Sólin Sólin Rís 05:36 • sest 21:19 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 16:44 • Sest 05:50 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 04:37 • Síðdegis: 17:05 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 10:57 • Síðdegis: 23:09 í Reykjavík

Getur þú sagt mér allt um hvíta nashyrninginn?

Jón Már Halldórsson

Hvíti nashyrningurinn (Ceratotherium simum) er önnur af tveimur tegundum nashyrninga í Afríku. Hin tegundin er svarti nashyrningurinn (Diceros bicornis). Hvor tegund skiptist síðan í nokkrar deilitegundir.

Hvíti nashyrningurinn er mikill um sig og grófgerður í öllu vaxtalagi. Hann minnir helst á forsögulegt spendýr, enda er hann skyldur hinum fornu þykkskinnungum sem voru algengir í spendýrafánunni fyrir 20-30 milljón árum.


Hvíti nashyrningurinn er með allra stærstu landspendýrum sem nú finnast á jörðinni, aðeins fílar eru stærri.

Orðið „hvíti“ í heiti nashyrningsins vísar ekki til litar dýranna. Litarhaft nashyrninga af þessari tegund er yfirleitt frá gulbrúnu yfir í grátt. Vinsæl kenning um hvers vegna hann er kallaður „hvítur“ er sú að orðið 'white' í enska heitinu sé í raun mistúlkun á orðinu 'wijde' úr máli Búa, sem voru hollenskir landnemar í suðurhluta Afríku. 'Wijde' þýðir í raun víður og lýsir skepnunni ágætlega, enda hefur hún vissulega víðan kjaft.

Engin nashyrningstegund jafnast á við hvíta nashyrninginn að stærð. Fílar eru einu landspendýrin sem eru stærri en hann. Karldýrin eru yfirleitt á bilinu 170 til 186 cm upp á herðakamb og um 2.300 kg á þyngd. Kvendýrin eru nokkuð minni, 160 to 177 cm og að meðaltali 1.700 kg á þyngd. Höfuðið er áberandi langt, allt að einn metri, granir eru breiðar og efri vör þykk og þverstýfð sem hentar vel fyrir grasbít. Fremst á baki skepnunnar er stór kryppa sem veitir öflugum vöðvum stuðning og er styrkur fyrir höfuðið.

Hvíti nashyrningurinn hefur tvö horn. Fremra hornið er mun lengra og mjórra en það aftara, að jafnaði 80 til 100 cm á lengd, en vitað er um horn sem voru allt að 130 cm. Kvendýrin eru yfirleitt með fínlegri og lengri horn.

Hvíti nashyrningurinn er dæmigerður grasbítur eins og breiðar granir og efnismiklar varir gefa til kynna. Hann forðast hávaxið gras en eftirlætis fæða hans eru grastegundir eins og blóðhirsi (Digitaria), bermúdagras (Cynodon), dúrra (Heteropogon) og hirsi (Panicum). Hann er ákaflega hrifinn af leðjubaði og getur legið í því klukkutímum saman.

Kjörlendi hvíta nashyrningsins eru gresjur og staktrjáasléttur. Heimkynni hans eru fyrst og fremst í Suður-Afríku en smærri stofnar finnast í Namibíu, Botsvana, Simbabve, Kenía, Úganda og Sambíu.

Útbreiðsla hvíta nashyrningsins var allt önnur og meiri fyrr á tímum. Til dæmis hafa fundist hellamyndir frá steinöld sem þjóðir Sahara-svæðisins máluðu á klettaveggi í Tíbertifjöllum og víðar í norðurhluta Afríku. Sennilega hefur tegundin verið á niðurleið í Afríku löngu áður en Evrópumenn fór að setjast þar að en sú hnignun var mjög hæg enda er nashyrningurinn afar þrautseig skepna. Hins vegar hefur orðið mjög mikil fækkun síðustu áratugi að því er virðist vegna veiðiþjófnaðar í stórum stíl, en líklega sækja veiðiþjófar ekki jafn hart í nokkra aðra tegund.

Norðlægi hvíti nashyrningurinn (<em>C. simum cottoni</em>) er í raun útdauður þar sem aðeins eru eftir tvö kvenkyns dýr.

