Sólin Sólin Rís 05:19 • sest 21:35 í Reykjavík
Tunglið Tunglið Rís 25:18 • Sest 04:56 í Reykjavík
Flóð Flóð Árdegis: 07:07 • Síðdegis: 19:24 í Reykjavík
Fjaran Fjara Árdegis: 01:08 • Síðdegis: 13:14 í Reykjavík

Geta hagfræðingar reiknað út bestu lausnina á samfélagslegum vandamálum?

Þórólfur Matthíasson

Hagfræðingar vinna með tilgátur sem ekki hafa verið afsannaðar. Á grundvelli þessara tilgátna hafa verið sett fram stór og mikil kenningakerfi. Í lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. var miklu púðri eytt í að kanna eiginleika hagkerfis sem byggt væri einstaklingum sem leitast við að hámarka velferð sína (e. utility maximizers). Gengið er út frá því að sumir þessara einstaklinga eigi fyrirtæki sem leitast við að hámarka hagnað sinn.

Þetta er flókið viðfangsefni og til að ná áttum komu fræðimenn sér saman um einfaldandi forsendur. Menn komu sér saman um að í þessu hagkerfi skyldi ekki vera óvissa, að öll gæði skyldu vera einkagæði (sem útilokar almannagæði á borð við réttarkerfi), að efnahagsleg samskipti tveggja einstaklinga hefðu hugsanlega áhrif á verð í hagkerfinu en hefði ekki önnur efnisleg áhrif á þriðja aðila (sem útilokar mengun), að neysla hvers neytanda og framleiðsla hvers framleiðanda sé lítil í samanburði við framboð og eftirspurn á markaðnum fyrir viðkomandi vöru (sem útilokar einkasölu og einkakaup), að allir markaðsaðilar hafi fulla yfirsýn yfir allt verð og önnur atriði sem máli skipta fyrir verðmyndun á markaðnum (það útilokar til dæmis að seljandi notaðs bíls geti leynt göllum). Eftir tugi ára lá fyrir óræk sönnun þess að hagkerfi af þessum toga gæti virkað. Sannanirnar eru oft kenndar við Kenneth Arrow og Gérard Debreu. Sá síðarnefndi fékk Nóbelsverðlaun fyrir afrek sín á þessu sviði. Arrow fékk Nóbelsverðlaun fyrir að kanna forsendurnar frekar.

Einfaldasta kenningakerfi hagfræðinga er um hagkerfi sem útilokar til að mynda mengun og almannagæði á borð við löggæslu. Myndin sýnir mengun af völdum olíuvinnslu í Ogonilandi í Nígeríu.

Hvers konar leiðbeiningar getur niðurstaða Arrows og Debreu veitt þeim sem vilja móta regluverk fyrir hagkerfið og þeim sem vilja spá fyrir um hagþróun? Ef forsendurnar, sem taldar eru upp hér að ofan eru skoðaðar, er svarið: Hér er ekki mikið um leiðbeiningar! Raunveruleikinn er morandi af almannagæðum, mengun, óvissu, stórfyrirtækjum og seljendum sem leyna göllum á vörum sem þeir bjóða. Stundum er hægt að horfa fram hjá þessum þáttum þegar tiltekin hagræn ferli eru til skoðunar. En oftar lenda þeir á villigötum sem leggjast í greiningarvinnu án þess að taka tillit til þessara truflandi þátta.

Hafa ber í huga að tilgangur þeirra Arrows og Debreu var ekki sá að svara spurningum um allt milli himins og jarðar. Enda hefur Arrow varið drjúgum hluta starfsævi sinnar í að kanna hvað gerist sé einhverjum af forsendunum breytt. Ein af frægustu niðurstöðum hans á því sviði tilgreinir að ekki sé hægt, á grundvelli almennra forsendna um nytjahámörkun, að búa til reiknireglu sem hægt væri að nota til að reikna út heppilegustu úrlausn samfélagslegra úrlausnarefna. Með öðrum orðum þá komst Arrow að því að í hagkerfi þar sem boðið er upp á almannagæði og þar sem mengun er vandamál og þar sem sum fyrirtæki eru stór þá þurfi að velja milli margra mögulegra lausna samfélagslegra vandamála án þess að hægt sé að fullyrða að ein lausn sé öllum öðrum betri.

Sumir stjórnmálamenn og sumir notendur hagfræðinnar í fjármála- og efnahagslífi hafa staldrað við hina upphaflegu niðurstöðu Arrows og Debreu, strikað yfir forsendurnar og dregið þá ályktun að sé hagkerfið látið í friði komist á hið besta ástand allra ástanda. Kaushik Basu (Basu, 2010) talar um markaðshyggju (e. market fundamentalism) og kennisetninguna um ósýnilegu höndina í þessu sambandi.

