Þeim var yfirleitt ákaft fagnað sem miklu framfaramáli í þann tíð en þær raddir heyrðust þó líka sem töldu að með þessum framkvæmdum væri hallað á sveitir landsins. Það var ekki fyrr en löngu seinna sem menn vöknuðu upp við vondan draum um það að líklega hefði gleymst að hugsa um urriðann í Þingvallavatni.[6]

Segja má að þetta skeið í raforkusögu innanlandsmarkaðarins hafi staðið sem næst frá 1940-1985. Það einkennist af síaukinni notkun á tiltölulega orkufrekum tækjum á heimilunum - tækjum sem komu á markaðinn hvert af öðru. Neytandinn keypti þau í takt við vaxandi velmegun og nú þykja þau sjálfsagður hlutur á hverju heimili. En jafnframt gerbreyttust lífshættir fólks með batnandi húsnæði, aukinni bílaeign og ekki síst vegna þessara þungu raftækja.

Rafmagnseldavélin var fyrsta tækið af þessum toga og hún er ennþá eitt af orkufrekustu raftækjum heimilisins. Tæknin í henni er fremur einföld og fyrsta kynslóð eldavélanna var jafnvel framleidd hér á landi (Rafha í Hafnarfirði).

Á eftir eldavélinni kom fyrsta kynslóð af einföldum þvottavélum og rafknúnum þvottapottum. Þau táknuðu verulega framför frá því sem áður var þegar konur þvoðu alla þvotta með höndum í bala og með þvottabretti. Enn þurfti að standa yfir tækjunum og færa blautan þvottinn milli þeirra. Kannski má lýsa framförinni þannig að mannshöndin þurfti að koma að verkinu en það var hins vegar miklu léttara. - Í þvottapottunum var hitað talsvert af vatni og þeir tóku því til sín umtalsverða orku, nema þar sem fært þótti að nota hitaveituvatn í þá.

"Þvottavélin Mjöll, framleidd í samvinnu Héðins og Rafha." Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;163.

Það var ekki fyrr en upp úr 1960 sem næsta kynslóð þvottatækja sá dagsins ljós; sjálfvirkar vélar sem eru nú í hverju þvottahúsi og vinna hin ýmsu verk þvottaferlisins sjálfkrafa hvert af öðru. Ein slík vél kom í staðinn fyrir hin tvö, gömlu þvottavélina og þvottapottinn. Þvottavélarnar hita allmikið vatn til þvottanna og yfirleitt er ekki notað hitaveituvatn í þær, þannig að þær eru talsvert orkufrekar. Tæknin í þeim er nokkuð háþróuð eins og í annarri sjálfvirkni og mannshöndin þurfti nú ekki lengur að koma nálægt þvottaferlinu sjálfu. Þess vegna er sjálfvirka þvottavélin einn besti fulltrúi þeirrar lífsháttabreytingar sem fylgdi rafvæðingunni og ég kem nánar að síðar.

Ísskápar komu fram á sjónarsviðið næstir á eftir þvottatækjum af fyrstu kynslóð. Þeir léttu heimilisstörfin meira en ætla mætti við fyrstu sýn. Áður þurfti til dæmis að kaupa mjólk, fisk og ýmsa aðra matvöru til heimilisins á hverjum degi, en nú var hægt að kaupa meira í einu og geyma það til nokkurra daga. Samhliða þessu þróaðist varan, til dæmis mjólkin, þannig að hún þoldi meiri geymslu og frágangur á henni tók mið af ísskápnum. - Ísskápar taka ekki mikinn straum en eru hins vegar lengi í gangi á hverjum sólarhring þannig að orkunotkun þeirra er þó nokkur og hefur vafalaust verið meiri í fyrstu kynslóðum en hún er nú. - Tæknin í ísskápum og frystikistum er í sjálfu sér nokkuð merkileg og nær út fyrir það sem við upplifum ella í daglegu lífi.

Næst ber að nefna frystikistuna en hún hefur einnig breytt daglegu lífi allverulega. Hún tekur til sín allverulega orku á hverjum sólarhring og vegur þó nokkuð þungt í orkureikningi heimilanna. Orkunotkunin fer þó talsvert eftir hönnun annars vegar og hins vegar eftir því hvernig menn nýta sér tækið, til dæmis hvort ferðirnar í frystikistuna eru margar og hvort menn frysta vöru sem áður er ófrosin.