Hvíta nashyrningnum er skipt í tvær deilitegundir, suðlæga hvíta nashyrninginn (C. simum simum) og norðlæga hvíta nashyrninginn (C. simum cottoni). Árið 2017 var stofnstærð þess suðlæga samkvæmt Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN (International Union for the Conservation of Nature and Natural Resources) rétt rúmlega 18.000 dýr, þar af voru rúmlega 15.600 einstaklingar í Suður-Afríku. Ástandið á norðlæga hvíta nashyrningnum er miklu verra, lengi vel voru fjórir einstaklingar á þekktu útbreiðslusvæði deilitegundarinnar en líklega voru veiðiþjófar búnir að drepa þau dýr árið 2008. Árið 2009 voru fjórir einstaklingar, tvö karldýr og tvö kvendýr, fluttir frá dýragarði í Tékklandi á vel vaktað verndarsvæði í Kenía til að reyna að endurreisa villta stofninn. Annað karldýrið dó árið 2014 og hitt árið 2018 án þess að ná að geta af sér afkvæmi. Nú eru því aðeins tvö kvendýr eftir og deilitegundin því í raun útdauð.

Mest af þeirri þekkingu sem við höfum á félagskerfi hvíta nashyrningsins er vegna rannsókna suður-afríska dýrafræðingsins Norman Owen-Smith sem hann hefur stundað á Umfolozi-verndarsvæðinu í Suður-Afríku síðastliðna áratugi. Það sem hér kemur á eftir styðst við niðurstöður hans.

Hvíti nashyrningurinn er einfari eða heldur sig í blönduðum litlum hópum, allt að 12-14 dýr, aðallega mæður með kálfa. Algengast er að sjá stakan tarf eða tvö dýr saman, það er móðir með kálf. Ef móðir missir afkvæmi sitt tekur hún stundum að sér annað ungdýr, til dæmis stálpaðan kálf sem móðir hefur rekið frá sér þegar hún hefur borið annan kálf. Tarfar helga sér umráðasvæði og merkja það með nokkrum taðhrúgum. Einnig nota þeir þvag til merkingar. Ef tveir landeigendur hittast við landamærin standa þeir andspænis hvor öðrum og horfast í augu í dágóða stund. Síðan ganga þeir nokkur skref til baka og nudda hornum við jörðu og taka sér stöðu á ný. Svona getur þetta verið í allt að klukkustund. Dýrin gefa ekki frá sér neitt hljóð meðan á þessu stendur.

Átök á milli tarfa eru sjaldgæf nema þegar tarfur reynir að leggja undir sig athafnasvæði annars. Ef árásaraðilinn fer með sigur af hólmi fær fyrri eigandinn oftast að vera um kyrrt en er ósköp lúpulegur enda ekki lengur forystutarfur á svæðinu. Hann hættir að lyktarmerkja svæðið strax eftir valdaskiptin og sigurvegarinn tekur við.

Hvítur nashyrningur með kálf.

Athafnasvæði kúa með kálfa er venjulega um 10 til 12 ferkílómetrar að stærð og er talsvert stærra en athafnavæði tarfa. Athafnasvæði kúa geta skarast að miklu leyti því kýrnar helga sér ekki afmörkuð svæði.

Kýr eignast venjulega sinn fyrsta kálf við sex til sjö ára aldur. Fengitími er ekki bundinn sérstökum árstíma. Hvenær sem kýr kemur inn í umdæmi tarfs þá kannar hann gaumgæfilega ástand hennar og ef hún er yxna þá leiðir það oftast til mökunar. Meðgöngutími er um 16 mánuðir. Þegar kemur að burði leitar kýrin á afvikinn stað og heldur sig þar í nokkrar vikur þangað til kálfurinn getur fylgt móðurinni. Við tveggja mánaðar aldur fer kálfurinn að kippa upp einu og einu strái en fer ekki að bíta gras af alvöru fyrr en við 3-4 mánaðar aldur. Hann er þó á spena í eitt ár. Kálfurinn fer oftast frá móðurinni um þriggja ára aldur og verður að bjarga sér á eigin spýtur eftir það. Finnur hann sér þá einhvern félaga á svipuðum aldri sem hann heldur tengslum við uns bæði dýrin ná kynþroskaaldri. Tryggð við heimahaganna er þekkt en einnig leggja þessir ungnashyrningar í langferðir. Vináttusamband ungtarfa rofnar við níu ára aldur og gerast þeir þá undirsátar hjá ráðandi tarfi uns þeir taka yfir eða helga sér sitt svæði sem ráðandi tarfur nokkrum árum síðar.