Stjórnendur fjármálafyrirtækja hafa líklega persónulegan hag af að sem fæstar reglur takmarki umsvif fyrirtækjanna. Myndin er frá Kauphöllinni í New York.

Það er engum blöðum um það að fletta að stjórnendur fjármálafyrirtækja hafa líklega persónulegan hag af að sem fæstar reglur takmarki umsvif fyrirtækjanna, að ekki séu reistar skorður við nýtingu innherjaupplýsinga, að ekki séu settar skorður við umfangi bónussamninga, að ekki séu settar skorður við lánveitingu til kaupa á eigin hlutafé og svo framvegis. Hvort þessi hugsanlegi persónulegi ávinningur af litlu regluverki á fjármálamörkuðum hafi mótað fjármögnun rannsóknarverkefna og haft áhrif á hvaða fræðimönnum hefur verið hampað skal ósagt látið. En staðreynd er samt sú að of fáir hafa kannað áhrif regluleysis á stöðugleika fjármálakerfisins og niðurstöðum þeirra, sem það hafa gert, hefur ekki verið gert nægjanlega hátt undir höfði í umfjöllun sem beint er að notendum hagfræðilegra niðurstaðna.

Heimild:
  • Basu, K. (2010). Beyond the Invisible Hand: Groundwork for a New Economics. New York: Princeton University Press.

Myndir:

Lengri útgáfa þessa svars birtist fyrst 2011 í Icelandic Review of Politics & Administration. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum.

Höfundur

Þórólfur Matthíasson

prófessor í hagfræði við HÍ

Útgáfudagur

18.3.2016

Spyrjandi

Ritstjórn

Tilvísun

Þórólfur Matthíasson. „Geta hagfræðingar reiknað út bestu lausnina á samfélagslegum vandamálum?“ Vísindavefurinn, 18. mars 2016. Sótt 25. apríl 2024. http://visindavefur.is/svar.php?id=71835.

Þórólfur Matthíasson. (2016, 18. mars). Geta hagfræðingar reiknað út bestu lausnina á samfélagslegum vandamálum? Vísindavefurinn. Sótt af http://visindavefur.is/svar.php?id=71835

Þórólfur Matthíasson. „Geta hagfræðingar reiknað út bestu lausnina á samfélagslegum vandamálum?“ Vísindavefurinn. 18. mar. 2016. Vefsíða. 25. apr. 2024. <http://visindavefur.is/svar.php?id=71835>.

Chicago | APA | MLA

Spyrja

Sendu inn spurningu LeiðbeiningarTil baka

Hér getur þú sent okkur nýjar spurningar um vísindaleg efni.

Hafðu spurninguna stutta og hnitmiðaða og sendu aðeins eina í einu. Einlægar og vandaðar spurningar um mikilvæg efni eru líklegastar til að kalla fram vönduð og greið svör. Ekki er víst að tími vinnist til að svara öllum spurningum.

Persónulegar upplýsingar um spyrjendur eru eingöngu notaðar í starfsemi vefsins, til dæmis til að svör verði við hæfi spyrjenda. Spurningum er ekki sinnt ef spyrjandi villir á sér heimildir eða segir ekki nægileg deili á sér.

Spurningum sem eru ekki á verksviði vefsins er eytt.

Að öðru leyti er hægt að spyrja Vísindavefinn um allt milli himins og jarðar!

=

Senda grein til vinar

=

Geta hagfræðingar reiknað út bestu lausnina á samfélagslegum vandamálum?
Hagfræðingar vinna með tilgátur sem ekki hafa verið afsannaðar. Á grundvelli þessara tilgátna hafa verið sett fram stór og mikil kenningakerfi. Í lok 19. aldar og í byrjun þeirrar 20. var miklu púðri eytt í að kanna eiginleika hagkerfis sem byggt væri einstaklingum sem leitast við að hámarka velferð sína (e. utility maximizers). Gengið er út frá því að sumir þessara einstaklinga eigi fyrirtæki sem leitast við að hámarka hagnað sinn.