Síðasta þunga raftækið sem náð hefur almennri útbreiðslu er uppþvottavélin. Sjálfvirknin í henni er í ætt við sjálfvirku þvottavélina en sá er munurinn að uppþvottavélin hitar lítið vatn. Hún er því ekki mjög orkufrek og ekki eins mikilvæg í orkusögunni og flest önnur tæki sem hér hafa verið nefnd.

Freisting framreikningsins

Innreið þungu raftækjanna á heimilin, bæði hér og víða í nágrannalöndum, hófst sem fyrr segir um 1940 og stóð allar götur fram til 1985 eða svo þegar gróin heimili voru flest komin með öll þessi tæki nema þá helst uppþvottavélina sem skiptir hvort eð er litlu. Á þessu tímabili óx raforkunotkun heimilanna jafnt og þétt um nálægt 7% á ári sem er auðvitað veruleg aukning.

"Orkunotkun á mann á veitusvæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur." Sumarliði R. Ísleifsson.1996;203.

Hún stafaði fyrst og fremst af því að tækjunum á hverju heimili var að fjölga. En hjá þeim sem hugsuðu sem mest um orkupólitík landsmanna urðu þessi 7 prósent smám saman að heilagri tölu. Þeir gerðu hiklaust ráð fyrir að þessi vöxtur mundi líklegast halda áfram endalaust og höguðu umræðum og áformum um virkjanir samkvæmt því. Þetta leiddi ásamt öðru til þess að framboð á rafafli fór að óþörfu fram úr eftirspurn í nokkur ár þegar dró úr vextinum í orkuþörf hins almenna markaðar um 1985 (sjá mynd). Þannig má segja að þetta sé eitt dæmið um skort á yfirsýn í íslenskri orkusögu. Að sjálfsögðu er ekki verið að gagnrýna einstaklinga með því að benda á þetta, því að það er mannlegt að skjátlast og allt orkar tvímælis þá gert er. Þeir sem þarna settu tölur á blað voru einfaldlega að fylgja fram ríkjandi viðhorfum í sínum hópi.

Ein ástæðan til þess að talan 7% á ári varð ekki jafnheilög og fastarnir í lögmálum náttúrunnar er sú að neysla almennings - eða öllu heldur viðbótin í neyslu - sótti um þetta leyti í aðra farvegi, í hluti sem voru ekki eins orkufrekir og áður hafði verið. Ber þar hæst að um þetta sama leyti er tölvubyltingin að byrja og talsvert af neyslufé heimilanna fer að renna til kaupa á einkatölvum sem hafa lengst af verið talsvert dýrari en orkufreku heimilistækin. Auk þess hefur tegundum orkufrekra tækja ekki haldið áfram að fjölga.

Þessi stefnubreyting neyslunnar hefur að sjálfsögðu ekki aðeins sagt til sín hér á landi heldur víðast hvar í vestrænum heimi. Þar hefur hún ásamt öðru orðið til þess að efnisleg neysla á mann, til dæmis notkun málma, hefur ekki vaxið eins ört og menn ætluðu fyrirfram. Það hefur svo aftur átt sinn þátt í því að eftirspurn eftir álverum og orku handa þeim óx lengi vel ekki eins og menn höfðu ímyndað sér, þó að líklega sé eitthvað að létta til í þeim efnum á síðustu árum.

Raftækin og jafnréttið

Ekki fer milli mála að glögg tengsl eru milli raftækjavæðingarinnar sem hófst á fimmta áratug 20. aldar og vaxandi vinnu kvenna utan heimilis sem hófst nokkru síðar. Það hafði áður verið fullt starf að reka heimili meðalfjölskyldunnar en nú varð það smám saman aðeins hlutastarf sem hægt var að rækja samhliða starfi utan heimilis, ýmis hálfu eða heilu eftir atvikum. Það voru ekki síst þungu raftækin, tæki eins og sjálfvirka þvottavélin, ísskápurinn og frystikistan, sem gerðu þetta mögulegt. Þegar jafnréttissinnaðar konur voru ásakaðar um það í hita umræðunnar að svíkjast undan skyldum sínum við heimilið kom raunar fyrir að þær vísuðu á móti til heimilistækjanna sem hefðu létt heimilisstörfin svo mjög og stytt tímann sem til þeirra þurfti.