Heimildir og myndir:
  • Emslie, R. 2020. Ceratotherium simum. The IUCN Red List of Threatened Species 2020: e.T4185A45813880.
  • Emslie, R. o.fl. 2020. African and Asian Rhinoceroses – Status, Conservation and Trade. A report from the IUCN Species Survival Commission (IUCN SSC) African and Asian Rhino Specialist Groups and TRAFFIC to the CITES Secretariat pursuant to Resolution Conf. 9.14 (Rev. CoP17).
  • Emslie, R. og Brooks, M. (1999). African Rhino. Status Survey and Conservation Action Plan. IUCN/SSC African Rhino Specialist Group. IUCN, Gland, Switzerland and Cambridge, UK.
  • Foose, Thomas J. og van Strien, Nico (1997). Asian Rhinos – Status Survey and Conservation Action Plan. IUCN, Gland, Switzerland, and Cambridge, UK.
  • Grubb, P. (2005). "Order Perissodactyla". Í Wilson, D. E.; Reeder, D. M. Mammal Species of the World (3. útg.). Johns Hopkins University Press. bls. 634–635.
  • Owen-Smith, Norman (1984). Macdonald, D., ritstj. The Encyclopedia of Mammals. New York: Facts on File. bls. 490–495.
  • Skinner, John D. and Chimimba, Christian T. (2005).The Mammals Of The Southern African Subregion. Cambridge University Press. bls. 527.
  • Mynd af hvítum nashyrningi: White Rhinoceros | Flickr - Photo Sharing!. Höfundur myndar: Mike Scott. (Sótt 7. 10. 2015).
  • Mynd af norðlægum hvítum nashyrningi: Northern White Rhinoceros Angalifu.jpg. (Sótt 7. 10. 2015).
  • Mynd af nashyrningi með kálf: Uganda Murchison-Falls-Rhinos.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 7. 10. 2015).

Upprunalega spurninin frá Báru hljóðaði svona:
Getur þú sagt mér allt um afríska nashyrninginn?

Höfundur

Jón Már Halldórsson

líffræðingur

Útgáfudagur

25.11.2015

Spyrjandi

Bára Viðarsdóttir

Tilvísun

Jón Már Halldórsson. „Getur þú sagt mér allt um hvíta nashyrninginn?“ Vísindavefurinn, 25. nóvember 2015. Sótt 20. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71176.

Jón Már Halldórsson. (2015, 25. nóvember). Getur þú sagt mér allt um hvíta nashyrninginn? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71176

Jón Már Halldórsson. „Getur þú sagt mér allt um hvíta nashyrninginn?“ Vísindavefurinn. 25. nóv. 2015. Vefsíða. 20. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71176>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Getur þú sagt mér allt um hvíta nashyrninginn?
Hvíti nashyrningurinn (Ceratotherium simum) er önnur af tveimur tegundum nashyrninga í Afríku. Hin tegundin er svarti nashyrningurinn (Diceros bicornis). Hvor tegund skiptist síðan í nokkrar deilitegundir.

Hvíti nashyrningurinn er mikill um sig og grófgerður í öllu vaxtalagi. Hann minnir helst á forsögulegt spendýr, enda er hann skyldur hinum fornu þykkskinnungum sem voru algengir í spendýrafánunni fyrir 20-30 milljón árum.


Hvíti nashyrningurinn er með allra stærstu landspendýrum sem nú finnast á jörðinni, aðeins fílar eru stærri.

Orðið „hvíti“ í heiti nashyrningsins vísar ekki til litar dýranna. Litarhaft nashyrninga af þessari tegund er yfirleitt frá gulbrúnu yfir í grátt. Vinsæl kenning um hvers vegna hann er kallaður „hvítur“ er sú að orðið 'white' í enska heitinu sé í raun mistúlkun á orðinu 'wijde' úr máli Búa, sem voru hollenskir landnemar í suðurhluta Afríku. 'Wijde' þýðir í raun víður og lýsir skepnunni ágætlega, enda hefur hún vissulega víðan kjaft.

Engin nashyrningstegund jafnast á við hvíta nashyrninginn að stærð. Fílar eru einu landspendýrin sem eru stærri en hann. Karldýrin eru yfirleitt á bilinu 170 til 186 cm upp á herðakamb og um 2.300 kg á þyngd. Kvendýrin eru nokkuð minni, 160 to 177 cm og að meðaltali 1.700 kg á þyngd. Höfuðið er áberandi langt, allt að einn metri, granir eru breiðar og efri vör þykk og þverstýfð sem hentar vel fyrir grasbít. Fremst á baki skepnunnar er stór kryppa sem veitir öflugum vöðvum stuðning og er styrkur fyrir höfuðið.