Þetta er flókið viðfangsefni og til að ná áttum komu fræðimenn sér saman um einfaldandi forsendur. Menn komu sér saman um að í þessu hagkerfi skyldi ekki vera óvissa, að öll gæði skyldu vera einkagæði (sem útilokar almannagæði á borð við réttarkerfi), að efnahagsleg samskipti tveggja einstaklinga hefðu hugsanlega áhrif á verð í hagkerfinu en hefði ekki önnur efnisleg áhrif á þriðja aðila (sem útilokar mengun), að neysla hvers neytanda og framleiðsla hvers framleiðanda sé lítil í samanburði við framboð og eftirspurn á markaðnum fyrir viðkomandi vöru (sem útilokar einkasölu og einkakaup), að allir markaðsaðilar hafi fulla yfirsýn yfir allt verð og önnur atriði sem máli skipta fyrir verðmyndun á markaðnum (það útilokar til dæmis að seljandi notaðs bíls geti leynt göllum). Eftir tugi ára lá fyrir óræk sönnun þess að hagkerfi af þessum toga gæti virkað. Sannanirnar eru oft kenndar við Kenneth Arrow og Gérard Debreu. Sá síðarnefndi fékk Nóbelsverðlaun fyrir afrek sín á þessu sviði. Arrow fékk Nóbelsverðlaun fyrir að kanna forsendurnar frekar.

Einfaldasta kenningakerfi hagfræðinga er um hagkerfi sem útilokar til að mynda mengun og almannagæði á borð við löggæslu. Myndin sýnir mengun af völdum olíuvinnslu í Ogonilandi í Nígeríu.

Hvers konar leiðbeiningar getur niðurstaða Arrows og Debreu veitt þeim sem vilja móta regluverk fyrir hagkerfið og þeim sem vilja spá fyrir um hagþróun? Ef forsendurnar, sem taldar eru upp hér að ofan eru skoðaðar, er svarið: Hér er ekki mikið um leiðbeiningar! Raunveruleikinn er morandi af almannagæðum, mengun, óvissu, stórfyrirtækjum og seljendum sem leyna göllum á vörum sem þeir bjóða. Stundum er hægt að horfa fram hjá þessum þáttum þegar tiltekin hagræn ferli eru til skoðunar. En oftar lenda þeir á villigötum sem leggjast í greiningarvinnu án þess að taka tillit til þessara truflandi þátta.

Hafa ber í huga að tilgangur þeirra Arrows og Debreu var ekki sá að svara spurningum um allt milli himins og jarðar. Enda hefur Arrow varið drjúgum hluta starfsævi sinnar í að kanna hvað gerist sé einhverjum af forsendunum breytt. Ein af frægustu niðurstöðum hans á því sviði tilgreinir að ekki sé hægt, á grundvelli almennra forsendna um nytjahámörkun, að búa til reiknireglu sem hægt væri að nota til að reikna út heppilegustu úrlausn samfélagslegra úrlausnarefna. Með öðrum orðum þá komst Arrow að því að í hagkerfi þar sem boðið er upp á almannagæði og þar sem mengun er vandamál og þar sem sum fyrirtæki eru stór þá þurfi að velja milli margra mögulegra lausna samfélagslegra vandamála án þess að hægt sé að fullyrða að ein lausn sé öllum öðrum betri.

Sumir stjórnmálamenn og sumir notendur hagfræðinnar í fjármála- og efnahagslífi hafa staldrað við hina upphaflegu niðurstöðu Arrows og Debreu, strikað yfir forsendurnar og dregið þá ályktun að sé hagkerfið látið í friði komist á hið besta ástand allra ástanda. Kaushik Basu (Basu, 2010) talar um markaðshyggju (e. market fundamentalism) og kennisetninguna um ósýnilegu höndina í þessu sambandi.

Stjórnendur fjármálafyrirtækja hafa líklega persónulegan hag af að sem fæstar reglur takmarki umsvif fyrirtækjanna. Myndin er frá Kauphöllinni í New York.

Það er engum blöðum um það að fletta að stjórnendur fjármálafyrirtækja hafa líklega persónulegan hag af að sem fæstar reglur takmarki umsvif fyrirtækjanna, að ekki séu reistar skorður við nýtingu innherjaupplýsinga, að ekki séu settar skorður við umfangi bónussamninga, að ekki séu settar skorður við lánveitingu til kaupa á eigin hlutafé og svo framvegis. Hvort þessi hugsanlegi persónulegi ávinningur af litlu regluverki á fjármálamörkuðum hafi mótað fjármögnun rannsóknarverkefna og haft áhrif á hvaða fræðimönnum hefur verið hampað skal ósagt látið. En staðreynd er samt sú að of fáir hafa kannað áhrif regluleysis á stöðugleika fjármálakerfisins og niðurstöðum þeirra, sem það hafa gert, hefur ekki verið gert nægjanlega hátt undir höfði í umfjöllun sem beint er að notendum hagfræðilegra niðurstaðna.

Heimild:
  • Basu, K. (2010). Beyond the Invisible Hand: Groundwork for a New Economics. New York: Princeton University Press.

Myndir:

Lengri útgáfa þessa svars birtist fyrst 2011 í Icelandic Review of Politics & Administration. Svarið er lítillega aðlagað Vísindavefnum.

...