Seinna meir virðist sem þessi tengsl milli rafmagnsins og jafnréttisins vilji gleymast í umræðunni. Kannski stafar það af því að þeir eru fáir sem hafa bæði áhuga á rafmagni og jafnréttismálum. Einnig gæti þó komið til venjuleg söguskekkja, það er að segja tilhneiging okkar til að halda að allt hafi alltaf verið eins og það er núna. Þannig eru kannski margir búnir að gleyma því að fyrir 40 árum var það ennþá fullt starf að sjá um heimili vísitölufjölskyldunnar.

Tæknin og lífskjörin

Þeir menn eru til sem vilja gera lítið úr svokölluðum framförum sem orðið hafa á síðustu öldum og tengjast vísindum og tækni. Slíka menn er líklega öðru fremur að finna í þeim fílabeinsturnum akademíunnar sem tengjast ekki almenningi í viðkomandi samfélagi. En við skulum glöggva okkur á þessu með því að líta á daglegt líf húsmóður í 5 manna fjölskyldu í Reykjavík á árunum 1930-1940 eða svo, með áherslu á þau atriði sem tengjast viðfangsefnum okkar.

Vinnuvika þessarar húsmóður hefst á mánudegi með því að þvo föt, sængurföt og annað af fjölskyldunni. Heimilisfaðirinn vinnur erfiðisvinnu þannig að mikið fellur til af þvotti frá honum. Börnin leika sér líka mikið úti í mold og aur enda var malbik þá nánast óþekkti á Íslandi, en þetta kostaði mikinn þvott á fötum barnanna. Talsvert af fataefnum í þá daga þurfti suðu eða 60 gráðu þvott (mislitt). Þvottavatnið var hitað í kolapotti og þvotturinn þveginn í bala með þvottabretti sem nútímamenn þekkja sjálfsagt best af því að það orð er notað um vegi í tilteknu ásigkomulagi. Hræra þurfti í þvottapottinum og lyfta blautum þvottinum nokkrum sinnum milli hans og balans eftir því hvort verið var að þvo eða skola, auk þess sem hann var undinn lauslega fyrir hverja skolun. Að þvottinum loknum var reynt að vinda mestu bleytuna úr þvottinum í höndunum eða með rullu áður en hann var hengdur upp á snúru, annaðhvort í þvottahúsi eða úti. Þegar þvotturinn var síðan orðinn þurr þurfti að teygja hann og síðan að strauja og brjóta saman eftir kúnstarinnar reglum.

"Skopmynd úr Morgunblaðinu frá 1962. Þrjátíu árum eftir deilurnar um fyrstu virkjun Sogsins néri blaðið framsóknarmönnum því um nasir að þeir hefðu verið andstæðir virkjuninni." Sumarliði R. Ísleifsson. 1996;80.

Í kvæðinu sem við syngjum á jólunum, "Göngum við í kringum ..." er þessu ferli svo lýst að það taki fimm daga, frá mánudegi til föstudags, en á laugardeginum voru gólfin þvegin. Þetta er auðvitað lýsing með skáldaleyfi en þvottaferlið tók samt í raun nokkra daga meðfram öðrum verkum. Þar á meðal þurfti að fara í mjólkurbúð einu sinni á dag og kaupa svo sem fjóra lítra af mjólk ásamt skyri og fleiri mjólkurafurðum. Svo var komið við hjá fisksalanum og í nýlenduvörubúðinni. Margvísleg matargerð var líka ríkur þáttur í störfum húsmóðurinnar, þar með taldar ýmsar aðgerðir til varðveislu matar, svo sem sláturgerð og meðferð súrmetis og saltfisks. Jafnframt þurfti að sinna börnunum þremur, heilsu þeirra og skólagöngua. Sömuleiðis var algengast í þá daga að húsmæður í alþýðufjölskyldum saumuðu fötin á fjölskylduna og héldu þeim við.

Þetta hefur allt gerbreyst með tilkomu rafmagns og raftækja sem hélst í hendur við þróun á nýjum neysluvörum. Er óþarft að rekja það í smáatriðum hér utan hvað ég vil nefna að það eru ekki bara þvottavélarnar sem hafa breytt störfunum kringum þvottinn heldur líka hvers konar ný fataefni sem komið hafa á markað. Lækkandi verð á fötum miðað við vinnutekjur og tímakaup hefur einnig átt sinn þátt í því að saumaskapur á heimilum fer nú ört minnkandi þó að saumavélum hafi fleygt fram eins og öðrum tækjum.