Hvíti nashyrningurinn hefur tvö horn. Fremra hornið er mun lengra og mjórra en það aftara, að jafnaði 80 til 100 cm á lengd, en vitað er um horn sem voru allt að 130 cm. Kvendýrin eru yfirleitt með fínlegri og lengri horn.

Hvíti nashyrningurinn er dæmigerður grasbítur eins og breiðar granir og efnismiklar varir gefa til kynna. Hann forðast hávaxið gras en eftirlætis fæða hans eru grastegundir eins og blóðhirsi (Digitaria), bermúdagras (Cynodon), dúrra (Heteropogon) og hirsi (Panicum). Hann er ákaflega hrifinn af leðjubaði og getur legið í því klukkutímum saman.

Kjörlendi hvíta nashyrningsins eru gresjur og staktrjáasléttur. Heimkynni hans eru fyrst og fremst í Suður-Afríku en smærri stofnar finnast í Namibíu, Botsvana, Simbabve, Kenía, Úganda og Sambíu.

Útbreiðsla hvíta nashyrningsins var allt önnur og meiri fyrr á tímum. Til dæmis hafa fundist hellamyndir frá steinöld sem þjóðir Sahara-svæðisins máluðu á klettaveggi í Tíbertifjöllum og víðar í norðurhluta Afríku. Sennilega hefur tegundin verið á niðurleið í Afríku löngu áður en Evrópumenn fór að setjast þar að en sú hnignun var mjög hæg enda er nashyrningurinn afar þrautseig skepna. Hins vegar hefur orðið mjög mikil fækkun síðustu áratugi að því er virðist vegna veiðiþjófnaðar í stórum stíl, en líklega sækja veiðiþjófar ekki jafn hart í nokkra aðra tegund.

Norðlægi hvíti nashyrningurinn (<em>C. simum cottoni</em>) er í raun útdauður þar sem aðeins eru eftir tvö kvenkyns dýr.

Hvíta nashyrningnum er skipt í tvær deilitegundir, suðlæga hvíta nashyrninginn (C. simum simum) og norðlæga hvíta nashyrninginn (C. simum cottoni). Árið 2017 var stofnstærð þess suðlæga samkvæmt Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökunum IUCN (International Union for the Conservation of Nature and Natural Resources) rétt rúmlega 18.000 dýr, þar af voru rúmlega 15.600 einstaklingar í Suður-Afríku. Ástandið á norðlæga hvíta nashyrningnum er miklu verra, lengi vel voru fjórir einstaklingar á þekktu útbreiðslusvæði deilitegundarinnar en líklega voru veiðiþjófar búnir að drepa þau dýr árið 2008. Árið 2009 voru fjórir einstaklingar, tvö karldýr og tvö kvendýr, fluttir frá dýragarði í Tékklandi á vel vaktað verndarsvæði í Kenía til að reyna að endurreisa villta stofninn. Annað karldýrið dó árið 2014 og hitt árið 2018 án þess að ná að geta af sér afkvæmi. Nú eru því aðeins tvö kvendýr eftir og deilitegundin því í raun útdauð.

Mest af þeirri þekkingu sem við höfum á félagskerfi hvíta nashyrningsins er vegna rannsókna suður-afríska dýrafræðingsins Norman Owen-Smith sem hann hefur stundað á Umfolozi-verndarsvæðinu í Suður-Afríku síðastliðna áratugi. Það sem hér kemur á eftir styðst við niðurstöður hans.

Hvíti nashyrningurinn er einfari eða heldur sig í blönduðum litlum hópum, allt að 12-14 dýr, aðallega mæður með kálfa. Algengast er að sjá stakan tarf eða tvö dýr saman, það er móðir með kálf. Ef móðir missir afkvæmi sitt tekur hún stundum að sér annað ungdýr, til dæmis stálpaðan kálf sem móðir hefur rekið frá sér þegar hún hefur borið annan kálf. Tarfar helga sér umráðasvæði og merkja það með nokkrum taðhrúgum. Einnig nota þeir þvag til merkingar. Ef tveir landeigendur hittast við landamærin standa þeir andspænis hvor öðrum og horfast í augu í dágóða stund. Síðan ganga þeir nokkur skref til baka og nudda hornum við jörðu og taka sér stöðu á ný. Svona getur þetta verið í allt að klukkustund. Dýrin gefa ekki frá sér neitt hljóð meðan á þessu stendur.