Í stuttu máli má líklega segja að fyrrnefnd heimilisstörf taki nú 1-2 tíma á dag en voru þá að minnsta kosti fullt starf samkvæmt okkar mælikvarða, 10-12 stundir á dag. Vinnumagnið sem um ræðir sést meðal annars af því hvernig brugðist var við þegar foreldrar voru einstæðir; þá var nær ógerningur að reka fjölskylduna hún var oftar en ekki leyst upp. Þannig hafa tæknin og atvinnuhættirnir meðal annars áhrif á einkalífið, þar á meðal það sem einkalegast er af öllu, sjálfa fjölskyldugerðina.

Virkjanasagan, "auðlindin" og heildardæmið

En snúum okkur nú aftur að hinum enda raflínunnar, framleiðsluendanum. Í þeirri sögu hafa ekki síður gerst forvitnilegir hlutir en við endann sem snýr að heimilunum. Og saga orkuframleiðslunnar á Íslandi er ekki bara saga atburða, ártala og annarra talna heldur búa oftar en ekki forvitnileg almenn viðhorf bak við atburði og ákvarðanir þó að svo kunni stundum að virðast sem þær séu teknar í tilteknum hópi einstaklinga.

Ég nefndi það áðan að bygging Sogsvirkjana og Laxárvirkjunar um og upp úr 1940 hefði ekki verið með öllu óumdeild vegna ágreinings milli þéttbýlis og dreifbýlis. Það var þá ríkjandi skautun í byggðamálum þar sem núna er frekar talað um höfuðborgarsvæði eða suðvesturhorn "á móti rest". En talsmenn dreifbýlisins um miðja 20. öld hafa líklega ekki allir hugað að því að rafvæðing þéttbýlisins var nauðsynleg forsenda þess að rafmagnið mundi líka ná til sveitanna í fyllingu tímans.

"Leifar Miðkvíslarstíflu 22 árum eftir að hún var rofin síðla sumars 1970. Ljósmynd: Bergsteinn Gizurarson. Sigurður Gizurarson. 1991;99.

Trúlega er þarna fólginn einn lykillinn að því að skilja muninn á Laxárdeilunni og og öðrum deilum sem orðið hafa um orkumál hér á landi í seinni tíð. Meginskautin í þeirri deilu voru sem sé Laxárbændur annars vegar og valdamenn á Akureyri hins vegar, en þeir fyrrnefndu fengu síðan stuðning hjá þeim vísi að umhverfisvendarhreyfingu sem þá var að koma upp á Reykjavíkursvæðinu. En hvað sem því líður er umhugsunarvert að Laxárbændur virðast ekki hafa átt sér marga skoðanabræður meðal bænda kringum þær virkjanir sem síðan hafa verið byggðar eða fyrirhugaðar á ýmsum stöðum á landinu. Þráðinn sem byrjað var að spinna með náttúruverndarrökunum í Laxárdeilunni má hins vegar rekja sleitulaust allt til þessa dags.

Annars má segja að virkjanasaga okkar á seinni hluta 20. aldar hafi mjög einkennst af fyrrnefndri oftrú á orkunni sem einhvers konar algildri auðlind. Sannleikurinn er auðvitað sá, ef við setjum okkur í spor hugsanlegs orkukaupanda, að hann þarf að bera saman verð vörunnar og notagildi hennar fyrir sig, til dæmis það sem hann fær fyrir hana þegar henn selur afurð sína. Sá sem er að velta því fyrir sér að bræða ál eða annan málm á Íslandi þarf að bera saman verðið sem hann fær fyrir vöruna og heildarkostnaðinn við framleiðsluna, þar á meðal hráefnisöflun, flutning hráefnis, orkuöflun til bræðslunnar, flutning vörunnar á markað og svo framvegis. Flestir liðir þessarar jöfnu, aðrir en ef til vill orkuöflunin sjálf, eru Íslendingum í óhag í samanburði við mörg önnur lönd þar sem orka kanna að vera í boði, og áhrif þeirra eru í sama stærðarþrepi og þær tölur sem þjarkað er um þegar verið er að semja um orkuverð.[7]

Það er að sjálfsögðu þetta heildardæmi sem hefur ráðið því að sala á íslenskri orku til erlendrar stóriðju hefur ekki gengið nærri því eins ört og menn héldu þegar verið var að leggja út á þessa braut á sjöunda áratugnum. Útkoman úr dæminu er einfaldlega ekki hagstæðari en svo að algengar og eðlilegar sveiflur til og frá í einstökum liðum þess geta ráðið því hvort útkoman er plústala eða mínustala, hagnaður eða tap af kostnaðarsamri fjárfestingu. Þetta er auðvitað meginskýringin á því að fá erlend fyrirtæki hafa sýnt Íslandi áhuga, hann hefur oft verið takmarkaður og fyrirtækin hafa stundum dregið sig í hlé í miðjum klíðum eða verið áhugalítil um framvindu mála.

Ný viðhorf í valdakerfinu

Lengst af hefur það verið svo í sögu íslenskrar orkuvæðingar að valdakerfi landsins, "the establishment", hefur verið á einu máli um virkjanir og stóriðjuver sem hafa verið á dagskrá hverju sinni. Þetta hefur yfirleitt átt við um ríkisstjórn hvers tíma en að vísu ekki endilega um stjórnarandstöðuna svo sem kunnugt er. Það hefur einnig átt við um embættismenn ríkisins og um flesta þá sem eru í fyrirsvari fyrir meiri háttar fyrirtæki, samtök atvinnurekenda og fleiri. Tilhneigingin hefur einnig verið sú að forystumenn launþega hafa verið frekar jákvæðir í garð orkuvera og stóriðju vegna þeirrar atvinnu sem slík fyrirtæki skapa á byggingartíma og að nokkru í rekstri.

Andstaðan hefur á hinn bóginn til skamms tíma komið mest frá hefðbundnum andófsöflum, almenningi sem hefur talið sig eiga hagsmuna að gæta og síðan frá áhugamönnum um náttúruvernd og umhverfismál sem hafa ekki átt neitt að ráði undir sér, sem kallað er.

Þess vegna hefur verið afar athyglisvert að sjá þetta breytast núna á síðustu árum. Einna gleggst höfum við séð það í afstöðu ferðamálaiðnaðarins sem hefur risið gegn síðustu hugmyndum um virkjanir með þeim rökum að verið væri að draga úr möguleikum þessarar atvinnugreinar. Þetta sætir tíðindum í umræðu og hugmyndasögu og er glöggt dæmi um það hvernig viðhorfin í þessum málum eru sífellt að breytast.

Vistkreppan

Þegar umhverfissinnar fóru að láta í sér heyra á áttunda áratugnum, meðal annars í bókum á alþjóðlegum vettvangi,[8]urðu margir til að andmæla þeim eða lýsa vantrú sinni á því að umhverfismálin kæmust nokkurn tímann "upp á dekk"; mundu nokkurn tímann fara að hafa áhrif á ákvarðanir í samfélaginu. Og jafnvel þeir sem töldu sig hafa skilning á þessum málstað hafa sjálfsagt fáir trúað því að sjónarmið umhverfisverndar yrðu svo fljót til áhrifa sem raunin hefur orðið.

Þeir sem hófu upp raust sína um vistkreppu fyrir hartnær 30 árum höfðu áhyggjur af fólksfjölgun, mengun og öðrum umhverfisspjöllum, auðlindaþurrð og fleiru sem leiða mundi til kreppu innan tíðar. Orkunotkun var ofarlega á baugi í þessari umræðu því að mikið af orkunni sem menn nota kemur frá jarðefnaeldsneyti, og þar af mest úr olíu en að minnsta kosti tvær meiri háttar olíukreppur gengu yfir heiminn á áttunda áratugnum.

Forsíða "Endimarka vaxtarins" eða "Limits to Growth" sem kom fyrst út í New York 1972.

Þessar pælingar tengdust ekki einni stjórnmálastefnu framar öðrum og áttu ekkert endilega upptök sín hjá einhvers konar andófsmönnum af yngri kynslóð, heldur fengu hugmyndirnar meðal annars byr undir báða vængi hjá áhrifamiklum iðnjöfrum á Vesturlöndum. Því fór þó fjarri að menn væru á einu máli um vistkreppuspárnar og þeir voru margir sem töldu þetta óráðshjal eitt.