Átök á milli tarfa eru sjaldgæf nema þegar tarfur reynir að leggja undir sig athafnasvæði annars. Ef árásaraðilinn fer með sigur af hólmi fær fyrri eigandinn oftast að vera um kyrrt en er ósköp lúpulegur enda ekki lengur forystutarfur á svæðinu. Hann hættir að lyktarmerkja svæðið strax eftir valdaskiptin og sigurvegarinn tekur við.

Hvítur nashyrningur með kálf.

Athafnasvæði kúa með kálfa er venjulega um 10 til 12 ferkílómetrar að stærð og er talsvert stærra en athafnavæði tarfa. Athafnasvæði kúa geta skarast að miklu leyti því kýrnar helga sér ekki afmörkuð svæði.

Kýr eignast venjulega sinn fyrsta kálf við sex til sjö ára aldur. Fengitími er ekki bundinn sérstökum árstíma. Hvenær sem kýr kemur inn í umdæmi tarfs þá kannar hann gaumgæfilega ástand hennar og ef hún er yxna þá leiðir það oftast til mökunar. Meðgöngutími er um 16 mánuðir. Þegar kemur að burði leitar kýrin á afvikinn stað og heldur sig þar í nokkrar vikur þangað til kálfurinn getur fylgt móðurinni. Við tveggja mánaðar aldur fer kálfurinn að kippa upp einu og einu strái en fer ekki að bíta gras af alvöru fyrr en við 3-4 mánaðar aldur. Hann er þó á spena í eitt ár. Kálfurinn fer oftast frá móðurinni um þriggja ára aldur og verður að bjarga sér á eigin spýtur eftir það. Finnur hann sér þá einhvern félaga á svipuðum aldri sem hann heldur tengslum við uns bæði dýrin ná kynþroskaaldri. Tryggð við heimahaganna er þekkt en einnig leggja þessir ungnashyrningar í langferðir. Vináttusamband ungtarfa rofnar við níu ára aldur og gerast þeir þá undirsátar hjá ráðandi tarfi uns þeir taka yfir eða helga sér sitt svæði sem ráðandi tarfur nokkrum árum síðar.

Heimildir og myndir:
  • Emslie, R. 2020. Ceratotherium simum. The IUCN Red List of Threatened Species 2020: e.T4185A45813880.
  • Emslie, R. o.fl. 2020. African and Asian Rhinoceroses – Status, Conservation and Trade. A report from the IUCN Species Survival Commission (IUCN SSC) African and Asian Rhino Specialist Groups and TRAFFIC to the CITES Secretariat pursuant to Resolution Conf. 9.14 (Rev. CoP17).
  • Emslie, R. og Brooks, M. (1999). African Rhino. Status Survey and Conservation Action Plan. IUCN/SSC African Rhino Specialist Group. IUCN, Gland, Switzerland and Cambridge, UK.
  • Foose, Thomas J. og van Strien, Nico (1997). Asian Rhinos – Status Survey and Conservation Action Plan. IUCN, Gland, Switzerland, and Cambridge, UK.
  • Grubb, P. (2005). "Order Perissodactyla". Í Wilson, D. E.; Reeder, D. M. Mammal Species of the World (3. útg.). Johns Hopkins University Press. bls. 634–635.
  • Owen-Smith, Norman (1984). Macdonald, D., ritstj. The Encyclopedia of Mammals. New York: Facts on File. bls. 490–495.
  • Skinner, John D. and Chimimba, Christian T. (2005).The Mammals Of The Southern African Subregion. Cambridge University Press. bls. 527.
  • Mynd af hvítum nashyrningi: White Rhinoceros | Flickr - Photo Sharing!. Höfundur myndar: Mike Scott. (Sótt 7. 10. 2015).
  • Mynd af norðlægum hvítum nashyrningi: Northern White Rhinoceros Angalifu.jpg. (Sótt 7. 10. 2015).
  • Mynd af nashyrningi með kálf: Uganda Murchison-Falls-Rhinos.jpg - Wikimedia Commons. (Sótt 7. 10. 2015).

Upprunalega spurninin frá Báru hljóðaði svona:
Getur þú sagt mér allt um afríska nashyrninginn?
...