Skemmst er frá því að segja að margt hefur ræst eða virðist ætla að rætast í spánum um vistkreppu og auðlindaþurrð, og mörg merki má sjá um það á Orkuþingi árið 2001. Nægir þar að nefna annars vegar versnandi ástand lofthjúpsins vegna rýrnunar ósonlagsins og vaxandi gróðurhúsaáhrifa og hins vegar þverrandi olíulindir ásamt viðleitni manna til að nýta nýjar eldsneytistegundir á farartæki. Sitthvað hefur þó auðvitað ekki ræst. Sumpart stafar það af því eðli spádóma af þessu tagi að spádómurinn sjálfur hefur áhrif á það sem spáð er um, ýmist til þess að það rætist eða rætist ekki, eftir aðstæðum í hverju tilviki.

Lokaorð

Ég hef nú sagt sögur í drjúga stund og er mál að linni. Eðlilegt er þó að staldra við í lokin og spyrja hverju við erum nær. Kannski áttu einhverjir von á að ég mundi prédika í vandlætingartón yfir hausamótunum á persónum sögunnar, lífs eða liðnum, útdeila lofi og lasti og kveða upp úr um sigra og ósigra (segja hver vann). En þess konar skepna er hugmyndasagan ekki. Það er þvert á móti fyrsta boðorð hennar að meta hverja hugmynd í eigin samhengi sem barn síns tíma en ekki út frá sjónarhóli okkar sem komum löngu seinna og höldum að við eigum eða þurfum að kveða upp dóma.

En dómar sögunnar fjalla ekki fyrst og fremst um siðfræði, hvað hafi verið "rétt" eða "rangt" að gera í tiltekinni stöðu á tilteknum tíma. Þeir fjalla heldur ekki endilega um það hvaða hugmyndir hafi reynst "réttar" eða "rangar", eftir á að hyggja. Nei, þeir fjalla í rauninni öðru fremur um það eitt hvaða hugmyndir hafi orðið ofan á á tilteknum tíma og við tilteknar aðstæður, hvers vegna og hvernig. Þannig á góð hugmyndasaga að geta dýpkað skilning okkar á framvindunni og hjálpað okkur með því til draga af henni lærdóma sem við getum nýtt okkur í framtíðinni.

Orkumál lítillar þjóðar eins og okkar eru kannski að því leyti öðru vísi en mörg önnur mál að ákvarðanir í þeim geta verið afdrifaríkar bæði í bráð og í lengd. Þess vegna er mikilvægt að vandað sé til þeirra. Uppskriftin að því er í rauninni nærtækari en ætla mætti og má lesa hana að talsverðu leyti úr sögunni hér á undan. Ég sé heldur ekki betur en menn hafi að ýmsu leyti verið að nálgast hana á undanförnum áratugum. Nefnum til glöggvunar nokkur atriði:
  1. Allra tiltækra gagna sé aflað áður en tillögur mótast.
  2. Reynt sé að hafa sjónhringinn sem víðastan.
  3. Annarlegum sjónarmiðum eða hagsmunum sé bægt frá.
  4. Fagleg markmið skilgreind og þau höfð að leiðarljósi.
  5. Vönduðu verklagi fylgt.
  6. Staðreyndir og sérfræðiþekking sé virt.
  7. Menn einangri raunveruleg ágreiningsmál sem ekki verði leyst með gagnaöflun.
  8. Þjóðhagslegt gildi fyrirtækja og framkvæmda, afkoma og annað slíkt ráði sem mestu en ekki tímabundnar eða staðbundnar atkvæðaveiðar.
  9. Órökstutt sérhagsmunapot í bland við frekju taki ekki ráðin af skynsemi og aðgát eða hagsmunum fyrirtækja í framtíðinni.
  10. Tekið sé tillit til þess hvaða kostir í virkjunum og staðarvali fyrir stóriðjuver séu fýsilegastir í augum erlendra fyrirtækja sem leitað er samstarfs við, en ekki bara hlaupið eftir dyntum innanlandsstjórnmála.
Það getur vissulega kostað sitt að vanda til undirbúnings, til dæmis með því að setja sér verklagsreglur fyrirfram. Stundum kann að virðast sem þá sé verið að vinna verkið tvisvar, en svo er ekki því að galdurinn liggur í því að stuðla að faglegum vinnubrögðum með því að vinna verkið fyrst "akademískt", það er að segja án þess að annarlegir hagsmunir komist að, og reyna síðan að fella raunveruleg mál í sama farveg.

Sem sagt: Sagan getur kennt okkur ýmislegt og við skulum bara vera bjartsýn um það að verklagið í þessum málum sé að þróast í rétta átt, þá átt sem reynslan vísar okkur.

Erindi flutt á Orkuþingi 13. október 2001

Aftanmálsgreinar

[1] Leó Kristjánsson, ... Sjá einnig til dæmis Sumarliða Ísleifsson, 1996, 22-25, og Björn Þorsteinsson og Bergstein Jónsson, 1991, 367. -- Frímann var sérvitur nokkuð og spillti það svolítið fyrir honum þannig að störf hans á þessu sviði urðu endaslepp. Hins vegar er hann dæmi um þá merkilegu speki að mæla skuli hvern mann þar sem hann er hæstur, og mætti þá vel við una.

[1a] Þorsteinn Vilhjálmsson, 1981.

[2] Einar Benediktsson,1945, II, 60-63.

[3] Þorsteinn Erlingsson, 1943, 229-230. -- Sigurður Nordal skrifar nærfærnislega um stjórnmálaskoðanir Þorsteins í inngangi þessarar útgáfu, meðal annars með samanburði við þá Einar Benediktsson og Stephan G., sjá hér einkum Sigurð Nordal, 1943, LXIX.

[4] Stephan G. Stephansson, 1980, 130. -- Sigurður skrifar einnig ágætan inngang að þessari útgáfu um Stephan (Sigurður Nordal, 1980). Hann rekur þar í stuttu máli þessa ritdeilu skáldjöfranna þriggja og setur viðhorf Stephans í samhengi við önnur stjórnmálaviðhorf hans.

[4a] Guðjón Friðriksson, 1999, til dæmis bls. 16-25.

[5] Finnbogi Jónsson, 1981.

[6] Össur Skarphéðinsson, 1996.

[7] Finnbogi Jónsson, 1981.

[8] Meadows o.fl., 1974

Heimildaskrá (ekki fullbúin)
  • Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, 1991. Íslandssaga: til okkar daga. Reykjavík: Sögufélag.
  • Einar Benediktsson, 1945. Ljóðmæli I-III. Pétur Sigurðsson bjó til prentunar. Reykjavík: Ísafoldarprentsmiðja.
  • Finnbogi Jónsson, 1981. "Samkeppnisstaða Íslands í orkufrekum iðnaði". Orkuþing, II, 479-494.
  • Guðjón Friðriksson, 1999. Einar Benediktsson: Ævisaga II. Reykjavík: Iðunn.
  • Meadows, Donella H., Dennis L. Meadows, Jørgen Randers, William W. Behrens, 1974. Endimörk vaxtarins: Þáttur í rannsókn Rómarsamtakanna á ógöngum mannkynsins. Þorsteinn Vilhjálmsson og Finnbogi Guðmundsson íslenskuðu. Reykjavík: Bókaútgáfa Menningarsjóðs og Þjóðvinafélagsins.
  • Orkuþing 81: Erindi flutt á Orkuþingi 9., 10.k og 11. júní, 1981, I-II. Reykjavík: Iðnaðarráðuneytið o.fl.
  • Sigurður Gizurarson, 1991. Laxárdeilan. Reykjavík: Skákprent.
  • Sigurður Nordal, 1943. "Þyrnar". Þorsteinn Erlingsson, bls. XI-CIV.
  • Sigurður Nordal, 1980. "Formáli". Stephan G. Stephansson, bls. 9-110.
  • Stephan G. Stephansson, 1980. Andvökur. Önnur útgáfa. Sigurður Nordal sá um útgáfuna. Reykjavík: Mál og menning.
  • Sumarliði Ísleifsson, 1996. Í straumsambandi. Reykjavík: Rafmagnsveita Reykjavíkur.
  • Þorsteinn Erlingsson, 1943. Þyrnar. Fjórða prentun aukin. Sigurður Nordal gaf út. Reykjavík: Helgafell.
  • Þorsteinn J. Halldórsson, 1998. "Sjón og sjónhverfingar". Hjá Þorsteini Vilhjálmssyni, bls. 107-129. Reykjavík: Heimskringla.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson, 1981. "Staðarval orkuiðnaðar, byggðaþróun og félagsáhrif". Orkuþing, II, 575-581.
  • Þorsteinn Vilhjálmsson (ritstjóri), 1998. Undur veraldar: Greinasafn um raunvísindi fyrir almenning.. Reykjavík: Mál og menning.
  • Össur Skarphéðinsson, 1996. Urriðadans: ástir og örlög stórurriðans í Þingvallavatni. Reykjavík: Mál og menning
...